Færsluflokkur: Bloggar

Innflutningspartý breyttist í brúðkaupsveislu...

Í gærkvöldi fórum við  í innflutningsboð til vina. Þetta er fólk sem betri helmingurinn færði í vinapúkkið svo ég hafði nú aðeins hitt þau tvisvar áður.

Jæja, ég fer og kaupi fína rauðvínsflösku til að færa þeim, vel þær alltaf eftir útliti (og verði til að vera viss um að kaupa ekki eitthvað drasl) - svo þessi var með gylltum miða, voða flott! Smile Nú fá vínspesialistarnir flog! LoL 

Þegar ég var að velja dressið fyrir kvöldið var ég að pæla hversu fín ég ætti að vera. Er alltaf svo fín í vinnunni og stífpressuð svo það er svolítið gaman að fara í pæjugallann um helgar (innan þeirra marka sem aldurinn gefur). Dró að vísu fram fallegan svartan kjól með hvítri slaufu en hugsaði að þessi hæfði nú bara í brúðkaupsveislu og hann fór inn í skáp aftur. Gallapilsið varð ofaná.  

Við ókum niður í Hlíðar, þar var búið að skreyta með blöðrum, tekið var á móti okkur með hvítvíni og cider. Búið var að taka þessa íbúð í nefið og snýta henni út aftur. Allt orðið tipp topp fínt. Þegar liðinn var um hálftími af boðinu kvað húsbóndinn sér hljóðs og bauð fólk velkomið en tilkynnti jafnframt að parið hefði gift sig fyrr um daginn! Algjört surprise fyrir alla nema börnin þeirra og svaramenn að sjálfsögðu. Gleði, gleði, gleði... Ég var svo sjálfsentrísk að hugurinn leitaði beint heim í fataskáp þar sem brúðkaupsveislukjóllinn hékk! LoL...

p.s. fór í spinning í gærmorgun og gekk súpervel! Það er vont en venst...

 


Roðnaði fyrir hönd Eiríks ...

Rosalega þótti mér vandræðalegt þegar Bubbi bað Eyþór um að lofa sér að syngja aldrei í Eurovision ...

Eyþór flottur söngvari, hélt með honum.

Björn Jörundur og Villi áttu showið, langskemmtilegastir!


mbl.is Eyþór hreppti stöðuna í Bandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hott, hott á hesti....

Fyrir mörgum, mörgum árum, tja..ætli þau séu ekki svona tólf, ákváðum við, eða réttara sagt maðurinn minn fyrrverandi að nú væri komin tími á fjölskylduna að fara á hestbak. Ekkert sem við tókum okkur fyrir hendur var hægt og hljótt og það var að sjálfsögðu ekki undantekning hvað þennan reiðtúr varðaði. Við fjölskyldan höfðum einu sinni farið á hestbak saman, en það var í hálftíma ,,lull" við Hreðavatn. Það var mín fyrsta og eina reynsla mín af hestaferðum - fyrir Kjalarferðina sem ég var á leiðinni í. Já, stefnan tekin á Kjöl. Mamma, pabbi, börn, hundur og bíll héldu norður, að vísu var Eva - sú elsta ekki með þar sem grimm móðir hennar hafði sent hana í útlegð til að vinna á Hótel Eddu, Hornafirði. Það verður mér seint fyrirgefið. Shocking ..

Ég man ekki staðinn fyrir norðan sem við mættum liðinu frá Íshestum, en ,,lookið" á fararstjórunum var ekki gott þegar ég lét vita að ég væri sama sem byrjandi. Það voru tvíburarnir eiginlega líka, höfðu þó prófað eitthvað smá.

Ég var gölluð upp í reiðbuxur af fararstjóra, með hjálm einu númeri of stóran sem dinglaði hægri, vinstri og af stað - ekki á byrjendahesti því að þeir voru að sjálfsögðu ekki til staðar. Fimm daga reiðtúrar eru ekki fyrir byrjendur. Ég var samt nokkuð köld, og tölt var af stað á hesti sem hét Nancy - eða réttara sagt brokkað, hlaupastingurinn sem ég fékk þegar hesturinn minn var búinn að brokka í hálftíma var ólýsanlegur og mér skilst að ógnarsvipurinn sem ég sendi mínum fyrrverandi hafi líka verið ólýsanlegur. Vala glímdi við sama vandamál, en Tobbi var eins og gel, eins og hann hefði aldrei gert annað en að sitja hestbak. Þau stóðu sig bæði eins og hetjur.

Ekki ætla ég að fara að segja frá öllum skemmtilegu ævintýrunum sem við lentum í á þessari leið, en skemmst er að segja frá því að ég kom ósár úr ferðinni,þó með MJÖG miklar harðsperrur. Hékk á baki allan tímann og kynntist samferðafólki sem var frá mörgum löndum. Besti tími dagsins var þegar stigið var af hestinum á áningarstað og sest niður til hvíldar. Hvisss .. og einn ískaldur bjór var teygaður. Ekkert áfengi var haft við hönd í reiðtúrunum sjálfum.

Fengum bongóblíðu allan tímann og kynntumst þarna m.a. konum frá Flórída, sem eflaust hafa tekið sólina með sér, og önnur þeirra var/er eigandi að sirkus sem heitir Arabian Nights. Þær sögðu mér síðar, þegar við heimsóttum þær til Flórída að ég hefði eflaust getað fengið vinnu hjá þeim, miðað við tilfæringarnar við að halda mér á baki... Grin

Því miður lenti ég í því síðar á lífsleiðinni að detta tvisvar illa af baki á sama hestinum með viku millibili, ber ævinlega ör eftir síðara fallið....kvaddi því skjóna en fór síðar á bak frábærum hesti sem hét auðvitað Ljúfur  ... Kissing

Hvaða lærdóm er svo hægt að draga af þessu? Nú t.d.: Karlmenn eru eins og hestar, ef þeir henda manni af baki á ekki að setjast upp á þá aftur! ..Woundering

 


Vaknað með pílur í hnakka og ...

Í morgun vaknaði ég skrítin Shocking .. skrítnari en venjulega. Var þreytt, með svima og fékk svona smástingi í hnakkann .. skildi ekkert í þessu!

Mín sem var nýbúin að blogga um spinningið fattaði ekki að hún væri bara e.t.v. búin að ofkeyra sig í bikinístandsetningarkroppasjáfspyntinganámskeiðinu. Var vinsamlega bent á það af samstarfsfólki og að vísu nokkrum sinnum af maka að fara rólega.

Var svo svakalega heppin að fá Blue Lagoon Spa nuddmeðferð ,,gjafabréf" með námskeiðinu - og er að fara í rescue 911 meðferð á eftir! Liggaliggalái! Kem til baka ný og betri.


KAUPUM BLEIKAN VARALIT ..

imagesSmellið HÉR og sjáið hvers vegna ....

Skítsama um peningana hvað ?

Af hverju er skítur og peningar svona oft tengt?

Í hugum Íslendinga virðist skítur þýða peningar. Dreymi mann skít er sagt það sé fyrir peningum. Hefur að vísu aldrei ræst hjá bréfritara. Shocking

Fólk á peninga eins og skít. Líka í útlöndum sko: ,,Shitload of money" .. Stundum svara foreldrar bönum sínum sem eru að betla fyrir bíó eða öðru:  ,,heldurðu að ég skíti peningum." ?

... en svona fyrir utan þetta, held ég að Eyþór vinni þessa Bubbabandskeppni. Hann og Arnar eru svona kannski eins og venjulegt Cheerios og Honey Nut Cheerios... LoL .. alveg skítsama um peningana.. á maður/kona að trúa því ?


mbl.is „Mér er skítsama um peningana“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljóminn brenndur burtu ...

Bréfritari er að hefja aðra vikuna á einhvers konar bikinístandskroppastandsetningarsjálfspyntingarnámskeiði hjá Hreyfingu.

Í gærkvöldi var þriðji tíminn í hinu alræmda ,,spinning." Sumum finnst þetta gaman, en það vantar augljóslega í mig spinning-greindina, ef þetta er skoðað út frá fjölgreindarkenningu Gardners. Cool

Ég mætti með gelpúðann minn og setti hann á hnakkinn, stillti hjólið eins og pro og held að engin viðstödd hafi séð hnútinn sem ég var með í maganum, eða kannski bara haldið að það væri hluti af púlsmælinum sem ég var búin að spenna utan um mig miðja. Var síðan eins og Grani í Spaugstofunni alltaf að tékka á púlsinum á ,,úrendanum"  svo ég gæti nú náð hámarksfitubruna.

Ég náði alveg örugglega hámarksrassbruna - þrátt fyrir gelið. Af einhverjum ástæðum minntist ég orða Danans sem var samferða í reiðtúrnum yfir Kjöl (í brúðkaupsferð með sinni) ,,Det er lige som at være voldtaget av en isbjörn" sagði hann á þriðja degi Kjalarferðarinnar um leið og hann vatt sér inn í trússbílinn og þáði far með honum.  Sama hversu mörgum dömubindum var búið að vattera manninn með - ekkert dugði!! ..alveg satt!

Tíminn endaði þó ekkert þó ég færi að hugsa og ég hélt mig á réttum púls og fór himinhátt í restina og lofaði alla helga vætti þegar tíminn var búinn. Kannski mest Ágústu Johnson sem sagði að brennslan héldi áfram í nokkra tíma eftir tímann..  ekki brennt til einskis .. eða er þetta kannski allt til einskis ?  Pjúra hégómi ? .. Nei, segi eins og Siggi Sigurjóns (svo ég taki fleiri karaktera með honum) ,,I love it" .. when it is finished

Eftir tímann var okkur smalað á vigt, að vísu einni í einu og niðurskurður eftir vikuna eru 2,3 kíló, en það eru fjögur Ljóma smjörlíkisstykki plús 300 grömm af því fimmta!  

Hefur þú farið á ,,átaksnámskeið" ?


Neita að flytja né kaupa aftur! ...

Ég er búin að kaupa og selja svo mörg hús (og standsetja) að ég er hætt að nenna húsakaupum.

Mín heimili frá upphafi eru 18 talsins...  

Grettisgata .. barndomshjem
Háaleitisbraut ... fram að gelgju
Keilufell......þar til ég flutti að heiman (allt of ung)
Laugarnesvegur....fátækt, rómantík og frumburðurinn fæðist
Asparfell..... vil helst sem minnst muna eftir því
Gnoðavogur.....síðasta leiguíbúðin, gifting
Nönnustígur Hfj., fyrsta húsið til að gera í stand
Blönduhlíð..... Tvíburarnir koma í heiminn
Goðatún Gbæ.,...annað húsið tekið í nefið  
Marargrund Gbæ., ... þriðja húsið standsett
Álfaskeið Hfj., ... fjórða húsið og skeiðað úr hjónabandi
Hallveigarstígur... recovery
Stigahlíð...... sem varð að systrahlíð þar sem við bjuggum þar þrjár systur
Nýlendugata....fimmta húsið - stutt stopp en gott 
Hulduland.... æi, vond lykt á ganginum en flott eldhús 
Sigtún .... smá leiguflipp þar 
Réttarholtsvegur....sjötta húsið, brotið niður og byggt upp - draumaeldhús
Kleifarás....kom sá og sigraði Heart 

Home is where your heart is ....
 


mbl.is Spá 15% lækkun fasteignaverðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugrenningatengsl við gömul skrif..

Þegar ég sá þessa frétt datt mér í hug grein sem ég skrifaði og birtist í Morgunblaðinu 6. júní 2002 - en þar ber ég saman hollustu líkamlegrar og andlegrar fæðu. Það var í raun ekki ástæðan fyrir skrifum mínum, að tala um mat, heldur var greinin hvatning til að leita sér andlegrar fæðu. Ég var sjálf í guðfræðinámi á þessum tíma og var að hvetja fólk til að kynna sér námið.

Hér kemur greinin óbreytt:


Verðum við einhvern tíma stór?

HINN 17. mars sl. var ég að fræða börnin í Víðistaðakirkju um veganesti út í lífið. Ég notaði samlíkingu við það sem þau þekkja og þau skildu vel muninn á sælgæti og gosi annars vegar og brauði með osti og mjólkurglasi hins vegar. Á sama hátt útskýrði ég fyrir þeim hvernig þau þyrftu að velja "andlega fæðu" forðast t.d. ofbeldismyndir í sjónvarpi og vídeói þar sem slíkt getur haft skaðleg áhrif á börn (og fullorðna líka, ef því er að skipta) en velja heldur það sem gerir þeim gott og byggir þau upp. Í þessu tilfelli var ég að sýna þeim fram á "næringargildi" bænarinnar, söngsins og samverunnar í kirkjunni. Herdís Egilsdóttir, kennari með meiru, hafði notað þessa samlíkingu varðandi námið hjá nemendum sínum og greip ég hugmyndina fegins hendi.

Ég var sjálfboðaliði á námskynningu um andlega fæðu í guðfræðideild Háskóla Íslands, en þar er ég nemandi. Það vildi svo skemmtilega til að þessi kynning var sama dag og ég var að fræða börnin í kirkjunni um hollt veganesti. Á námskynninguna kom fólk sem er að klára stúdentspróf og einnig þau sem langar að bæta við sig, sum eftir langa fjarveru frá akademísku námi. Ég segi akademísku, því alltaf erum við stödd í þessum margumrædda skóla lífsins.

Það er mat flestra næringarfræðinga að hollast sé að fá fæðu úr sem flestum fæðuflokkum. Það er reynsla mín að nám í guðfræðideild bjóði upp fjölbreyttan fróðleik úr ólíkum áttum, m.a. : siðfræði, heimspeki, trúfræði, trúarbragðafræði, uppeldisfræði, sögu, félagsfræði, söng, sálfræði, tungumál, bókmenntir, mannfræði, kvennafræði o.fl. o.fl.

Í raun eigum við öll erindi í guðfræði! Samsetning nemendahópsins er nám út af fyrir sig. En allt erum við leitandi fólk, fólk sem hungrar í fróðleik. Sum okkar hafa lesið Biblíuna, önnur aldrei opnað hana. Það er afskaplega gefandi að vera í námi hvert með öðru, karlar og konur, ungir og aldnir, trúuð og vantrúuð og allt þar á milli. Því við miðlum hvert öðru, m.a. eftir reynslu okkar, aldri og kyni.

Það er gott að vera í guðfræðideild. Þar er tekið vel á móti þér þegar þú hefur nám í deildinni - með kaffi, brauði og kökum. Þar mæta kennarar, skrifstofustjóri og nemendur saman. Deildin hefur einnig kaffistofu þar sem við skiptumst á skoðunum og Félag guðfræðinema býður upp á blómlegt félagslíf. Þá er bara þitt að taka þátt.

Starf að loknu námi

Þú getur viljað starfa innan kirkjunnar, við fjölmiðla, kennslu, fræðimennsku, bókmenntarýni, ráðgjöf, liðveislu, starfsmannahald og í raun er menntun í guðfræðideild góð undirstöðumenntun eða hlekkur í menntun fyrir svo margt.

"Hvað á ég að verða þegar ég er orðin/n stór" er stór spurning, og undirliggjandi er alltaf önnur spurning: "Hver er ég núna?" Erum við ekki alltaf að leita að sjálfsmyndinni? Verðum við einhvern tíma stór? Í Biblíunni stendur að við séum sköpuð í Guðs mynd, hver er Guð? Enn er stórt spurt, en hver veit nema þú getir nálgast svarið í námi við guðfræðideild Háskóla Íslands?

.. Jamm og já og þarna lauk greininni. Ég kláraði s.s. embættispróf í guðfræði, með starfsþjálfun og alles ,,á gamals aldri" eignaðist yndislegar vinkonur og vini. Fór í frábæra kúrsa þar sem ég fór svolítið að fatta sjálfa mig og tilveruna. Ekki hef ég tekið vígslu sem prestur, þó ég hafi tilskylda menntun,  en kannski verð ég það þegar ég er orðin stór!

Veit ekki hvort einhver nenni að lesa þennan helling :) ..  eigið góðan dag!


mbl.is Skyndibiti með barnaefninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vælt með Valdísi og Jónu Ágústu.

Sat í sakleysi mínu við morgunverðarborðið í morgun að borða sparimorgunverð sem inniheldur tvær ristaðar brauðsneiðar með 11% osti og sultu án viðbætts sykur. Auk þess nýpressaðan djús úr nýja djúsaranum sem er nýjasta tækið í tækjasafni mínu. (Betri helmingurinn álítur mig með tækjadellu).  Hafragrautur eftir uppskrift Ágústu Johnson aðra morgna.

Ég hafði kveikt á útvarpinu, því ég vissi að Valdís ætlaði að vera með Jónu Ágústu í viðtali. Valdís fór fljótlega að slá á viðkvæma strengi og í gegnum blaðrið í Tryggvunum tveimur og hávaðann í expressóvélinni heyrði ég um æsku Jónu Ágústu, þegar hún missti foreldra sína og bræður ung að aldri. Valdís las síðan upp sterka bloggfærslu Jónu sem tengdist þessum atburðum.

Ég sat eins og negld og tárin fóru að flæða, en svo heyrði ég á Valdísi að þær voru sjálfar farnar að ,,væla" eins og hún orðaði það. Ég býst við að flestum hafi a.m.k. vöknað um augu sem á hlýddu.

Á þessum árum þekktust ekki orð eins og áfallahjálp eða eftirfylgd og ósjálfrátt rifnaði upp plásturinn af mínu sári þegar pabbi dó og þögnin eftir dauða hans. Hér er minnst á það.

Viðtalið var gott og einlægt. Jóna er manneskja með einstaklega jákvætt viðhorf til lífsins, augljóslega ekki bitur og föst í reiði og tilbúin til að skoða allar hliðar mála.´

Ég hlakka til að lesa bókina hennar, sem hún gefur út fyrir jól - og held ég þurfi ekki að hafa spákonuhæfileika til að spá henni metsölu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband