Sorg um jól .....

Ónefndur, eflaust nemandi, bendir mér á í athugasemdum á frétt í Mogganum um nemanda sem útskrifaðist í fyrra.  Þessi frétt er um hann Torfa sem er dáinn. Ég hafði heyrt af því í fyrradag. Það er svo margt sem getur verið erfitt um jól og áramót. Tilfinningar geta borið mann ofurliði, sérstaklega þegar fólk getur ekki verið með fólkinu sem það var með í fyrra eða þar áður.

Þau eru erfið fyrir þá sem missa, hvort sem fólk fellur frá eða hefur skilið. Það er ekki auðvelt að vera t.d. það foreldrið sem ekki hefur börnin sín hjá sér. Fyrstu jólin eftir skilnað langaði mig að taka svefntöflu 23. des og vakna 1. janúar, svo óbærileg var tilhugsunin um blessaða hátíðina. En ég tók enga svefntöflu, þraukaði og 1. janúar rölti ég mér upp í Hallgrímskirkju í björtu nýársveðri og tók á móti árinu 2003. Enn er vesen með jólin, hver á að vera hvar og hverjir ætla að vera saman og ekki saman. Þeir þekkja þetta sem hafa reynt.

Stelpan mín og kærasti eru að fara af landi brott í dag, með litla ömmustrák hann Ísak Mána. Ég fékk hann lánaðan í fyrradag - í sólarhring til að njóta "okkar jóla" .. við fórum saman í Leikbæ þar sem ég gaf honum tíma til að velja sér jólapakka og svo lékum við með jólapakkann þegar við komum heim. Við nutum þess bæði og við þekkjumst mun betur í gegnum það að vera tvö saman og kúra en að vera innan um hóp af fólki.  Þegar aðstæður breytast verðum við að aðlagast aðstæðum og búa til nýja siði.

Ég byrjaði á að tala um hann Torfa sem er dáinn - eins og hendi sé veifað er hann farinn frá fjölskyldu sinni, alla framtíð munu jólin í huga þeirra vera yfirskyggð af dauða hans. Torfi var ákveðinn, skoðanastór og fyrirmynd í dugnaði (þetta er ekki klisja - hann var svona).  Hann sagði einu sinni að ef hann væri verkfæri væri hann sleggja. Hann meinti að hann lægi ekki á skoðunum sínum varðandi menn og málefni. Hann var líka duglegur að hrósa ef vel var gert.  Þegar ég flutti í fyrra bauðst hann margoft til að koma að hjálpa mér að bera húsgögnin - hann væri einn af fáum sem hefði ánægju af því að flytja fyrir fólk. Nú er hann fluttur með allt sitt, allt of snemma og ég sit og hlusta á Bjögga Halldórs syngja í útvarpinu "Svon´eru jólin" og tárin trilla í minningu um góðan dreng.

Í fyrra var ég beðin um að halda jólahugvekju fyrir VÍS, ..þar sem slagorðið er: "Tryggingar snúast um fólk" ... Ef eitthvað snýst um fólk þá eru það jólin. Jólin snúast um fólk og kærleika milli fólks. Þess vegna er svo viðkvæmt ef einhver sem við erum vön að hafa um jólin er ekki nálægt okkur. Guð veri með fólkinu hans Torfa um þessi jól sem önnur jól.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband