Einstaklingsmiðaðir matseðlar í skóla ?

  1. Verkefni í fjarnámi mínu í Kennó
 
  1. Kallað er til fundar þar sem lokið hefur verið við byggingu eldhúss í skólanum og nemendum stendur til boða að fá heita máltíð í hádeginu. Tilkynna á verð, fyrirkomulag og aðra þætti tengda skólamáltíðum. Kennari/skólastjóri kynnir þessa þætti.
  Eins og þið hafið kannski orðið vör við í gegnum börnin ykkar  hefur verið óvenju mikið um hóflega drukknar mýs hér í gamla skólaeldhúsinu og því var ákveðið að rífa það og byggja nýtt.   Þar sem skólinn okkar er einstaklingsmiðaður fjölmenningarlegur skóli og tekur mið af fjölgreindarkenningunni höfum við komist að eftirfarandi niðurstöðu:  Í fyrsta lagi gera nemendur sína eigin matseðla, hver matseðill verður því einstaklingsmiðaður.  Matseðilinn útbúa þau  með aðstoð kennara sem einnig hjálpar þeim við að gera sjálfstæða námáætlun. Þau miða matseðilinn við nýja kenningu sem heitir fjölbragðlaukaakakenningin og tekur tillit til þess að börnum þykir ekki alltaf það sama gott og ekki er öllum það sama hollt.  Sumum finnst gott grænmeti – öðrum finnst það vont, sumir borða kjöt aðrir borða alls ekki kjöt og svona má lengi telja.  Til að aðstoða okkur við að greina þol nemenda fyrir hinum ýmsa mat höfum við fengið Gunnfríði Waage til að meta þau í jóníska mataróþolstækinu og fá þau öll útprentun á því sem þau ekki þola.   Við munum fá De danske vægtkonsulanter til að aðstoða þau börn sem eru í yfirþyngd og munu þau börn fá sérstaka aðstoð við að ákveða skammtastærð. Nemendur verða síðan vigtaðir í vikulok og fá niðurstöður á blaði. Þau sem eru ósátt við niðurstöðutölu sína á vigtinni geta sent inn sjálfsmat þar sem þau greina frá því hvað þau lögðu á sig og þá getur verið að hjúkrunarfræðingur skrifi lægri/hærri tölu á blað eftir því sem við á.  Nemendur koma einnig til með að velja sér áhöld til snæðings. Prjóna, gaffla og hnífa eða guðsgafflana, því við viljum ekki hindra þau á einn né annan hátt og þá er verið að taka tillit til fjölgreindarkenningar Gardners og útfærslu á námsstílakenningu Dunnn & Dunn sem kallast átsstílskenningin. Þau sem óska mega einnig teikna-mála eða leira matseðil vikunnar.  Nú spyrjið þið ykkur örugglega, kæru foreldrar, hvernig hægt er að ná að elda samkvæmt sérþörfum hvers og eins. Jú, eins og þið hafið kannski orðið vör við kvarta kennarar mikið yfir launum sínum. Við höfum því samið við þá að vinna í eldhúsi í hádeginu þar sem þeir aðstoða matráðinn við eldamennsku og skömmtun. Eldhúsið er einnig með því tæknilegasta á landinu og í mörgum tilfellum er hægt að ýta á takka og koma út næstum tilbúnir.  Nemendur munu einnig taka þátt í eldhússtörfum og er þá komin samkennsla heimilisfræðikennara og t.d. stærðfræðikennara sem reiknar út skammtastærðir o.fl.   Verðið á máltíðunum verður einnig einstaklingsmiðað og reiknar hver nemandi út verð á sinni máltíð, en til þess fær hann ákveðna formúlu sem kennari mun aðstoða með. Einnig munu nemendur reikna út kaloríuinntöku, en hún er jafnframt einstaklingsmiðuð.  Skólayfirvöld Bakkabræðraskóla vona síðan að þetta gangi allt upp og leggja þetta, hér með  í hendur æðri máttarvalda.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

um hvað var þetta verkefni eiginlega???

maja

María Hjálmtýsdóttir (IP-tala skráð) 31.10.2006 kl. 18:42

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Hó.. verkefnið var í framsögn, og við áttum að "þykjast" vera skólastjórnendur og fjalla um að verið væri að byggja nýtt skólaeldhús (eins áhugavert og það er !!) Þess vegna bullaði ég þetta bara.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 5.11.2006 kl. 09:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband