Færsluflokkur: Lífstíll

Emilía_kjólabúð með meiru!

Emma sæta var að opna rosa flotta kjólabúð. Ef ég væri milljónamæringur myndi ég kaupa kjól hjá henni fyrir hvern dag og vera eins og stelpan sem átti 365 kjóla. Kannski myndi mér duga einn eða tveir kannski. Stelpan var ekkert allt of happy með sína 365 kjóla. Það kemur amk upp í manni prinsessudella þegar mátaður er prinsessukjóll, amk drottningarkjóll!

Skora á allar konur að kíkja til hennar Emmu og máta! .. Það má alltaf láta sig dreyma. Wink


The Secret!

Fór að heimsækja Lottu sætu systur í dag  og sæta Dúa og ofursætu Ísold og Rósu. Er þetta ekki aðeins "overboard" ? hehe.. 

Well, hjá henni horfði ég á frábæra mynd (auðvitað svolítið ameríska - enda amerísk) sem heitir "The Secret" og á að breyta lífi manns.

Leyndarmálið er m.a. að Guð er orka, við erum sköpuð í Guðs mynd sem orka. Orka okkar dregur að okkur hluti. Ef við hugsum um neikvæða hluti dragast að okkur neikvæðir hlutir - ef við hugsum um jákvæða hluti dragast hinir jákvæðu að! .. Þetta er ofureinföldun á þessu "secret of attraction."

Ég hef að vísu prófað þetta, því þegar ég las bókina "Skyndibitar fyrir sálina" las ég að ef við værum t.d. alltaf að kvarta yfir verkjum eða sjúkdómum mögnuðum við það bara upp. Ég var bakveik með byrjun á brjósklosi, búin að vera hölt og kvartandi en ákvað að nefna ekki bakverkinn minn á nafn og viti menn, ég hef í raun ekki fundið fyrir bakinu síðan. Fattaði það bara alltíeinu! Jamm trúin getur flutt fjöll. Stress er líka það versta sem við getum gert okkur sjálfum. Svo hér sannast hið forkveðna: "Don´t worry be happy! ..

Ok, í þessari mynd er fullyrt og sýnt fram á að hugarorka okkar og vilji getur breytt lífinu til hins betra. Ég ætla að gerast tilraunadýr og trúa þessu eins og nýju neti.

Ég ætla að búa til korktöflu með mynd af húsinu í Flórída meða sundlauginni þar sem mig langar að bjóða krökkunum í sumarfrí. Ég stefni svo sannarlega að því að vinna í Lotto fljótlega. Svo ætla ég aldrei að kvarta að ég hafi mikið að gera, heldur bara gleðjast yfir að hafa mikið að gera. Skrifa lista yfir það sem ég get verið þakklát fyrir (það er svaka langur listi). Ég ætla að grennast um ca. 10 kg hmmm.. eða amk 7, og vera fit og heilbrigð (svo ég geti verið montin á sundlaugarbakkanum) og lifa hamingjusöm það sem eftir er minna lífdaga. Brosandi .... Þeir sem lesa þetta blogg eru auðvitað vitni og ég skal láta vita þegar þetta fer allt að rætast sem ég ætla mér! Er komin á jákvæðnikúr- eða lífsstíl  og ef neikvæðar hugsanir læðast að verður þeim snúið til föðurhúsanna hér eftir... gleði, gleði, gleði....

Jóga bloggari

mæli með að þið kíkið á http://www.youtube.com/watch?v=Awv5voHtPMI&mode=related&search=

 

 

 

 

 


Sjötíuogfimm ætla að ganga á Þorbjörn.

Lagt á Esjun

Eitt af áhugamálum mínum er að koma ungu fólki (og sjálfri mér) út undir bert loft. Ég held að það skipti mjög miklu máli að fólk hreyfi sig ekki bara á hamstursbrettunum heldur gangi úti í öllum veðrum.

Útiloftið ætti að vera hollara en loftið í líkamsræktarstöðum þar sem blandast saman lykt af missveittum-og hreinum líkömum.

Ég hef tvisvar áður kallað saman "Hraðbrautlingana" mína og farið í gönguferð. Fyrri gangan var í Búrfellsgjá og sú síðari öllu erfiðari, en hún var á Esjutind. Í bæði skiptin fengum við afbragsveður svo ég er búin að panta gott veður á morgun líka. Í fyrstu gönguna fóru um 15 manns, ég eini starfsmaðurinn og 14 skemmtilegir krakkar úr Hraðbraut.  Það var fámennt en góðmennt. Seinni gangan taldi um 40 manns, þá mættu líka tveir starfsmenn auk mín. Nú stefnir í metþátttöku: Paolo, Eva Lind, Viðar og Siggi Stæ ætla að mæta og hjálpa mér með hópinn.  Um 70 nemendur hafa skráð sig til göngu, sem er auðvitað nýtt Hraðbrautargöngumet! Leikfimiskennarinn hafði farið áður með hópa fyrir okkur, áður en ég byrjaði að taka þetta að mér...vegna áðurgreinds áhugamáls Svalur  .. svona ganga styrkir líkamlega og andlega heilsu auk þess að við kynnumst á annan hátt en inní undir skólaþakinu.

 


Fleiri myndir

Dótabúðir óþarfar ?

Rúllað í rúllunum

Nú er ég að passa Mána sæta ömmustrák. Hann er bara yndi og ljós þessi strákur. Hann er sérlega ánægður með "dótið" hennar ömmu.

1) Eldhúsrúllur, 2) pappakassi 3) klemmukarfa m/klemmum 4)kassi þar sem amma geymir kertin sín!

Gasmaðurinn kom í fyrradag og þá þurfti ég að tæma skápinn sem gaskúturinn átti að komast fyrir í og ég hafði fyllt hann af eldhúsrúllum þar sem ýmsir ættingjar og vinir hafa þurft á styrk að halda til að komast í ómissandi utanlandsferðir með sínum skólum. Þar af leiðani lá stafli af eldhúsrúllum á gólfinu. Þetta þótti Mána mínum hinn mesti fjársjóður og byggði kastala úr eldhúsrúllum og síðan velti hann sér um gólfið á þeim!

Vala mín er búin að vera að tæma pappakassa í herberginu sínu og þeir hafa verið að þvælast fyrir mér. Hemmi kom í heimsókn og skar út glugga á einn kassann og þar með var kominn "Mánabær" sem Máni litli gat leikið sér í tímunum saman.

Klemmukarfan var síðan tekin með í baðkarið. Kertin tók hann upp úr kassanum og raðaði í aftur. Upp úr kassanum og raðaði í aftur. Upp úr kassanum og raðaði í aftur. Upp úr ......... hehehe..

Já - veit ekki afhverju Leikbær er að opna einhverja Super Store þegar dótið er allt fyrir hendi!! 

Hmmmm....?


Fleiri myndir

Mórölsk prédikun um agavandamál íslensku þjóðarinnar

 Ég verð alltaf svo hissa þegar fólk sýnir óvirðingu, dónaskap o.s.frv. Ein fyrsta upplifun mín af óvirðingu krakka við fullorðna var þegar ég var rúmlega tvítug (many moons ago) og ég var að bakka bílnum mínum. Fyrir aftan bílinn stóðu tveir ca 6 ára guttar. Ég fór út úr bílnum til að biðja þá að færa sig og gerði það í móðurlegum og blíðum tón. Svarið sem ég fékk var: "Haltu kjafti helvítis homminn þinn" .. (þeir vissu augljóslega ekki hvað hommi var og töldu það blótsyrði).. Ég var í sjokki yfir þessu en þeir færðu sig. Mér var kennt að bera virðingu fyrir fullorðnu fólki þegar ég var barn og með það í farteskinu var ég eiginlega bara í losti.

Enn í dag - rúmlega 20 árum síðar er ég að rekast á svona fólk, ungt og gamalt sem er með dónaskap. Fullorðnir við börn, börn við fullorðna, fullorðnir við fullorðna. Skýrasta dæmið hjá okkur er umferðarmenningin.

Það leysir engan vanda að rausa um þetta - en ég held að við þurfum öll að taka til í okkar ranni og kíkja í kringum okkur og reyna að ala okkur upp betur sem þjóð. Förum að bera virðingu fyrir náunganum og sýna tillitsemi.

 


Nostalgía - hvað er hverfandi ?

 

* Óvæntar heimsóknir!  Nú heimsækir enginn neinn nema hringja á undan, jú einstaka sálir ÞORA enn að koma óvænt í heimsókn, en erfitt að vita móttökurnar. Sjónvarpslausu fimmtudagarnir voru frábærir til heimsókna!

*Útileikir: Saltað-brauð, brennó, kíló, fallin-spýta , einn, tveir, þrír, fjórir, fimm.., parís, sippó, snú-snú..

*Kaupmaðurinn á horninu.. enn lifir Kjötborgin Ásvallagötu og má ekki deyja, verðum að berjast fyrir þessu eins og síðasta Geirfuglinum á sínum tíma..

 *Gamlar konur á peysufötum á götum úti .. hmm.. það er löngu horfið eiginlega. Nú sér maður aðallega íslenska búninginn við útskriftir o.fl. hátíðleg tækifæri..

* Beisli og bönd: Börn voru sett í beisli og látin ganga á undan og haldið var í endann. Sumir bundu líka börnin sín útí garði svo þau færu ekki á flakk.

* Skrúbbar og gólftuskur: Nú moppa allir! Einstaka skrúbb og gólftusku er að finna í sumarbústuðum sem eru til leigu uppí sveit.

* Skífusímar: Vinur sonar míns kom heim (fyrir 10 árum síðan) og vildi fá að hringja - hann spurði: hvernig gerir maður ?

* Videóspólur: Nú er notað DVD!

*Þvottapokar: Nú eru blaut-tissjú að taka yfir. Bæði til að hreinsa barnarassa og andlit. Að vísu sitthvor tegundin.

*Eftirmatur: Ávaxtagrautur, kakósúpa, sagó-og hrísgrjónagrautur, vanillu-og súkkulaðibúðingur.. allt tilheyrði þetta "eftirmat" í mínu ungdæmi.

*Saumaskapur í saumaklúbbum: Konurnar prjónuðu og saumuðu í saumaklúbbnum hjá mömmu, í mínum saumaklúbb er bara TALAÐ og BORÐAÐ...

man ekki eftir fleiru í bili.. en bæti kannski við listann - verið velkomin að minna mig á eitthvað!

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband