Mánudagur, 24. ágúst 2009
Eva Lind giftir sig ..
Eva dóttir mín og Henrik tengdasonur (ásamt börnunum Mai 3 mán, og Mána 5 ára) bjuggu hjá mér stutta stund, eins gott að það var ekki mjög löng stund þar sem þau hentu mér út úr mínu mjög svo rómantíska svefniherbergi og létu mig sofa í sjónvarpssófanum .. (reyndar smá útúrsnúningur í þessari frásögn og ýkjustíll, en það hljómar miklu skemmtilegra en að ég hafi heimtað að þau fengju herbergið!) ..
Jæja, þau voru ekki búin að vera lengi þegar Eva kom til mín og spurði mig hvort mér þætti það ekki alveg brilljant að þau giftu sig nú bara um leið og Mai yrði skírð þann 14. ágúst. Hún hefði reyndar sent Henrik sms um morguninn hvort þau ættu ekki bara að láta til skarar skríða og jú, hann hafði sagt já drengurinn! That´s my girl! Ekkert að tvínóna við hlutina.
Þetta átti í fyrstu að verða allt voða einfalt, og auðvitað allt í laumung, aðeins mamma, pabbi og Birna vissu af þessu, systkinin voru upplýst og örfáir sem urðu eðli málsins vegna að vita af þessu, t.d. presturinn yndislegi hún Jóna Hrönn.
Ég get ekki farið í öll smáatriði en niðurstaðan varð að sauma átti mamma-mia brúðarkjól (auðvitað) og kaupa sítt slör, blómvöndurinn átti að vera samansafn af blómum vallarins eða þannig og allt einfalt og fallegt.
Foreldrar Henriks náðu ekki að koma frá Danmörku, en voru sátt við að haldin yrði veisla þega heim væri komið en hægt að var að lokka besta vin hans þaðan til að vera svaramaður. Hann mætti s.s. til landsins á fimmtudegi og brúðkaupið var á föstudegi. Herrarnir þrír; Henrik svigeson, Sören svaramaður og Mánalingur keyrðu upp í Hvalfjörð til tilvonandi tengdapabba og gistu þar. Við stelpurnar; Eva tilvonandi brúður, Vala aðstoðarkona, Mai litla og móðir brúðarinnar undu sér heima og horfðu á sæta konumynd kvöldið fyrir brúðkaup.
Birnan og pabbinn höfðu séð um að skreyta sal og undirbúa veislu, með örlítilli hjálp frá mömmunni, sem reyndar skar niður tonn af grænmeti. Valan og Ingan höfðu bakað dýrindis möffins-brúðartertu og amman hafði bakað kransaköku, sem reyndar var fyrir skírnarbarnið þar sem hún vissi ekki af hinu samofna brúðkaupi.
Máni var auðvitað hringaberi og Rósinkrans fékk að syngja ;-) ..
Brúðkaupsdagurinn rann upp, við Vala hentumst upp í Mjódd til að versla ýmislegt sem enn vantaði eins og (gervi) demantshjarta um háls brúðar og rómantískt slör sem náði langt aftur að ósk brúðarinnar.
Margt gekk á á Ránargötunni þennan dag, svo málaði mamman sig og tók fram kjólinn sem hún hafði sparað 50 þús á. Já, hann kostaði áður 62 þús og fékk hann á 12 þús á útsölu, ekki hægt að gera betri kaup á útsölu en það!!!.. en áður en hún smeygði sér í dýrðina, brunuðu hún og Vala í Stjörnuheimilið með grænmeti og til að skreyta kökur o.fl.
Á heimleið; um 6 leytið - brúðkaupið byrjaði 19:15 .. hringdi brúðurin og bað mömmu að "redda blómvendi" .. arrrgg.. helst náttúrulegum. Vala hafði engan tíma í það, svo mamman skutlaði henni heim til að gera sig klára og ók svo sem fjandinn væri á afturdekkjunum í átt að Hringbraut. Keyrði inn Ljósvallagötuna á móti akstursstefnu og reif út úr bílnum poka sem hún ætlaði að stinga blómunum í. Sá þá það var Bónus poki, og kom þá í huga hennar að brúðarvöndur dóttur hennar færi sko ekki í Bónus poka. Var heppin að Vala var að vinna hjá Sævari Karli og að í bílnum var poki þaðan. Ekki að mamman sé snobbuð! .. Kom hlaupandi með hníf og poka að Margaritublómabeði í boði borgarinnar og horfði flóttalega í kringum sig - en hún mátti engan tíma missa og quizzz .. blómvöndurinn var skorinn úr beðinu og stungið í pokann frá Sævari Karli. Brunaði nú mamman aftur heim á leið, batt fagran borð um vöndinn og "voila" vendinum var reddað!
Út í bíl fór hún hlaupandi, í silfruðum og gylltum kjólnum og brunaði í Garðakirkju. Þar beið Birna og tóku þær brosandi á móti gestunum, sú gamla og sú nýja. Gestir urðu pinku skrítnir en brá að sjálfsögðu þegar inn var komið í kirkjuna og Henrik og Sören íklæddir mörgæsaklæðnaði hneygðu sig virðulega. Reyndar var annað krútt í mörgæsaklæðnaði sem beið fyrir utan með hringa í boxi - en það var Máni, sem eins og venjulega var bara "cool" enda vanur hringaberi!
Brúðurin kom eiginlega meira en fashionably late, kirkjan full af ungum og fallegum vinkonum brúðarinnar með litlu ungana sína og auðvitað pabbana þeirra! .. Damm, damm, damm, damm.. og "here comes the bride" Eva kom inn með pabba sínum, yndisleg sem alltaf brosandi út að eyrum - berfætt - eins og hennar var von og vísa í mammamia brúðarkjólnum sínum. Úff, það var ekki bara mamman sem tárfelldi, brúðurin grét og enginn var ósnortinn af gleði hennar.
Vala sat fremst með fallegu Elisabeth Mai, sem var íklædd yfir 50 ára gömlum skírnarkjól fjölskyldunnar, sem amma hennar (ég) hafði saumað í bleikar slaufur fyrir tilefnið.
Brúðkaupið var yndislegt, Páll Rósinkrans söng fallega fyrir brúðhjónin "Ó þvílíkt frelsi að elska þig" og "Unchained Melody" og ekki síður fyrir barn þegar hann söng "Þitt fyrsta bros" .. þúsund tára brúðkaup og skírn. Máni klikkaði ekki á hringaburðinum og var krútt aldarinnar, Jóna Hrönn bætti í gleðina með að halda á Elisabeth Mai meðan Rósinkransinn söng lagið hennar og sú stutta stal senunni algjörlega á tímabili, enda líka hennar dagur.
Veislan var æði, allir glaðir og kátir - farið í leiki og haldnar stuttar tölur, auðvitað margar óundirbúnar þar sem enginn eða fæstir vissu að um brúðkaup væri að ræða. Síðustu gestirnir fóru svo um miðnætti, en við gengum algjörlega frá salnum og komum heim lúin eins og eftir fjallgöngu - en jafn sátt. Fríður flokkur mætti á Ránargötuna; Brúðurin Eva og brúðguminn Henrik, mamman, svaramaður, Vala, hringaberinn var borinn inn sofandi og jafnframt hin nýskírða snót Elisabeth Mai og þau lögð fyrir.
Sören svaramaður þurfti að fara í flug klukkan 7 um morguninn, svo hans svefn gat aldrei verið meiri en 2-3 tímar. Þegar við vorum þarna um miðja nótt að horfa á upptökuna af skírn/brúðkaupinu, þá segir Eva við mig; Mamma það er best að Sören sofni hjá Henrik í þínu rúmi og ég sofi hér í minni sófanum og þú í þeim stærri. Ég sprakk úr hlátri og sagði það ekki koma til greina að brúðguminn og svaramaðurinn eyddu brúðkaupsnóttinni saman. En hún stóð föst á sínu og tilkynnti Henrik þetta, brúðkaupsnóttinni var þar með frestað þar til óákveðið!
Mamman sem hafði laumast til að setja hreint á rúmið hjá þeim og svona minnstu munaði að herbergið væri allt skreytt með hjörtum, en hafði sleppt því vegna tímaleysis. Jamm og já, þannig fór það. Sören svaramaður og Henrik svigeson eyddu s.s. brúðkaupsnótt þess síðarnefnda í mínu rúmi og ég (svolítið heppin) fékk að hafa Evuna mína hjá mér á brúðkaupsnóttina hennar.
Fallega fólkið mitt; Tobbi, Ásta, Vala, Máni, Eva og Henrik.
Lífið er yndislegt! Óska Evu minni og Henrik til hamingju, litlu stelpurnar manns verða samt alltaf litlu stelpurnar.... (set myndir á Facebook)
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 25.8.2009 kl. 19:51 | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju með þau og allt þitt elskuleg, en hefur þér aldrei dottið í hug að gerast rithöfundur.
Og hefði sko ekki trúað því að þú mundir taka frá borginni og það blóm sem hvort eð eru að fölna og deyja.
Knús til þín ljúfa kona
Milla
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 24.8.2009 kl. 21:19
Takk mín kærasta Milla, jú reyndar langar mig stundum að fara að skrifa annað en hraðskrift á bloggi, segja rómantískar rökkursögur eða eitthvað!
Ég er alveg samviskulaus af þessum blómastuldi, þeim var vel varið í góðar hendur.
Knús á móti til þín.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 24.8.2009 kl. 22:54
Elsku J'ohanna til hamingju með þetta allt saman. Ég táraðist við lesturinn svo þarf ég ekki að segja meir!
Ía Jóhannsdóttir, 25.8.2009 kl. 07:51
Takk fyrir síðast Jóga.
Frábær færsla hjá þér enda æðislegur dagur 14. ágúst 2009 sem verður lengi í minnum hafður. Bóndinn minn var að senda Evu Lind slóð á myndirnar sem við tókum, "bara" 201 stk.
Varðandi brúðarvöndinn þá voruð þið löngu búin að borga fyrir hann með sköttum og skyldum til Reykjavíkurborgar!
Kveðja,
Helga Sig (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 09:40
Til hamingju með litlu stelpuna þína elskan
Jónína Dúadóttir, 25.8.2009 kl. 12:14
Til hamingju með þetta alltsaman!
Rut Sumarliðadóttir, 25.8.2009 kl. 12:27
Takk fyrir góðar kveðjur elskurnar! ..
Takk elsku Helga mín fyrir myndirnar - er voða gaman að eiga svona sögu i myndum!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 25.8.2009 kl. 17:21
Þetta er svo yndislegt að ég fæ bara gæsahúð, hefði viljað vera með. Frábærlega sagt frá og svo lifandi. Held þetta mætti flokkast undir brúðkaup ársins. Knús á línuna og til hamingju með allt fólkið þitt og þig líka frábæra vinkona.
Ásdís Sigurðardóttir, 25.8.2009 kl. 17:54
Takk mín kæra Ásdís, ég vissi reyndar ekki hvort nokkur myndi nenna að lesa þetta allt, skrifaði þetta á túrbóhraða í gærkvöldi .. mér fannst ég verða að koma þessu á blað, þetta var allt svo sérstakt og skemmtilegt!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 25.8.2009 kl. 19:00
Innilega til hamingju með allt þetta Jóhanna mín. Fallega fólkið er er svo sannarlega orð að sönnu.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.8.2009 kl. 09:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.