Föstudagur, 19. janúar 2007
Útför Danna frænda og Jóhann Friðgeir
Í dag fór fram útför móðurbróður míns, Kristjáns Kristjánssonar sem kallaður var Danni. Ég ætla ekki að orðlengja mikið um það hér, - en það sem var sérstakt við útförina var að þetta er í fyrsta skipti sem ég fer í útför þar sem enginn kór syngur. Jóhann Friðgeir söng öll lögin og voru þetta í raun eins og einsöngvaratónleikar. Hann gerði þetta einstaklega fallega og finnst mér hann skara fram úr Kristjáni Jóhannssyni maðurinn. Að vísu hef ég aldrei "fílað" KJ en það er önnur saga.
Danni var feginn hvíldinni og engin ástæða til að gráta hann, en þegar Jóhann Friðgeir söng Ave María spruttu tárin fram á fleirum en mér.
Ég þakka Danna fyrir að bjóða mér á þessa líka "tónleika," þar sem við fengum meira að segja að hlýða á Hamraborgina háu og fögru!
Læt hér gossa minningargrein sem ég skrifaði um þennan bróður mömmu, sem var svolítið sérstakur. Er í minningargreinaskrifum þessa dagana!
Minningarorð um Kristján Kristjánsson
Hvenær ætlarðu að kyssa mig bless ? spurði Danni frændi mig þegar ég var fimm ára gömul og brosti sínu stóra svolítið skakka brosi. Ég var feimin við þennan stóra og einlæga bróður mömmu minnar og sagðist ég ætla að gera það þegar ég yrði níu ára, því mér fannst það svo langt í burtu. Svo þegar ég varð níu ára kom að því að ég fór að kyssa Danna bless, enda rukkaði hann mig um það og var það bara ekkert til að vera feimin við! Danni gleymdi aldrei neinu.
Við systkinin umgengumst Danna mikið þegar við vorum börn, því mamma heimsótti ömmu, Danna og Huldu frænku næstum á hverjum laugardegi oftast með okkur í eftirdragi. Ég sá Danna sjaldnar og sjaldnar eftir því sem árin liðu. Danni var þó duglegur að fylgjast með okkur og sérstaklega Bjössa bróður meðan hann spilaði körfubolta með Fram, en Danni mætti á leiki hjá honum alltaf þegar hann hafði tækifæri og heilsu til.
Ég minnist þess þegar ég og dætur mínar tvær fórum á fögrum júlídegi í 75 ára afmælisveislu, að mig minnir, til Danna á Grund. Þá var búið að baka vöfflur honum til heiðurs. Hann var svo ánægður yfir þessari heimsókn, gekk með okkur mæðgur um allt og kynnti fyrir vistmönnum og starfsfólki.
Þegar við kvöddum Danna settumst við aðeins út í sólina og vorum staðráðnar í að vera duglegri að koma í heimsókn. Danni hafði nefnilega sérstaklega gaman af því að fá heimsóknir, og líka að segja frá því hverjir komu og hélt bókhald í huganum yfir það. Því miður var það eins og oft vill vera í þjóðfélagi hraða og veraldarvafsturs að gamlar frænkur og frændur eru sett aftarlega í forgangsröðina og aðeins heimsótti ég Danna einu sinni eða tvisvar eftir þetta.
Annað afmæli stendur einnig uppúr í minningunni, en það er áttræðisafmæli Danna en þá fylltist Rafveituheimilið af gestum úr öllum áttum, en þar voru komnir ættingjar, gamlir samstarfsmenn, Framarar, starfsfólk Grundar o.fl. o.fl., fólk sem þótti vænt um þennan einlæga og góða mann sem vildi heiðra hann með nærveru sinni. Danni ljómaði af stolti þann dag.
Í huga mér og annara ættingja er þakklæti til þeirra sem sinntu Danna vel þegar á Grund var komið. Hugurinn leitar til þeirra sem mest sinntu honum og langar mig sérstaklega að nefna Kristján frænda, sem sýndi Danna mikla ræktarsemi, og síðan er mikilvægt að nefna Höllu frænku. Ég þakka líka fyrir hönd móður minnar en henni var umhugað um að ég skrifaði til minningar um Danna og þótti henni vænt um bróður sinn, en heilsu sinnar vegna hefur hún lítið treyst sér í heimsóknir.
Ég kyssti Danna bless í síðasta skipti þegar hann lá á spítala og var orðinn mjög lúinn á heilsu. Ég hélt í stóra höndina hans og þúsund hugsanir flugu um hugann. Fyrst frá Háaleitisbraut, síðan Búðargerðinu og nú síðast frá Grund.
Danni er nú kominn aftur heim til Ömmu og Huldu frænku og vonandi hafa þau nú enska boltann eða a.m.k. góðan Framleik í sjónvarpinu í himnaríki.
Blessuð sé minning Danna frænda.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir
Athugasemdir
Fallegt hjá þér
Friðrik og Rúrý
J Friðrik Kárason (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 15:58
Mjög falleg minningargrein. Ég samhryggist ykkur. Kær kveðja, Ingibjörg
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 20.1.2007 kl. 14:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.