Barn í Paradís - óður til afa og ömmu

Mikið er ég sæl að eiga fallegar æskuminningar. Einar fallegustu minningarnar eru úr Lindarbrekkunni, þá verandi bústaðnum þeirra afa og ömmu og nú verandi bústað stórfjölskyldunnar þar sem afi og amma eru fallin frá.

Amma mín stendur mér alltaf fyrir hugskotssjónum sem brosandi og falleg kona. Hún elskaði sólina og varð fallega brún á sumrin. Amma og afi tóku mig stundum með sér í Norðurleiðarrútunni sem setti okkur af við Hreðavatn. Þar gengum við inn Grábrókarhraunið eftir veginum. Fyrst gamla veginum sem lagður var mosa og svo "nýja" veginum sem ruddur var til að hægt væri að aka að ánni. Við gengum með pinkla og pjönkur og stundum pappakassa með snæri. Við vorum öll í betri fötunum; ferðafötunum, en þegar komið var í bústaðinn fór ég í hversdagsföt og amma í rósóttan slopp, sem eflaust má kalla Hagkaupsslopp, hvíta sandala með fylltum hæl. Einhvern veginn finnst mér samt alltaf að amma hafi ekki tekið af sér perlurnar né fallega gullúrið. Hún var alltaf svo falleg og glæsileg sama hverju hún klæddist.

Amma og afi undu sér þarna yfir sumartímann. Afi var þúsund þjala smiður, dyttaði að bústaðnum, hjó við í eldinn, vitjaði um silunginn, hamraði á ritvélina sína. Hann var alltaf að, nema þegar hann lagði sig eftir matinn! 

Ég fékk að fara með honum að vitja um, og við giskuðum á fyrirfram hvað kæmu margir fiskar í netið. Yfirleitt voru þeir nú bara tveir til fimm eða eitthvað svoleiðis en það var meira en nóg fyrir okkur. Silungur var borðaður á hverjum degi, a.m.k. í minningunni, og mér þótti hann alltaf góður. Afi beinhreinsaði alltaf fyrir mig, en það var ákveðin stund í að verða fullorðin að þurfa að fara beinhreinsa sjálf! Sporðurinn var í uppáhaldi.

Stundum kom amma með útá bát, þá kallaðist hún á við himbrimann, sem kallaði á móti. Ég hlustaði dolfallin á, sitjandi í mínu björgunarvesti úr frauðplasti í gulum og grænum lit. Þessi vesti eru nú orðin börn síns tíma, þó ennþá séu þau til og orðin músétin á köflum.

Á sólríkum dögum, en það var mjög oft gott veður í gamla daga. Settumst við amma og stundum afi,  niðrí "laut" með teppi og stundum tókum við útvarpið með okkur og hlustuðum á útvarpssöguna. Man sérstaklega eftir Kapítólu. Stundum sat ég bara og hlustaði á afa og ömmu mala, eða þegar við amma vorum tvær sagði hún mér sögur úr Hólminum. En amma ólst þar upp. Ég elskaði þessar stundir og ég var barn í Paradís.

Tilveran var ekki flókin í Sumó. Ég lék mér í búinu og eldaði dýrindis drullukökur og skreytti með sóleyjum og fíflum og bauð ömmu í kaffi. Stundum voru systkini mín eða frændsystkini líka á staðnum og þá var fjör.

Í sumó var handsnúinn grammófónn, og skemmtilegar plötur. Á 17. júní og á fögrum sumarkvöldum var farið með fóninn út á pall og við dönsuðum af lífs og sálar kröftum. Kannski er ég svona hrifin af gömlum lögum þess vegna.

Mér þótti gaman að leika mér við önnur börn, fara í ævintýraferðir alla leið á fimmta fjall, renna niður skriður og uppgötva ætíð nýja og nýja staði í birkiskóginum. Bjarga sílum úr ánni sem var að þorna upp og færa þau yfir í vatnið. Stundum dóu einhver og við jörðuðum sílin með athöfn.

Þegar ég var ein, þá fór ég í ímyndunarleiki, þóttist vera skógarbarn og gekk berfætt heilu dagana. Óvinirnir voru beljurnar, sem ég var dauðhrædd við,

Lindarbrekka heitir eftir fallegri lind sem rennur í brekkunni og við sóttum þarna vatnið í fötum lengi, lengi, þar til lindin var loksins "virkjuð" og rennandi vatn fékkst í bústaðinn.  Við þessa lind gerði afi líka að silungnum og við krakkarnir, stóreygð, fylgdumst  með öruggu handbragði hans. Það var sérstakur fiskihnífur og sérstakur hvítur pottur sem fiskurinn var settur í þegar búið var að gera að. Amma sá síðan um matreiðsluna.

Ég elti afa minn í fleiri verkefni, út á veg að skila tóma mjólkurbrúsanum og sækja þann fulla og kannski smá Borgarnesskyr (sem var besta skyr í heimi - með krækiberjum) og útí skóg að sækja við í eldinn. Einu sinni þegar við vorum að ganga upp brekkuna sagði afi mér að hann hefði kallað systur sína, sem ég er skírð í höfuðið á og er alnafna, Jógu þegar hann vildi stríða henni. En þá hafði ég verið að segja honum að sumir kölluðu mig Jógu. Mér þótti það samt aldrei ástæða til að líka ekki við Jógugælunfnið og hef haldið því.

Einu sinni höfðu afi og amma áhyggjur af því að ég hefði ekkert dót til að leika mér að. Þau tóku sig saman og saumuðu handa mér dúkku í minni stærð, ég hef eflaust verið 5-6 ára gömul. Dúkkan var samsett úr gömlum íþróttagalla af föður mínum frá því hann var strákur, andlitið, hendur og fætur úr ljósu lérefti. Síðan var bróderaður munnur, nef og augu með aftursting. Þessi brúða fékk nafnið Labbi og var félagi minn í mörg ár. Hann fór einhvern tímann í "andlitslyftingu" þegar mamma þurfti að sauma á hanna nýtt höfuð, þegar hið upprunalega var farið að slitna.

Ilmurinn í birkiskóginum í Lindarbrekku, sem blandaðist við reykinn úr skorsteininum er sætasti og besti ilmur sem ég get hugsað mér. Vatnið er besta vatnið, silungurinn besti silungurinn, brauðið sem amma bakaði í kolaofninum var besta brauðið. Soðna vatnið með mjólk og sykri besti kvölddrykkurinn. Amma mín og afi voru yndisleg amma og afi og bý ég að því alla ævi að hafa fengið að dvelja stund og stund undir þeirra verndarvæng, svo skrítin og svolítið einræn sem ég var sem barn.

Það er gott að skrifa svona minningar, sérstaklega fyrir mig sjálfa, en líka börnin mín, ættmenni og aðra sem þekkja til, eða þekkja ekki til njóta vonandi líka.

Heart


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég naut, takk fyrir mig

Skrítið samt, ég sá annan bústað, aðra stelpu og aðra ömmu og það allt vestur á fjörðum

Sigrún Jónsdóttir, 6.1.2009 kl. 18:19

2 identicon

Þetta er dásamleg saga ,takk fyrir að deila henni með mér

Arndis Gudnadottir (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 18:40

3 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Fallegar minningar, naut þeirra líka, amma og afi voru stórar persónur í lífi okkar og eflaust er það svo líka með okkur.

Rut Sumarliðadóttir, 6.1.2009 kl. 18:42

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Takk sömuleiðis fyrir innlitið Sigrún, .. sniðugt að minningar okkar skuli kallast á.

Takk Rut, já ömmur og afar eru bráðnauðsynleg og ég vona að ég geti gefið mínum barnabörnum, þó ekki nema brot af því sem amma og afi gáfu mér.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 6.1.2009 kl. 19:14

5 identicon

Flott saga Jóga mín,  það er dýrmætt að eiga svona minningar og vonandi að við gefum okkar barnabörnum líka góðar minningar. 

Mér finnst nefnilega sorglegt að fylgjast með mörgum öfum og ömmum í dag, sem hafa kannski nægan tíma, en sinna lítið barnabörnunum, því þau eru svo "upptekin" .  Eru kannski stóran hluta ársins á Spáni, eða eru kannski ein að slaka á í bústaðnum og dettur ekki í hug að bjóða barnabörnunum að vera hjá sér. Því ekki er hægt að binda sig yfir börnum, því það þarf jú að sinna svo miklu, komast í golf og fleira.

Guðrún G (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 20:11

6 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Falleg og ekki hva síst myndræn minning.  Takk fyrir þetta.

Ía Jóhannsdóttir, 7.1.2009 kl. 08:59

7 Smámynd: Laufey B Waage

Yndislegar minningar. - Fallega orðaðar.

Laufey B Waage, 7.1.2009 kl. 10:00

8 Smámynd: www.zordis.com

Svo falleg minning sem endurspeglast í sjálfið! Það er vissulega margs að minnast þegar amma og afi voru með verndarvæng yfir litlum krakkaskottum.

www.zordis.com, 7.1.2009 kl. 10:08

9 identicon

Oh.. já.. fallegt ... ég ELSKA Lindabrekku, þetta er paradís á jörð ... þetta er uppáhaldsstaður okkar litlu fjölskyldunnar  

Minningarnar eru ótal margar og ég er svo glöð að mamma og pabbi hafi gefið okkur þessar minningar í Lindabrekku og nú get ég gefið börnunum mínum part af Lindabrekku ... Þessi staður er verðmætari mér en skínandi gull og glitrandi gimsteinn.

Ev. 

Eva Lind Jónsdóttir (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 10:15

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Yndislegur lestur Jóhanna mín, ég lifði mig alveg inn í frásögnina.  takk fyrir þessa færslu beint út í náttúr Íslands.  Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.1.2009 kl. 12:47

11 Smámynd: Bryndís Eva Vilhjálmsdóttir

Yndislega fallega skrifað Ég á líka góðar minningar með ömmu minni og afa sem er svo dýrmætt að eiga. Nú er komið að okkur að fara í ömmuhlutverkið og gott er þá að hafa svona góðar fyrirmyndir.

Guð gefi þér og þínum Gleðilegt árið 2009!

Bryndís Eva Vilhjálmsdóttir, 7.1.2009 kl. 14:45

12 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Þakka ykkur innilega fyrir athugasemdir; ég gerði sjálfri mér betur grein fyrir hinum raunverulegu lífsgæðum þegar ég skrifaði þetta.

Raunveruleg lífsgæði fyrir börn  (og kannski alla) er  tími, umhyggja og vænt umhverfi.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 7.1.2009 kl. 15:24

13 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Þakka Arndísi Guðnadóttur lesturinn, en hún hafði þarna læðst á milli Sigrúnar og Rutar í athugasemd nr. 2 og ég ekki séð!

Skrifa jafnframt nánar við athugasemdir í kvöld!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 7.1.2009 kl. 15:29

14 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 7.1.2009 kl. 19:52

15 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Yndisleg frásögn.  Ég skil alveg hversu vel þér hefur liðið hjá ömmunni og afanum.

Takk.

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.1.2009 kl. 23:51

16 Smámynd: Sigríður B Svavarsdóttir

Sigríður B Svavarsdóttir, 8.1.2009 kl. 00:34

17 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

.. Takk fyrir innlitin, og þakkir fyrir athugasemdir og/eða hjörtu; Sigríður, Jenný Anna, Bryndís Eva, Ásthildur (Gleðilegt Ár!), Eva elsku Eva, Zordís, Laufey, Auður og Guðrún G.   Það er notalegt að fá svona álit, en ég þakka líka þeim sem deildu þessu með mér án þess að skrifa athugasemdir, .. ekki eru allir sem vilja endilega kvitta í hvert skipti.

Friður á jörðu.

Jóhanna

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 8.1.2009 kl. 17:46

18 Smámynd: Sædís Hafsteinsdóttir

Takk fyrir að vilja deila þessu.yljaði mer um hjartarætur

Sædís Hafsteinsdóttir, 8.1.2009 kl. 23:21

19 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk fyrir þetta elskan mín, ljúfar minningar koma manni alla leið í lífinu.

Ásdís Sigurðardóttir, 9.1.2009 kl. 12:50

20 Smámynd:

Hér varð hlýtt og bjart meðan ég las minningar þína um "sumó". Takk fyrir að deila þeim með okkur.

, 10.1.2009 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband