Fimmtudagur, 8. mars 2007
Klámlegsteinar ?
Ég vann í tæp tvö ár hjá steinsmiðju sem seldi legsteina. Það gerðist nú margt og merkilegt þar. Það er nú einn atburður samt sem sló alla út. Fullorðin kona ásamt dóttur sinni kom mjög alvarleg í afgreiðsluna, Þessi saga virkar sem lygasaga en hún er það ekki: Konan sagði að legsteinninn sem nú væri kominn yfir manninn hennar liti út eins og svartur limur, því til sönnunar tók hún upp úr veski sínu mynd af titrara. Ég var svo lánsöm að vera stödd annars staðar í versluninni því að sú sem lenti í að afgreiða mæðgunarnar (dagfarsprúð kona) þurfti að hlaupa fram á gang til að hleypa út innbyrgðum hlátri. - Steinninn var klassískur blágrýtisstuðlabergssteinn. Miðað við það er víst rétt að vara viðkvæma og ung börn við að ganga um kirkjugarða Reykjavíkur því þar úir og grúir af klámi (sko miðað við þetta).
Mér datt þetta nú í hug eftir að "klámforsíða" Smáralindarbæklingsins kom í umræðuna. Sjálf hafði ég ekki kveikt á þessu "klámi" en vissulega þegar farið var að benda á ýmsar samlíkingar þá fóru að kvikna ýmsar hugsanir en æi ... Hmmm... Sumir segja að fyrirmyndin sé Lína Langsokkur - stelpan minnir vissulega á hana nema ég held að Lína hafi gengið í þægilegri skóm og hentugri fyrir sinn aldur.
Ég er nú svo græn að ég vissi ekki að Bóbó bangsi væri tákn fyrir klám, hvað þá unginn Engilráð sem talar um kærleikann í sunnudagaskólanum! Hún er í leikfangahrúgu stúlkunnar á myndinni - Það sem ég hef í raun mun meiri áhyggjur af en þessari forsíðu er innihald bæklingsins generalt! Brúnkusprey og neglur fyrir ferminguna - rafrænt gjafakort fyrir fermingarbarnið. Er þetta ekki bara mesta klámið og ruglið ?
Ég man eftir (nú hljóma ég eins og hundraðogeinsárs) þegar talað var um að komast í fullorðinna manna tölu. Því held ég að eðlilegast sé að færa fermingaraldur til "fullorðinsára" eða 18 ára, þegar fólk er í raun og veru að komast í fullorðinna manna tölu. Það sé einföld athöfn þeirra sem það kjósa og hafa vit og þroska til að leitast við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns og ekki allt þetta kaupæði og rugl í kringum það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.