Þjóðarátak gegn einelti ?

 Fékk þessi skilaboð frá nýrri bloggvinkonu í morgun:

Þakka ykkur fyrir að láta mál okkar Lárusar koma ykkur við. Þakka styrkir mig mikið í þeirri trú að það sem ég er að gera er það rétta.
Bænir og falleg orð hlaða mig orku. Þetta keyrir mig áfram í dag.
Takk fyrir að vera vinir mínir.
Kossar og knús til ykkar.
Kveðja, Inga

------

Í framhaldi af þessum orðum Ingu langar mig að segja ykkur perónulega frá, þó aðeins broti af, einelti sem ég hef kynnst ...

Ungur grannleitur strákur kom á harðaspretti inn um dyrnar og stöðvaði ekki fyrr en inni á miðju stofugólfi. Mamma tók á móti honum forviða og spurði hvað gengi eiginlega á. "Hmm.. sko, það er voðalega asnalegt, en það er strákur í skólanum mínum sem lætur mig ekki í friði. Um daginn sagðist hann ætla að kveikja í stólnum mínum og hélt kveikjara undir honum og núna elti hann mig næstum alla leið heim."

Mamman hélt áfram og spurði hvað drengurinn hefði viljað?  Tárin spruttu fram á drengnum hennar, sem var hálförvinglaður á svipinn en sagði svo að þessi sami strákur fullyrti að hann hefði stolið úrinu sem mamma hans ætti og hann ætti að borga honum pening fyrir það. Hann skildi þetta ekki, því hann hefði ekki einu sinni séð þetta úr móður hans.

Mamman varð reið inni sér, eiginlega bálreið, því þetta var langt í frá fyrsta skipti sem sonur hennar hafði þurft að hlaupa undan þessum dreng og einhverjum guttum sem hann fékk í lið með sér. Þessi "bully" var stór og mikill, a.m.k. höfðinu hærri en sonurinn og virtist líða mjög illa.

Mamman ákvað að hringja í móður drengsins og segja henni alla sólarsöguna. Hún vandaði sig mjög hvernig hún lagði dæmið upp fyrir móðurinni, til að hún færi ekki í vörn. Mæður drengjanna áttu gott samtal móður drengsins brá yfir þessum fréttum af syni hennar og fannst leiðinlegt að sjálfsögðu.

Með þessu tók mamman ákveðna áhættu, en sá stærri hætti að rukka þann yngri um peninga og lét að mestu í friði eftir þetta.

Martraðir hans héldu þó lengi áfram og ótti hans við þennan strák varði lengi fram á unglingsár.

Auðvitað er ég  hér að tala um mig og son minn sem lenti í þessu, sonur minn sofnaði í ótta við þennan strák og vaknaði í ótta við hann og það hafa eflaust margir fleiri gert.

Einelti hefst yfirleitt vegna öfundar og/eða vanlíðunar gerandans, við þurfum öll að vera á varðbergi gagnvart okkar nánustu og okkur sjálfum. Ég efast ekki um að báðum drengjunum hafi liðið illa. Gerandanum og þolandanum.

Ég lagði sjálf stelpu í einelti þegar ég var barn, ég var níu ára, stödd á barnaheimili upp í sveit þar sem lifið var þá í áttina að hin sterkustu "lifðu af" þó ég sé ekki að tala um neitt Breiðavíkurdæmi hér. Ég þurfti að gæta yngri bróður míns, sem var þarna með mér og t.d. eitt skiptið sem hann var veikur inní herbergi og fékk að eiga smá sælgæti, sem yfirleitt var deilt meðal barnanna, sá ég á eftir nokkrum krökkum sem voru komin inn til hans til að hirða af honum nammið! .. Ég bretti upp ermarnar og "henti" krökkunum út til að bjarga honum frá "hrægömmunum."

Þessi sama stelpa og gætti litla bróður, átti líka að passa upp á frænku sína og svo var send stelpa til úr blokkinni hennar, sem hún var líka beðin um að hafa eftirlit með.  

Ég brást ungu stelpunni úr blokkinni illa. Við stelpurnar tókum okkur einu sinni til og slógum upp hring í kringum þessa stelpu og kölluðum hana "Liltlu ljót" .. ég hef skammast mín alla ævi fyrir að taka þátt í þessu og skildi aldrei hvernig ég gat þetta - því um leið og ég tók þátt í þessu fann ég gífurlega til með stelpunni.

En í dag veit ég að mér leið svo illa að hafa alla þessa ábyrgð, níu ára gömul, og reiði mín fékk útrás á þessari elsku litlu stelpu sem ég brást þarna svona hræðilega. Ég var alltaf góð við hana bæði fyrir og eftir þetta og þetta var svona gjörsamlega "out of character" dæmi en sýnir að geta flestir tekið upp á að vera vondir, líði þeim sjálfum illa.

Þetta er mikil langloka sem ég hef sett hér upp, en ég gæti vissulega bætt við fleiri sögum af eineltismálum, en sprautan að því að ég skrifaði þetta er ný bloggvinkona sem missti son sinn nýlega vegna afleiðinga eineltis. Mig langar að allt bloggsamfélagið taki þátt í því að hjálpa þessari konu við átakið sem hún er að vinna við og að við leggjum hönd á plóginn.

Kannski með því að vera góð við hvort annað og muna að líta í eigin barm.

Her er tengill á Ingibjörgu Helgu Baldursdóttur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Góð hugmynd og bráðnauðsynlegt... einelti er hræðilegt, ljótt og í allt of mörgum tilvikum beinlínis lífshættulegt...

Takk fyrir að benda á þetta

Jónína Dúadóttir, 7.9.2008 kl. 10:29

2 Smámynd: Huld S. Ringsted

Þekki þetta nokkuð vel þar sem eldri dóttir mín (13 ára) varð fyrir ljótu einelti í sínum gamla skóla og er enn verið að hjálpa henni að yfirstíga þunglyndið og óöryggið. Það gengur hægt og þurfum við í rauninni að vera vakandi alla daga yfir hennar líðan. Það sorglegasta við þetta allt saman er að það voru ekki bara krakkar í skólanum sem voru gerendur heldur líka tveir kennarar, allt vegna hennar fötlunar.

En það sýnir manni hvað einelti er skelfilegur hlutur þegar 10 ára gamalt barn vill bara deyja en sem betur fer er sú hugsun ekki lengur til staðar.

Takk fyrir góðan pistil.

Huld S. Ringsted, 7.9.2008 kl. 10:35

3 Smámynd: M

Hræðilegt að þetta skuli eiga sér stað.

M, 7.9.2008 kl. 11:01

4 Smámynd: Anna Guðný

Ég á líka 10.ára barn sem vill bara deyja. Það hefur gengið betur nú í sumar en síðasti vetur var ekki góður. Einelti er ekki bara stríðni, heldur líka afskiptarleysi og það að leika við flesta alla í bekknum nema.....það er oftar sem hann hefur orðið fyrir því.

Einelti hefst yfirleitt vegna öfundar og/eða vanlíðunar gerandans, við þurfum öll að vera á varðbergi gagnvart okkar nánustu og okkur sjálfum. Ég efast ekki um að báðum drengjunum hafi liðið illa. Gerandanum og þolandanum.

Mikið brá mér þegar ég las þetta. Dóttir min lenti nefninlega í þessu þegar hún byrjaði í 4. bekk í nýjum skóla. Allir tóku vel á móti henni, nema einn. Hann pikkaði á henni allann veturinn. Ekki tókst að stoppa það en hann hætti svo sjálfur eftir veturinn og þau eru ágætis félagar í dag. En ég er viss um að þetta var sama ástæða, honum fannst henni ganga betur að aðlagast hópnum en honum hafði gengið þegar hann byrjaði í skólanum.

Takk fyrir að deila þessu með okkur Jóhanna.

Hafðu það gott í dag ljúfan

Anna Guðný , 7.9.2008 kl. 11:18

5 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Einelti er ógeðslegt.

Ég hef verið þolandi í eiginlegu einelti þegar ég var yngri - sem ég sætti mig bara við. Þetta virtist víst bara að eiga að vera þannig að allir gátu sagt nei við mig þegar þeim hentaði og ekki gert þetta því mig langaði það o.s.frv. en það er bara pínu einelti. - Hef líka lent í verra sem ég tala ekki um hér, veit ekki hvort það er kallað einelti, en það var skelfilegt!
Mér hefur verið kennt um einelti, en það er bara engan veginn einelti þegar ég get ekki ráðið yfir mæðrum annarra sem segja að það mega ekki koma fleiri krakkar en þetta......

Sagan af drengnum þínum og gerandanum er hrikaleg Jóga mín. En sjáðu til, hvor stendur í báðar lappirnar í dag? Er það ekki sonur þinn?

Eigðu góðan sunnudag

Róslín A. Valdemarsdóttir, 7.9.2008 kl. 11:53

6 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Einlæg og falleg færsla Jónína mín, gott að sonur þinn hafði kjark til að segja þér frá þessu. Eflaust hefur maður gert eitthvað sem maður átti ekki að gera er yngri var, en einelti verður að uppræta, og vonandi verða þessi samtök líf án eineltis til þess að hjálpa til með það ásamt okkur öllum.
Kærleik til þín Jónína mín.
Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 7.9.2008 kl. 15:35

7 Smámynd: Sunna Dóra Möller

! Einlæg færsla og fær mann til að hugsa aftur.....bíst við að flestir eigi reynslu af einelti af einhverju tagi í lífsreynslubankanum, annað hvort sem gerendur eða þolendur! Ég á sjálf reynslu af einelti sem þolandi og það var ekki gott og býr með manni alla tíð að heyra það reglulega á viðkvæmum árum að maður sé ekki nógu góður! Einelti er ofboðslega ljótt og á hvergi að líðast, verst að þetta er til líka í heimi fullorðinna!

...til þín! 

Sunna Dóra Möller, 7.9.2008 kl. 16:46

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Takk fyrir athugasemdirnar, það er rétt Sunna þetta líðst líka í heimi fullorðinna - man eftir slíku á vinnustað þar sem ég var að vinna. Þar voru nokkrar konur sem grættu aðra og voru virkilega andstyggilegar við hana. Ég vissi aldrei hvað það var sem þær gerðu, en horfði á þetta úr fjarska.

Takk Milla mín  vonandi gengur Ingibjörgu vel að safna með sér liði.

Þekki þína sögu Róslín, "einelti er ógeðslegt" eins og þú segir. Sæt nýja myndin af þér!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 8.9.2008 kl. 06:15

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Anna Guðný og Huld, mann setur hljóðan þegar hugsað er til þess að 10 ára börn sjái ekki aðra undankomuleið en dauða. Miðað við þessar fáu athugasemdir sem ég hef fengið, sé ég þó að flestir hafa reynslu eða hafa sjálfir lent í einelti og þess mikilvægara að spyrna fast við fótum og uppræta.

M og Jónína - já, þetta er hræðilegt og beinlínis lífshættulegt, það er rétt.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 8.9.2008 kl. 06:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband