Færsluflokkur: Bloggar

Mjög mikilvæg skoðanakönnun - eða þannig!

Ef þú kíkir hér í heimsókn, endilega segja mér hvernig bíllinn þinn er á litinn hér í skoðanakönnun til vinstri!

Takk, takk.


Gráir bílar og rauðir - hvernig er bíllinn þinn á litinn?

Ég ýtti á snooze takkann í morgun og ætlaði að sofa leeeengur en þá kom nýtt hljóð í símann, hmmm.. hljóð eins og minnismiðar símans gefa frá sér. Ég þreifaði eftir símanum og bar hann upp að nefinu og stökk svo uppúr rúminu, en þá var klukkan 07:01. Á skjánum stóð jafnfrat eitt orð ,,BÍLL" en það þýddi að bíllinn, þríákeyrður átti að fara á réttingaverkstæði klukkan 8:00.

Þar sem ég er ómissandi í skólanum (að eigin áliti) fór ég að reikna hversu margar mínútur ég hefði í a) sturtu b) laga hafragraut  c) lesa moggann o.s.frv.. og komst að því að þetta myndi reddast. Fór í svörtu buxurnar sem eru nr. 42 og eru farnar að hanga (liggaliggalái) vegna spinningtímanna hræðilegu og masókistamataræðis, svo eitthvað gott virðist koma útúressu. Sá fyrir mér hringsólandi hamborgara og ís með nóakroppi þegar ég sofnaði í gærkvöldi.

Jæja, ég náði á verkstæðið á mínum gráa bíl uppúr kl. 8:00 í morgun - allt skv. áætlun, og var ekið á bílaleigu þar sem ég fékk annan gráan bíl. OG þá er ég loksins komin að meginmáli þessa bloggs! .. Þegar ég var að aka í vinnuna fannst mér bara alltíeinu allir bílar vera gráir!!!.. ljósgráir og dökkgráir. Erum við orðin svona löt að þrífa bílana að engir eða fáir velja rauða, gula, bláa, græna bíla ? 

Eini virkilega flotti bíllinn sem ég hef átt var gamli frúarbíllinn minn: Ford Fairlaine, 1966 árgerð. Að vísu svolítið glannalegur, því hann var án belta og bremsurnar virkuðu bara eftir behag. Það þekkja þeir sem fengu far með mér. Einu sinn fór minn fyrrverandi með hann á verkstæði til olíuskipta (ég kunni ekkert á slíkt, enda á ósjálfbjargakonutímabilinu) og þá spurðu verkstæðismennirnir hvað hefði komið fyrir, undir honum var allt krökkt af fíflum (blómum) og sóleyjum.  Það var sko þegar ég hafði ,,flogið" upp á umferðareyju í eitt skiptið þegar bremsurnar klikkuðu. Kissing

p.s. það skal tekið fram að ég var í rétti í öll þrjú skiptin sem ekið var á gráa bílinn minn!


Kvöldbæn

Guð; hver, hvar og hvað sem þú ert,

leiddu mig í átt að sannleikanum.

Leyf mér að hvíla í öruggu skjóli þínu dag sem nótt.

Gerðu mig góða og gefandi manneskju.

Taktu burt áhyggjur mínar svo ég geti hugsað skýrar,

og þannig látið gott af mér leiða. Heart

p.s. og svo væri fínt að fá gott veður á morgun! Grin

 


Sálfræðipróf fyrir starfandi presta?

Það er náttúrulegra sorglegra en tárum taki að fólk sem sinnir sálusorgun, prestar eða aðrir í svipaðri stöðu skuli misnota aðstöðu sína.

Þegar ég var í guðfræðideildinni, en ég útskrifast í febrúar 2003, vorum við látin taka 500 spurninga sálfræðipróf, fórum í námskeið og áleitin viðtöl. Ég sagði í gríni eftir þessi próf að mikið væri gott að fá stimpil yfir að vera ekki axarmorðingi. Ég var í hópi þeirra fyrstu sem fór í gegnum þessa síu, en eftir prófin fórum við í tvö viðtöl hjá sálfræðingi þar sem okkur var leiðbeint miðað við niðurstöður. Mér var að vísu tilkynnt, að ég gæti miðað við allar aðstæður og niðurstöður orðið hinn ágætasti prestur! ... hmmm.. hugsa það síðar.. Það hefur auðvitað reynt á mig sem sálusorgara nú þegar, þó það sé á öðrum vettvangi en kirkjunnar.  

Ég held að það væri óvitlaust að taka nú starfandi presta í slíka skoðun, eftir þessa uppákomu með sr. Gunnar. Ég ætla ekki að dæma hann, það verða aðrir að gera með faglegu móti.

Minni auðvitað á að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Í kringum alla sem fremja afbrot, eða eru sakaðir um slíkt,  eru ættingjar í sárum og því þurfum við að gæta tungu okkar og hvað við skrifum. Þá er ég ekki að gera lítið úr sorg fórnarlamba eða ættingja þeirra, svo enginn misskilji það.


mbl.is Prestur í leyfi frá störfum vegna kæru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíbí miðill og Páll Rósinkrans í Svalbarða ..

Vorum að skipta á milli stöðva, rugl á RUV og enn meira rugl á Stöð2, enduðum á Svalbarða sem mér, hingað til hefur sýnst svolítið rugl líka. Langar þó að sjá Bíbí miðil, þar sem ég er búin að lesa bókina hennar.

Var annars að borða eitthvað lífrænt ræktað fitulaust popp sem bragðast eins og pappír! .. Urtekram popp held ég! .. Mæli ekki með því, oblátur eru bragðmeiri LoL


Hætt við Keilisferð, bækur sóttar í geymslu og myndavesen...

 Við vorum búin að plana að ganga á Keili í dag, en æi, nenntum ekki vegna skyggnis og rigningar. Í staðinn fyrir að leggjast með lappir uppí loft, ákváðum við að fara að sækja hluta af dóti sem ég hafði fengið að geyma í geymslu hjá stóra bróður. Að vísu í rúm tvö ár! .. Þetta eru margir kassar af bókum, myndaalbúmum, ýmislegt punt og dót sem ég hafði getað lifað án, en þurfti auðvitað að fara í gegnum það og velja. Er því búin að liggja yfir myndum og rifja t.d. enn meira upp unglingsárin, en eitt albúmanna var akkúrat frá þeim tíma.

Ég nennti ekki að halda áfram að sortera og fór því að blogga sko! ..Tounge

 Ég slysaðist til að fara að fikta í höfundarmyndinni minni - tók hana út - og prófaði aðra sem kom bara ekkert vel út í litla boxinu þó hún væri ágæt svona generalt.  Ætlaði að setja gömlu myndina inn aftur en týndi henni!!!  Í boxinu litla verð ég s.s. eins og búálfur þar til ég redda betri mynd. 

 


Sólardagur ..

Nú er dagur að kveldi kominn og konan búin að vera úti lungað úr deginum í stuttbuxum! .. Þegar ég kom heim - hrikalega glöð vegna þess að ég var búin í spinningtímanum, beið mín morgunverður útá palli, og enn á ný mundi ég afhverju mér þykir svona vænt um manninn minn - elska að vera dekruð! InLove

1.maí_2008_afi Agnar_amma_Vala 007

Morgunverður á pallinum, og okkur skýlt fyrir ,,sterkum geislum sólar með Burberries-sólhlíf (úr Rúmfó!)

 

 1.maí_2008_afi Agnar_amma_Vala 018

Eftir hádegið fór ég og sótti ömmu Völu sem kom líka útá pall og stuttu seinna komu afi Agnar og Bjössi frændi. Hellt var upp á kaffi og aftur borðað. Mamma frísk og flott og Agnar er ekkert smá flottur, á 89. aldursári!!..

Um kvöldmat bættist svo í hópinn en þá komu Gunna og Aggi Tryggvabörn og borðuðu með okkur, var svo busy að laga matinn að ég gleymdi að taka myndir af þeim!

Er ágætlega ,,steikt" eftir daginn! .. Ég klikkaði aftur á móti á öllum kröfugöngum og kirkjuferðum. Geng mínar eigin göngur og rabba við Guð í ró og næði... í dag.


Simbi - velkominn í fjölskylduna!

Ég var að kíkja yfir á bloggið hennar Völu en þar er hún að segja frá því að hún hafi ,,ættleitt" hvolp af hunda-athvarfi þar sem hún er að vinna sem sjálfboðaliði. Takið eftir því þið þarna Ameríkanar sem alltaf eruð að bögga hana í tollinum!!!.. Angry hún er sjálfboðaliði og ekki að stunda ólöglega atvinnu - þetta var smá útúrdúr! ..

Well, það voru nú nokkur dýr á okkar heimili, fyrstur kom hundurinn Kolli, sem fór síðan til forfeðra sinna á dramatískan hátt sem ekki verður sagt frá hér. Pási flaug einn daginn inn til okkar og við fundum aldrei fjölskylduna sem hann tilheyrði svo hann varð að okkar Pása. Hneta, hundurinn okkar kom næst og þá brjálaða kanínan hennar Evu, man ekki lengur hvað hún hét!.. Ef börnin hefðu ráðið þá hefðu nú verið fleiri dýr á heimilinu.

En það má segja að Vala hafi verið mesta ,,dýragælan." Einu sinni, þegar hún var bara sjö ára eða svo vorum við stödd í sumarhúsi og inn kom fugl sem trylltist og flaug útum allt. Við panikeruðum svolítið en hún gekk róleg að fuglinum og tók hann í lófana og lét hann fljúga út. Síðan ætlaði hún líka alltaf að verða dýralæknir, en þegar þurfti að svæfa hundinn okkar þá breyttist það snögglega. Henni fannst það óspennandi hlutskipti.

Jæja, en nú er hún s.s. eins og ég sagði í upphafi búin að fá sér hrikalega sætan hund útí Flórída. Það er hægt að sjá umfjöllun hennar um það á blogginu hennar og myndir af krúttinu hérna.                               

Voffi fékk nafnið Simbi og ég er sko amma hans eða þannig! LoL


73 svöruðu skoðanakönnun

Spurt var

Hvort styður þú aðgerðir lögreglu eða mótmælendur ?  Á minni litlu auðmjúku bloggsíðu var þetta niðurstaðan.  Ég kaus 70% með löggu og 30% með mótmælendum því auðvitað vil ég að fólk geti mótmælt en tek undir orð Kolbrúnar Bergþórsdóttur að "fólk fær ekki samúð með derring og dónaskap!"  Svo var löggan augljóslega ófagleg, en það þýðir samt ekki að hinn almenni borgari hafi leyfi til að ráðast á hana, ónei æsei.
Lögguna 100% 50,7% 
Mótmælendur 100% 13,7% 
Lögguna 50% og mótmælendur 50% 5,5%
Lögguna 70% og mótmælendur 30% 15,1%
Mótmælendur 70% og lögguna 30% 12,3%
Hlutlaus 2,7%
Könnun lýkur núna klukkan 18:00
73 hafa svarað

Máni ömmustrákur 4 ára!

Kom úr ,,boot-campinum" Huldukoti seinni partinn, en við höfðum farið í tveggja tíma göngu í gær í skóginum við Jafnaskarð. Fengum hand-maska, sem ég hef nú ekki prófað áður og þar sem ég var með maska á höndunum gat ég að sjálfsögðu ekki tekið mynd, nema ég hefði ,,maskað" myndavélina líka.

Þegar ég kom heim hentist ég í sturtu, en Mánalingur á hvorki meira né minna en fjögurra ára afmæli i dag. Ég sagði frá minni upplifun að verða amma hans hérna.

Þetta var heilmikill veisludagur hjá honum, en hann bauð vinum og vinkonum í dag, en seinni partinn komu ömmur, afar og ýmsir svona eldri en fimm ára! Amma og afi komin alla leið frá Danmark! Svaka flott Transformers afmæli og mikið af blöðrum.

Pabbi hans smíðaði svaka flott rúm, sem er eins og Volksvagen rúgbrauð. .. Ekkert smá laghentur tengdasonur þar!

24.apríl 2008 022

Máninn minn á Sumardaginn fyrsta!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband