Fimmtudagur, 15. maí 2008
Bloggvinkonudraumur! ....
Mig dreymir alveg svakalega mikið. Stundum eru mörkin draums og vöku óskýr hjá mér og stundum dreymir mig nákvæmlega það sem gerist daginn eftir, ekkert táknrænt eða slíkt, ef mig dreymir að nágranni minn sé að mála með hvítri málningu þá er það allt eins líklegt að næsta dag sjái ég hann í málningargallanum með fötu af hvítri málningu, þannig er það nú. Það er víst kallað að dreyma fyrir daglátum án þess að ég fari nánar útí það í þessari færslu.
Nýlega dreymdi mig tvær bloggvinkonur - dreymdi að ég var að bjóða þeim í mat á aðfangadagskvöld. Þetta eru konur sem ég hef aldrei hitt í eigin persónu en sem eru báðar mjög sterkir karakterar, en það er nú hægt að skynja í gegnum blogg! Ég skráði drauminn niður strax morguninn eftir að mig dreymdi hann og ætla að birta hann hér. Ef einhver er draumspakur eða spök þá má hann/hún alveg leggja fram ráðningu, annars er þetta kannski eins og hvert annað rugl! Í draumnum kalla ég þessar bloggvinkonur A og B.
Draumur minn aðfararnótt 13. maí 2008
Aðstæður:
Vetur (aðfangadagskvöld) bjó í stóru gráu steinhúsi með mörgum herbergjum og tveimur hálfgerðum sólstofum, einni að framan og einni bak við hús. Fannst umhverfið vera í Þingholtunum, nálægt Bergstaðastræti eða Laufásvegi og út um bakgluggann sá ég brekku og snjó. Önnur sólstofan var með opnum glugga með engu gleri og þar hugsaði ég að ég myndi kannski leyfa að reykja. (Er algjör fanatíkus á reykingar..)
Fannst mamma og bróðir minn hafa farið og keypt jólatré. Jólatréð var vægast sagt gisið með örfáum greinum og bara í aðra áttina. Samt mjög dökkgrænt og þær greinar sem voru til staðar þéttar. Mamma var þarna en var á miðjum aldri í draumnum. Systkini mín voru þarna og jafnvel samt mágkona (gift elsta bróður). Búið var að stilla upp tveimur eða þremur borðum til að sitja á og ég var ekkert sátt við skiptinguna, vildi hafa öll borðin saman svo hópurinn myndi ekki skiptast upp. Ég lét fjölskylduna vita (eða þau vissu það) að ég væri búin að bjóða tveimur konum sem bjuggu úti á landi (ásamt fjölskyldum) að borða með okkur á aðfangadagskvöld. Bloggvinkona A og B sem ég aðeins þekki í gegnum bloggvináttu! Fjölskyldan samþykkti hljóðlaust en ég fann að þau voru ekkert í skýjunum yfir þessu uppátæki, en vön ýmsu skrítnu frá mér og mjög kurteis fjölskylda.
Við höfðum raðað pökkum í kringum jólatréð og ég hafði útbúið pakka fyrir A og B. Sérstaklega man ég eftir pakka til B, en ég skreytti hann með einhverju hvítu netskrauti. Ferkantaður pakki, mynd eða bók, ekki viss.
A og B mættu með eitthvað af börnum og maður B kom með. Mér fannst A ekki koma samferða sínum manni en allt í einu var hann kominn. Ekki eins og maðurinn var á myndunum á blogginu, heldur rauðhærður, með örlítið liðað hár og ljós yfirlitum. Hann settist aldrei við matarborðið, heldur sat á bekk til hliðar. Var frekar óþægilegur.
B var eldri í draumnum en ég ímynda mér hana eða á myndum og var ég frekar hissa. Hún var með grátt hár klippt beint rétt fyrir neðan eyrun, hálfgerð Prins Valiant klipping. A var með yngra andlit en hún er í dag, næstum stelpulegt, mjög grönn að ofan en mjaðmamikil! J .. Var í brúnum bómullarkjól með mynstri, kannski svolítið hippó. Við borðuðum öll matinn og ég leitaði að plötum til að spila því það var vandræðaleg þögn. Það voru plötur en ekki dvd diskar og mér fannst líka vera þarna gamall grammófónn. Ég leitaði sérstaklega að plötu með bláu umslagi og fannst vera orgeltónlist þar í, en man ekki hvort ég fann hana. Ekki voru opnaðar gjafir í boðinu, en gestirnir höfðu ákveðið að opna sínar gjafir heima og tóku því engar með. Við ákváðum að opna okkar eftir að gestirnir færu.
Eitthvað var rætt að fara á skauta, því við horfðum á fullt af ungu fólki vera á skautum útum gluggann. Það óvenjulega var að það renndi sér niður brekku á skautunum, eiginlega eins og á skíðum.
B (og jafnvel einhverjir fleiri) fóru að reykja á meðan ég hafði skroppið frá og hafði einhver boðið henni að reykja út um glerlausa gluggann í sólstofunni. Ég var fegin því.
Draumurinn stöðvaðist við vekjaraklukkuna og furðaði ég mig á þessum draumi nú væri bloggheimur bara mættur inn í minn draumaheim! J
Tjah... svona getur nú margt verið að gerast á næturnar þegar maður/kona á að hvílast! ..
Athugasemdir
Hei hvaða bloggvinkonur eru þetta? Hví að pukrast með það?
Hm.. magnaður draumur.
B getur tæpast verið ég fyrst hún fór út að reykja. Moi hefði reykt framan í veislugesti (djók).
Knús í daginn.
Jenný Anna Baldursdóttir, 15.5.2008 kl. 09:16
He, he.. jú held að það sé allt í lagi en þær eru heiðurskonurnar A = Ásthildur og B = Huld!
Kv. J =Jóhanna
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 15.5.2008 kl. 09:28
Skemmtilegur draumur, ég þarf að lesa hann yfir betur, sýnist að þarna sé fullt af ábendingum, þarf að spá aðeins í þetta. Gaman að þessu Jóhanna mín. Ég reyki annars ekki, ekki í dag.
Knús á þig Jóhanna mín og takk fyrir að bjóða mér heim um jólin.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.5.2008 kl. 09:46
Vá mig dreymir stundum, en aldrei gæti ég skýrt svona greinilega frá eins og þú gerir... Mínir draumar eru líka oftast martraðakenndir svo ég reyni alltaf að gleyma þeim sem fyrst
Jónína Dúadóttir, 15.5.2008 kl. 09:49
... áttu við að þú hafir ekki dreymt mig? MIG? Ég sem er svo ljúfur og blíður.. isspizz. Ég sé ekki fram á annað en að ég verði að hætta við að hafa góðan dag því nú ert þú búin að skemmileggja það fyrir mér með draumaleysi í minn garð.
Gruna nú samt að stórar hræringar séu innan fjölskyldunnar, eitthvað sem hefur sterkt með þig að gera en vegna "sérvisku/sérstöðu" þinnar eru fæstir að sjá þína hlið á málum og eru jafnvel mjög ósáttir við breytingar. Um að gera að standa fast á sínu en útskýra málin frá öllum hliðum, lýsa öllu sem málið snertir eins vel og þú getur. Smáatriðin skipta stundum öllu máli. Hugsanlega eru tvær stórbrotnar manneskjur í fjölskyldunni sem eiga eftir að hjálpa þér - eða að þýðing á nöfnum bloggvinkvenna þinna muni sýna þér eitthvað því oft hafa nöfn heilmikið að segja í draumi.
Annars hvað veit ég? Ég er enginn draumráðningagutti, bara fúll að fá ekki sæti við jólaborðið addna. Segi bara eins og gamla kerlingin þegar hún dreymdi draum .. dreymi að hún.. nei það er víst best að geyma svona suppó til betri tíma. Málið er að kaupa sér draumaráðningabók og glugga í ana stelpuskott. Good luck ef draumurinn verður að veruleika í lok árs.. *glott* en svo sem ekkert að því að sitja uppi á jólunum með hvora drottninguna af hvorum fjórðungnum sko - þrátt fyrir að prinzinn vanti (lesist mig sko)!
Tiger, 15.5.2008 kl. 17:35
Hef alltaf dreymt mikið og margt sem rætist seinna, eftir að ég eignaðist samfélag við Jesú Krist varð allt mun skýrar, núna veit ég þegar draumarnir eru frá Guði og einnig sé ég sýnir og heyri greinilega rödd heilags anda. (sýnir er myndrænt eins og draumar en maður sér sýnir er maður er vakandi, oftast er maður biður fyrir fólki eða er á samkomu í lofgjörð.)
Þegar draumarnir og sýnirnar eru frá Guði þá veit ég oftast um leið hvað Guð er að segja inn í líf mitt og annarra. Postulasagan 2:16Hér er að rætast það, sem spámaðurinn Jóel segir: 17Það mun verða á efstu dögum, segir Guð, að ég mun úthella anda mínum yfir alla menn. Synir yðar og dætur munu spá, ungmenni yðar munu sjá sýnir og gamalmenni yðar mun drauma dreyma. 18Jafnvel yfir þræla mína og ambáttir mínar mun ég á þeim dögum úthella anda mínum, og þau munu spá.
Þetta er frekar nákvæmur draumur sem þig dreymdi og skipulagður, þannig að ég tel að þú sért þannig í eðli þínu og mikið fyrir heimilið, reykingar tilheyra meira þessu veraldarlega en hinu andlega, en hvort draumurinn þinn er frá Guði eða ekki hef ég ekki hugmynd um.
Árni þór, 15.5.2008 kl. 19:21
Hvað var klukkan égar þú vaknaðir
Árni þór, 15.5.2008 kl. 19:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.