Sunnudagur, 13. janúar 2008
Sunnudagsbloggsprédikun - Kirkjan er ekki bara hús ...
Það fer ekkert á milli mála að heitustu umræðurnar sem hér spinnast eru meðal annars vegna trúmála. Þau eru mér mjög tengd þar sem ég er yfirlýst trúmanneskja og guðfræðingur að mennt. Mér hefur þótt hollt að lesa skrif fólks til að víkka sjóndeildarhringinn jafnframt að sjá skrif þeirra sem finnst pottur brotinn í trúmálum. Ég er ekki alltaf sammála öllum sem titla sig kristnar manneskjur og stundum sammála þeim sem titla sig ekki kristna .... Í raun held ég að sá eini eða sú eina sem veit hver er í hjarta sínu kristinn sé Guð.....
Ég held og vona að innst inni viljum við öll það sama. Kærleiksríkan, réttlátan og góðan heim. Hvaða leið við förum að því er svo misjafnt. Við verðum að fara varlega í það að gagnrýna meðbræður og systur þó að þau velji aðrar leiðir að kærleikanum....
Ég menntaði mig til prests, en þegar fólk spyr mig hvers vegna ég hafi ekki sóst eftir brauði þá svara ég yfirleitt að mér líki ekki umgjörðin. Líki ekki yfirbyggingin, pjátrið, kragarnir og kjólarnir. Kirkjan er eins og leikhús með búningum og propsi. Innihaldið vill oft týnast í öllu þessu skrauti.
Við þurfum að horfa á upphafið - eins og því er lýst hvernig Jesús hafði þetta..
Mér fannst frábært að starfa í sunnudagaskólanum, þar sem ég gat verið búningalaus. Grímulaus má kannski segja.. Þar sem ég var með börnin í kringum mig og við sungum og töluðum um elskuna til hvers annars. Börn eru YNDI. Þar gat ég kennt boðskap Jesú um náungakærleikann á einfaldan hátt, m.a. að ekki ætti að sparka í aðra krakka því enginn vildi láta sparka í sig. Þau höfðu oft sögur að segja af einhverjum vondum krökkum og þau ætluðu SKO ekki að vera vond ...
Ég forðaðist allar hamfarasögur eins og Nóaflóð og annað sem ruglar börn (og fullorðna líka) og sumir taka allt of bókstaflega.
Í unglingastarfinu kenndi ég krökkunum hvernig þau gætu búið til sínar eigin trúartjátningar eins og ,,ég veit að Guð er með mér þegar ég er í ástarsorg" .. og það þótti þeim sniðugt... Ég er ekkert hrifin af utanbókarlærdómi þar sem krökkum er uppálagt að læra langlokur og skilja svo ekkert hvað þau eru að segja. Kærleikur fólks verður heldur aldrei mældur í því hversu vel það kann trúarjátninguna utan bókar.
Mér fannst líka gaman að tala í kirkjunni fyrir og við fullorðna og flytja erindi til uppbyggingar sálinni. Það hefur alltaf verið mitt takmark við hugvekjur að byggja upp en ekki brjóta niður og stundum kom einhver og sagði mér að það sem ég hefði sagt hefði hjálpað sér svo mikið og þá var takmarkinu náð og það gladdi mig eflaust ekki minna en manneskjuna sem kom að máli við mig. ... það er svo gott að gera gott .. Sagði Láki ekki eitthvað svoleiðis þegar hann var farinn að gera góðverk? hehe..
Í dag hjálpa ég á annan hátt í starfi mínu. Margir leita til mín með sínar raunir og sem betur fer líka gleði stundum... stundum tekst mér að peppa fólk upp og hjálpa því upp úr hjólfari sem það hefur verið fast í lengi... Það geri ég með hjálp Guðs en ég blanda Guði ekki inn í það í samtalinu... það er bara milli mín og Guðs..
Kirkjan mín þarf ekki að vera "fancy" eða flott. Hún má alveg vera svolítið kósý og það er nóg að hafa gítar eða píanó - ekki margra milljónkróna orgel. Innviðirnir eru aðalatriðið. Kirkjan er fólkið og margir vita að orðið kirkja þýðir líka söfnuður eða fólk. Kirkja er ekki bara hús. Einu sinni fór ég í brúðkaup á ströndinni við Vík í Mýrdal. Það var svo magnað og fallegt .. öldurnar léku undirspil við sönginn og minntu okkur viðstödd á almættið.
Ég held að við höfum gott af samtali hér á blogginu og eigum að sortéra frá það sem er ljótt og niðurbrjótandi og taka til okkar það sem er fallegt og uppbyggilegt....
Knús - þakka þér góða manneskja fyrir að lesa og Amen.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 13.2.2008 kl. 15:13 | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér líka, svona eiga almennilegar predikanir að vera.... á mannlegu nótunum
Jónína Dúadóttir, 13.1.2008 kl. 12:43
Takk fyrir góða hugleiðingu, ég er nýkomin úr sunnudagaskóla þar sem ég kenni og orðin þín um sunnudagaskólann eru eins og töluð út úr mínu hjarta. Ég elska sunnudagaskólann. Þar er svo mikil nálægð og samt svo mikill einfaldleiki yfir öllu. Ekki flókin helgisiðaumgjörð heldur gleði og kærleikur.
Kirkjan mín þarf heldur ekki stóra umgjörð heldur fullt af fólki sem að kemur saman með sama markmið að tala við Guð! Það er hægt að gera án als prjálsins, bara kertaljós og samvera.
Þessi orð vöktu margt í huganum hjá mér og takk fyrir það, gott að lesa svona á sunnudegi!
eigðu gott kvöld
Sunna Dóra Möller, 13.1.2008 kl. 15:27
Sæl Jóhanna
og þakka þér góða hugleiðingu.Þessa grein þín mættu margir,bæði lærðir og leiknir taka til umhugsunar.Mínar bollaleggingar eru í þá veru sem að þú skrifar um.
Guð blessi þig og þína.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 00:29
Jónina - Þakka þér fyrir lesturinn og jákvætt ,,feedback" ..
Sunna - Við erum nú eiginlega bara alltaf sammála og hugsum líkt, svo það endar kannski bara með því að við stofnum söfnuð saman! ....
Þórarinn - Gott að fá þig sem bloggvin, takk fyrir athugasemd og guð blessi þig og þína sömuleiðis.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 14.1.2008 kl. 07:28
Þetta er einlæg og falleg hugleiðing hjá þér.
Ég hef sjálf ekkert á móti trú en ég er á móti prjáli og punti, yfirborðsmennsku, óþarfa helgisiðum og stöðnun. Einnig er ég á móti mismunum eins og þú sjálfsagt veist. Mismunun í nafni guðs. Ég vil aðskilnað ríkis og kirkju og að kirkjan og kristin trú verði færð til nútímans.
Persónulega finnst mér nóg að börn séu alin upp í kærleika og þeim kennt að sína virðingu og umhyggju fyrir öðrum og sjálfum sér og að mannúð og þekking sé mikilvæg.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 14.1.2008 kl. 22:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.