Minningarorð um Susie Rut Einarsdóttur

Í dag fer fram útför Susie Rutar Einarsdóttur f. í febrúar 1985 dáin í júní 2007. Susie var nemandi í skólanum mínum og ágæt vinkona mín. Ég skrifaði minningarorð um hana sem munu birtast í Mogganum á næstu dögum en læt þau líka flögra inn á netið þar sem fleiri sjá hvernig ég hugsaði til þessarar björtu stelpu. Í huga mínum í allan dag hafa hljómað hin fögru orð úr lagi KK og Ellenar sem þau sömdu um systur sína eftir að hún lést: "When I think of angels, I think of you" ..

Kynni mín af Susie Rut Einarsdóttur hófust þegar hún kom inn á annað árið hjá okkur, haustið 2005, í Menntaskólann Hraðbraut. Ljóshærð og lagleg hnáta var mætt í skólann til innritunar og mats á fyrra námi og var hún staðráðin frá upphafi að standa sig vel á skólagöngunni og lagði mikinn metnað í að fá góðar einkunnir. Við það stóð Susie og var það síðan á sólríkum júlídegi 2006 að hún útskrifaðist og var stúdentsprófið henni og fjölskyldu hennar til mikils sóma. Susie mætti falleg og fín á útskriftina, þá komin með dökkt hár en ungar stúlkur í dag eiga það til að hafa ,,hamskipti” reglulega. Einn daginn ljóshærðar, annan dökkhærðar og þann þriðja rauðhærðar. Susie Rut vandi komur sínar inn á skrifstofu aðstoðarskólastýru og röbbuðum við um námsferilinn hennar og lífið og tilveruna, væntingar og vonir. Hún kom mér fyrir sjónir sem björt, einlæg, ákveðin og svolítið litríkt fiðrildi. Hún var oftast fyrst til að hringja til að fá að vita um einkunnir, jafnvel þó að reglan væri að ekki mætti hringja strax og varð óþólinmóð ef hún þurfti lengi að bíða, auk þess sem hún sætti sig ekki við neitt nema háar einkunnir. Ég hafði lúmskt gaman af þessari óþolinmæði og kannski vegna þess að ég vissi að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af lélegum einkunnum.

Eins og mér, var samstarfsólki og dætrum mínum sem þekkja til Susie Rutar, brugðið við fréttirnar af andláti hennar. Hún hefur leitað mikið á huga minn síðan ég frétti af því að hún væri farin og erfitt að hugsa sér að hún eigi ekki eftir að kíkja hér við, strjúka okkur svolítið um hendurnar eins og hennar var siður og brosa sínu fallega brosi. Susie Rut var sérstakur persónuleiki, dugleg, gefandi og hlý og voru öll viðkynni við hana af hinu góða. Hugur minn leitar einnig til foreldra Susie Rutar og systkina, vina, vandamanna og allra þeirra sem þótti vænt um hana og gengu gönguna með henni, syrgja nú og sakna. Ég, fjölskylda mín og samstarfsfólk vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Elskuleg Susie Rut hefur haldið á ókunnar slóðir en við sitjum eftir með minningu um hana sem lifir áfram í hjörtum okkar eins og bleikt blóm sem brosir mót sólu.

Far þú í friði hnáta. Þú færð mína bestu einkunn.

Jóhanna Magnúsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þetta er falleg minningargrein. sniff....

maja (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 21:59

2 identicon

takk fyrir að skrifa þessa fallegu minningagrein um frábæra töfrapersónunu Susie Rut, bekkjabróðir úr Álftamýraskóla

Bjarni Þór (IP-tala skráð) 9.7.2007 kl. 19:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband