Er "rölt" foreldra á eftir börnum annarra utan útivistartíma það eina sem við getum gert fyrir þessi börn ?

Tekið af síðu heimilis og skóla:

"Margir foreldrar hugsa sem svo: Barnið mitt er ekki úti á kvöldin. Ég sé um minn ungling og af hverju ætti ég að vera að eyða tíma mínum í að passa annarra manna börn?
Við þessu er einfalt svar:

Með því hefur þú áhrif á það félagslega umhverfi sem þú og barnið þitt býr við. Því færri sem nota vímuefni, eru lagðir í einelti eða beittir ofbeldi af öðru tagi, því betra og öruggara er það umhverfi sem unglingurinn þinn býr við. Við berum öll ábyrgð á okkar nánasta umhverfi, hættum þess og hvar unglingar geta haft athvarf til neyslu óæskilegra efna og hópamyndunar. "
  

Hvað er verið að meina? Ætti Gunna að fara út frá sínum börnum á unglingsaldri (og jafnvel yngri systkinum)  á kvöldin, og þar með skilja þau eftir ein heima, til að líta eftir börnum Önnu og Palla? - og hvar eru Anna og Palli ? Eru þau sjálf í óreglu, eða eru þau þessar týpur sem virða ekki útivistarreglurnar og láta engan segja sér hvað má og hvað ekki, móti boðum og bönnum? .. 

Auðvitað eru til börn og unglingar sem foreldrar ráða hreinlega ekkert við, þau eru í uppreisn - og fara bara út þegar þeim sýnist svo. Það er vissulega vandamál allra. En mér finnst ekki hægt að álása fólki fyrir að vilja vera heima hjá börnum sínum og væna það um að sinna ekki félagslegri ábyrgð. Einhverjir foreldrar geta valið það að fara í foreldraröltið, en ég vil benda á aðra leið.

Ég vann mikið í foreldrastarfi í minni barna-og unglingaforeldratíð. Mitt starf fólst mikið í því að fara t.d. í ferðir með börnunum og veit ég að þau eru þakklát fyrir það í dag. Fótboltamót, skíðamót- og æfingaferðir, kóramót og þar fram eftir götum. Þá leit ég vissulega eftir börnum annarra og hafði gaman af. "Fórnaði" mörgum helgum í þetta og hef aldrei séð eftir því, því auðvitað gaf þetta mér líka mikið að fá að fylgjast með leik og starfi barnanna minna og félaga þeirra, auk þess sem ég kynntist þeim sumum náið.

Það má segja að ég hafi farið aðra leið í að taka ábyrgð á annarra börnum, en foreldrarölt. Það var með því að vera örlát á mitt  heimili. Bæði þegar börnin voru yngri og seinna sem unglingar. Börnin voru býsna dugleg að koma með félagana heim, horfa saman á videó (sem þá var) eða bara vera saman.

Eftir samræmd próf kom heill hópur heim með yngri pakkanum mínum sem voru tvö, og skemmtu sér hið besta  þar sem borið var í þau brauð með pepperoni og pizzasósu og kók, og þótti þeim mikið til um að fá slíkar trakteringar.

Þetta kostar vissulega fórnir, því að unglingum fylgir oft hávaði, en ég tel þeirri fórn vel varið.  

Talað er um "óæskilega hópamyndun" í þessum texta frá Heimili og skóla, - unglingar eru hópsálir og langar auðvitað að hittast, ég held það sé ekkert óeðlilegt. En ef þau mega ekki hittast inni á heimili hjá neinum - þá fara þau að sjálfsögðu út.

Þetta er sem sagt mín skoðun á þessu og mín reynsla - sem ég vona að gagnist einhverjum sem er farinn að óttast unglingsár barnanna. Ég gerði það aldrei. Fólk sagði oft; "bíddu þar til barnið verður unglingur-þá byrja vandamálin" .. Ég bíð enn eftir unglingavandamálunum, "börnin" mín eru yngri eru að verða 22 ára og sú eldri 27 ára. Ég veit að ég var heppin að þessu leyti, og það eru stundum þær aðstæður í lífi unglinganna okkar, sem við höfum líka rætt (eins og eineltið hræðilega) sem ýtir þeim út í að deyfa sig með eiturlyfjum, eða jafnvel byrja á einhverju til að reyna að falla í kramið. 

SAMVERA okkar með unglingunum, og vissulega eftirlit, er lykilatriði. Einnig að bera virðingu fyrir þeim sem persónum.

Ég mæli með því að í staðinn fyrir að setja fókusinn á "foreldrarölt" úti á dimmum og köldum kvöldum þar sem við eltum unglingana, verði markmiðið að stefna unglingunum inn þar sem við getum nálgast þau og kynnst á miklu eðlilegri (að mínu mati) forsendum. 

Fæ alltaf þessa "Jón spæjó" tilfinningu þegar ég hugsa um foreldraröltið. Wink
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Þarna er ég þér svo hjartanlega sammála, það er eðlilegra að stefna þeim inn og leyfa þeim að kynnast því að við erum bara flott.
Ég segi eins og þú Jóhann mín varð aldrei vör við unglingavandann hjá mínum börnum, sá aldur var liðin áður en ég vissi af.
gerum öll börn að vinum okkar.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 15.9.2008 kl. 10:42

2 Smámynd: M

Sammála þér með þetta mál.  Ég á 12 ára dóttur og byrjar skólinn hennar að hvetja foreldrana snemma í foreldrarölt þótt mín dóttir var ekki úti um helgar á kvöldin. Þegar kom að úthlutuðu kvöldi mínu til að rölta var okkur fjölskyldunni boðið í matarboð og skippaði því kvöldinu með tilheyrandi samviskubiti. 

Gott ráð er að fylgja eftir sínu börnum, vinum þeirra og vera í góðu sambandi við foreldra þess. Það finnst mér allavega gott fyrsta skref

M, 15.9.2008 kl. 10:52

3 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Ég ,,yfirgaf" börnin mín þegar ég flutti hingað.  Þau urður eftir í húsinu okkar til að klára menntaskólann í umsjá ömmu sinnar að hluta til og skúru sem fljótlega dóttir mín rak á dyr og gerði bara verkin sjálf.  Við fengum oft að heyra að það yrði aldrei neitt úr okkar börnum, þau myndu lenda í rugli þar sem engin mamma eða pabbi voru dagsdaglega heima til að þrasa í þeim.

Reyndin varð önnur, við nýttum tímann vel þegar við vorum saman og þau dvöldu hjá okkur öll sumur hér.  Þau kláruðu sína skólagöngu og héldu saman heimili allan tímann.  Við einfaldlega treystum þeim sem vinum og félögum.  Auðvitað var þetta hræðilega erfitt og samviskan alltaf að drepa mig en í dag eru þetta vel gerðir einstaklingar með góða menntun og sjálfstæð og við erum mjög stolt af þeim. 

Ía Jóhannsdóttir, 15.9.2008 kl. 11:40

4 identicon

Sæl Jóhanna.

Þú ert með miög GÓÐ skilaboð til foreldra og um leið annarra sem láta sig VELFERÐ BARNA OG UNGLINGA skifta sig miklu máli.

Hafðu það sem best með öllu þínum sem eru þér kærir.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 11:46

5 identicon

Þar sem þú Jóga þekkir mig nokk vel sem ungling, þá skal ég segja mitt álit seinna í dag. Þegar ég er við tölvu :)

Róslín Alma V. (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 11:46

6 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Mikið er ég fegin að mín börn eru orðin fullorðin, það er svo vandlifað í þessum heimi.

Rut Sumarliðadóttir, 15.9.2008 kl. 11:50

7 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Góður pistill

Jónína Dúadóttir, 15.9.2008 kl. 12:16

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Takk fyrir athugasemdir, ... ég kemst ekki til að segja neitt sjálf núna, er upptekin eins og Róslín fyrirmyndarunglingur og vinkona mín, sem ég treysti að fari nú ekkert að ibba gogg við mig, hmmmm...

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 15.9.2008 kl. 13:19

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

p.s. annars mjög gott að fá viðhorf unglings inn í þessa umræðu, hvað honum/henni finnst.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 15.9.2008 kl. 14:02

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Frábær færsla og engu við hana að bæta.

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.9.2008 kl. 15:32

11 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Það var alveg að fara að hringja inn úr frímínútum svo ég hafði ekki tíma til að skrifa meira.

Ég ætla að ibba meiriháttar gogg, nei eða ekki. Hef held ég voða lítið til að rífa mig yfir.

En foreldrarölt tíðkast ekki hér á svona litlu svæði, held það sé þá heldur þannig að hringt sé í foreldra eða lögreglu til að ná í krakkana. Ég, fyrirmyndarunglingurinn og vinkona þín Jóga, hef aldrei lent í slíku enda innst inni algjör félagsskítur. ( Stelpan sem hefur ekki bragðað áfengi, fyrir utan eitt skipti þegar hún var fimm ára og trúði ekki mömmu sinni að hún væri að drekka rjómalíkjör...).
Eina sem er gott við þessar útivistareglur er að þær eru einu reglurnar sem maður gæti vel endilega hugsað sér að brjóta, enda heldur fáránlega upp settar - þar sem það er ekki sagt neinstaðar í reglunum að við megum einhverntíma fara út aftur!...
Ég meina, það voru æfingar í fótboltanum hjá mér kl. hálf 6, sem þýðir að ef maður labbar eða hjólar verður maður að fara af stað korter yfir fimm!
Það hlýtur eiginlega að vera ólöglegt, enda ókristilegur tími m. meiru.
Einu lögin sem ég brýt er að vera lengur úti, enda tæknilega séð er ég ekki úti þegar ég er inni hjá öðrum!

Foreldrarölt á ekki að þurfa að vera, enda eiga foreldrar að hugsa sjálfir um sín börn - og setja þeim sanngjarnan útivistartíma!

... annars er ég alltaf voða happý og skemmtilegur unglingur....

Róslín A. Valdemarsdóttir, 15.9.2008 kl. 15:40

12 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Sammála þér Jóhanna, og geri sjálfur það sama og rek félagsmiðstöð fyrir vini minna barna.

Haraldur Davíðsson, 15.9.2008 kl. 18:06

13 Smámynd: Halla Rut

Við sem myndum samfélagið berum sameiginlega ábyrgð á því.

Flott hjá þér. Þú ert duglegur og ábyrgðarfullur samfélagsþegn...(flottur titill er það ekki)

Vandræðin væru fá ef allir væru sem þú. Hvar áttu annars heima, er að spá í að flytja í götuna...hahaha

Halla Rut , 15.9.2008 kl. 20:01

14 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Knús

Sigurður Sigurðsson, 15.9.2008 kl. 21:06

15 Smámynd: Sunna Dóra Möller

...takk fyrir góðan pistil....það er gott fyrir mig sem er unglingaforeldri að lesa svona....maður er jú alltaf að reyna að gera réttu hlutina og þess vegna er reynsluheimur þeirra sem eru búin með unglingatímann og hafa lifað hann af... góður fyrir okkur sem á eftir koma! Takk fyrir mig !

Sunna Dóra Möller, 15.9.2008 kl. 21:39

16 Smámynd: Huld S. Ringsted

Góður pistill

Huld S. Ringsted, 15.9.2008 kl. 22:34

17 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Takk Huld  Takk Sunna, vona að þetta verði að gagni - man alltaf eftir orðum Gunnlaugs skólastjóra þegar ég sat fyrsta foreldraráðsfundinn í unglingadeild, hann sagði að ábyrgðin okkar á unglingsárum barnanna væri jafn mikil og með ungabörn, þetta sat alltaf í mér, og ég held að þetta sé rétt. 

Sigurður, þitt bros getur vissulega dimmu í dagsljós breytt

Já, já Halla, Gleði, gleði, gleði.. bara

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 15.9.2008 kl. 22:45

18 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Róslín, Róslín, Róslín, Róslín, ..
Hvað gerðum við, ef værum við án þín
Róslín, Róslín, Róslín, Róslín,
já útivistin skrítin er, Róslín

Þú fimmtán ára berð fréttirnar
þú flýrð ekki´í réttirnar
eins og Árni gerði í gær, Róslín  

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 15.9.2008 kl. 22:58

19 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Gleymdi að segja það að þeir sem vilja syngja síðustu athugasemd þeir þurfa að nota lagið Joleen og syngja með country hreim eins og Dolly Parton.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 15.9.2008 kl. 23:10

20 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Takk Haraldur, .. þú lítur nú út eins og Siggi Páls í París á myndinni þinni.

og Jenný - endalaust knús í flutningunum þínum.  - og á ömmuna sem er langt í burtu.

Hér áður fyrr var boðinn dús,
nú bjóðum við á bloggi knús.


..æ það má einhver botna þetta ef hann/hún nennir.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 15.9.2008 kl. 23:16

21 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Hahahahaha, nú lýst mér vel á þig kona!

Takk fyrir þetta, gleymdi sko algjörlega að senda þér knús!

KNÚS

Róslín A. Valdemarsdóttir, 15.9.2008 kl. 23:21

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já ég held að það sé alveg rétt hjá þér Jóhanna mín, að aðalmálið sé að gefa börnunum sínum tíma og ást.  Hitt kemur svo meira af sjálfur sér.  Aðhald er nauðsynlegt, til að þau viti stöðu sína, það er öryggi þeirra.  Góður pistill, takk.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.9.2008 kl. 12:58

23 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Hér áður fyrr var boðinn dús,
nú bjóðum við á bloggi knús.


kalla með brosi og kalla með klút

og kalla með munninn í stút.

Hemmhemm

Rut Sumarliðadóttir, 16.9.2008 kl. 13:13

24 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Þakka þér hildur = Ásthildur (ef einhver fattar ekki)

Rut - Góð   þú meinar þessa hérna:  

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 16.9.2008 kl. 13:33

25 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

jebb

Rut Sumarliðadóttir, 16.9.2008 kl. 13:41

26 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Rut Sumarliðadóttir, 16.9.2008 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband