Föstudagur, 24. október 2008
Stjörnuspeki og tilviljanir
Fór inn á stjörnuspekisíðu mbl.is og nú er komið upp tímabil sporðdrekans .. sem er "moi" .. Margt af þessu passar vel við mig (og reyndar líka fólk í öðrum merkjum) en feitletraði það sem hittir alveg í mark, en skáletraði það sem ég tel alls ekki passa.
Ég var að rabba við Róslín, bloggvinkonu mína, í gærkvöld á msn og sagði henni að það væri ekki að marka stjörnuspá, því að varla lifðu t.d. öll ljón samskonar lífi. En það má leika sér að þessu. Stundum get ég séð á fólki í hvaða merki það er, það er bara svoleiðis! .. Einu sinni hitti ég konu sem kom í svo skvísulegum rauðum stígvélum (að sjálfsögðu háklassa) og bar með sér ákveðinn þokka sem minnti mig á systur mína og mágkonu sem báðar eiga afmæli 3. janúar. Ég spurði hana hvort hún væri Steingeit, hún jánkaði því, en jafnframt hélt hún áfram: "Ég á afmæli 3. janúar" ... Tilviljun?
Sporðdrekinn
Árstími Sporðdrekans er mitt haustið. Á þessum tíma styttist dagurinn óðfluga og skammdegismyrkrið eykst. Gróðri hnignar, lauf eru fallin af trjám, frost sest í jörð og veður versnar. Fyrir Sporðdrekann er þessi tími mótandi og setur mark sitt á sálina. Hann er því heldur dulur og lifir töluvert í eigin heimi.
Tilfinningar
Sporðdrekinn er tilfinningaríkur og frekar varkár. Að öllu jöfnu virðist hann hægur og rólegur á yfirborðinu, en tilfinningar ólga oft undir niðri. Hinn dæmigerði Sporðdreki er kjarnyrtur og hreinskilinn og lítið fyrir yfirborðsmennsku. Þegar sagt er að Sporðdrekinn sé dulur þarf að hafa eitt í huga. Hann er næmur og tekur tilfinningar og líðan annarra inná sig. Hann heldur fólki því oft frá sér í varnarskyni. Hann vill kafa djúpt ofan í það sem hann tekur fyrir og er því lítið fyrir yfirborðskenndan kunningsskap eða samræður. En þegar hann er með fólki sem hann treystir fyrir tilfinningum sínum er hann alls ekki dulur. Þá er hann oft stjórnsamur og opinskár og á til að ræða hvað sem er. Sporðdrekinn getur því verið dulur og lokaður gagnvart ókunnugum, en að öðru leyti kjarnyrtur og opinskár.
Stjórnsemi
Sporðdrekinn er eitt af stöðugu merkjunum. Það táknar að hann er fastur fyrir og ósveigjanlegur í persónulegum stíl sínum og viðhorfum. "Nei, þetta geri ég aldrei," segir hann og verður ekki haggað. Þó hann geti virst rólegur á yfirborðinu er hann ráðríkur og stjórnsamur. Hann vill ráða, að minnsta kosti yfir eigin umhverfi og lífi.
Heilindi
Sporðdrekinn er skapstór og tilfinningaríkur og tekur ákveðna afstöðu með eða á móti mönnum og málefnum. Hann vill ganga heill að hverju verki, hvort sem er um vinnu, ást eða áhugamál að ræða. Hann er lítið fyrir hálfkák og vill komast til botns í hverju máli. Sporðdrekinn er því ekki maður sem á auðvelt með að skipta sér á milli margra ætlunarverka.
Einbeiting
Alvörugefni Sporðdrekans og þörf fyrir að komast til botns tengist öðrum persónuleikaþætti, sem er einbeiting. Hann hefur þann hæfileika að geta einbeitt sér að ákveðnum málum og útilokað umhverfi sitt og annað sem er óviðkomandi. Segja má að honum hætti til að fá einstök mál á heilann, svo jaðri við þráhyggju.
Kaldhæðni
Skopskyn Sporðdrekans birtist oft í beittum og kaldhæðnislegum athugasemdum. Hann á til að "stinga" með eiturbroddinum fræga þegar sá gállinn er á honum. Hann er því erfiður andstæðingur og vont að lenda í rimmu við hann, enda á hann til að vera grimmur ef fólk reitir hann til reiði eða stendur í vegi fyrir honum. Hann berst hins vegar af sama krafti fyrir þá sem honum þykir vænt um og er að öllu jöfnu traustur og góður vinur.
Dulúð
Sporðdrekinn hefur áhuga og hæfileika á sviði rannsókna. Hann heillast oft af því sem er dularfullt og hefur gaman af að svipta hulunni af yfirborðinu og komast að kjarna málsins. Hann hefur því oft áhuga á spennumyndum og glæpasögum, en einnig á dauðanum, kynlífi og reyndar öllu því sem er á einhvern hátt hulið myrkri, spennu og dulúð.
Einvera
Til að endurnýja lífsorku sína og viðhalda henni þarf Sporðdrekinn að draga sig annað slagið í hlé. Hann þarf á reglulegri einveru að halda. Ef önnur merki viðkomandi Sporðdreka eru félagslynd getur komið að sömu notum að skipta annað slagið um umhverfi. Hann þarf að hreinsa sig af utanaðkomandi áhrifum, til að geta sinnt eigin verkefnum án afskiptasemi og til að koma stillu á 'vatnið'. Einbeitingin er sterkust og ímyndunaraflið flæðir best þegar kyrrð ríkir í umhverfinu.
Þegar talað er um 'Sporðdrekann' og 'Sporðdreka', er átt við þá sem fæddust þegar Sólin var í Sporðdrekamerkinu. Þeir einstaklingar sem fæddust á þeim árstíma hafa 'hjartað' í þessu merki, eða grunneðlið og lífsorkuna.
Staða Tunglsins í merki segir til um tilfinningar, staða Merkúrs um hugsun, Venusar um ást og samskipti, Mars um framkvæmdir, Rísandi merkis um framkomu og staða Miðhimins um (þjóðfélags)markmið. Hver einstakur maður er í nokkrum stjörnumerkjum og þess vegna eru gerð stjörnukort, en ekki bara fjallað um stjörnumerkin.
Athugasemdir
Ég er sporðdreki og get kvittað undir allar þínar feitletranir. Rosalega erum við magnaðar Jóhanna hehehe.....
Ía Jóhannsdóttir, 24.10.2008 kl. 09:23
Hm...
Jónína Dúadóttir, 24.10.2008 kl. 09:23
Sniðugt Ía, .. man að þú varst líka Painter Smurf! .. Við virðumst eiga ýmislegt sameiginlegt.. Jenný - líka Painter Smurf...(ógesslega er ég minnug)..
Jónína.. úff.. er að reyna að muna hvaða strumpur þú ert.. Kannski Funny Smurf?
.. .. Takk fyrir innlitið báðar.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 24.10.2008 kl. 10:14
Við erum alltaf með svo skemmtilegar samræður - margar þeirra lenda inná blogginu þínu, það þykir mér bara með eindæmum skemmtilegt..
Þrykkt mót sem við erum sett í.. trallalllaaa alveg eins og skóóóliiiinnnnnn.....
Róslín A. Valdemarsdóttir, 24.10.2008 kl. 15:29
ég er tvíburi og kleifhugi með eindæmum ....veit aldrei hvað hinn helmingurinn af mér er að hugsa og hef enga stjórn á þessu öllu saman.....
Eigðu góða helgi !
Sunna Dóra Möller, 24.10.2008 kl. 21:44
Sæl Jóhanna mín
Ég hef látið af því að lesa störnuspár(gerði það í den),en er alltaf að líta upp fyrir mig á stjörnubjörtum kvöldum og nóttum og njóta þess að líta á þær því ég veit að þær eru sköpunarverk Drottins.
Kærleikskveðja
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 25.10.2008 kl. 05:14
Ég held að það sé margt til í því í hvaða merkjum við erum. Og svo eru það eiginleikarnir sem eru slæmir sem fylgja merkjunum, það er einmitt á þeim sem við þurfum að vinna í og laga ekki satt ? knús á þig.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.10.2008 kl. 11:37
Hæ hæTakk fyrir frábæra færslu. En já mig langaði nú að spyrja þig um soltið sem er ekki akkúrat tengt þessari færslu en ég sá færslu frá því í apríl um þetta:-)Já það er þetta dæmi um að sálin og líkaminn verður ekki aðskilinn, já þannig að mín spurning er, hvort að þú vitir hver talaði eða sagði þetta fyrst, voru það ekki örugglega Grísku heimspekingarnir sem fóru að tala um þetta fyrst fyrir ca 2.500 árum eða svo. Mig langar svo að vita hver það var af þeim, líklegast hefur það nú verið Hippocrates sjálfur eða hvað?Bestu Kveðjur
Ásgeir Jónsson
Ásgeir (IP-tala skráð) 25.10.2008 kl. 15:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.