Laugardagur, 5. apríl 2008
Við verðum í sippubandi.... húmor mömmu á (82.aldursári)
Ég hringi á undan mér og segi að ég komi eftir 20 mínútur. Þegar ég kem keyrandi að blokkinni er hún komin niður. Sest inn í bílinn og við ákveðum hverst skal fara, sem er yfirleitt í Hagkaup Skeifunni.
Hún er svolitið áhyggjufull því einhverjir ,,kallar í húsinu hennar" vilja fara að byggja bílskúra, en hún hún og aðrar konur í húsinu eru á móti þessum bílskúrsbyggingaáformum og því verður sko mótmælt á næsta húsfundi sem er í bígerð. Þetta mál hefur alla burði til að verða eitt þeirra mála sem móðir mín á eftir að missa svefn yfir, og hafa þau verið nokkur á undanförnum árum.
Á leiðinni leiðbeinir hún mér við aksturinn og finnst ég stundum vera að keyra eitthvað rangt. Hún vildi beygja inn á bílastæðið við Office One, en ég sting upp á að við keyrum örlítið lengra og beygjum þá til hægri. Við leggjum og göngum inn í Hagkaup, mamma stjórnar kerrunni og finnst gott að styðja sig við hana. Um leið og hún er komin með kerruna er hún orðin hættuleg. Keyrir yfir hámarkshraða og ég er á vaktinni að grípa inní ef fólk er framundan. Ég lít við í varalitarekkanum og þá er mamma horfin, komin framhjá álegginu, 1944 og öllu! Komin að jógúrtrekka og er að raða í kerruna. Ég spyr hvort hún vilji ekki kaupa rétti til að setja í örbylgjuna, ,,ha á ég að kaupa kerti" spyr hún, en heyrnin er ekki alveg nógu góð. Ég vil hún kaupi 1944 en hún segir það óþverra, hún vill bara hafgragraut sem hún getur sett í örbylgjuna.
Við komum að ísfrystikistunni og þar eru ísblómin hennar mömmu sem eru hennar uppáhaldsblóm. Það eru ekki til allar sortir - sem gerir hana ekki alveg nógu glaða. Hún finnur að vísu einn Cappuchino ísblómspakka og vill grafa undir hina til að vita hvort að hún finni ekki fleiri. Við látum nægja nokkra jarðarbjerja og Dajm. "Jæja, ég þarf ekkert meiri mat" segir hún. Mig vantar bara ný gleraugu." Ég fæ hana til að kaupa smá meira en ekki nóg. Mamma er ekki fyrir að eiga of mikið, samt á þetta að duga í viku!!.. Einn kleinupoki fær náðarsamlegast að fara í kerruna. Hún er ánægð á kassanum að innkaupin eru undir fimmþúsundkrónunum, því síðast fóru þau upp undir tíuþúsundkallinn.
Við komum við í gleraugnabúðinni og indæl stelpa finnur gleraugu við hæfi og gerir við gömlu gleraugun ókeypis. Yfir því var mamma glöð og fannst þetta mjög góð ferð.
"Jæja, nú verð ég í rólegheitunum á morgun." Á morgun vill hún hvíla sig, búin að vera í miklu fjöri í dag. Hulda systir hafði komið í heimsókn til hennar með föt úr hreinsun og gefið henni handsnyrtingu. Ég býð henni í hádegismat á morgun, en hún segist eiga mat til að borða í hádeginu en ekki um kvöldið. Ég spyr hvort hún vilji þá ekki bara borða sinn hádegismat um kvöldmatarleitið, en ,,nei - það er eiginlega ekki hægt" .. Þetta þýðir að hún VILL koma í kvöldmat og er að reyna að stýra því! Ég er frekari og ,,múta" henni með því að ég bjóði Evu líka og hún hafi gaman af því að hitta hana og langömmustrák. Okkur semst að ef Eva kemur komi hún, annars komi hún ekki neitt! .. Ég fer upp með henni með matinn, en hún vill helst losna við mig strax að því loknu. Ég kveð og segi, ,,jæja mamma mín, við verðum í bandi" hún brosir og segir ,,í sippubandi" og hlær.
Mamma min er algjör dúlla...
Athugasemdir
Mér finnst þetta svo yndisleg og hlý færsla. Sönn, vegna þess að þarna finnst ég mér skrifarinn lýsa kærleik sem er stokkfullur af umburðarlyndi. Þú ert greinilega þroskuð kona.
Takk fyrir mig. Yndislegt.
Jenný Anna Baldursdóttir, 5.4.2008 kl. 20:33
Skemmtileg færsla, kannaðist aðeins við lýsinguna þar sem þetta gæti verið ég að lýsa innkaupaferð með mömmu minni þessar mömmur eru dúllur
Huld S. Ringsted, 6.4.2008 kl. 11:21
Þú ert frábær Jóhanna mín, og mamma þín líka
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.4.2008 kl. 14:41
Já gaman að lesa svona frásögn. Mamma þín er alveg yndisleg og hefur góðan húmor:)
Gunna Lilja (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 18:16
Takk elskurnar!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 6.4.2008 kl. 20:10
Oh yndislegt. Ég bið að heilsa frú Völu nöfnu minni og bið þig að gefa henni stórt knús frá mér.
Valgerður (á Grettó)
Valgerður (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 18:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.