Mánudagur, 14. apríl 2008
Hugrenningatengsl við gömul skrif..
Þegar ég sá þessa frétt datt mér í hug grein sem ég skrifaði og birtist í Morgunblaðinu 6. júní 2002 - en þar ber ég saman hollustu líkamlegrar og andlegrar fæðu. Það var í raun ekki ástæðan fyrir skrifum mínum, að tala um mat, heldur var greinin hvatning til að leita sér andlegrar fæðu. Ég var sjálf í guðfræðinámi á þessum tíma og var að hvetja fólk til að kynna sér námið.
Hér kemur greinin óbreytt:
Verðum við einhvern tíma stór?
Ég var sjálfboðaliði á námskynningu um andlega fæðu í guðfræðideild Háskóla Íslands, en þar er ég nemandi. Það vildi svo skemmtilega til að þessi kynning var sama dag og ég var að fræða börnin í kirkjunni um hollt veganesti. Á námskynninguna kom fólk sem er að klára stúdentspróf og einnig þau sem langar að bæta við sig, sum eftir langa fjarveru frá akademísku námi. Ég segi akademísku, því alltaf erum við stödd í þessum margumrædda skóla lífsins.
Það er mat flestra næringarfræðinga að hollast sé að fá fæðu úr sem flestum fæðuflokkum. Það er reynsla mín að nám í guðfræðideild bjóði upp fjölbreyttan fróðleik úr ólíkum áttum, m.a. : siðfræði, heimspeki, trúfræði, trúarbragðafræði, uppeldisfræði, sögu, félagsfræði, söng, sálfræði, tungumál, bókmenntir, mannfræði, kvennafræði o.fl. o.fl.
Í raun eigum við öll erindi í guðfræði! Samsetning nemendahópsins er nám út af fyrir sig. En allt erum við leitandi fólk, fólk sem hungrar í fróðleik. Sum okkar hafa lesið Biblíuna, önnur aldrei opnað hana. Það er afskaplega gefandi að vera í námi hvert með öðru, karlar og konur, ungir og aldnir, trúuð og vantrúuð og allt þar á milli. Því við miðlum hvert öðru, m.a. eftir reynslu okkar, aldri og kyni.
Það er gott að vera í guðfræðideild. Þar er tekið vel á móti þér þegar þú hefur nám í deildinni - með kaffi, brauði og kökum. Þar mæta kennarar, skrifstofustjóri og nemendur saman. Deildin hefur einnig kaffistofu þar sem við skiptumst á skoðunum og Félag guðfræðinema býður upp á blómlegt félagslíf. Þá er bara þitt að taka þátt.
Starf að loknu námi
Þú getur viljað starfa innan kirkjunnar, við fjölmiðla, kennslu, fræðimennsku, bókmenntarýni, ráðgjöf, liðveislu, starfsmannahald og í raun er menntun í guðfræðideild góð undirstöðumenntun eða hlekkur í menntun fyrir svo margt."Hvað á ég að verða þegar ég er orðin/n stór" er stór spurning, og undirliggjandi er alltaf önnur spurning: "Hver er ég núna?" Erum við ekki alltaf að leita að sjálfsmyndinni? Verðum við einhvern tíma stór? Í Biblíunni stendur að við séum sköpuð í Guðs mynd, hver er Guð? Enn er stórt spurt, en hver veit nema þú getir nálgast svarið í námi við guðfræðideild Háskóla Íslands?
.. Jamm og já og þarna lauk greininni. Ég kláraði s.s. embættispróf í guðfræði, með starfsþjálfun og alles ,,á gamals aldri" eignaðist yndislegar vinkonur og vini. Fór í frábæra kúrsa þar sem ég fór svolítið að fatta sjálfa mig og tilveruna. Ekki hef ég tekið vígslu sem prestur, þó ég hafi tilskylda menntun, en kannski verð ég það þegar ég er orðin stór!
Veit ekki hvort einhver nenni að lesa þennan helling :) .. eigið góðan dag!
Skyndibiti með barnaefninu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég las þennan "helling" með ánægju og hafði af þessu bæði gagn og gaman
Jónína Dúadóttir, 14.4.2008 kl. 10:27
Knús á þig Jóhanna mín
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.4.2008 kl. 13:48
Knús á ykkur Jónína og Ásthildur Maður/kona fær víst seint nóg af knúsum!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 14.4.2008 kl. 14:11
Takk fyrir þessa grein hún var góð.
Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 14.4.2008 kl. 19:38
Góð grein. Hún hlýtur líka að hafa verið dýrmæt fyrir lesendur mbl. Og fræðslan dýrmæt fyrir börnin í Víðistaðakirkju. Og vonandi á þessi menntun þín eftir að gagnast - ekki bara þér sjálfri, heldur líka sem flestum úti í samfélaginu. Það er aldrei of mikið af vel hugsandi og vel meinandi Guðfræðingum.
Laufey B Waage, 14.4.2008 kl. 21:51
Góð grein takk fyrir góða nótt
Brynja skordal, 15.4.2008 kl. 01:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.