Upphafning anda og niðurlæging holdsins ... er fegurðarsamkeppni ósómi ?

Í tilefni að nú fer enn einu sinni í hönd fegurðarsamkeppni Íslands verð ég aðeins að fá að tjá mig um hold og anda. Einnig er málið mér skylt eða amk núverandi fegurðardrottning Íslands mér náskyld, eins og bloggvinir mínir krúsilegir vita eflaust flestir.

Það er yfirleitt talið feminískt að vera á móti fegurðarsamkeppnum kvenna. Eflaust karla líka. 

Af hverju erum við á móti því að sýna hold?  

Í fyrndinni, kannski ekkert fyrir svo ýkja löngu voru konur tákn holdsins (hins illa) og karlar tákn andans (hins góða). Þeir voru s.s. andlegir og konur líkamlegar. Hefur eflaust komið mikið til vegna þess að konur voru ,,jarðvegur" fyrir börnin. Ólu börnin og gáfu þeim að drekka.

Enn í dag eimir af því að allt sem er andlegt er svo merkilegt og líkamlegt ómerkilegt. Hugurinn þykir meiri skelinni.

Þegar hárgreiðslukona strauk gamalli konu um höfuðið fór gamla konan að gráta og sagði ,,það hefur enginn verið svona góður við mig lengi"..  Hárgreiðslukonan strauk líkama konunnar en vellíðanin kom fram í sálinni. = Örlítið dæmi um það að sál og líkami verða ekki aðskilin. A.m.k. ekki þessa heims.

Annað dæmi af öfugum toga er þegar við erum kvíðin í sálinni, þá koma fram líkamleg einkenni eins og magaverkur eða vöðvabólga.

Það þykir sjálfsagt að keppa í söng, eða það þykir flestum. Engir fordómar gagnvart því. Hvernig getum við dæmt sönginn? Eru það ekki bara einhverjar staðalmyndir um tónlist sem við veljum eftir? Erum við jafnhrifin af indverskri tónlist og evrópskri tónlist ? Geta lög keppt? Er í lagi að velja lög af því þau eru hugverk en ekki líkamleg? Er rétt að velja á milli?

Hvernig dæmum við fallegt málverk? Fallegar styttur?  Fallegar byggingar eru hugverk, þar má keppa og engum finnst það rangt.

"Tja... kynni nú einhver að segja, það er svo niðurlægjandi fyrir konur að ganga um svið og spóka sig og sýna sig hálfnaktar og láta dæma sig."  Hvað er niðurlægjandi við nekt ? Nakin komum við í heiminn og nakin munum við hverfa úr honum.

Haldiði að þessum konum/stúlkum sem gera það líði illa á sviðinu og finnist þær ómerkilegar ?

Það held ég ekki. Þetta eru stoltar konur, ganga teinréttar, eins og við eigum ALLAR  og öll að gera. Hugsa vel um sig, huga að mataræði sínu og hreyfingu. Fá andlegan stuðning hjá Dale Carnegie þjálfara og leiðsögn hjá næringaráðgjafa til að borða ekki of lítið.  Já, til að borða ekki of lítið, því auðvitað er það áhyggjuefni í dag.

Er ekki öllu sem er bætt við óþarfi; brúnkuspreyi, neglum o.s.frv. ?  Það fannst mér, en þegar ég hugsaði það nánar má líta á það sem eina tegund listformsins. Konurnar eru bara gangandi málverk, gangandi listaverk,  gjörningur eins og hjá listakonunni sem skúraði. Þetta er ekki bara spurning um að ganga um og brosa, það er svo margt, margt meira í þessu.

Fegurðarsamkeppnin - Óbeisluð fegurð - átti meira sammerkt með hefðbundnum fegurðarsamkeppnum en marga grunar. Ég gat aldrei horft á það sem ádeilu. Beisluð eða óbeisluð fegurð. Glæsileg kona vann, stór persónuleiki.  Andinn og líkaminn verða ekki aðskilin.

Áður en dóttir mín tók þátt í Ungfrú Ísland var ég svona á báðum áttum um fegurðarsamkeppnir. Fannst, vegna míns feminíska hjarta, ég ætti að vera á móti þessu en gat aldrei sannfært sjálfa mig nógu vel. Auðvitað varð ég að kryfja þetta hjarta til að kanna hug minn til fulls til að sjá hvar ég stæði.

Niðurstaðan: Ég er EKKI á móti fegurðarsamkeppnum, en veit að margir eru það. Á meðan engin nauðung eða ofbeldi er í gangi - sem það alls ekki er - þá sé ég ekkert að þessari keppni frekar en mörgum öðrum keppnum. Það hafa margir gaman af og það voru margar stoltir ættingjar að horfa á sínar dætur, frænkur, barnabörn á Broadway í fyrra og auðvitað var ég stoltust mamman þegar upp var staðið. Hættum að horfa á holdið sem hið illa og andann sem hið góða. Holdið er yndislegt ...og andinn líka.

.... Þá er það sagt - love you guys & girls Heart....   Now shoot me !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er reyndar alls ekki á því að hægt sé að keppa í söng eða öðru listformi.  Bara engan veginn.

Ég tel fegurðarsamkeppni tímaskekkju, byggða á misskilningi, en það er bara mín skoðun.  Annars heldur þetta ekki fyrir mér vöku.

Elska þig samt

Jenný Anna Baldursdóttir, 22.4.2008 kl. 19:14

2 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Persónulega finnast mér allar keppnir í huglægu mati, fegurð og fagurfræði sbr tónlist, útlit, myndlist og sv. frv. vera frekar fáránlegar þar sem um vinsældakeppnir er oftast að ræða en ekki keppnir í mælanlegum atriðum.

Ég er til að mynda mjög mikið á móti þeirri suddalegu skattpeningasóun sem Eurovision er.

En þetta er einkakeppni og mér finnst sjálfsagt að fólk fái að halda hana og fara í hana ef það vill.

En...

...þetta er persónulegt mat. Ég er alltaf að bíða eftir keppninni 'Besti vinur Íslands' eða 'Besti mömmumatur í heimi'. 

Hinsvegar get ég tekið algjörlega undir það að holdið er enganvegin af hinu illa. Það er barnaleg tvíhyggja að ætla að holdið sé illt og sálin, sem er sú birtingarmynd starfsemi líkamans sem við skynjum hvað best.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 22.4.2008 kl. 19:18

3 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Mín skoðun er sú, að það sem fólk vill gera og langar til að gera og skaðar hvorki sjálfan sig né aðra, það má það bara gera Mér og mínum að meinalausu Elska þig líka og dettur ekki í hug að skjóta þig

Jónína Dúadóttir, 22.4.2008 kl. 19:25

4 Smámynd: Tiger

  

Okok.. ætlaði að skjóta þig - en átti ekki til neitt í þeirri átt svo ég bara skaut sjálfan mig. En... fegurðarsamkeppnir eiga allt gott skilið og mér finnst þær bara æðislegar. Hef alltaf haft gaman af því að fylgjast með þeim og sérstaklega gengi íslenskra stúlkna sem ætíð eru svo fallegar *blikk*...

Sú allra fallegasta fyrr og síðar sem ég hef séð í svona keppnum - af öllum íslenskum og erlendum - er bara ein stúlka sem hefur að mínu mati staðið uppúr sem hin eina fagrasta ever. Það er Hólmfríður Karlsdóttir. Ég dýrkaði hana og geri það enn þó maður sjái ekki mikið til hennar yfir höfuð.

En þessar keppnir eru bara flottastar og ég vona að þær fái frið til að vera eins lengi og ég lifi í það minnsta. Óbeisluð fegurð er afstæð en útum allt sko .. knúserí á þig ljúfan.

Tiger, 22.4.2008 kl. 19:48

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Þið eruð nú bara öll æði, Guði sé lof fyrir mismunandi skoðanir, annars væri leiðinlegt að lifa.  .. Svona (hef sagt þetta fyrr) svipað og við gengjum  aðeins í eins svörtum sokkum, þá væri sorteringin á þvottinum einfaldari, en einfaldleikinn er ekkert endilega bestur.. hvað er ég eiginlega að reyna að segja! hehe..

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 22.4.2008 kl. 22:57

6 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Eina sem ég ekki þoli við þessar blessuðu fegurðarsamkeppnir, er það að þær þurfa að vera rosalega grannar, 18-21 árs gamlar eða eitthvað svoleiðis, og þurfa að ganga um á sundfatnaði, til hvers í ands. þarf þess?
Fólk gleymir oft að mestu skiptir fegurðin að innan, hversvegna að stelpurnar þurfi að vera á þessum aldri, svona grannar og að það sé neitað þeim ef þær eru of litlar... asnalegt!

Ef ég myndi skrá mig fengi ég ekki inngöngu....

 .. ég sting upp á að það sé sett upp fegurðarkeppni sem kemur að innan, það er það sem skiptir mestmegnis máli!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 22.4.2008 kl. 23:44

7 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Góðan daginn ! Ég hugsa að þetta sé svolítið ólíkt þegar maður hefur kynnst svona keppni innan frá og þegar horft er á hana úr fjarlægð! Þess vegna skil ég sjónarmið þitt svo vel en ég hef sjálf alltaf pínu fyrirvara á svona keppni......gæti breyst ef að dóttir mín myndi einhvern tíman taka þátt í svona.....henni finnast samt kleinuhringir með karamellu það góðir að ég veit ekki hvort að það verði nokkurn tíman að veruleika hahahaha !

Eigðu góðan dag

Sunna Dóra Möller, 23.4.2008 kl. 08:47

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Sæl Róslín - gaman að sjá þig hér. Unga fólkið skiptir auðvitað mestu máli fyrir framtíðina okkar.  

Þegar ég var að bera saman söngkeppni og fegurðarsamkeppni var ég að benda á að mér þykir hið ytra alveg jafn merkilegt og hið innra EN um leið að hið innra og hið ytra starfar ekki án hins. Ég get ekki ímyndað mér að manneskja sem er ljót að innan geti geislað að utan. Það kæmi fljótt slokkna á þeim geisla.

Það er rétt að það eru settar takmarkanir og staðlar hverjir/hverjar taka þátt í fegurðarsamkeppnum. Þá er miðað við staðla sem eru í gildi hverju sinni, hvað þykir flottast. Það eru líka staðlar í öðrum keppnum t.d. þarf fólk að hafa góða rödd til að taka þátt í söngkeppni. Fólk þarf að muna þúsund hluti til að taka þátt í Gettu betur o.s.frv. Við getum ekki öll tekið þátt í öllu.

Fegurð er vissulega afstæð, í gamla daga voru bústnar rúbenskar konur (konur eins og á málverkum listamannsins Rúbens) í tísku. Það er visst ,,look" í tísku núna og þær sem vinna eru líka fegurðardrottningar þess árs. 

Sumir myndu kannski vilja vera balletdansarar en hafa ekki líkamsburði í það. Þar eru ákveðnir staðlar í gildi. Ballerínur eru yfirleitt ekki mjög hávaxnar og myndu t.d. fæstar af fegurðardrottningunum skv. núverandi staðli  hafa tækifæri til að ná langt á því sviði vegna líkamsburðar! Eftir því hærri sem við erum erum við oftast minna liðug líka. Við vorum líka að ræða um hestamennsku og ef við værum t.d. knapar þá eru þeir sem eru léttastir og minnstir líklegastir til sigurs! ..

Ég get ímyndað mér að stelpunum þyki nú skemmtilegast að koma fram á síðkjólunum, - a.m.k. þætti mér það því ég er algjör kjólakona og hef gaman af fallegum fötum. Sundfatnaðurinn er til að hægt sé að sjá hvernig þær líta út á kroppinn (fyrir innan fötin)..  keppnin er jú um útlit, þó enn verði ég að ítreka að ,,innlitið" er alltaf með í pakkanum.

Well, hvað um það - það er gott að hafa skoðun! .. Í þessu sem öðru.

Ég held að óbeisluð fegurð hafi miðast að ,,fegurð að innan" .. svo sú keppni hefur verið haldin. Kannski verða fleirri slíkar keppnir háðar. Það er kannski enn erfiðara að dæma í slíku en að utan eða hvað ? .. 

Ég á nokkra mælikvarða á fólk hvað innri fegurð varðar: T.d. hvernig það kemur fram við náungann, hvort að það er gott við börn, dýr, minni máttar!

Það er mjög sérstakt að sjá hvernig t.d. börn laðast að sumu fólki, því ég held að börn sjái mun meira en við  (flest) fullorðin. 

Sunna - rétt hjá þér - auðvitað er ég svolítið hlutdræg og hef ákveðið að skoða hina hliðina á peningnum nákvæmlega vegna þess að dóttir mín tók þátt!  Það er rétt að hafa fyrirvara, í þessari keppni sem öðrum keppnum, koma upp leiðindamál, öfund og annað slíkt sem skapar leiðindi. Sáum nú hvað kom upp eftir forkeppni Júróvisjón! ..  Á meðan þetta er laust við þvingun, ofbeldi o.s.frv. þá er þetta í lagi, ég set ok stimpil á framkvæmdina hér heima, en vissulega hef ég ekki sagt mína skoðun á framkvæmd keppninnar í Kína, en það er önnur Ella.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 23.4.2008 kl. 09:45

9 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Mér finnst það alveg réttmætt hjá þér og virði það algjörlega og þú hefur bara aðra sýn vegna þess að þú hefur kynnst persónulega fyrirkomulaginu hér! Þess vegna finnst mér erfitt að setja mig í dómarasæti vegna þess að ég hef ekki kynnst þessu á þann hátt að ég geti almennilega sagt að þetta sé gott eða slæmt! Fæst orð bera minnsta ábyrgð !

Sunna Dóra Möller, 23.4.2008 kl. 09:48

10 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Knús á þig Sunna  ... það vantaði eiginlega hláturskall á eftir að ég segðist vera hlutdræg  .. það er nebbnilega svolítið fyndið hvað maður/kona ver alltaf sína og gjörðir þeirra.  Eins og þú segir, fær maður/kona aðra sýn á dæmið...

Kannski hugsa ég allt öðruvísi einhvern tíma seinna, who knows?? .. Ég er í stanslausri endurskoðun á skoðunum mínum.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 23.4.2008 kl. 10:35

11 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Sunna Dóra Möller, 23.4.2008 kl. 11:07

12 identicon

Ji.. hvað þetta er skemmtileg umræða ... Elska fegurðasamkeppnaumræður ... sem er fyndið því fyrir keppnina í fyrra vissi ég EKKERT um þetta og hafði ekki séð eina einustu keppni! Pælið hvað við vorum heppin með fegurðadrottingu Islands 2007, hún var bæði falleg að innan og utan ;) hihi.... Annars held ég að allir séu fallegir að innan, sumir vita bara ekki af því ... "hafa aldrey kíkt inn" Kv. Eva

Eva Lind (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 22:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband