Fimmtudagur, 10. júlí 2008
Biblían, blæjur og blek á bók ... Guð er ekki Pétur eða Páll ..
Eins og flestir, sem lesa bloggið mitt hafa tekið eftir, hefur hér logað mikil umræða um samkynhneigð og biblíuna. Helstu rök gegn ,,lífsstíl" samkynhneigðra hafa verið: "Guð segir það" og er það ekki vegna þess að viðkomandi hefur fundið kærleiksneista Guðs í brjósti heldur vegna ritningarstaða bæði í Gamla og Nýja testamenti sem týndir eru til og þá aðallega vegna orða Páls postula í Nýja testamenti = Guð ?
Guð virðist nefnilega bara koma fram á prenti hjá ákveðnu fólki og þarf ég ekkert að nefna nein nöfn, taki þeir það til sín sem það eiga.
Páll postuli segir marga góða hluti og þekktast af því eru Óðurinn til kærleikans .. enda er kærleikurinn tímalaus. EN svo skrifar Páll miklu miklu meira og hér eru m.a. stiklur um ytri hegðun úr fyrra bréfi Páls postula til Kórintumanna ..
- Maðurinn er höfuð konunnar ..
- En sérhver kona, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs berhöfðuð, óvirðir höfuð sitt..
- Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt, því að hann er ímynd og vegsemd Guðs
- Þess vegna á konan vegna englanna að bera tákn um yfirráð mannsins á höfði sér...
Svo eru sumir hissa þvi að ég skuli ekki virða kennivald Páls postula ..
Mér finnst þeir sem eru á sitthvorum enda róttækninnar þ.e.a.s vantrúaðir vs. bókstafstrúaðir í raun lesa Biblíuna á sama hátt, þ.e.a.s. eins og maðurinn hafi engan frjálsan vilja og meint orð Guðs séu einungis til á prenti.
Mér finnst þetta skiljanlegt með vantrúaða eða trúlausa - því þeir skilja ekki hvað er að trúa .. en þeir sem álíta sig trúaða hljóta að vita að trúin felst í að trúa ÁN sannanna... af hverju þurfa þessir ,,sanntrúuðu" og/eða ,,sannkristnu" menn alltaf að vera að vitna í það sem þeir álíta sannanir ..og svara svo: ,,Guð sagði það, það stendur sko hjá Pétri eða Páli.."
Hver á að ákveða hvað er rétt og rangt skv. Guði gæti einhver spurt. Svar mitt er að á meðan það inniheldur kærleika og góðmennsku, velvilja í garð náungan þá er það rétt. Á meðan það inniheldur ofbeldi í garð náungans þá er það rangt. Konur og karlar voru sköpuð í mynd Guðs og eru jöfn fyrir Guði .. augljóslega ekki Páli.
Guð er kærleikur = kærleikur er Guð..
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 14.7.2008 kl. 15:53 | Facebook
Athugasemdir
Ég er frekar hissa að hitta einhvern sem segist vera kristin en síðan hafna Páli því hann skrifaði stórann hluta af af Nýja Testamentinu. Af þeim höfundum sem skrifuðu þá á hann stærsta hlutinn, þar á meðal 1. Kórintubréf 13. kafla sem er uppáhald mjög marga þegar kemur að Biblíunni.
Svo, á maður að skilja að sumt sem Páll skrifaði er í lagi og annað ekki og maður er frjáls að velja? Við erum alltaf frjáls að velja en sá sem trúir að Biblían er orð Guðs þá er valið að taka því eins og það er eða búa til guð sem manni líkar betur við. Ef það er eitthvað sem ég skil ekki þá eru það kristnir sem tilbiðja Guð sem þeir þurfa að hafa vit fyrir.
Auðvitað höfum við frjálsan vilja en spurningin er frekar hvort að maður trúir að Biblían er orð Guðs eða ekki. Ef hlutar hennar eru ekki orð Guðs þá hvaða hlutar? Kannski þeir hlutar þar sem stendur að við eigum að elska náungan eins og sjálfan sig er partur sem við ættum að henda út enda ansi erfitt.
Er meint orð Guðs þá líka í kollinum á þér Jóhanna og við eigum að hlusta á þig þar sem þú ætlar að útlista vilja Guðs?
Hefurðu yfirhöfuð lesið Biblíuna? Hve oft þurfti Jesú að lækna og gera kraftaverk til þess að lærisveinarnir trúðu Honum? Ansi oft... Hefðu þeir átt að trúa að Hann væri Guð ef Hann hefði ekki getað gert neitt til að sanna það? Hefðu þeir átt að trúa að Jesú væri Guð bara af því að Hann sagði það?
Miðað við þessa röksemdarfærslu þá geturðu farið inn á hvaða geðsjúkrahús og fundið einhvern sem heldur því fram að hann sé Kristur eða Guð og trúað því án sannana.
Ég reyndi að fjalla um þessa hlið kristinnar hérna ef áhugi er fyrir hendi: Pússluspil lífsins - trú og leitin að sannleikanum
Er betra að segja "mér finnst"? Þegar kom að Jesú að verða freistar þá svaraði Hann "það er ritað". Það var sá grundvöllur sem Hann stóð á. Þinn grundvöllur virðist vera "mér finnst". Þegar nasistar voru með sinn haturs boðskap á móti gyðingum þá stóðu fáir kristnir menn upp og mótmæltu og vísuðu í orð Krists um að okkur beri skylda að elska náungann. Hvað myndir þú segja? Mér finnst gyðingar vera fínir svo óþarfi að drepa þá? Eða myndir þú segja að þér finnst þeir vera nískir svo best að losna við þá?
Við lifum í landi þar sem trúfrelsi ríkir. Guð gaf okkur einnig frjálsan vilja svo hver og einn ákveður sjálfur í þessum málum. Ef hann aftur á móti brýtur á móti vilja samfélagsins þá glímir samfélagið við þann einstakling. Vandamálið hérna er að þú talar um kærleika en hvað er kærleikur? Fólk getur skilgreint kærleikann á mismunandi hátt; sumir hindúar trúðu ( eða trúa ) að það er kærleiksríkt að brenna eiginkonu látinna manna lifandi... Sumir ættbálkar trúa því að það er hið rétt að grafa "mislukkuð" börn lifandi; það er hið kærleiksríka að gera fyrir samfélagið...
Ég trúi að Biblían lýsi kærleikanum rétt og að ef menn eiga að skilgreina hvað kærleikur er þá er ekki langt í mismunun og kúgun.
Mofi, 10.7.2008 kl. 15:19
Mofi - hef ekki tíma til að svara þér núna. Þú VERÐUR að velja úr Biblíunni ..
Þar stendur:
“Leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.”
Þar stendur einnig:
"Þú skalt ekki mann deyða." ..
Hvernig tekur þú ákörðun hvort er rétt ? .. Ertu fylgjandi dauðarefsingum ?
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 10.7.2008 kl. 15:24
P.s. Mofi ég er að segja það að mælistikan sé kærleikur.. Biblían er full af kærleika - en því miður líka full af ofbeldi. Veldu kærleikann því að "með þeim mæli sem þú mælir munt þú mældur verða" ..
.. og annað gullkorn úr Biblíunni ..
Jesús segir: Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó....
Þennan skilning legg ég í að lesa eigi Biblíuna eins og maður borðar fisk; .. skilja beinin eftir og borða fiskinn. Beinin gera þér ekki gott ..
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 10.7.2008 kl. 15:33
Þetta er refsilöggjöf gyðinga, fyrir samfélag þeirra. Ef einhver vildi að einhverjum yrði refsað svona þá þurfti hann að fara til "yfirvalda" í þeirra samfélagi og biðja um að svona refsingu yrði beitt. Við búum í allt öðru samfélagi. Þetta er spurning um að skilja Biblíuna í samhengi, það sem er ætlað ákveðnu fólki á ákveðnu tíma er aðeins ætlað þeim en ekki öllum. Þetta á við margt annað og fólk er allt of gjarnt á að gera þessi misstök. Til dæmis er týpískt að einhver vísi í þessi vers "Ég get gert alla hluti í gegnum Guð sem styrkir mig" en þessi vers eru til ákveðins hóps sem er að glíma við ákveðin verk. Ekki ef þú vilt vinna fótboltakeppni að þá getur þú það af því að Guð styrkir þig.
Ertu með einhver dæmi? Ef þú ert að vísa til refsinga þá er einmitt geturðu ekki haft kærleika án réttlætis. Ef þú ert að vísa til sögu um það vonda sem einhver gerði þá er það aðeins saga fyrir okkur að læra af misstökum annara en ekki að segja okkur að við eigum að gera eins og Davíð og halda fram hjá og myrða. Aldrei fattað svona hugsunarhátt.
Þetta er nú ljóta bókstafstrúin hjá þér. Það er alveg greinilegt að hérna er ljótt bein á ferðinni sem gerir manni ekkert gott.
Hef heyrt þetta áður... frekar sorglegt. Hvað ætlar þú þá að segja við þann sem sleppir beinunum sem segja að gera góðverk? Þann sem velur að hefna sín af því að hann valdi að sleppa beinunum sem sögðu að maður ætti að fyrirgefa?
Hver gaf þér vald til að ákveða hvað væri Guðs orð og hvað ekki? Hver ætti að hafa þannig vald? Páfinn er líklegur kandidat og hefur verið duglegur við að útleggja orð Guðs eins og hann vill en hann hefur ekki getað breytt sjálfri Biblíunni.
Mofi, 10.7.2008 kl. 15:51
Jóhanna mín! Þú ert yndisleg sál - fallega hugsandi og ætíð með eitthvað ljúft á vör til handa öllum.
Eftirfarandi frá þér segir í raun allt sem þarf að segja um allt sem snertir nánast hvað sem er hvar sem er og hvernig sem er;
"Hver á að ákveða hvað er rétt og rangt skv. Guði gæti einhver spurt. Svar mitt er að á meðan það inniheldur kærleika og góðmennsku, velvilja í garð náungan þá er það rétt. Á meðan það inniheldur ofbeldi í garð náungans þá er það rangt."
Takk fyrir allar þínar hugleiðingar mín kæra og eigðu ljúfan dag!
Tiger, 10.7.2008 kl. 16:03
Jóhanna mín, ég er algerlega sammála honum Högna/Tigercopper vini okkar og hef engu við það að bæta
Jónína Dúadóttir, 10.7.2008 kl. 16:07
.... svo er sagt að ef maður trúi ekki öllu í trúnni, þá er maður ekki Kristin trúaður...
Og talandi um að vera heimsspekingur Jóhanna mín, stattu fyrir þínu því það sem þú segir er satt;
Þar stendur:
“Leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.”
Þar stendur einnig:
"Þú skalt ekki mann deyða." ..
Ég tók ekki eftir þessu, þú ert gáfnarljós með meiru Jóhanna mín, flotta kona!
Róslín A. Valdemarsdóttir, 10.7.2008 kl. 17:28
Sorglegt, Jóhanna, að þú sem útskrifaður guðfræðingur skulir ekki virða kennivald Páls postula – og það (auðvitað) á vanþekkingarforsendum. Já, jafnvel margfalt sorglegra en að sjá hér tvo kristindómshatendur meðal bloggvina þinna.
Jón Valur Jensson, 10.7.2008 kl. 18:53
.. og ég gleymdi alveg að segja það, ég er Kristin trúuð þó ég sé ekki sammála öllu því sem er í Biblíunni. Ég læt ekki karlmenn vaða yfir mig...
Ég skil ekki alveg af hverju að þetta sé sorglegt Jón Valur, hún þarf ekki að samþykkja allt úr Biblíunni né neinu, það er ekki manni bjóðandi að segja við hann eða hana ; ÞÚ átt að trúa ÖLLU sem stendur í þessari bók...
sama hversu heilög bókin er....
Róslín A. Valdemarsdóttir, 10.7.2008 kl. 18:59
Er nú sæmilega kristin og þekki báðar bilblíur nokk vel svona miðað við leikmann. En verð að segja að boðskap Páls postula (fyrrverandi Saul syndara) tek ég með þeim fyrirvara að maðurinn hafi þurft að réttlæta fyrri gjörðir og hafi stundum farið offari í boðskap sínum. En afkastamikill pistlaskrifari/fyrirlesari - það má hann eiga.
Mattheus og John eru mínir menn.
PS svo er ég sammála þér með blæjumálin, bætti við athugasemd á þeim vettvangi
Kolbrún Sig (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 19:45
Gunnar ... það vantar aldrei húmorinn í þig. ..
...og eiginlega ekki í Jón Val heldur en hann segir: "Sorglegt, Jóhanna, að þú sem útskrifaður guðfræðingur skulir ekki virða kennivald Páls postula – og það (auðvitað) á vanþekkingarforsendum. Já, jafnvel margfalt sorglegra en að sjá hér tvo kristindómshatendur meðal bloggvina þinna" ... (feitletrun er mín)
Mér finnst sorglegt, Jón Valur, að þú ,,útskrifaður guðfræðingur" skulir halda á lofti einhverjum sem þú kallar ,,afburðabloggara" en sá hinn sami er að mæla með því að samkynhneigðir fari inn í skápana aftur. Að vísu leyfir afburðabloggarinn engar athugasemdir (síðast þegar ég kíkti) við þá færslu sem mér finnst gunguháttur.
Ég veit ekki hver er meiri kristindómshatari sá sem mælir því mót að fólk eigi að kúldrast inn í skápum með líf sitt eða sá sem hefur trúlausa sem bloggvini. Ég veit ekki nákvæmlega við hvaða tvo bloggara þú átt.
Ef þessir menn eru syndugir að þínu mati - á ég þá að henda þeim út af bloggvinalista? Eru það ekki akkúrat það sem Jesús hefði gert - eða hvað ? Hefði hann ekki rætt við syndarana og eigum við ekki að taka Jesú okkur til fyrirmyndar?
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 10.7.2008 kl. 20:19
ó mæ!
Jóhanna, ég hef ALDREI lesið jafn mikið " rakk ", " feis " né " ÓN " á blog.is áður, þetta hittir beint í mark!
Sko, ég er búin að velja prestinn sem giftir mig, án efa, ég bara verð Jóhanna mín að hrósa þér fyrir gáfum og vel orðuð orð.
Ég get ekki nefnt allt sem þú ert, þú ert MEIRIHÁTTAR
Róslín A. Valdemarsdóttir, 10.7.2008 kl. 20:36
Mofi - takk fyrir langt og ítarlegt innlegg sem ég næ því miður ekki að klára að svara í kvöld. Ég vil þó taka eitt atriði...
þú segir:
"Ég er frekar hissa að hitta einhvern sem segist vera kristin en síðan hafna Páli því hann skrifaði stórann hluta af af Nýja Testamentinu. Af þeim höfundum sem skrifuðu þá á hann stærsta hlutinn, þar á meðal 1. Kórintubréf 13. kafla sem er uppáhald mjög marga þegar kemur að Biblíunni." ..
Ég tek það fram í pistlinum að Páll hafi skrifað Óðinn til kærleikans sem flestir þekkja og ég er ekki í vafa um að kærleikurinn hafi fyllt hjarta Páls þegar þetta er ritað. Auðvitað hafna ég ekki því sem skrifað er fallegt um kærleikann.
En oft þegar Páll er að leggja fólki lífsreglurnar er það talað inn í samtímann og á engan veginn við í dag.
Á meðan orðin standa á blaði eru þau dauð. Það er ekki fyrr en að einhver les orðin að þau fá líf. Þú sjálfur gefur þeim líf. Það sem þú lest lestu með það í huga sem þú hefur safnað í sarpinn í lífi þínu. Þú lest með þína reynslu og þekkingu sem bakgrunn.
Það er því þinn eiginn innblástur, sem er guðlegur innblástur sem gefur þessum orðum líf. Þú ræður hvað þú gerir við orðin, alveg eins og þú getur sleppt lauknum úr uppskrift í uppskriftabók, getur þú sleppt einhverju neikvæðu af því sem Páll segir.
Ertu annars samþykkur því að karlinn sé höfuð konunnar eins og Páll skrifar eða hugsar þú aðeins, með hyggjuvitinu sem Guð gaf þér (ekkert síður en Páli) og segir ,,nei við erum jöfn konur og karlar og ég er hreinlega ekki sammála Páli í þessu." ..
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 10.7.2008 kl. 20:37
Dúllan mín Róslín, þakka þér einlægust Passaðu þig á þessum hörðu umræðum. Það eru ekki allir jafn sannfærðir um gæði mín og þú. Ef ég tek prestvígslu þá skal ég svo sannarlega gifta þig og þann lukkunnar pilt sem fær þig. Ég bloggaði einu sinni um það hvernig ég teldi kirkjuna eiga vera sem mig langaði að starfa í - og ég skal senda þér það í tölvupósti, nenni ekki að fá gargandi karla á bakið út af því. .. (bara grín strákar)
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 10.7.2008 kl. 20:52
Já endilega sendu mér það, kallarnir mega bara vera abbó á meðan
Róslín A. Valdemarsdóttir, 10.7.2008 kl. 20:58
Sammála Gunnar, kirkjan er ekki alveg að finna púlsinn hjá þjóðinni, eða réttara sagt umsjónarmenn kirkjunnar á Íslandi. Samt má nú finna fullt af þjónandi fólki innan kirkjunnar sem er svo tilbúið í hugarfarsbreytingu. Greinin mín hét einmitt ,,Kirkjan er ekki bara hús." ..Innviðirnir eru aðalatriðið - og þá á ég ekki við skrautið og prjálið heldur fólkið.
p.s. Það er ekki hægt að dæma trúarhita manna af hversu klárir þeir eru í því að þylja trúarjátningar eða ritningarstaði utanbókar eða hversu oft þeir láta sjá sig í kirkju. Ef hugur fylgir ekki máli þá er það hégómi einn.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 10.7.2008 kl. 21:24
Ég er hissa á því, hvað þú ert illa lesin hér á netinu, Jóhanna. Gerirðu þér ekki grein fyrir því og hefurðu ekki tekið eftir því, að Jón Steinar Ragnarsson ("prakkarinn") og J. Einar Valur B. Maack eru eindregnir kristindómshatendur? Hvernig velurðu blogg"vini" þína? Með sjálfkrafa stillingu? Finnst þér þeir eiga þar heima, sem ráðast á Krist og á kristna trú, reyna að rífa hana niður og særa trúsystkini þín?
"Ég veit ekki hver er meiri kristindómshatari sá sem mælir því mót að fólk eigi að kúldrast inn í skápum með líf sitt eða sá sem hefur trúlausa sem bloggvini," segir þú hér kl. 20.19. En dettur þér í hug, að ég hafi kallað þig "kristindómshatara"? Það hef ég aldrei gert og er handviss um, að það á ég aldrei eftir. En þátttaka nefndra tveggja bloggara á ýmsum vefsíðum á trúarbragðamöppu Moggabloggsins ætti að sýna þér ljóslega, hvað ég átti við um þá.
Þér kann að þykja þetta myndrænt að segja vefgrein Rúnars Kristjánssonar "mæla með því að samkynhneigðir fari inn í skápana aftur," en það eru þín orð. Lesi menn greinina sjálfa, sjá þeir, að hann er að mæla gegn því, að menn beri einkamál sín á torg – sem þýðir ekki, að menn eigi að hírast inni í skápum, en svo hefur hann við það (sem bezt er að lesa nánar um hjá honum sjálfum) að bæta ýmsum afar glöggum athugunum, sem t.d. Platón hefði trúlega tekið undir, enda fer því fjarri, að rökin gegn samkynja kynmökum einskorðist (eins og þú virðist þó halda í vefgrein þinni hér ofar) við þetta eitt: "elstu rök gegn ,,lífsstíl" samkynhneigðra hafa verið: "Guð segir það"" eða að andstæðan gegn kröfugerð hinna róttæku, innan kirkju sem utan, sé aðeins "vegna ritningarstaða bæði í Gamla og Nýja testamenti sem týndir (sic) eru til og þá aðallega vegna orða Páls postula ..." – Platón gæti t.d. dugað þér drjúgt til að átta þig á margs konar öðrum mótbárum og mótrökum gegn samkynja kynlífi. Eins er sjálfsagt fyrir þig að líta á efni á vefsetrum mínum, þar sem bent er á samfélags-, uppeldis-, heilsufars- og margs konar önnur veraldleg þekkingarrök sem setja stórt strik í einfeldningslegan félagslega rétttrúnaðinn í þessum málum hér á landi – hjá hinum óupplýstu!
Rúnar skáld ræður því sjálfur, hvort hann hafi opið á athugasemdir á vefgreinum sínum. Hann hefur haft lokað á þær allar, hefur kannski ekki tíma til umræðna, hvað veizt þú um það, og finnst þér í alvöru siðsamlegt að bera gunguskap upp á bláókunnugan mann?
Rúnar er afburðamaður, það hefur hann sýnt með fjölmörgum blaðagreinum, m.a. um utanríkismál, Júgóslavíuófriðinn og ESB-mál, og í skáldskapnum skarar hann fram úr mörgum. Hann er og faðir hins skarpgreinda Hjartar J. Guðmundssonar Moggabloggara.
Jón Valur Jensson, 10.7.2008 kl. 21:35
Jú got an ímeil!
Róslín A. Valdemarsdóttir, 10.7.2008 kl. 22:12
Jón Valur, það er rétt af þér að ,,gunguskapur" er býsna hart orð og rétt hjá þér að taka upp hanskann fyrir Rúnar. Ég geri mistök eins og aðrir og viðurkenni það fúslega. Sá sem aldrei gerir neitt gerir heldur aldrei mistök.
Það fer bara í taugarnar á mér að fólk spyrji spurninga en vilji ekki svör.
Ég er samt ósammála þér um þessa grein. Það er alþekkt að það er kallað ,,að koma út úr skápnum" að viðurkenna kynhneigð sína og þá yfirleitt og held ég bara alltaf þegar um samkynhneigða er að ræða. Bara fyrirsögnin ein er í raun nóg til að sjá hvað honum býr í brjósti ,,Í skápnum sé það sem skápsins er." Greinin er síðan í sama dúr. Ég held að það sé ekki hægt að misskilja hans skoðanir, enda ágætlega fram settar.
Eigum við ekki að vona að Jón Steinar og J. Einar Valur verði fyrir afturhvarfi sbr. annan fyrrverandi kristindómsofsækjara: Sál frá Tarsus eða títtnefndur Páll postuli? .. Ég held að við lærum af því að ræða við svona gaura, þó auðvitað sé sumt af því særandi og þrælmóðgandi sem þeir segja. Mér finnst bara alltaf þegar fólk talar í þeim gír það virka sem boomerang á þá sjálfa.
Sumt sem "sanntrúaðir" segja hryggir mig líka - og er það ástæðan fyrir þessum eldmóði í vörn minni fyrir samkynhneigðum náunga mínum. Já, hver er náungi minn ef það er ekki manneskjan í skápnum.
Líf í skáp hlýtur að vera sorglegt, aðþrengjandi, dimmt og leiðinlegt. Í staðinn fyrir það að reka náungann inn í dimman skáp aftur vil ég hjálpa honum að koma út og upplifa ljósið.
Enginn á skilið að vera inní skáp, nema í hæsta lagi þeir sem beita aðra grófu ofbeldi. Þúsund heimspekingar og prestar gætu ekki sannfært mig um að reka samkynhneigða manneskju inn í skápinn aftur vegna kynhneigðar sinnar. Hvað sagði ekki Jesús .. ,,Það sem þér gerið mínum minnsta bróður gerið þér mér." Hver er þá í skápnum ?
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 10.7.2008 kl. 22:18
Ég ætla ekki að taka þátt hér að neinu ráði, vil bara segja þér að ég er þér hjartanlega sammála.
Trúin er lifandi kærleikur til alls sem er og hana er vissulega ekki að finna í textum dauðlegra manna eins og Páls. Ekki fremur en guðsmennirnir hér sem telja sig vita nákvæmlega allt um guð, vilja hans og ætlan. Þvílíkur hroki.
Takk fyrir mig.
Jenný Anna Baldursdóttir, 10.7.2008 kl. 22:45
Eigum við, Jóhanna, að "lær[a] af því að ræða við svona gaura [kristindómshatendur], þó auðvitað sé sumt af því særandi og þrælmóðgandi sem þeir segja"? – Hvað nákvæmlega viltu læra af þessum tveimur? Hvað lærðu postularnir af slíkum?
Þetta með skápinn er bara myndlíking, Jóhanna. Þetta fólk fer út úr húsi á hverjum degi eins og þú og ég og hefur yfirleitt alltaf gert.
Og ég spyr þig vegna pistilsins þíns hérna ofar: Af því að þú ert þar (í samhengi umræðu um samkynhneigða) að tala um, að eitthvað innihaldi "ofbeldi í garð náungans," þá skil ég ekki, hvað þú átt við í því sambandi. Sástu eða heyrðir þú í alvöru einhvern hvetja til ofbeldis við samkynhneigða?
Eitt enn sem ekki stenzt í pistli þínum: "Konur og karlar voru sköpuð í mynd Guðs og eru jöfn fyrir Guði .. augljóslega ekki Páli." – Þetta er ekki sagt af djúpum skilningi á hans skrifum; bætir þar að auki ofan á áróður þinn (kristinnar manneskju!) gegn honum – hins útvalda aðalpostula Krists til heiðingjanna! Við eiginmenn segir Páll, að þeir eigi að elska eiginkonu sína eins og sjálfa sig.
En ég virði það við þig, að þú viðurkenndir, að þú gerðir þau mistök að nota "býsna hart orð" (að ósekju) um Rúnar.
Jón Valur Jensson, 10.7.2008 kl. 22:48
Jón Valur - Þetta kallast að koma út úr skápnum vegna þess að fólki líður eins og það sé í skáp! .. ég hélt bara áfram að með líkinguna. Vissi ekki að þú tækir þetta svona bókstaflega, en það skýrir margt.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 10.7.2008 kl. 22:57
Ég hef enga trú á því, að þessu fólki, almennt yfir alla línuna, líði né hafi liðið eins og það væri allan daginn í skáp. Gekk það ekki að vinnu sinni, námi og félagsskap eins og aðrir? Gat það ekki notið tónlistar og bíómynda og matar síns og drykkjar eins og aðrir? Fór það ekki í ferðalög o.s.frv. o.s.frv. Það er hins vegar fullt af fólki, sem upplýsir ekki um allt sem það hugsar og skammast sín fyrir hluti sem það hefur gert, geymir þá "eins og inni í skáp", án þess að það virðist almennt og endilega plaga það sérhvern dag. Láttu ekki aðrar mannlegar persónur stýra hugsun þinni svona, Jóhanna,
Jón Valur Jensson, 10.7.2008 kl. 23:46
Svo var þetta mjög partielt svar hjá þér við innleggi mínu kl. 22.48, Jóhanna.
Jón Valur Jensson, 10.7.2008 kl. 23:49
Jón Valur, manni líður aldrei vel ef maður getur ekki komið fram sem maður sjálfur.. svoleiðis er það bara, samkynheigt fólk sem ekki hefur sagt frá því, er þá að blekkja aðra með því að vera einhver annar eða einhver önnur en manneskjan er.
Að lokum ef manneskjan kemur ekki út úr skápnum endar þetta bara með sjálfsblekkingu.
Ég vona að þú farir að átta þig á þessu, FÓLK er bara eins og það er, hvort það sé samkynheigt, gagnkynheigt, rangeygt,ungt, gamalt, blátt, asískt, hvítt og bara nefndu það.
Við erum öll manneskjur, með tilfinningar, við getum aldrei sett okkur í spor annarra, þó svo að við höfum gengið i gegnum það sama, þá er það aldrei eins.
Við verðum að virða skoðanir annarra OG tilfinningar, það særir kannski samkynheigða ef það er talað illa um kynheigð þeirra, en það særir ekki þá sem tala illa um þau og segja að þetta sé eitthvað sem þau ákveða algjörlega sjálf..
Ég virði skoðanir þínar, en mér finnst allt í lagi, með fullri virðingu, að láta kynheigð annarra í friði....
Róslín A. Valdemarsdóttir, 10.7.2008 kl. 23:58
Ég var ekkert að tala hér illa um kynhneigð þeirra sem slíka né tilfinningar þeirra né um þá sem persónur, gættu að því. En þú þarft að glugga í Platón eins og hún Jóhanna: já, í Lögin, verk hans frá þroskaárunum, þá færðu annað sjónarhorn en hér er í tízku.
Jón Valur Jensson, 11.7.2008 kl. 00:54
Ha? Heldurðu samkynheigð vera tísku?...
Mér líst ekki á þetta lengur!
Róslín A. Valdemarsdóttir, 11.7.2008 kl. 00:58
Ég sagði raunar ekkert um það hér kl. 0.54. Lestu betur. Ég talaði um, að visst sjónarhorn væri í tízku. Er hneigð sjónarhorn? Nei. En hér ræðir um sjónarhorn (synsvinkel) á þessi mál, skoðun á og afstöðu til samkynhneigðar og þessara kynlífsmála.
Jón Valur Jensson, 11.7.2008 kl. 01:11
Takk fyrir þínar fínu athugasemdir Róslín, þú ert nú eiginlega bara undrabarn 14 ára gömul!
Jón - ég svaraði ,,partielt" í gær vegna syfju! .. Í dag þarf ég að sinna vinnu svo það verður eflaust fátt um svör, en ég mun koma hér inn um leið og tími gefst.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 11.7.2008 kl. 08:07
Ég skil svo sem þetta viðhorf að taka það sem þér þykir gáfulegt og fallegt og hafna öðru en fyrir mér er það eins og barn sem tekur þeim ráðum foreldra sinna sem því sjálfu þykir gáfuleg og falleg en hafnar öðrum sem henta því ekki.
Fyrir mig þá er starf Páls vottað af Guði með kraftaverkum og hans rit svona stór hluti af Biblíunni af því að þau eru innblásin af Guði. Þegar kemur að atriðum sem þessum þá einfaldlega trúi ég að Guð viti betur en ég þótt að viðkomandi afstaða er kannski óvinsæl í samfélaginu í dag og ég skilji hana ekki til hlýtur.
Varðandi Pál og hans skrif um konuna þá setti ég inn á bloggið mitt grein eftir formann kirkjunnar minnar um þau skrif; vildi svo til að hann skrifaði um þessi vers nýlega, sjá: Fjöldskyldan - Umdeild vers Páls um konur
Alveg sammála en hve margir hafa framið voðaverk í nafni kristinnar og hafa komið með sinn eigin vilja, sínar eigin röksemdarfærslur fyrir því að það væri rétt? Að þeirra skilningur og túlkun leyfði voðaverk og hunsuðu bókstafinn? Ég fyrir mitt leiti uppgvötaði fyrir löngu að bókstafurinn er miklu betri en ég er. Það eru þeir sem setja á sig merkimiða Krists en þykjast síðan vera yfir bókstafinum sem segir hver vilji Krists er sem ég er hræddur við.
Mofi, 11.7.2008 kl. 10:39
Tjah, undrabarn...
Frekar súpervúman sko, lét þannig í markinu allavega....
Eigðu góðan morgundag mín kæra!
Róslín A. Valdemarsdóttir, 12.7.2008 kl. 00:46
Bara rétt að kíkja og bjóða góðan dag
Jónína Dúadóttir, 12.7.2008 kl. 10:10
Tek hér undir orð Jennýar og TíCí. Og svo segja sum innleggin hér meira en þúsund orð. Þau dæma sig sjálf Jóhanna mín. Þröngsýnin ríður sjaldan við einteyming.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.7.2008 kl. 11:17
JVJ sver sig í ætt við ímyndaða guðinn sinn, hann vil banna kristnum að tala við eða eiga ókristna sem félaga.
Þarna sjáið þið kristni í hnotskurn, JVJ hefur lesið biblíu milljón sinnum, hann segist vita allt miklu betur en allir aðrir... ég segi að hann er búinn að lesa yfir sig.
JVJ er sönnun fyrir því að á meðan trúarbrögð eru við lýði þá mun mannkynið aldrei getað sameinast sem ein heild.
Takk kæri Jón.
DoctorE (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 13:52
Róslín - auðvitað ertu súperwoman en ekki undrabarn - hvernig læt ég!!!!..
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 12.7.2008 kl. 16:31
DoctorE - á meðan við getum talað saman á málefnalegan hátt og verið kurteis þá skiptir mig engu máli hvaða trúfelagi eða ekkitrúfélagi viðkomandi tilheyrir.
Mér leiðist ókurteisi og dómharka hvort sem hún kemur frá trúuðum eða trúlausum. Svo þurfum við að sjálfsögðu að hafa húmor .. og taka okkur ekki allt of hátíðlega.
Ég er ósammála þér á greiningu þinni á Kristni í hnotskurn. Kristur sjálfur.. skv. Biblíunni var einmitt ófeiminn við að ræða við þá sem á þeirra tíma voru kallaðir syndarar og t.d. Gyðingar litu niður á. Hann var aftur á móti gagnrýndur harkalega fyrir það af þeim sem töldu sig réttláta.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 12.7.2008 kl. 16:43
JVJ myndi hafna Jesú ef hann "kæmi aftur", það er alveg ljóst.
Jesú gerði reyndar mistök, það að boða helvíti.... eða voru það kannski kaþólikkar sem bjuggu til helvíti.
Kaþólikkar eru án efa mest twisted kristni söfnuðurinn.... maður sér alveg fyrir sér að Jesú fá sér skó með oddhvassri stáltá til þess að þruma í rassgatið á þeim.
DoctorE (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 18:57
Ég vek athygli á því að í Biblíunni er bara sagt að samkynhneigð sé af hinu illa, en ekkert farið út í hvers vegna. Er hægt að taka mark á slíku? Er virkilega hægt að láta stjórnast af slíkum fyrirmælum án þess að hafa nokkra réttlætingu fyrir þeim? Sumum eiga reyndar auðvelt með það, en flestir beita skynsemi og velja það sem réttlátt er og sanngjarnt. Geta Mofi eða Jón Valur svarað því hér hvers vegna samkynhneigð er 'viðurstyggð'? Ég bendi á að "af því bara" er ekki gilt svar.
Svo er áhugavert að sjá að fólki geti ekki liðið illa í eigin skinni svo fremi sem það fari í vinnu eða kíki í bíó. Þetta er djúp og næm greining og það hreinlega drýpur af henni kærleikur og hluttekning. Hvað þá ef það fær sér matarbita og drykk, þá hlýtur allt að vera í himnalagi! Þetta eru sannarlega kærleiksorð sem Jesús Jósepsson myndi örugglega skrifa undir væri hann hér á meðal vor í dag ... eða hvað?
Óli Jón, 13.7.2008 kl. 14:20
Góð athugasemd hjá þér Óli Jón. skömm fékk ég í hattinn fyrir að samþykkja bloggvini eins og Jón Steinar og E. Val, vegna þess þeir væru kristindómshatarar. Mig grunar aðeins að þeir hati aðallega þann kristindóm sem Jón Valur & ,,játendur" hans prédika, en enginn ætti að hata kristindóm þar sem kjarni kristindóms liggur í kærleikanum til náungans.
Að kunna Biblíuna utanbókar hefur ekkert að segja með hjartalag fólks.
Það er svo skrítið að það geta tvær manneskjur farið eftir sömu kökuuppskrift, hjá annarri fellur kakan en hjá hinni lukkast kakan. Það er ekki hægt að skrifa næmnina við baksturinn inn í uppskriftina. Það verður alltaf að taka hið mannlega með í reikninginn.
Ef við lítum á Biblíuna sem uppskriftabók þá geta sumir algjörlega klúðrað henni og aðrir skilja hvað verið er að segja. Mælikvarðinn hvort eitthvað fellur eða stendur er, eins og ég hef sagt hér oft áður, æðsta boðorðið um náungakærleikann. Ef að okkar minnsti bróðir eða systir líður fyrir það hvernig við tökum á móti þeim í þjóðfélaginu, líður jafnvel þannig að hann getur ekki horfst í augu við lífið vegna okkar dóma í hans garð, þá held ég að kakan okkar sé fallin.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 13.7.2008 kl. 15:05
Jónía og Ásthildur, takk.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 13.7.2008 kl. 15:07
DoctorE ... ég vissi alltaf að þú ættir Jesú þarna einhvers staðar djúpt falinn í hjarta þínu, en ég held ekki að Jesús myndi sparka í einn né neinn í ,,comebackinu" sínu en hann myndi kannski segja "Vei yður fræðimenn og o.s.frv... "
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 13.7.2008 kl. 15:13
Þessi brot af athugasemdum Mofa og Jóns Vals voru víst ábyggilega ekki þess virði að vera lesin í heild.
En pistillinn þinn Jóhanna er mjög góður. Ég er innilega sammála.
Stundum heft ég útskýrt skrif Páls postula fyrir sjálfri mér á þann hátt, að stundum sé hann innblásinn af Guðs heilaga anda, en í annan tíma sé hann bara að skrifa í eigin mætti sem karlremba síns tíma.
Trú hefur ekkert með áþreifanlegar sannanir að gera, - þar mælirðu satt og rétt. Það færi betur á að fleiri áttuðu sig á því.
Laufey B Waage, 13.7.2008 kl. 15:40
Blessaður er sá dagur sem trúfrjálsir, trúlausir og anti dogmatistar eru farnir að koma kristnu fólki til hjálpar gegn bókstafstrúarmönnum.
Merkilegt hvað "sanntrúaðir" virðast ekki geta verið Kristslegir og haga sér frekar eins og farisear. Á meðan svokallaðir trúlausir virðast geta það án nokkura vandræða þegar kemur að óréttlæti og einelti gagnvart fólki sem þeir eru kannski ekkert sammála.
Góð grein hjá þér Jóhanna. Og endilga haltu áfram að velja bloggvini eftir hjartanu þínu en ekki einhverju "við gegn þeim" dogma.
Gissur Örn (IP-tala skráð) 13.7.2008 kl. 16:01
Pass
Eiríkur Ingvar Ingvarsson, 13.7.2008 kl. 20:54
Sé að þú hefur staðið í ströngu ! Sendi þér góða strauma, hef staðið í þessari baráttu áður og hún getur verið lýjandi, en góðum málstað er aldrei haldið of oft á lofti og þinn er kærleikans megin Jóhanna ! Bestu kveðjur!
Sunna Dóra Möller, 14.7.2008 kl. 15:54
Hvers vegna eiga menn endilega að virða kennivald Páls polstula? Má ekki draga það i efa? Ekki var hann neinn guð.
Sigurður Þór Guðjónsson, 16.7.2008 kl. 10:43
Sigurður, spurningin er hvort að Nýja Testamentið er orð Guðs eða ekki. Páll skrifaði stórann hluta af því svo spurningin er, eiga kristnir að henda því eða samþykkja.
Mofi, 16.7.2008 kl. 10:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.