Miðvikudagur, 18. júní 2008
Gleraugun af ... gott að sjá snúðana í bakaríinu án móðu ...
Þegar ég var aðeins átta ára gömul þurfti ég að byrja að ganga með gleraugu örugglega vegna þess að ég var svo gáfuð! ... eeee eða réttara sagt vegna þess að ég tók oft strætó nr. 23 í skólann í staðinn fyrir nr. 25 ...
Sjónin versnaði og versnaði, ég var kölluð gleraugnaglámur og var logandi hrædd við alla tegundir af boltum enda brotnuðu gleraugun nokkrum sinnum í snjókasti eða boltaleikjum.
Næstum allir í föðurfjölskyldunni minni voru með gleraugu og er þetta þræl-ættgengt. Tvö af þremur börnunum mínum hafa erft þessa lélegu sjón. Við vorum fimm af fimm systkinum með gleraugu og þurfti mamma greyið (einstæð móðirin) að borga herlegheitin - og þar komu engar tryggingar inní. Þegar ég var í fyrsta bekk í menntó fékk ég linsur og þótti ég allt í einu voða sæt, það var að vísu bara sjálfstraustið sem batnaði, svona getur fólk verið skrítið. Ég notaði linsurnar mjög mikið, en varð að takmarka það seinna vegna þess að ég var orðin viðkvæm í augunum.
Það var svo árið 2003 að ég fór í Lazer-aðgerð og var það í raun eins og kraftaverk. Gat farið flikk flakk heljarstökk og spilað á píanó .. (örlitlar ýkjur) .. En samt...Þvílíkt frelsi og þvílíkur munur að fyrsta hreyfingin á morgnana var ekki að teygja sig eftir gleraugunum á náttborðinu. Sjónin fór í úr - 5.75 í -0,50 eða álíka.
En nýlega kom örlítið bakslag og ég þarf aftur að vera með gleraugu til að nota í bíó og aka með, sérstaklega í rökkri. Er hálfnáttblind án þeirra.
Toppurinn er auðvitað að ég get gengið gleraugnalaus inn í bakarí í rigningu og virkilega séð bakkelsið!!!!.. Ég get líka farið í sund án þess að vera dónaleg, þ.e.a.s. án þess að heilsa engum þar sem ég sá áður fólk í framan eins og Waldorf dúkkur þegar ég var án gleraugnanna!
Ég er nú samt fegin fyrir þessa uppfinningu; gleraugun, - ég hefði verið ansi mikill kettlingur án þeirra ....
Athugasemdir
Þau eru eitt að góðu kraftaverkunum!
En hrikalega varstu með lélega sjón, ég get ekki ímyndað mér svona, reyndar er pabbi minn líka með mjög sterk gleraugu. Held að ég geti sett þau á mig og séð hvað hann sér illa án þeirra, og það er HRIKALEGT!!
Borðaðiru nóg af tómötum þegar þú varst yngri???
Róslín A. Valdemarsdóttir, 18.6.2008 kl. 17:59
Lazer-aðgerð er sannarlega kraftaverk......
Halla Rut , 18.6.2008 kl. 18:11
Ég skil þig vel, hef alltaf verið nærsýn og séð skelfilega illa frá mér en gekk í gegnum lífið gleraugnalaus af því mér fannst gleraugu svo nördaleg.
Fyrir 10 árum síðan eða svo gafst ég upp.
Skarta nú Donnu Karan gleraugnaumgjörð úr títandi sem kostaði bæði hönd og fót.
Knús.
Jenný Anna Baldursdóttir, 18.6.2008 kl. 19:26
"títani" átti þetta að vera.
Jenný Anna Baldursdóttir, 18.6.2008 kl. 19:26
Jónína Dúadóttir, 18.6.2008 kl. 22:20
Náði þessu Jenný .. held það sé titanium ??? .. Gleraugu eru alltof dýr og það er rétt, þau kosta hönd og fót, gott það er ekki auga líka! Já Halla, Lazerinn er virkilega kraftaverk.. hvað verður næst?
Róslín - ég held að tómatar hefðu ekki bjargað sjóninni minni.
Jónína ..
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 18.6.2008 kl. 23:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.