Föstudagur, 7. mars 2008
Úti er alltaf að snjóa ... ekki gráta elskan mín, þó þig vanti ...
Ég hef á tilfinningunni að þessi vetur verði endalaus .. kíki daglega inn á heimasíðu dótturinnar sem býr þessa stundina í Texas - á leið að flytja til Flórída - þar sem hún er að skreppa í blak á ströndinni eða lýsa hitastigi sem er yfirleitt milli 20 og 30 gráður. Annars varð víst uppi fótur og fit hjá Texasbúum í gær því það féllu 3 snjókorn eða kannski rúmlega. Henni fannst uppnám þeirra svolítið fyndið, enda vön íslenskri veðráttu.
Já úti er alltaf að snjóa, mig vantar enn sykur, kaffi og brennivín í mitt líf .. en ætla ekkert að gráta það! ... Hélt ég væri að smitast af flensu húsbóndans í gær, en snéri vörn í sókn og fór í afneitun. Er að vona að hugurinn sé nógu sterkur til að bægja þessum fj... burtu. Og svo auðvitað heilsusamlega lífið. Fæ mér regluleg engifer til forvarna. Hef tröllatrú á því. Bjartsýni lengi lifi! ...
Jæja, mér er ekki til setunnar boðið hér heima, þarf að koma prinsinum (fyrrv.fimmáring) í leikskólann og mér sjálfri auðvitað líka til vinnu. Ákvað að breyta honum í prins þar sem hann er auðvitað ,,le petit prince" okkar hér. Fylgir honum mikil sól og mikið bros.
Heyrðu, by the way ...eigðu dásamlegan dag í snjónum!
Lausleg þýðing:
Maður sér ekki vel
nema með hjartanu.
Hið mikilvæga
er ósýnilegt
með augunum.
Litli prinsinn.
Athugasemdir
Var einmitt að hugsa um þennan snjó/kommu. Þetta er farið að minna mig á heimskautaveturspárnar sem áttu að fylgja kjarnorku stríðum. Í dag spá menn hlýskeiðum en við fáum snjóskeið. kv með snjóbrosi.
Valdimar Samúelsson, 7.3.2008 kl. 08:54
Góðan dag til þin líka Jóhanna mín. Já snjórinn það er nóg af honum þessa dagana. Þú stendur þig rosalega vel.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.3.2008 kl. 09:46
Já maður er eiginlega kominn búinn að fá nóg af þessari samfelldu vetrartíð. Oft hefur mig langað til útlanda í páskafríinu, en aldrei eins og núna. Var bara allt of sein að bóka far, því miður .
Kaffi, vín og sykur eiga það sameiginlegt, að vera gott í hófi, en afleitt í óhófi. Ég er svo heppin að eiga auðvelt með að stilla vín- og kaffidrykkju í hóf, en sykurinn hins vegar tætir og tryllir átfíkilinn minn. Þess vegna sleppi ég honum alveg - og líður mun betur.
Laufey B Waage, 7.3.2008 kl. 10:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.