Ísland í dag, viðtal við eineltisþola - af hverju ekki skólayfirvöld?

Ég var að horfa á Ísland í dag, á viðtal við dugnaðarlega stelpu sem sýndi það hugrekki að koma fram og tjá sig um það einelti sem hún varð fyrir. Í viðtalinu fannst mér hún draga fram svarta mynd af gamla skólanum, þar sem hún gekk út, en mjög hvíta af nýja skólanum. Það er hennar upplifun og ber að virða hana. Auðvitað eru einhverjir góðir hlutir að gerast í báðum skólum.

Gott væri að vita hver væri munurinn á stefnu skólanna í eineltismálum, ef einhver er, og rétt hefði verið að ræða við þau skólayfirvöld sem urðu fyrir mestu gagnrýninni. Vissulega getur það verið flókið, þar sem erfitt er að ræða um mál einstaklinga opinberlega, en eitthvað hefði mér Stöð2 mátt ræða við stjórnendur skólanna.

Eineltismál eru hin verstu mál, þekki þetta af eigin reynslu, frá börnunum mínum og nánum skyldmennum. Mikilvægt er að umhverfið sé stöðugt á varðbergi og bregðist við, foreldrar og einmitt skólastjórnendur -  vera á varðbergi alveg eins og við krabbameini. Eftir því fyrr sem það greinist því meiri líkur er á að hægt sé að uppræta það. Fái það að grassera óáreitt, er mun erfiðara að eiga við það og getur það leitt til dauða, og svo sannarlega þekkjum við dæmi þess.

Ég óska ungu dömunni innilega til hamingju með að vera laus úr sínum aðstæðum og vera öðrum fórnarlömbum eineltis fyrirmynd í að rjúfa þögnina! Í rauninni gerði hún það eina sem hún gat, miðað við sínar aðstæður; hún gekk út úr aðstæðunum! Það þarf kjark til þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Pældu í þessu Jóga, enn í dag er þetta svona!!!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 16.1.2009 kl. 20:27

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Satt segir þú Róslín. Þetta virðist liggja í mannlegu eðli, einelti sprettur oft af öfund út í þann sem verður fyrir eineltinu, eða að einhver þarf að upphefja sig á kostnað fórnarlambs. Fólk sem leggur í einelti á hreinlega bágt!

 Fullorðið fólk leggur annað fullorðið fólk í einelti. Við verðum líka öll að líta í eigin barm og hugsa hvort að maður sé einhvern tímann að leggja einhvern ómeðvitað í einelti, eða beita ofbeldi.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 16.1.2009 kl. 20:52

3 Smámynd: www.zordis.com

Einelti er hryllingur og því miður eru allir aldurshópar sem verða fyrir barðinu. Það þarf vissulega hugrekki að stíga út úr þeim "vana" sem eineltið leggur. Þegjandi fangelsi aðstæðna.

Njóttu helgarinnar.

www.zordis.com, 16.1.2009 kl. 21:26

4 Smámynd: Anna Guðný

Já, verð að viðurkenna að ég sá  ekki fréttina en er ekki sagt að það séu þrjá hliðar á öllum málum: Mín hlið, þín hlið og svo rétta hliðin?  En sama hvar sökin liggur, þá þarf að stoppa þetta áður en það verður svona slæmt.

Og það er það sem mér finnst svo algengt, það er látið ganga allt of langt áður en eitthvað er gert. Þekki þetta úr mínum skóla líka.

Hafðu það gott Jóhanna og góða helgi

Anna Guðný , 16.1.2009 kl. 21:27

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Takk fyrir innlitið Zordis og Anna Guðný, það er í raun sorglegt að algengasta lausnin virðist vera fyrir nemandann að þurfa að skipta alveg um umhverfi.  Fara í nýjan skóla. Hann er í raun fældur í burtu úr sínu umhverfi. Stúlkan kvartaði undan því að ekki hefði verið rætt við gerendur eineltisins, fókusinn hefði verið mikið á henni sjálfri og hún upplifað sig sem sökudólg. Hún ætti s.s. sök á eineltinu í sinn garð. Held að lykillinn liggi svolítið í þessu, að tala þurfi við alla saman, gerendur, þolanda, foreldra og alla sem að málinu koma. Ég held að í raun vilji enginn (eða fáir) að öðrum líði illa vegna þeirra gjörða.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 16.1.2009 kl. 21:55

6 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Því miður virðist það vera eina ráðið að þolandinn hreinlega yfirgefi aðstæður og það er sárt.  Ég dáist af styrk þessarar stúlku, hún er komin vel á veg með að öðlast sitt líf aftur.

Sigrún Jónsdóttir, 16.1.2009 kl. 22:13

7 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Mér finnst hún dugleg að tjá sig um þetta.

Jónína Dúadóttir, 17.1.2009 kl. 08:37

8 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Hún var frábær þessi stelpa, það er ótækt að hún hafi þurft að skipta um skóla en stundum er það eina ráðið sem er eftir. Það þarf að taka á svona eineltismálum af fullri alvöru í öllum skólum, Olweusaráætlunin hefur dugað vel.

Rut Sumarliðadóttir, 17.1.2009 kl. 11:16

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Tek undir það Jónína og mér virðist á síðu hennar að þar hafi hún velt af stað steini sem gæti orðið að stórri skriðu, því þar eru fleiri sem segja frá sinni reynslu. 

Rut ég skoðaði heimasíður skólanna beggja, þar er Olweusáætlun auglýst undir eineltismálum í báðum tilfellum, en svo er það spurning um framkvæmd og möguleika að vinna eftir því. Auðvitað eiga stjórnendur og starfsfólk misjafna daga og geta verið klaufar, alveg eins og bara foreldrar sem vilja börnum sínum allt gott. En að einelti viðgangist í 9 ár, hmmm... það er eitthvað mikið að.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 17.1.2009 kl. 13:27

10 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Sammála, ekki nóg að hafa tækin, það þarf að nota þau. Var ekki gert í skólanum sem hún flúði úr. Skil ekki hvers vegna ekki.

Rut Sumarliðadóttir, 17.1.2009 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband