Minningarorð um Torfa Frey

 Þar sem ekki kaupa allir Moggann, ákvað ég að setja í bloggið mitt minningargrein um Torfa Frey sem féll frá núna rétt fyrir jól.

 

Torfi Freyr Alexandersson útskrifaðist  frá Menntaskólanum Hraðbraut í júlí 2006. Kynni mín af Torfa voru í gegnum starf mitt í skólanum. Fyrsta starf mitt þar var að vera yfirsetukona í C bekk í lok ágústmánaðar 2004. Í þann bekk bættist Torfi Freyr Alexandersson á seinni haustmánuðum, en innkoma hans var sterk og fór hann fljótlega í leiðtogahlutverk. Torfi varð, eins og margir nemendur þessa ,,gamla”  C bekkjar fljótlega góður vinur minn.  Torfi tók á náminu eins og sjómennskunni, var iðinn og samviskusamur og mætti vel, enda uppskar hann góðar einkunnir í náminu. Sterkur persónuleiki umvafði þennan stóra mann og laðaðist fólk að honum og tók sér til fyrirmyndar. Eftir að starf mitt breyttist og ég tók að mér skrifstofustörf og síðan aðstoðarskólastjórn hélt vinskapur okkar Torfa áfram. Á aðfangadagskvöld 2005 fékk ég sms klukkan 18:00 og varð svolítið hissa hver væri að senda sms á þessum tíma, en þá voru það skilaboð frá Torfa um gleðileg jól, og þakklæti til vina hans sem hefðu gert líf hans betra.

Í dag eru þessi skilaboð mér enn dýrmætari en þá, ef ég hef getað lagt lítið korn í að gera þó þetta allt of stutta líf hans betra. Það er sérstök kúnst að muna eftir að láta fólk vita ef það hefur gert vel, og Torfi kunni að hrósa.

 

Torfi stóð sig ekki aðeins vel í náminu, heldur einnig í félagslífi, en hann tók þátt í Morfís, ræðukeppni framhaldsskólanna þar sem hann talaði í bundnu máli. Þeir sem þekktu Torfa vita hversu gaman hann hafði af ljóðum og að flytja þau. Stundum skrifaði hann speki í ljóði upp á töflu og einnig sendi hann oft heilræðavísur í tölvupósti. Torfi tók virkan þátt í þemadögum í skólanum og minnist ég sérstaklega keppni þar sem hann tók þátt í eggjakasti, en eggin enduðu nú sum sem klessur á gólfinu. Torfi hafði frumkvæði að mörgu skemmtilegu og mætti einu sinni með prímus til að sjóða pylsur og stóð fyrir pylsupartýi á miðrými skólans.

 Á síðara ári sínu í skólanum var Torfi á Náttúrufræðibraut, það ár var hann einnig valinn á heiðurslista skólans vegna góðs námsárángurs. Það var gott að hafa hann með á heiðurslistafundum, hann var hreinn og beinn og ekki með neitt yfirborðshjal. Torfi var duglegur að gefa ábendingar hvað betur mætti fara í skólanum og einnig að þakka það sem vel var gert. Það má með sanni segja að hann hafi sett sitt mark sitt á Menntaskólann Hraðbraut.  Samstarfsfólki mínu og nemendum skólans sem þekktu Torfa,  var brugðið við tilkynningu um fráfall hans. Farinn er nú af sjónarsviðinu stór og litríkur persónuleiki. Strákur sem ég, og við öll, héldum að við myndum fá að sjá aftur, jafnvel að hann myndi enda sem pólitíkus á alþingi til að sópa aðeins til í þingsölum.  En enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Á hillunni á skrifstofunni minni  liggur nú marmaraegg sem er gjöf frá Torfa og eilíf minning um hann.  Það er söknuður í lofti og við minnumst góðs drengs.  Það skelfur jörð þegar stór tré falla til jarðar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég á enn svolítið erfitt með að lesa þessa grein. En falleg er hún. Ég hef mikið vitnað í þessa setningu Það skelfur jörð þegar stór tré falla til jarðar. Lýsir þeim manni sem kvaddi vel.

Soffía systir

Soffía (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 12:04

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Þakka þér athugasemdina kæra Soffía, mér þykir vænt um hana. Þessari setningu laust niður í huga mér þegar ég ákvað að skrifa um Torfa og ég gat ekki lýst betur þeirri tilfinningu sem ég fékk.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 10.1.2007 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband