Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Hókus Pókus Fílirókus ..

Trúarbrögð eða trúartrix eins og þau eru ,,matreidd" í dag eru að mínu mati á útleið. Já, svoleiðis er það nú. Ég væri að vísu alveg til í að ganga í pilsaráðið, það hljómar ótrúlega skemmtilegt ráð.LoL  Örugglega skárra en Vatíkanið eða eitthvað annað -k(l)an.

Það sem ég held að flestir borgarar þessa lands vilji er vissulega að geta komið saman til að gleðjast, syrgja, bindast ..biðja líka. Samveran getur verið svo dásamleg. Það þarf að vera stemmning og einhver þarf að leiða og undirbúa. Alveg eins og að halda matarboð eða veislu. Stundum viljum við borða saman og stundum í einrúmi, en það er aldrei eins.

Einhver þarf að skipuleggja þar og bjóða heim, en gestgjafinn/húsmóðirin þarf svo sannarlega ekki að vera í einhverju skrautdressi og með Lúðvíks 14. kraga til að aðgreina sig frá gestunum. Góður gestgjafi minglar og vill að gestum sínum líði vel og fari glaðir heim. Já, já, þannig er kirkjan mín. Það má líka taka lagið og þá getur einhver spilað á gítar,jafnvel hægt að  undir á bongótrommur, en milljónaorgel? .. er það nauðsynlegt fyrir söfnuð til að vera samvista við Guð sinn?  ..

Já og svo þarf ekkert að standa upp undir miðju borðhaldi og setjast niður og svo standa upp aftur og setjast og láta fólki líða ignorant og klaufskt (eins og mér í pallatíma í Hreyfingu) af því það veit ekki hvenær er rétt eða rangt að sitja eða standa. Ég hugsa líka að ef ég vilji koma einhverju á framfæri við gesti mína, flytja þeim hugvekju að þeir skilji hana jafnvel betur ef ég fer ekki að snúa mér réttsælis fyrst og svo rangsælis fyrir framan skenkinn. (Þetta var sko eitthvað sem ég ætlaði aldrei að ná í guðfræðideildinni, þ.e.a.s. hvernig ég ætti að snúa fyrir framan altarið! hehe).

Sá gestur sem væri alltaf efstur á gestalistanum mínum væri Jesú (ekki Ésú eða Sússi eins og trúlausu gúbbarnir eru að reyna að uppnefna hann). Því þó ég horfi á Zeitgeist, þó ég heyri frásagnir sem eigi að afsanna tilvist Jesú, þá hverfur Jesús bara ekkert úr mínu lífi. Svoleiðis er það bara, ójá. Það er tilfinning og engin leið að rökræða tilfinningar.

Kannski ég skipuleggi bara ,,matarboð" bráðlega með andlegri fæðu, og þau sem hafa hug á að tala saman um gleði, sorg, ljós og skugga, geta mætt, talað saman, sungið saman og beðið saman og rabbað við Jesú .. milliliðalaust.

Ef þessir prelátar í André Vingt-Trois, halda að þeir séu nær Jesú Kristi vegna þess að þeir eru karlmenn í búningum með hatta, þá leyfum þeim að halda það Wizard .. er það ekki svolítið kjút bara?

.. Já, já,  svona hugsar hún Jóga í dag ..  (segist með röddu Jóns Ársæls) ..

 

 


Biblían, blæjur og blek á bók ... Guð er ekki Pétur eða Páll ..

Eins og flestir, sem lesa bloggið mitt hafa tekið eftir,  hefur hér logað mikil umræða um samkynhneigð og biblíuna. Helstu rök gegn ,,lífsstíl" samkynhneigðra hafa verið: "Guð segir það" og er það ekki vegna þess að viðkomandi hefur fundið kærleiksneista Guðs í brjósti heldur vegna ritningarstaða bæði í Gamla og Nýja testamenti sem týndir eru til og þá aðallega vegna orða Páls postula í Nýja testamenti = Guð ?

Guð virðist nefnilega bara koma fram á prenti hjá ákveðnu fólki og þarf ég ekkert að nefna nein nöfn, taki þeir það til sín sem það eiga.  

Páll postuli segir marga góða hluti og þekktast af því eru Óðurinn til kærleikans .. enda er kærleikurinn tímalaus. EN svo skrifar Páll  miklu miklu meira og hér eru m.a. stiklur um ytri hegðun úr fyrra bréfi Páls postula til Kórintumanna ..  

  • Maðurinn er höfuð konunnar ..
  • En sérhver kona, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs berhöfðuð, óvirðir höfuð sitt..
  • Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt, því að hann er ímynd og vegsemd Guðs
  • Þess vegna á konan vegna englanna að bera tákn um yfirráð mannsins á höfði sér...

Svo eru sumir hissa þvi að ég skuli ekki virða kennivald Páls postula .. Shocking 

Mér finnst þeir sem eru á sitthvorum enda róttækninnar þ.e.a.s vantrúaðir vs. bókstafstrúaðir í raun lesa Biblíuna á sama hátt, þ.e.a.s. eins og maðurinn hafi engan frjálsan vilja og meint orð Guðs séu einungis til á prenti. 

Mér finnst þetta skiljanlegt með vantrúaða eða trúlausa - því þeir skilja ekki hvað er að trúa .. en þeir sem álíta sig trúaða hljóta að vita að trúin felst  í að trúa ÁN sannanna... af hverju þurfa þessir ,,sanntrúuðu" og/eða ,,sannkristnu" menn alltaf að vera að vitna í það sem þeir álíta sannanir ..og svara svo: ,,Guð sagði það, það stendur sko hjá Pétri eða Páli.."

Hver á að ákveða hvað er rétt og rangt skv. Guði gæti einhver spurt. Svar mitt er að á meðan það inniheldur kærleika og góðmennsku, velvilja í garð náungan þá er það rétt.  Á meðan það inniheldur ofbeldi í garð náungans þá er það rangt. Konur og karlar voru sköpuð í mynd Guðs og eru jöfn fyrir Guði .. augljóslega ekki Páli.

Guð er kærleikur = kærleikur er Guð.. 


Enn um homma og lessur .. þetta er langt en ekki leiðinlegt, lofa!

Úff.. að lenda í rökræðum við Jón Val er eins og að verða undir valtara .. hann er svo vel lesinn í Biblíunni að það hálfa væri nóg LoL .. það má alveg hrósa honum fyrir það. Ef einhver vill kíkja þá er það hér þremur færslum neðar. Ekki um nautahlaupið þó að áhættan sé kannski svipuð ..

Það eru nokkur ár síðan ég lauk mínu embættisprófi  í guðfræði og nú kíki ég bara í kafla og kafla í Biblíunni ekki til að ritskýra, bara svona eins og ég les ljóð. Ég er miklu meira ,,andans" kona en bókstafskona. Vonandi skilst það. Hef ekki stefnt á embætti en Það kitlar að vísu svolítið að verða biskup, já, já hætt við forsetann - held ég geri meira gagn sem biskup og setja svolítið fjör í kirkjurnar og helst fylla þær svo þær megi með sanni kallast þjóðkirkja.

Þegar ég var í guðfræðideildinni kom Hr. Sigurbjörn Einarsson í heimsókn og sagði hann okkur að ekkert væri nýtt undir sólinni. Ef við fyndum eitthvað sem okkur þætti vit í þá ættum við að gera það að okkar! Ég tek hann hér með á orðinu og birti hér brilljant grein sem ég fann eftir fyrrverandi samnemanda minn Brynjólf Ólason:  .. vil samt setja hér á undan varnaðarorð til þeirra sem telja sig ,,sannkristna" .. og lifa enn á dögum Páls Postula.

"Gay Pride er eina Jesú-gangan sem ég get hugsað mér að taka þátt í. Þessi hneykslunarhella „sannkristinna“ afhjúpar á vissan hátt best varðveitta leyndarmál kristindómsins, Jesú sjálfan. Ekki svo að skilja að Jesús hafi verið samkynhneigður, um það höfum við enga vissu. En hann var hinsegin að því leyti að hann tók hispurslausa syndara fram yfir réttláta hræsnara. Þetta er mikilvægt atriði í fari trúarhöfundar og mætti rifja oftar upp í kristinni kirkju. Skrautbúningar samkynhneigðra á Gay Pride götuhátíðinni eru eins og purpurakápur gagnvart prestshempum og jakkafötum hinna „kynvísu“.

Mér þykir Gay Pride hátíðin sýna vel hvað farísear eru lífseigir í kristninni. Farísear nútímans eru án efa þeir sem berja sér á brjóst og þakka Guði fyrir að vera ekki hinsegin. Snorri í Betel fylltist til dæmis vandlætingu yfir Hinsegin dögum og greip til örþrifaráða í orðalagi þegar hann líkti hommum og lesbíum við bankaræningja sem eru samfélaginu hættulegir. Annar hvítasunnumaður vildi rekja sjóslys og náttúruhamfarir til þess að lög um staðfesta sambúð samkynhneigðra voru samþykkt á Alþingi. Mér rennur svo í skap við að heyra og sjá þessi ósköp, að við liggur að ég leggi til að Snorri og hans nótar ættu að saga rekavið í svo sem 10 ár, en segja ekki né skrifa nokkurn skapaðan hlut.

Bókstafstrúarmenn hafa að vísu ekki hafnað samkynhneigðum í einu og öllu, til þess eru þeir of vandir að virðingu sinni. Elskan til náungans er nú einu sinni annar höfuðþátturinn í kenningu Krists. Og kristnir trúarleiðtogar mega umfram allt ekki láta standa sig að ósamkvæmni. Þeir hafa því slegið þennan varnagla: Við elskum samkynhneigða, en hötum samkynhneigð. Við elskum syndarann, en hötum syndina. Þetta viðhorf kemur til dæmis ágætlega fram í hræmulegum pistli Friðriks Schrams á heimasíðu Íslensku Kristskirkjunnar.

Það er einhver holur hljómur í þessu fagnaðarerindi. Eitthvað yfirmáta lágkúrulegt. Óafvitað hafa þessir sjálfskipuðu siðapostular samið ný sæluboð: „Sæll er sá hommi og sú lesbía sem ekki særir sómatilfinningu mína.“ Eða: „Sæll er sá sem viðurkennir samkynhneigð sína en gerir ekki dodo.“ Illur eða góður ásetningur þessara trúarleiðtoga er vafinn inn í sjöfalt silki sjálfsblekkingar og hræsni. Þeir þykjast með þessu hafa fallist á samkynhneigða í kærleika, en þeir hafa í raun hafnað þeim staðfastlega með samblandi af meðaumkvun og lítilsvirðingu.

Andstaða bókstafshyggjumanna gegn samkynhneigðum á rætur að rekja til þess, að í Biblíunni er víða kveðið skýrt á um að hommar og lesbíur séu syndarar í augum Guðs. Um það er enginn ágreiningur. Þetta stendur skýrum stöfum í Biblíunni. Nægir að benda á Pál postula og áhyggjur hans af söfnuði Grikkja og Rómverja. Í Korintu var kynferðislegt taumleysi á fyrstu öldinni sérstakt áhyggjuefni farandprédikarans og gyðinglegar hugmyndir um hreinleika voru eina raunsanna andsvarið sem honum hugkvæmdist í viðleitni sinni til að koma viti fyrir söfnuðinn. En sögusvið ritningarinnar skiptir bókstafstrúarmenn nútímans engu. Það er algert aukaatriði. Í huga þeirra er Biblían ein og óskipt og sagnfræðilegt gildi hennar yfir allan vafa hafið. Þetta er sérstaklega bagalegt þegar haft er í huga, að hvernig við hugsum um uppruna sagnanna hefur áhrif á það hvernig við lesum textana og túlkum þá.

Andstöðuna gegn samkynhneigð er víðar að finna en í bréfum Páls postula. Það væri raunar hægt að æra óstöðugan með því að leita uppi alla ritningarstaði þar sem samkynhneigð er beinlínis eða óbeinlínis fordæmd. En það skiptir ekki öllu að átta sig á því hvað stendur í Biblíunni. Hitt er ekki síður mikilvægt að gera upp við sig hvernig á að lesa Biblíuna. Er hún lögbók eða sáttaboð, er hún Grágás eða hómilía, er hún áfellisdómur eða sýknudómur? Hvert er kennivald Biblíunnar í heimi nútímans?

Segja má að tvær villukenningar vaði uppi um þetta atriði í hinum kristna heimi. Önnur er það sem kalla mætti „barnalega biblíutrú“, en hún byggist á því að skipa daglega lífinu samkvæmt lögum í Biblíunni. Hin er vitaskuld „blind trúarhyggja“, sem endar í tómri einstaklingshyggju, eins og dæmin sanna. Samspil milli trúar og skynsemi er líklega eina andsvarið við þessum villukenningum nútímans. Samkvæmt þessum skilningi færi mörgum fleygum orðum Biblíunnar best að halda gæsalöppunum. Þau eru barn síns tíma.

Hommum og lesbíum hefur verið ómaklega borin sagan hingað til. Þau eru kunn af ýmiss konar hviksögum og hugarburði. Það mætti segja mér að sumt af því væri komið úr Biblíunni. Það er eins og sumum sé fyrirmunað að skilja, að líf samkynhneigðra snúist um annað og meira en að fullnægja holdsins fýsnum. Hommar hafa árum saman verið álitnir úrkynjaðir eins og hlöðukettir. Um þá hefur gjarnan verið rætt, eins og þeir hafi ekki siðferðiskennd og þroskaþörf eins og aðrir heilbrigðir menn og að lifnaðarhættir þeirra samrýmist ekki hefðbundnu gildismati fjölskyldufólks. Ekkert er þó fjær sanni.

Það er eitthvað dásamlega heilbrigt við að vera hinsegin. Þetta þykist ég hafa lært af löngum kynnum við homma og lesbíur. Þau hafa auðgað mitt hefðgróna líf. Ég er sannfærður um að sumir eru hommar eða lesbíur af Guðs náð. En hefði ég ekki kynnst þessum guðsbörnum persónulega væri ég vafalaust annarrar skoðunar. Persónulegur kunnugleiki er mikilvægt vopn gegn fordómum.

Þá á ég því að þakka að hafa starfað lengi með áfengis- og vímuefnasjúklingum, að ég hef loksins látið mér skiljast, að samkynhneigð á ekkert skylt við óreglu. Þegar ég lít til baka, er ekki laust við að ég minnkist mín fyrir að hafa ekki áttað mig hjálparlaust á þessum augljósu staðreyndum. Að hommar og lesbíur skuli eiga við vímuefnavanda að stríða eins og aðrir menn hefur ekkert með kynhneigð þeirra að gera. Samkynhneigðum vímuefnaneytanda reynist hins vegar erfiðara að fóta sig vímulaus í gagnkynhneigðum heimi. Slíkir eru fordómarnir. Það á líklega enginn jafn bágt í íslensku samfélagi og „frelsaður“ hommi í vímuefnavanda.

Enska nafnorðið pride getur þýtt „föngulegur hópur“ og er örugglega átt við það með nafngiftinni á baráttuhátíð homma og lesbía. Þetta er nákvæmasta þýðingin á Gay Pride, eftir því sem ég kemst næst. Þetta er líka réttnefni. Hommar og lesbíur eru álitlegur hópur og þau ættu að fá að prédika í kirkjunni og hjálpa okkur að skilja að við erum að krossfesta Krist og hugsjónir hans með því að loka þau úti á götu."

HÉR LÝKUR Binni erindi sínu .....

LOVE ALL SERVE ALL Heart ... ég vona að ég hafi mátt stela þessum pistli Halo segi eins og Jenný bloggsystir - sú mí..

P.s. Tryggvi I Heart you .. (held hann verði stressaður fyrir mína hönd þegar ég er að blogga svona radical Joyful kannski stóra systir líka, úps og kannski fleiri ... )


Að byggja á kristilegu siðgæði ...

Í mínum huga, með mína reynslu, aldur (og fyrri störf) auk fimm ára náms í guðfræði, er hugmynd mín um kristilegt siðgæði eftirfarandi:  

1) Að geta sett sig í spor náungans

2) Að þykja vænt um náunga sinn sem sig sjálfa/n

3) Að deila eignum sínum með náunganum 

4) Að sýna kærleika í verki og hlusta

Varðandi fyrsta atriðið, að setja sig í spor náungans, þá er það nú bara svo að fáir berjast fyrir aðra en sig og sína nánustu. Það er ekki fyrr en þú lendir í einhverju sjálfur að þú getur skilið stöðu náunga þíns. Því er það skásta sem þú gerir í stöðunni að hlusta á hann og rembast eins og rjúpan við staurinn að skilja stöðu hans. Skilja stöðu útlendingsins/Íslendingsins konunnar/karlsins, samkynhneigðra/gagkynhneigðra, fatlaðra/ófatlaðra, trúaðra/trúlausra.. o.s.frv. 

Það er auðvitað ekki á nokkurn einstakling leggjandi að lenda í ÖLLU eða skilja ALLA svo að hann skilji stöðu náunga síns. Sumir lenda í meiru en aðrir. Áföllin okkar eru reynslubanki og við getum miðlað af því sem við höfum lent í og reynt að upplýsa en aðrir geta aldrei upplifað það sem við upplifum nema lenda í því sjálfir. Ég á minn reynslubanka og þaðan hef ég geta miðlað og á t.d. auðvelt með að skilja heim þeirra sem eru einmana. því í þeirri stöðu hef ég verið þó ég sé það ekki í dag. Þar sem mér finnst sjálfri auðvelt að setja mig í spor náungans er t.d. þegar ég er að skila íbúð sem ég hef selt, þá reyni ég að þrífa hana eins og ég vildi sjálf taka á móti henni! Wink

Atriði tvö, að þykja jafn vænt um náunga sinn og sjálfan sig er stór bón. Ég elska börnin mín alveg örugglega jafn mikið ef ekki meira en sjálfa mig og svo þá sem eru mér næstir en spurning um restina af mannfólkinu ? Ég elska að vísu lítil börn mjög mikið (jafnvel ókunnug) því þau eru svo ósjálfbjarga og því kemur upp einhver óskiljanleg væntumþykja.

Þriðja atriðið að ef þú átt tvær flíkur ættir þú að gefa aðra, það eru líka fæstir sem hugsa þannig. Ég á meira en margir en líka minna en margir af veraldlegum gæðum. Hver er sjálfum sér næstur hvað það varðar. Ef ég væri multimilli þá myndi ég auðvitað gefa og gefa eins og þeir gera margir, ... á meðan það heggur ekki of nálægt þeim sjálfum... Fátæka konan sem gefur helming eigna sinna sem er fimmhundruðkrónavirði gefur og fórnar meira en sú sem gefur helming eigna sinna sem er fimmmilljarðavirði ...

Fjórða atriðið er svo mikilvægt í kristnu siðgæði, því hversu oft sem þú biður bænir, signir þig eða ferð í kirkju, ef þú gerir aldrei neitt gott eða lætur gott af þér leiða þá getur þú varla talist sannkristin manneskja .. Við þurfum að hlusta (tvö eyru/einn munnur = hlusta meira en tala) og við þurfum að gefa tíma.

Jæja, ég er augljóslega ekki með bloggstíflu.. en það er kominn tími á hvíld...

Heart sendi þetta litla hjarta á þig sem hefur gefið þér tíma til að lesa .. byggjum betri heim hvort sem við viljum byggja hann á kristilegu siðgæði eða einhverju öðru góðu siðgæði Heart


Sunnudagsbloggsprédikun - Kirkjan er ekki bara hús ...

Cool Það fer ekkert á milli mála að heitustu umræðurnar sem hér spinnast eru meðal annars vegna trúmála. Þau eru mér mjög tengd þar sem ég er yfirlýst trúmanneskja og guðfræðingur að mennt. Mér hefur þótt hollt að lesa skrif fólks til að víkka sjóndeildarhringinn jafnframt að sjá skrif þeirra sem finnst pottur brotinn í trúmálum. Ég er ekki alltaf sammála öllum sem titla sig kristnar manneskjur og stundum sammála þeim sem titla sig ekki kristna ....  Í raun held ég að sá eini eða sú eina sem veit hver er í hjarta sínu kristinn sé Guð.....

Ég held og vona að innst inni viljum við öll það sama. Kærleiksríkan, réttlátan  og góðan heim. Hvaða leið við förum að því er svo misjafnt. Við verðum að fara varlega í það að gagnrýna meðbræður og systur þó að þau velji aðrar leiðir að kærleikanum.... 

Ég menntaði mig til prests, en þegar fólk spyr mig hvers vegna ég hafi ekki sóst eftir brauði þá svara ég yfirleitt að mér líki ekki umgjörðin. Líki ekki yfirbyggingin, pjátrið, kragarnir og kjólarnir. Kirkjan er eins og leikhús með búningum og propsi. Innihaldið vill oft týnast í öllu þessu skrauti.

Við þurfum að horfa á upphafið - eins og því er lýst hvernig Jesús hafði þetta..

Mér fannst frábært að starfa í sunnudagaskólanum, þar sem ég gat verið búningalaus. Grímulaus má kannski segja.. Þar sem ég var með börnin í kringum mig og við sungum og töluðum um elskuna til hvers annars. Börn eru YNDI.  Þar gat ég kennt boðskap Jesú um náungakærleikann á einfaldan hátt, m.a. að ekki ætti að sparka í aðra krakka því enginn vildi láta sparka í sig. Grin Þau höfðu oft sögur að segja af einhverjum vondum krökkum og þau ætluðu SKO ekki að vera vond ...

Ég forðaðist allar hamfarasögur eins og Nóaflóð og annað sem ruglar börn (og fullorðna líka) og sumir taka allt of bókstaflega.

Í unglingastarfinu kenndi ég krökkunum hvernig þau gætu búið til sínar eigin trúartjátningar eins og ,,ég veit að Guð er með mér þegar ég er í ástarsorg" .. og það þótti þeim sniðugt... Ég er ekkert hrifin af utanbókarlærdómi þar sem krökkum er uppálagt að læra langlokur og skilja svo ekkert hvað þau eru að segja. Kærleikur fólks verður heldur aldrei mældur í því hversu vel það kann trúarjátninguna utan bókar.

Mér fannst líka gaman að tala í kirkjunni fyrir og við fullorðna og flytja erindi til uppbyggingar sálinni. Það hefur alltaf verið mitt takmark við hugvekjur að byggja upp en ekki brjóta niður og stundum kom einhver og sagði mér að það sem ég hefði sagt hefði hjálpað sér svo mikið og þá var takmarkinu náð og það gladdi mig eflaust ekki minna en manneskjuna sem kom að máli við mig. Smile ... það er svo gott að gera gott .. Sagði Láki ekki eitthvað svoleiðis þegar hann var farinn að gera góðverk? hehe..

Í dag hjálpa ég á annan hátt í starfi mínu. Margir leita til mín með sínar raunir og sem betur fer líka gleði stundum... stundum tekst mér að peppa fólk upp og hjálpa því upp úr hjólfari sem það hefur verið fast í lengi... Það geri ég með hjálp Guðs en ég blanda Guði ekki inn í það í samtalinu... það er bara milli mín og Guðs..

Kirkjan mín þarf ekki að vera "fancy" eða flott. Hún má alveg vera svolítið kósý og það er nóg að hafa gítar eða píanó - ekki margra milljónkróna orgel. Innviðirnir eru aðalatriðið. Kirkjan er fólkið og margir vita að orðið kirkja þýðir líka söfnuður eða fólk. Kirkja er ekki bara hús. Einu sinni fór ég í brúðkaup á ströndinni við Vík í Mýrdal. Það var svo magnað og fallegt .. öldurnar léku undirspil við sönginn og minntu  okkur viðstödd á almættið.  

Ég held að við höfum gott af samtali hér á blogginu og eigum að sortéra frá það sem er ljótt og niðurbrjótandi og taka til okkar það sem er fallegt og uppbyggilegt.... InLove 

Knús - þakka þér góða manneskja fyrir að lesa og Amen. Heart 


Óbeislað ljóð um stefnumót sem mótaði ...

... Stödd á  milli draums og veruleika horfði konan unga á hvítkölkuð húsin og gekk inn í eitt þeirra. Dyrnar voru opnar og hún sá mann í baðkeri á miðju gólfinu. Maðurinn var veikburða svo hún hjálpaði honum upp úr, hjálpaði við að þurrka sér og klæða. Hún studdi hann síðan út í kvöldsólina og þau settust á steinbekk fyrir utan húsið og ræddu saman í vinsemd. Þó maðurinn væri veikburða virkaði nærvera hans ótrúlega sterkt á hana. Einhver ólýsanleg væntumþykja eða ást, hún vissi ekki hvaða tilfinning þetta var, helltist yfir konuna. Vissi bara að hún yrði aldrei söm eftir þetta stefnumót...

...Stödd á öldrunarstofnun gekk hún inn í herbergi gömlu konunnar. Bauð henni, brosandi bleikum varalit, aðstoð við að baða sig. Aldraða konan var þakklát og brosti á móti, þúsund þökkum. Hún þvoði hár gömlu konunnar og fætur og skolaði sápu af lífsreyndum líkama. Þerraði hana með handklæði, hjálpaði henni í fötin og knúsaði hana stórum faðmi.... Í huga konunnar kom myndin af stefnumótinu við veikburða manninn og hún skildi hvað það var mikil gleði í að gefa...


Bull og vitleysa

Var að lesa hjá einhverjum bullurum á Vísi.is  að María Magdalena hafi verið hóra.. Ég verð að hreinsa nafn Maríu Magdalenu, en oft í gegnum tíðina hafa menn spunnið upp sögusagnir í kringum hana, einmitt  meðal annars haldið því fram að hún hafi verið gleðikona, þvert á guðspjöllin.

Varð að koma þessu að hér, svona í rokinu á sunnudagsmorgni!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband