Föstudagur, 6. júní 2008
Tilfinningalega á móti stóriðju....
Ég get bara ekkert gert að því en ég er á móti stórum verksmiðjum, reykháfum sem spúa reyk o.s.frv... Líka á móti reykingum að vísu. Þetta er svona bara tilfinningalegt mál og ég er ekkert að skoða þetta af skynsemi endilega. Veit t.d. að til að framleiða allan lúxusinn - eins og t.d. tölvur hlýtur að þurfa verksmiðjur.
Þetta er eitthvað sem settist að í hjarta mínu einhvern tímann á lífsleiðinni. Væri stundum alveg til í að fórna miklu, jafnvel tölvunni og blogginu (meira segja því) fyrir hreina veröld og frið á jörðu.
Svona í alvöru talað - þá vil ég helst að við reynum að leita allra annara leiða en að spilla náttúrunni, hún er svo einstök og þegar búið er að gera sár er hún aldrei bætt.
Betri helmingurinn myndi núna spyrja hvaða hugmyndir ég hafi í staðinn fyrir stóriðjuna... ég er ekki með svör á reiðum höndum, sorrý .. en eru ekki einhverjir klárir kallar og kellingar þarna úti sem eiga lausnir?
Mótmæli á álverslóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú hlýtur þá að vera líka á móti ferðamönnum. En þeir hljóta að fljúga hingað, ekki róa þeir. Samkvæmt nýjustu niðurstöðum mengar íslenski flugflotinn á við 14 íslensk álver, og það var árið 2005.
kveðja Rafn.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 21:56
Vissir þú að álver eru mjög góður vinnustaður þar sem meðallaun eru há og menntunarstig sömuleiðis?
Vissir þú að álfyrirtækin hér á landi hafa mjög góða starfsmannastefnu og mjög litla starfsmannaveltu (sem bendir til þess að fyrirtækin gera vel við sitt starfsfólk)?
Vissir þú að engin fyrirtæki hafa jafn sterka og umsvifamikla umhverfisstefnu og einmitt álfyrirtækin?
Vissir þú að Alcoa var fyrir 2 árum síðan valið eitt þriggja sjálfbærustu fyrirtækja í heimi?
Vissir þú að Alcoa var með það á sinni stefnuskrá að kolefnisjafna útblástur (þ.e. að gróðursetja 10 milljón tré) löngu áður en það kom til tals hér á landi?
Vissir þú að með þurrhreinsibúnaði þeim sem álfyrirtækin nota hér á landi þá hreinsa þau tæpl. 98% þeirrar mengunar sem annars myndi sleppa út í andrúmsloftið? Hefur ÞÚ slíkan hreinsibúnað á þínum bíl?
Vissir þú að ál er mikið léttara en stál en jafnframt sterkara (þ.e. það ryðgar ekki)?
Vissir þú að það að nota ál í vélknúin faratæki á borð við flugvélar og bíla gerir þau léttari sem leiðir til þess að þau eyða minna eldsneyti? = verndar náttúruna, sem þér er svo annt um!!!
Vissir þú að einmitt á þessum erfiðu tímum í efnahagslífinu er það einmitt útflutningsverðmæti álsins sem kemur okkur til bjargar - þ.e. að útflutningsverðmæti áls er jafn mikið og verður meira en útflutningsverðmæti sjávarafurða okkar Íslendinga?
Vissir þú að orka framleidd með vatnsafli er lang hreinasta og umhverfisvænasta og sjálfbærasta orka sem til er? Hún er mun umhverfisvænni en gufuaflsorkan og mengunin frá Hellisheiðarvirkjun, barni R-listans, er hrikaleg!
Þú ert eins og Vinstri grænir - það á að gera ,,eitthvað annað" og eins og þeir þá hefur þú engin svör. Ert bara á móti. Á meðan blæðir landsbyggðin fyrir lágt menntunarstig og léleg laun.
Í guðs bænum kynntu þér málin betur, ekki bara frá hlið þessara svokölluðu ,,umhverfisverndarsinna" sem væla yfir virkjunum og álverum en flokka svo ekki rusl og keyra um á eyðslumiklum bílum!
Sigrún Lilja Einarsdóttir, 6.6.2008 kl. 22:02
Góð ábending hjá þér Rafn, varðandi ferðamennina. Vinstri grænir og aðrir sem vilja auka ferðamannaiðnaðinn gera sér ekki grein fyrir því að jú það mengar að fljúga með þá hingað. Svo verður aukin átroðsla á landið og ekki má leggja nýja vegi (sbr. Lyngdalsheiðarveg), nei, það er of hættulegt fyrir náttúruna - látum ferðamennina frekar troða hana niður í staðinn fyrir að byggja almennileg mannvirki til að taka á móti þessum fjölda.
Því miður erum við með taugaveiklaðan umhverfisráðherra sem vill banna allar framkvæmdir úti á landi - það má ekki gera Kjalveg að heilsársvegi og blabla. Það endar með því að hver einasta bygging úti á landi þarf að fara í umhverfismat (maður má þakka fyrir meðan að það verður ekki gert að skilyrði að öll hús verði að vera úr torfi og grjóti :S). Á meðan má sprengja, byggja og djöflast á höfuðborgarsvæðinu (sbr. Hellisheiðarvirkjun ofl.) og enginn segir múkk yfir því!
Sigrún Lilja Einarsdóttir, 6.6.2008 kl. 22:08
Ég kem með hugmyndir eftir ca. 5 ár, vittu til mín kæra, er ekki farin að hugsa svona langt og djúpt, bara aðeins dýpra...
Róslín A. Valdemarsdóttir, 6.6.2008 kl. 22:36
..Vissir þú að Alcoa og fleirri álfyrirtæki framleiða vopn fyrir bandaríkja her og fleirri
http://www.alcoa.com/defense/en/home.asp
Sigrún lilja (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 00:40
Góðan dag! .. Ég setti þessa ,,tilfinningafærslu" hér inn í gærkvöldi og sofnaði svo í sófanum..zzzzzzzzzz
Ég ítreka að það sem ég skrifa í þessari færslu er það sem hjartað segir mér, svona ,,gut feeling" og stundum er bara engin skynsemi í því og stundum er það bara mesta skynsemin. Oft hefur maður bara tilfinningu fyrir að eitthvað sé rangt án þess að hægt sé að útskýra það.
Takk fyrir þínar athugasemdir Sigrún Lilja, ég hef heyrt margt gott um rekstur Alcoa. Þú telur upp hið jákvæða eins og ánægju starfmanna o.fl. og það skiptir svo sannarlega máli. Ef það er rétt að Alcoa sé að framleiða vopn eru það ekki góðar fréttir :( ..
Ég verð að játa mig græna, ég hef stundum kallað mig "frjálslynda græna, " því að ég vil taka bestu berin úr frjálslyndinu og bestu frá þeim grænu.
Rolf - góður! ....
Róslín - þú munt örugglega koma sterk inn!
Gunnar - takk fyrir innlitið (og kjúllauppskriftir )... vær söd mod alle!
Smá í lokin - vatnsaflið sem þú talar um Sigrún er virkjað úr íslenskum fossum og einu sinni stóð til að virkja Gullfoss!!!!... en var sem betur fer stöðvað.
Við verðum að stíga ofurvarlega til jarðar áður en við spillum fossum eða fjöllum í þágu "betri lífsgæða" og spyrja okkur hvort að það sé þess virði og hvort við höfum hreinlega rétt til þess að ræna afkomendur okkar þessu umhverfi, þeirri náttúru sem við fengum sjálf í arf.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 7.6.2008 kl. 08:35
Vááá, - engin smá viðbrögð sem þú hefur fengið við pistli, sem hefði næstum orðréttur getað komið úr mínum penna (og mínu hjarta). Vona að þú missir samt ekki hugrekkið, en haldir áfram að leyfa þér að opinbera einlæga tilfinningalega afstöðu þína. Ég stend með þér í því.
Góða helgi mín kæra.
Laufey B Waage, 7.6.2008 kl. 08:46
Já flug mengar, en álver menga í ofanálag
Elvar Geir Sævarsson (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 20:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.