Fimmtudagur, 13. nóvember 2008
Leigubílstjórar víða um veröld
Síðast þegar ég ferðaðist með leigubíl var það milli flugvalla í Orlando. Tengdasonur minn pantaði bílinn. Bílstjórinn átti að sækja mig á Sanford og aka til Orlando International. Aksturinn átti að taka 50 mínútur. Miðað við fyrrverandi reynslu af leigu/ og limmubílstjórum í Ameríku, þá var ég vissulega stressuð og var létt þegar ég sá að bílstjórinn sem eftir mér beið var ung kona, sem ég komst síðar að að var frá Brasilíu, enda töluðum við alla leiðina á milli flugvéla um lífið og tilveruna, og þá aðallega lífið hennar í Ameríku.
Ég ferðaðist þó nokkuð mikið til Bandaríkjanna hér áður fyrr og lenti í nokkrum uppákomum. Einu sinni í bíl hjá svörtum ungum strák, sem reyndi að hræða úr mér líftóruna og spurði ógnandi með reglulega millibili "aren´t you scared" þar sem hann sveigði bilnum hægri vinstri á götunni. Ég vissi að ég yrði að leika töff á móti sem ég gerði, þó ég væri skíthrædd. Þegar við komum að hótelinu ætlaði hann að rukka mig um meira en tvöfalt gjald, hélt hann hefði hrætt það úr mér, en ég vissi þá hvað ferðin á milli þeirra staða kostaði, svo ég lét hann fá akkúrat upphæð en flýtti mér svo út úr bílnum/prísundinni.
Einu sinni ferðaðist ég með "limmo service" upp á flugvöll því systir mín sem bjó í New York, sagði það vera öruggara en að panta yellow cab! .. Bílstjórinn var snyrtilegur, svolítið Egyptalegur. Þegar við vorum búin að aka í miklu lengri tíma en eðlilgt var, að Kennedy flugvelli og komin eitthvað lengst uppí sveit, fór ég að svitna og hugsa allt hið versta. Ég tók á mig rögg og bað bílstjórann að spyrja til vegar, hann vissi örugglega ekki hvar hann væri. Hann maldaði aðeins í móinn fyrst, en ég heimtaði að hann stoppaði við bensínstöð sem var að nálgast. Hann gerði það og fór inn og ók svo beint á flugvöllinn, þar munaði aðeins örfáum mínútum að ég missti af vélinni. Ég vissi aldrei hvað stóð til hjá kallinum, kannski bara villtur, en skrítið að rata ekki á Kennedy-flugvöll þegar fólk hefur atvinnu af því að aka fólki.
Brasilíska konan sagði að hjá þeim bæðu konur oft um konur sem bílstjóra, þar sem þær væru óöruggar með ókunnan karlmann við stýrið og þeim þætti það eðlileg beiðni.
Já, ég var fegin að fá konu sem bílstjóra í Orlando og já, mér myndi líða betur að senda 14 ára dóttur (ef ég ætti hana) með konu í leigubíl. Svona er maður tilbúinn til að játa hræðslu sína. Menn með túrbana eru örugglega eins misjafnir og þeir eru margir. Menn án túrbana líka.
Ef við erum tvö eða fleiri á ferð þá skiptir mig engu máli hvers "kyns" bílstjórinn er, en ég játa óróleika (að fenginni reynslu) þegar bílstjórinn er mjög framandi (sama hvaða litur) og talar jafnvel ekki tungumál þess lands sem hann er að aka í, en í því hef ég lent líka.
Dýrkeypt hringing eftir leigubíl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ja hérna..við íslenskir leigubílstjórar verðum aðeins vör við þetta hjá útlendingum. Þeir eru sumir varir um sig en hafi þeir farið einu sinni áður í íslenskan leigubíl þá er allt í lagi. Þeir eru fljótir að sjá að við erum hér í sæmilegu lagi.
Ragnheiður , 13.11.2008 kl. 10:52
Já Horsí, ég er alveg á jarðsprengjusvæði þegar ég skrifa svona færslu, en eins og í öllu vil ég koma hreint fram og ekki þykjast upplifa sömu tilfinninguna þegar á móti mér tekur dökkur maður með túrban eða brasilísk kona (svo tekið sé dæmi), til að aka með mig í tæpan klukkutíma um staði sem ég er ókunnug á. Sérstaklega miðað við fyrri reynslu. Kannski eru fordómarnir bara gagnvart því sem er framandi, ... rólegust yrði ég þá líklegast ef á móti mér tæki kona sem væri sem líkust mér! .. Ertu s.s. leigubílstjóri??? Maður heyrir nú oftar um að ráðist sé á leigubílstjóra á Íslandi en að leigubílstjórar ráðist á fólk.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 13.11.2008 kl. 11:10
Einu sinni var ég að koma að utan og þurfti að taka leigubíl frá Loftleiða hótelinu og niður á Hlemm. Talaði reyndar ekkert við ökumanninn, henti bara bakpokanum mínum í skottið, settist inn og sagði "niður á Hlemm".
Á leiðinni skildi ég ekkert í því að maðurinn þurfti að fara upp á Öskjuhlíðina, þaðan einhverjar slaufur í gegnum Hliðarnar og dóla sér þaðan rólega niður á Hlemm.
Við Hlemm var mælirinn orðinn tvöfaldur á við það sem ég hafði vænst - svo ég spurði hann kurteislega hvort það væri einhver ástæða fyrir öllum krókunum hjá honum. Hann varð ferlega reiður - en lét mig borga "rétt" verð fyrir því.
Veraldarálfurinn (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 11:30
Ég hef aldrei verið ein á ferð í leigubíl.... bara aldrei, var að fatta það núnaSvo ég segi bara góðan og blessaðan daginn og vona að þér sé farið að líða miklu, miklu, miklu betur
Jónína Dúadóttir, 13.11.2008 kl. 12:31
Weltfremd, maður á auðvitað af láta vita af svona, líka ég í New York, til þess eru skráningarnúmer bílanna. Leigubílstjórar eru auðvitað eins misjafnir og þeir eru margir,
- ég myndi aldrei þora að panta bíl og biðja um túrbanlausan bílstjóra hehe... auðvitað þætti mér það hallærislegt!
Jónína, í alvöru!!!... Jú góðan dag, ég er að skríða saman, svei mér þá! Ætla að heimsækja þau í vinnunni á eftir og sjá hvernig það fer með mig.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 13.11.2008 kl. 12:57
er farin í bæinn
Ásdís Sigurðardóttir, 13.11.2008 kl. 12:58
Velkomin í spillinguna Ásdís! .. kíkið endilega á þetta ef þið eruð ekki búin að fá þetta sent í tölvupósti.
http://www.tv1.is/hik/
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 13.11.2008 kl. 13:33
Ég hef svo oft ferðast ein í leigubíl erlendis en aldrei lent í neinu sem gaf mér ástæðu til að óttast. Hinsvegar þegar ég bjó í London þá lenti ég oft í því að þeir reyndu að fara lengri leið en þurfti og urðu frekar aulalegir þegar ég vísaði þeim stystu leiðina
Huld S. Ringsted, 13.11.2008 kl. 17:51
Mælarnir eru þannig uppsettir hjá okkur hér (tími + vegalengd) að maður þarf að fara hroðalega mikinn krók til að "græða" á því.
Ég hef ekki ráðist á neinn nýlega
en það hefur heldur ekki verið ráðist á mig síðan 2000....
Ragnheiður , 13.11.2008 kl. 18:18
Ég ætla rétt að vona að umhyggjusama foreldrið á BBC fái uppreisn æru og endurráðningu. Annað væri fáránlegt.
Svo á fólk í þjónustustörfum á að virða eðlilegar óskir þeirra sem þeir þjóna.
Laufey B Waage, 13.11.2008 kl. 20:43
Hahaha, Ragga góð! ... en slæmt að heyra að það hafi verið ráðist á þig einhvern tímann.
Þú heppin Huld, ég vildi ekki þurfa að upplifa ferðina aftur þarna í limmunni.
Sú sem svaraði hefur verið með ráðskonurass, en vissulega átti fréttakonan ekki að skammast í henni og tala niður til ómenntaðra. Þær fóru svolítið báðar yfir strikið að mínu mati.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 13.11.2008 kl. 22:24
Þegar stóru strákarnir mínir voru litlir, 4-7 ára, kom fyrir að ég þurfti að senda þá með leigubíl. Mér leið hreint ekkert vel með það en til þess að mér liði ögn skár, bað ég alltaf um konu. Ég þurfti líka að taka það sérstaklega fram að ég vildi bíl með öryggisbelti í aftursætinu. Á þeim tíma þótti það ekki sjálfsagt. Það kom fyrir að mér var svarað með ónotum.
Þóra Guðmundsdóttir, 14.11.2008 kl. 00:16
Ég hef fyrir reglu á ferðalögum erlendis að spyrja á flugvellinum hvað eðlilegt leigubílagjald sé á hótelið sem ég gisti á. Það er sama hvar í heimi maður er staddur. Alltaf má reikna með svindli. Ég hef meira að segja lent í því í Reykjavík. Það er ekkert langt síðan ég tók leigubíl út á Reykjavíkurflugvöll. Í spjalli vil leigubílstjórann kom fram að ég væri frá Hólum í Hjaltadal og var á leið til Sauðárkróks. Leigubílstjórinn tók kjánalegan aukahring. Ég hef verið búsettur í Reykjavík í 35 ár. Þegar við vorum komnir á Reykjavíkurflugvöll sagði ég að aukahringurinn hafi verið illa asnalegur og ég væri að hugleiða að berja hann og kalla á lögregluna til að kæra hann. Leigubílstjórinn afsakaði sig með því að hann væri með athyglisbrest. Hann bauðst til að lækka fargjaldið úr 2500 kalli niður í 1000 kall. Það lá of vel á mér til að gera annað en fallast á það. Sagðist bara lemja hann síðar ef þetta endurtæki sig.
90% leigubílstjóra í New York eru nýbúar. Sumir þeirra rata illa.
Jens Guð, 14.11.2008 kl. 00:59
Þetta minnir mig á þegar ég var í Pakistan og við áhöfnin pöntuðum tvo bíla. Ég og fjórar freyjur vorum í seinni bílnum. Ég sagði bílstjóranum að við ætluðum að fara á Interkontinental hótelið. Hann keyrði og keyrði langt út fyrir bæ svo mér leist ekki á blikuna. Stoppaði hann og bað hann að spyrja til vegar. Engin vissi hvar stærsta hótelið var svo hér var málavesen en allir vildu hjálpa. Freyjurnar skíthræddar enda í einhverju fátækrahverfi. Svo kemur einn maður og spyr hvar hótelið heiti, Já Aircondition hótel var framburður hjá þeim á Intercontinental hótel, Bílstjórin vissi alveg hvar það var. Við voru einn einn og hálfan að komast 15 mínútna leið.
Valdimar Samúelsson, 14.11.2008 kl. 05:25
Það eru alls staðar skíthælar, í öllum stéttum. Oftast eru þeir í miklum minnihluta.
Jenný Anna Baldursdóttir, 14.11.2008 kl. 08:47
Takk fyrir innlegg og reynslusögur.
Leigubílstjórarnir geta verið viðsjárverðir svo maður tali nú ekki um farþegana , it works both ways.
Jens, ég trúi ekki að þú hafir hótað barsmíðum! .. Baðstu ekki manninn örugglega um afrit af greiningunni hans á athyglisbrestinum?
Exið mitt lenti nú í því að vera á ferð og leigubílstjórinn stoppaði á miðri leið með áhöfn og sagðist ekki keyra lengra nema að fá 50 $ greidda eða eitthvað álíka frá hverjum farþega, annars færu þau út.. (ekki alveg Nevada eyðimörk, en næsti bær við) Bílstjórinn áttaði sig ekki á því við hvern hann var að díla, hehe, og til að gera langa sögu stutta þá ók hann þeim á leiðarenda, fyrir áður umsamda upphæð.
Fólk á auðvitað misjafnar sögur í fórum sínum, farþegar hafa ráðist á leigublílstjóra líka, það er gömul saga og ný.
En málið snýst um hverjum við treystum til aða aka með börnin okkar. Skemmtilegast er ef bílstjórinn getur a.m.k. talað við þau á þeirra tungumáli og líka ef þau eru með lítið hjarta að hægt sé að biðja um konu.
Af einhverjum ástæðum eru unglingsstúlkur minna hræddar við konur en karla.
Tek það enn og aftur fram að símtalið hljómar klaufalegt af hendi fréttakonunnar og óþarfi að tala niður til minna menntaðra.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 14.11.2008 kl. 09:11
Við hjónin höfum nokkrum sinnum lent í svona uppákomum. Í Mexico sity á leiðinni frá þjóðminjasafninu sem er aðeins fyrir utan borgina tókum við bjöllu, Elli sá að karlinn var alltaf að banka í mælaborðið, og mælirinn hækkaði við það. Og þegar upphæðin var orðin ansi mikið hærri, en sú sem við greiddum fyrir að komast á safnið, þá sagði hann við mig, vertu klár á næstu ljósum að stökkva út, ég ætla að henda í hann sömu upphæð og við borguðum til að komast, og svo skellum við okkur út úr bílnum. Þetta gerðum við svo. Annars spyrjum við allaf erlendis hvað bíllinn kostar á þann stað sem við ætlum að fara, yfirleitt gefa þeir manni ákveðna upphæð. Eins er allaf kennitala og númer á mælaborðinu sem maður ætti að setja á sig, ef eitthvað kemur upp á, það er okkar trygging. Aldrei er of varlega farið í útlöndum.
Þessi saga af fréttakonunni, setur ábyrgð íslenskara stjórnmálamanna í skondið samhengi.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.11.2008 kl. 09:41
Úff, eins gott að bílstjórinn var ekki á fullri ferð!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 14.11.2008 kl. 10:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.