Laugardagur, 15. mars 2008
Dymbilvika hefst á Pálmasunnudegi og hvað er svo dymbill ? ..
Ég heyrði skýringuna á orðinu dymbill þegar ég var að ljúka guðfræðinámi og var stödd í starfsþjálfun á Eiðum og verið var að útskýra það fyrir fermingarbörnum. Mér fannst ég nú svolítið ,,græn" að hafa ekkert hugsað út í þetta fyrr, en maður lærir svo lengi sem lifir. Sú skýring sem ég fékk á fermingarnámskeiði barnanna var að skipt hefði verið um kólf í kirkjuklukkunni og sá kólfur héti dymbill því það kæmi daufara/mildara hljóð úr þessum kólfi.
Annars er hér nánari útskýring sem sr. Sigurður Ægisson tók saman á Vísindavefnum. (aðeins stytt)..
Síðasta vikan fyrir páska hefur í tímans rás gengið undir ýmsum nöfnum. Þar á meðal eru dymbildagar, dymbildagavika, dymbildægur, dymbilvika, efsta vika, helga vika, helgu dagar, kyrravika, píningarvika og páskavika.
Úr vöndu er að ráða, þegar leita á skýringa á nafngiftinni dymbilvika. Sennilegast er talið að hún sé dregin af einhverju áhaldi, sem kallað var dymbill og notað var í kaþólskum sið við guðsþjónustur undir lok sjöviknaföstu. Í umræddri viku deyfðu menn öll ljós og hringdu ekki klukkum.
Eftirfarandi tilgátur hafa komið fram um hvað þessi dymbill var:
- Klukkukólfur, vafinn tuskum í því skyni að dempa hljóminn.
- Trékólfur, settur í kirkjuklukku í stað málmkólfs (samanber framannefnt).
- Barefli til að lemja kirkjuklukkurnar utan.
- Ljósastjaki, er stóð á kirkjugólfi og var notaður í stað ljósahjálms.
- Áhald til að slökkva á kertum (samanber þýska orðið Dümpfel).
- Einhvers konar handskella úr tré, notuð í stað málmbjöllu við guðsþjónustur á umræddum dögum.
Jón Grunnvíkingur ritar orðið dynbildægur og skýrir það á eftirfarandi hátt: Nætur og dagar, þegar hlé er á hávaða, eða með öðrum orðum þegar dynur bilar. Hann bætir við að það sé einnig notað í almennu tali um óróatíma, myrka, og að nokkru skelfilega.
Þá segir Ásgeir Blöndal Magnússon í Orðsifjabók sinni að orðið dymbill sé oftast talið skylt dumbur (þögull, mállaus, hljóðdaufur), en gæti eins verið í ætt við demba og dumpa, og eiginleg merking þá: slagkólfur.
Árni Björnsson þjóðháttafræðingur, sem ritar um þetta langt mál í Sögu daganna, fullyrðir að þrjár fyrstu hugmyndirnar sem nefndar eru hér að ofan megi afskrifa snarlega. Orðrétt segir hann:
Að vísu hefði ekki verið eins illframkvæmanlegt að vefja kólfinn og skipta um kólf, en báðar þessar tilgátur eru út í hött þegar af þeirri ástæðu að klukkurnar áttu að steinþegja á þessum dögum. Sama er að segja um þá aðferð að berja klukkur utan eins og alþekkt er til dæmis á Gotlandi. Slíkt var víðar gert við jarðarfarir, en ekki í dymbilviku, alltjent ekki á miðöldum. Auk þess er ekki vitað að neitt sérstakt áhald sé notað til þess arna, heldur venjuleg barefli úr tré eða hnöttóttir steinar sem tuskum var stundum vafið um til að deyfa hljóðið. (bls. 635)
Hvort sem orðið dymbill er hljóðlíking við latneska orðið tinnibulum eða skylt orðinu dumbur, verður að teljast líklegast að það eigi upphaflega við trétól þau sem notuð voru í staðinn fyrir klukkur og málmbjöllur á sorgardögum kirkjunnar vegna píslarsögu Jesú Krists. Hin hljómrænu umskipti í guðsþjónustunni á þessum dögum þykja ætíð mjög áhrifamikil og eftirminnileg og hefðu hæglega getað gefið dögunum alþýðlegt nafn.
Eflaust hefur einnig þótt eftirminnilegt í guðsþjónustunni á dymbildögum þegar slökkt var á stórum kertastjökum með sérstakri viðhöfn. Við siðaskiptin hurfu tréskellurnar vitaskuld með öllu, en ljósastjakarnir hljóta að hafa verið nýttir eftir sem áður, hvort sem haldið var áfram að slökkva á þeim eftir gömlum kúnstarinnar reglum eður ei. Það er því engan veginn útilokað að nafnið dymbill hafi færst af tréskellum yfir á ljósastjaka. (bls. 635)
- Árni Björnsson. Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning, 2000.
- Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans, 1995.
Athugasemdir
Takk fyrir þennan fróðleik. Maður hálf skammast sín fyrir að hafa ekki vitað þetta fyrr.
Laufey B Waage, 15.3.2008 kl. 10:04
Var búin að frétta þetta og gleyma því líka Ég hlakka til páskanna.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.3.2008 kl. 11:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.