SKILNAÐUR að (JÓLAHLAÐ) BORÐI og SÆNG...

Stöðu minnar og menntunar vegna leitar fólk oft til mín með mismunandi erfiðar tilvistarspurningar. Ólíklegasta fólk gefur sig á tal við mig t.d. í samkvæmum og tjáir mér sinn innsta ótta þegar það heyrir að ég er með guðfræðimenntun. Það er eins og fólkið sem vill fá skýringar á brjósklosinu þegar það hittir lækni í partý. 

Í vor kom til mín unglingsstrákur sem var reiður. Svakalega svekktur og niðurbrotinn. Föðurímyndin hans var í molum. Pabbi sem hann hafði litið upp til og treyst hafði verið í sambandi við aðra konu en mömmu og drengurinn skildi ekkert í pabbanum og ekkert í konunni sem hafði vitað af þvi að pabbi var giftur og átti líka þennan yndislega strák. Var konan að reyna að stela pabba hans ? - af hverju gerir fólk svona ?- vill pabbi börnin hennar frekar en mig ?  ...spurði hann og horfði á mig stórum tárvotum augum, með svo stórt spurningarmerki að það hálfa væri nóg og ég fékk sting í hjartað.

Erum við fullorðna fólkið ekki bara fífl og egóistar þegar við erum að stíga út fyrir hjónabandið, hittast á makalausum jólahlaðborðum og daðra við samstarfsfólkið  og hvað þá meira ? Hvað með alla giftu einstaklingana á stefnumótasíðu landans: einkamal.is ? 

100% giftur kall vill hitta 100% gifta konu, má líka vera ógift.  100% trúnaður. Þetta er 200% óheiðarleiki. Ef fólk trúir ekki  lengur á hjónabandið (sambúðina) þá verður það nr. 1, 2 og 3 að koma heiðarlega fram og stíga út úr þeim ramma. Yfirleitt er um að ræða að karlana/konurnar langar í kynlíf utan hjónabands þar sem kynlífið er orðið eins og útvatnað bragðlaust pasta og verið er að leita að hvítlauksristuðum humar. Upp komast svik um síðir og fórnarlömb framhjáhalds eru ekki bara makar heldur BÖRNIN þeirra. Að halda fram hjá maka er að halda fram hjá börnum.  Woundering

Strákurinn sem ég talaði um í upphafi sagðist eiga svo svakalega erfitt með að fyrirgefa pabba sínum. Ég sagði honum að sárið væri svo nýtt það þyrfti tíma til  að gróa og hann þyrfti að fá tíma líka og hann myndi bara fyrirgefa honum þegar hann sjálfur væri tilbúinn til þess. Ég útskýrði fyrir honum breyskleika mannfólksins og að pabbi hans væri ekki illgjarn maður þrátt fyrir þetta. Hann brosti í gegnum tárin þegar hann vissi að enginn myndi þvinga hann til að fyrirgefa pabba. Pabbi var búinn að bjóða honum bíl, peninga, bílpróf, utanlandsferð.... en stráknum fannst það hallærislegt. Auðvitað var pabbi gamli með bullandi samviskubit, en traust er ekki keypt með peningum.

Ég skrifa þetta í þeirri von að einhver þarna úti, á þessum tímum jólahlaðborða og gleðskaps innan fyrirtækja hugsi sig nú vel um áður en stóru skrefin út fyrir rammann eru stigin, því þau geta reynst örlagarík.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birna M

Æi grey strákurinn. Já fólk hugsar ekki alltaf með höfðinu, þegar svona er annarsvegar, ef það gerði það væri minna um svona tilfelli. Fólk kemst oftast of seint að því að grasið er ekki grænna hinumegin og sá sem gerir svona einusinni gerir það við næstu konu líka oftast.

Birna M, 2.12.2006 kl. 09:32

2 Smámynd: Margrét Ingibjörg Lindquist

Sammála... hugið ykkur um... vel skrifað....

Margrét Ingibjörg Lindquist, 2.12.2006 kl. 10:31

3 identicon

ég gerði ekkert af mér á jólahlaðborðinu í vinnunni minni :)  nema bara drekka bjór....hehe

hryssa (IP-tala skráð) 4.12.2006 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband