Ekki lifa í gegnum sjónvarpið .. hugleiðing

Ég fann gamla "Viku" síðan 1980 og þar var grein um skaðsemi sjónvarps á börn. Hmm.. við erum nú búin að vita þetta lengi. Það sem mér fannst áhugaverðast við greinina var að þar var ekki verið að tala um innihald þess efnis sem verið var að sýna heldur um tímann. Tímann sem börnin nota í að horfa á sjónvarp. Ef þau væru ekki að horfa  (eða í tölvunum) hvað væru þau að gera ? Úti að leika - eflaust. Ég er af þeirri kynslóð sem var úti alltaf þegar færi gafst. Kom heim úr skólanum og henti frá mér skólatöskunni og hljóp útá stétt. Þar fann maður yfirleitt leikfélaga og ef ekki þá var bara smalað úr næstu húsum. Saltað brauð, fallin spýta, stórfiskaleikur .. hvað sem var var leikið. Á veturna var leikið í snjónum - og verið á skautum á öllum þeim pollum sem fundust. Þetta er svaka nostalgía, en stundum óttast ég hvert við erum komin með börnin okkar. Tæknin hefur stolið leiknum þeirra. Þau horfa á aðra "leika" í sjónvarpi og eru mötuð.

Sjálf erum við dottin í þennan pytt með raunveruleikasjónvarpi sem annað. Af þessum orsökum hef ég minnkað mitt sjónvarpsáhorf um ca. 99,5 % sl. 5 mánuði. Hef horft á fréttir annað slagið og viti menn! Ég sakna sjónvarpsins ekki. Verð að viðurkenna að ég hef svolítið hneigst inn á að vafra um netið en ekkert að ráði. Finn að ég hef svo miklu meiri tíma til alls. Er að lesa, sortera, heimsækja, skrifa o.fl...

Í sjónvarpi er aðallega afþreyingarefni. Af hverju þarf alltaf að vera að afþreyja ? Af hverju ekki njóta ? Ég mokaði kastala með barnabarninu mínu í svartan sand í morgun og við skreyttum hann með gulum sóleyjum. Við vorum bæði svo hrifin af svarta og gula litnum og þá hugsaði ég hvað núið væri yndislegt. Brosandi barnið að upplifa í gegnum hug og hönd þar sem hann mokaði ýmist með skóflu eða með berum lófanum. Mamma hans hafði sent hann með vídeóspólur sem ég átti að setja í gang ef honum leiddist. NEI, barnabarnið mitt fær að lifa hjá mér. Við settum upp "live show" þegar ég þvoði mér hárið inná baði og honum fannst amma stórkostlega fyndin og skellihló allan tímann. Sérlega þótti honum fyndið þegar ég sprautaði örlítið á hann. Svo gaman var hjá honum að hann neitaði að yfirgefa húsið þegar pabbi ætlaði að koma að sækja hann.

 Gefum börnunum okkar og okkur alvöru - ekki lifa í gegnum sjónvarpið! ..


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birna M

Æ ég gæti ekki verið meira sammála þér. Takk fyrir þetta.

Birna M, 29.7.2006 kl. 09:29

2 identicon

Hjartanlega sammála þér - eins og þú segir eru þetta engin ný sannindi - en hvernig á að koma því til leiðar að fólk skilji alvöru þessarar ,,afþreyingar" kröfu unga fólksins í dag þar sem allt þarf að vera SKEMMTILEGT til að allir verði ánægðir ! Áttu hugleiðingu um það? Kveðja - Áslaug Þ.

Áslaug Valg. Þórhallsdóttir (IP-tala skráð) 30.7.2006 kl. 00:40

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Takk fyrir athugasemdirnar, ég hugleiði þetta með skemmtilegheitin.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 1.8.2006 kl. 15:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband