Einstaklingsmiðað nám - sprungin tískubóla engum í hag ?

Ég var að hlusta á frábæran fyrirlestur Lasse Savola, en hann er finnskur doktór í kennslufræðum. Lasse er ekki hrifinn af því sem hefur tröllriðið íslensku grunnskólakerfi, en það er hið svokallaða einstaklingsmiðaða nám.

Finnar er eina Norðurlandaþjóðin sem ekki hefur verið að fikta við einstaklingsmiðað nám og þeir skora hæst á PISA niðurstöðunum. Tilviljun ?????...

Fyrir þá sem ekki vita þá er PISA stærsta samanburðarrannsóknin á frammistöðu menntakerfa í heiminum en í rannsókninni er könnuð kunnátta 15 ára nemenda í lesskilningi, stærðfræði og náttúrufræði í 57 löndum

Lasse bendir á mjög marga punkta varðandi skólakerfið og m.a. hvernig það að setja valdið í hendur nemendanna kunni ekki alltaf góðri lukku að stýra. Þ.e. Þegar nemendur hafi frelsi til að læra eins og þeim hentar, setja sér sín eigin markmið, gera sínar námsáætlanir o.fl. 

Um leið þurfi kennarar að kenna eftir kerfi sem jafnvel hentar þeim alls ekki. Ekkert einstaklingsmiðað við það!  Ég hef heyrt í kennurum sem eru mjög óánægðir með kerfið. Þeim hafði gengið ágætlega og jafnvel stórvel með þeim hætti sem þeir höfðu tileinkað sér aður, en svo kemur tískukerfi sem allir kennarar eru settir undir og þeim ætlað að nota við kennsluna. Þegar ég var í æfingakennslu í 10. bekk tók ég eftir því að nemendur í bekknum fögnuðu því að fá fyrirlestur, sögðust sjaldan fá slíkt. Voru vanari að hver væri að vinna í sínu horni, eða í hópum.

Lasse bendir m.a. á mikilvægi þess að kennarar segi hlutina einu sinni fyrir alla og láti síðan nemendur ræða þá sín á milli. Í einstaklingsmiðuðu námi er kennarinn að segja hverjum nemanda fyrir sig sama hlutinn, svo hann þarf að endurtaka aftur og aftur.

Varðandi laun kennara á Íslandi þá eru þau 25% undir meðallaunum landans!!..  Í flestum OECD löndum eru þau 30% hærri en meðallaun. Tvöfalt hærri í Kóreu og Kórea skorar hátt í PISA.

Virðing fyrir kennarastarfinu minnkar við lág laun, starfsánægja kennara minnkar og börnin okkar fá verri kennslu.

Ég talaði við þýska konu í gær sem sagði að í þýskalandi væri það þannig að þetta hefði farið úr einum öfgum í aðra. Kennarar voru allt of strangir, lömdu t.d. á fingur nemenda með reglustriku. Í dag eru öfgarnir komnar í hina áttina, það ekki kennarar sem berja nemendur heldur nemendur kennara og þeir geta bara ekkert gert í því. Í þessu sem öðru gildir að sjálfsögðu hinn gullni meðalvegur, þar sem ríkir gagnkvæm virðing laus við hvers konar ofbeldi.

Það þarf að hlusta á þá sem vel gengur og varast of miklar tískubólur. Ég upplifði hið einstaklingsmiðaða nám sem öfgatrúarbrögð í Kennaraháskóla Íslands og líkti því við það að hvert barn skrifaði sinn eigin matseðil fyrir vikuna í skólamötuneytinu. Síðan hlypi matráðurinn eftir þeirra kenjum. Sumir nemendur gerðu sér bara alls ekki grein fyrir hvað væri hæfilegur skammtur fyrir þá vegna aldurs. 

Það er enginn að tala um að þó við förum frá þessu stífa einstaklingsmiðaða námi sé ekki verið að hugsa um þarfir einstakra nemenda. En að mínu áliti er þetta stefna sem hefur gengið of langt... enn og aftur minni ég á meðalveginn góða gullna.

Jæja, þá er ég búin að segja mína skoðun, en horfið endilega á Lasse - hann segir þetta svo vel.

Knús og kveðja.

p.s.

Hér er líka fróðleg grein fyrir áhugasama eftir Þorgerði Katrínu menntamálaráðherra vegna niðurstaðnanna í PISA.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ég er ekki búin að horfa á Lasse ennþá, né lesa greinina

ég hef verið ein af þeim sem er hlynnt einstaklingsmiðuðu námi. Eða það hélt ég. Er að sjá við lestur þessarar færslu að ég veit auðvitað ekkert um hvað ég er að tala. Ég hélt að einstaklingsmiðað nám væri svipað og sonur minn nýtur góðs af í Öskjuhlíðarskóla: kennarinn vegur og metur hvern nemanda fyrir sig, hvar hans kunnátta liggur og í framhaldi af því, hvert væri markmiðið.

Ekki datt mér í hug að nemendurnir hefðu í rauninni neitt um slíkt að segja. Ég sé þetta samt allt svolítið þannig að í rauninni henti ekki sömu kennsluaðferðir stúlkum og drengjum. Er á þeirri skoðun að bekkir eigi að vera kynskiptir (ekki samt skólarnir sjálfir, aðeins kennslustundirnar). hvað finnst þér um það?

Jóna Á. Gísladóttir, 1.7.2008 kl. 15:13

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Jæja. Nú er ég búin að hlusta á Lasse. ''Meikar sens'' sem hann segir. Brjálast við tilhugsunina um launin. ARGH. Og svo er það agaleysið... sem er heill kapítuli út af fyrir sig.

Jóna Á. Gísladóttir, 1.7.2008 kl. 15:31

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Takk fyrir athugasemd Jóna, það er kannski ekki rétt að stroka út einstaklingsmiðið eins og það leggur sig. Það getum við aldrei því við höfum svo mismunandi nemendur.

Hugmyndin er góð en eins og Lasse segir þá er hún ranglega útfærð. Ég tel að þessi ranglega útfærsla sé t.d. eins og ég rak mig sjálf á þegar ég fór í æfingakennsluna að nemendur fengu hreinlega aldrei eða sjaldan fyrirlestur frá kennaranum og þá tækifæri til að spyrja fyrir framan hin og ræða.

Sjálf lærum við nú mikið af því að heyra spurningar og pælingar hinna - og er bloggið nú heldur betur dæmi um það.   Vonandi heyri ég í kennurum sem eru ánægðir með kerfið og eru að nota það rétt.

Ég hef oft hlustað á Möggu Pálu og það er nú ekki annað hægt en að hrífast með henni þegar hún er að kynna Hjallastefnuna sína. Ég held að meira að segja í unglingabekkjum framhaldsskóla væri stundum  meiri kennslufriður í kynjaskiptum bekkum, þar sem hormónarnir flæða. Það hafa víst verið gerðar rannsóknir á því að í flestum tilfellum eru strákar órólegri og fá þá meiri athygli kennara.

Ég myndi vilja skipta þessu að hluta, en svo hafa kynin auðvitað líka gott af því að umgangast hvert annað og t.d. vinna saman í hópum til að fá sem fjöbreyttastar skoðanir.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 1.7.2008 kl. 15:35

4 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

þá má kannski segja að í þessu eins og öllu; allt er best í hófi. Að blanda aðferðum og áherslum saman í stað þess að einblína á að reyna að finna ''hið eina rétta''.

Jóna Á. Gísladóttir, 1.7.2008 kl. 15:39

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Það er eflaust rétt hjá þér, allt sem gengur út í "extreme" held ég að við þurfum að passa okkur á. Ég held að við þurfum alltaf að tína safaríkustu berin af hverju lyngi en ekki neyða ofan í okkur grænjaxlana líka.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 1.7.2008 kl. 15:59

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Finnar eru að gera frábæra hluti með sinni menntastefnu.  Okkur vantar töluvert upp á hér hjá okkur.  Agaleysið sem ég held að eigi rætur sínar að rekja til þess að enginn tekur almennilega af skarið í náminu, mörkin eru farin og einstaklingsmiðunin er orðin alltof mikil.

Það þarf að fara milliveginn þarna.  Ekki stökkva úr einum öfgunum í aðra.

Kannski er kominn tími á það.

Jenný Anna Baldursdóttir, 1.7.2008 kl. 16:32

7 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Knúsi knúsi, ég veit ekki hvort ég eigi að blanda mér inn í þetta mál. Þar sem ég er alveg úti á þúfu!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 1.7.2008 kl. 18:43

8 Smámynd: Tiger

Mitt persónulega mat er að kennarar eiga skilyrðislaust að hafa miklu meira frelsi og vald til að stjórna sínum bekk/jum sjálfir. Ef það eru ekki margir nemendur í bekknum þá er það næsta víst að kennarar þekkja nemendur sína best og vita hvernig á að taka á málunum í bekknum.

Mín reynsla er sú að kennari sem sýnir nemendum virðingu og talar til þeirra af sömu virðingu og þeir vilja fá til baka - fá sannarlega virðingu nemendanna og þar af leiðandi verður kennslan mun áhugaverðari og bæði nemendur og kennari verða ánægðari í lok tíma.

Ég hef verið í tíma með kennara sem var gargandi allan tímann á þá nemendur sem t.d. höfðu ekki klárað heimanám, flissuðu eða gerðu eitthvað sem kannski hefði ekki átt að gera. Við gargið fengu þeir bara enn meiri leiðindi til baka.

Aftur á móti hef ég líka verið í slíkum tíma þar sem kennari sem þekkti nemendur sína enn betur vegna virðingar sem hann sýndi þeim - tók allt öðru vísi á þessum uppákomum og uppskar meðbyr og eftir augnablik var málið yfirstaðið og námið hélt áfram í gleði og kátínu.

Ef á að fara að kenna á mismunandi hátt í hverjum bekk fyrir sig - þá gruna ég að árekstrar verði og sumir fá þá ekki næga kennslu á meðan aðrir fá alla athyglina. En, hvað veit ég svo sem - ég sem var nú hættur í skóla 12 ára ... eða þannig.

Knús í daginn þinn ljúfust og hafðu líka gott kvöldið ...

Tiger, 1.7.2008 kl. 18:55

9 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Þetta er mjög góð grein hjá þér og ætti heima víðar en hér á blogginu.  Mjög gott að varpa þessu fram.   Ég er ekki viss um að allir krakkar séu endilega ánægðir með einstaklingsmiðað nám því aðstoðin sem þau þurfa oft að fá, er fyrir vikið mun minni þar sem kennarinn þarf jafnvel að fletta kennslubókinni fram og til baka miðað við getu nemenda.

Marinó Már Marinósson, 1.7.2008 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband