Sunnudagur, 14. september 2008
Menntavegurinn genginn eins og Fimmvörðuháls
Þegar ég fór í göngu nýlega yfir Fimmvörðuháls, hafði allt göngufólki sama takmark:
Það að komast í Þórsmörk og halda veislu í framhaldinu. Ég hafði lesið á upplýsingavef að þessi ferð væri um 9-10 tímar, með stoppum.
Alveg frá upphafi hafði verið í boði að hópurinn myndi skiptast; þ.e.a.s. um tuttugu af sjötíu manns ætluðu að þiggja rútufar hluta leiðarinnar, sem var í raun mest upp í móti.
Þegar við hin, fimmtíu höfðum gengið í ca. 30 mínútur, sáum við að teygst hafði úr hópnum og ákveðið var að skipta honum í tvennt. Þá sem völdu að ganga hratt og þá sem völdu að ganga hægar.
Þorgerður Katrín, menntamálaráðherra talaði mikið um landakort og vegalýsingar á nýafstöðnu menntaþingi, en lítið eða ekkert var rætt um hraðann á þeim sem ætluðu að nota vegaslóðann.
Þeir sem notuðu rútuna, eru að sjálfsögðu eins og þeir nemendur sem þurfa aðstoð upp erfiðasta hjallann.
Þeir sem vilja fara hratt, eru þeir sem finnst ekkert gaman að ganga, nema spretta vel úr spori og svitna ærlega.
Þriðji hópurinn er þá sá hópur sem vill fara nokkuð hratt og örugglega, en gefa sér þó tíma til að njóta útsýnis, taka sér góðar pásur, eins og nemendur sem vilja njóta meira félagslífs.
Það sem gerist þegar stór hópur gengur saman, er að einhverjir dragast aftur úr og aðrir vilja ganga hraðar. Ef þess er krafist að sá hópur sem vill ganga hraðar er alltaf að bíða eftir hinum, fer honum að leiðast, hann kólnar niður og gleðin yfir göngunni minnkar.
Það sama er um miðhópinn, honum leiðist að bíða eftir þeim hægfarnasta, og bæði hægfarnasta og miðhópnum leiðist að láta bíða eftir sér og finnst þeir vera skyldugir að flýta sér því þeir, annað hvort, geta það ekki, eða njóta þá ekki göngunnar sem skyldi.
Að setja sama tíma á alla nemendur t.d. í framhaldsskóla; 4 ár, er að mínu mati orðið úrelt fyrirbæri. Ég held að við getum minnkað skólaleiða að miklu marki og brottfall í framhaldi af því.
Allir eiga að geta keppt að sama lokamarkmiði, á sínum hraða innan ákveðins ramma, ef vel er að verki staðið.
Góðan dag annars, á þessum haustmorgni...
Athugasemdir
Mikið asskoti er þetta brilljant dæmisaga. Algjört plettskud í mark.
Þarna er nefnilega hundurinn grafinn. Hver á sínum hraða.
Jenný Anna Baldursdóttir, 14.9.2008 kl. 09:14
Frábær samlíking.
Laufey B Waage, 14.9.2008 kl. 09:16
Frábær pistill, takk fyrir.
Sigrún Jónsdóttir, 14.9.2008 kl. 09:19
Flott þetta
Jónína Dúadóttir, 14.9.2008 kl. 09:59
Þakka brilljant, frábær og flott viðbrögð. Vaknaði með þetta í kollinum í morgun - eftir annars ágætan svefn. Hefði getað haft þetta miklu betur útfært og ítarlegra, en þá hefðu allir gefist upp á að lesa. ..
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 14.9.2008 kl. 10:21
Frábær pistill stelpa.
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir, 14.9.2008 kl. 11:25
Frábær samlíking....ég styð skoðun þína á þessu heilshugar.
Sjálfur gekk ég í gegnum það, bæði í grunnskóla og framhaldsskóla, að klára námsefni í tveimur greinum fyrir áramót, og það eina sem gerðist var að ég fékk " leyfi til að mæta ekki í tiltekna tíma " !!!
Af hverju fékk ég ekki námsefni við hæfi ? Ég hélt að það væri samfélaginu til bóta að skólarnir skili sem mest og best menntuðu fólki....en það er víst misskilningur.
Haraldur Davíðsson, 14.9.2008 kl. 11:34
Myndænt og flott eins og góð rök eiga að vera
Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 11:40
Góð samlíking. Skólakerfið er gert fyrir miðjunemendur og þeir sem eru á "eftir" fá held ég allflestir stuðning.. Afburðanemendur gleymast oft og þeim leiðist í skólnum vegna þess að þeir fá ekki verkefni við sitt hæfi.
Rut Sumarliðadóttir, 14.9.2008 kl. 12:11
Já frábær samlíking og góður pistill að vanda.
Ía Jóhannsdóttir, 14.9.2008 kl. 12:35
Ég skrapp í leiðangur, til að versla mat fyrir hana móður mína og hér hafa komið inn á meðan mjög svo áhugaverð komment, misflókin að vísu. Ég "græði" auðvitað mikið á svona endurgjöf (feedback) því þá fæ ég andsvar eða "meðsvar" hvort að fólki lítist eitthvað á þetta eða finnist ég vera að bulla.
Best að byrja að svara á öfugum enda, ef svo má að orði komast.
Rut - Það hefur oft verið hálfgert "taboo" eða feimnismál að tala um að hygla afburðanemendum. Auðvitað kostar það líka, í gögnum og fleira. Sumum finnst bara allt í lagi, úr því þau eru svona klár, þá geti þau bara beðið og hafi jafnvel gott af því. Þá gerist nákvæmlega það sama og í göngunni, við slökkvum á þeirra eldmóð og þau fara bar í tölvuleiki eða eitthvað það sem þau stjórna hraðanum í sjálf.
Ætla að ýta á senda núna, er stundum búin að skrifa langa rullu og svo ýti ég á "senda" þá hverfur allt ...
"to be continued"
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 14.9.2008 kl. 12:46
Ég er ekki kennararmenntuð en hef unnið í nokkur ár við kennslu. Það er heilmikil aukavinna að útbúa námsefni fyrir nemendur sem eru á undan hinum. Sem og þeirra sem eru hægari á ferðinni. Það þarf kannski að gera skurk í því að kennarar eigi hugmyndabanka t.d. á vefnum með verkefnum fyrir þessa nemendur. Kannski er hann til, nokkur ár síðan ég var í þessum bransa.
Rut Sumarliðadóttir, 14.9.2008 kl. 12:56
Námsefnið er til, fyrir næsta bekk á eftir....
...það þarf einfaldlega að hleypa afburðanemendum hraðar áfram, það þarf bara að gæta þess að slíta þau ekki úr öllu samhengi við jafnaldra sína ef um er að ræða grunnskóla, t.d. með félags- og íþróttastarfi. Þetta er einmitt mikilvægast í grunnskóla , þykir mér, að hleypa þeim hraðar áfram. Það getur bara verið gott, og yrði bæði þessum nemendum sem öðrum hvatning til afreka.
Haraldur Davíðsson, 14.9.2008 kl. 13:26
Haraldur - Þetta er af sumum kallað "fljótandi" námsefni, og er þegar komið í framkvæmd milli grunnskóla og framhaldsskóla, nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla eru farnir að taka nokkra framhaldsskóla áfanga með námi í grunnskóla. Ég er algjörlega sammála því að það þarf að passa upp á félagslega þáttinn, þ.e.a.s. þau eru ekki endilega búin að ná félagslegum þroska á við eldri nemendur þó þeir geti lært sama námsefni.
Sá að Ía kíkti hér í eldhúsgættina, þakka þér innlitið. Hefði þegið að heita Ía í 7 ára bekk, þegar það tók mig hálfan veturinn að læra að skrifa nafnið mitt, ég fór hægt af stað, en náði mér svo vel á strik.
Guðlaugur - er að semja laaaangt svar til þín.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 14.9.2008 kl. 13:37
Ekki má ég gleyma að þakka Sála, Fjólu og Siggu fyrir hlý orð. Sammála þér líka Rut, að við gætum kannski nýtt vefinn í svona hugmyndabanka og nýtt eldmóð nemendanna til námsins þannig.
...
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 14.9.2008 kl. 13:42
Guðlaugur, nú ætla ég að gera eins og MOFI og klippa niður það sem þú hefur sagt og svara því: Guðlaugur:
„Ég vil setja þessa dæmisögu upp á launabaráttu kvenna. Konur krefjast síður launahækkunar en karlar vegna óskiljanlegra ástæðna.“.
Persónulega finnst mér dæmisagan ekki passa við þetta, konurnar voru í öllum þremur hópunum og karlar einnig og ekkert minni eða meiri eldmóður í þeim eftir kyni.
EN það er rétt hjá þér að sumar konur eru hlédrægari við að krefjast launahækkana, þar kemur inn lélegt sjálfsmat sumra kvenna og óöryggi, sem er auðvitað afrakstur ákveðins hugsanaháttar í samfélaginu sem vonandi er nú hverfandi.
Launabarátta kvenna er ekki byggð á því að fá sömu laun fyrir minni vinnu, heldur sömu laun fyrir sömu vinnu, enda er það lógískt. Það ætti nú samt, að mínu mati, ekki að þurfa að „krefjast launahækkana“ Vinnuveitandi ætti að vilja umbuna þeim konum sem körlum sem vinna vel og vill halda. Þess má einnig geta, að launabarátta kvenna felst líka í því að hækka laun í hefðbundnum kvennastörfum, sem eru oft t.d. ummönnunarstörf – sem okkur hlýtur öllum að þykja mikilvæg.
Guðlaugur skrifar: „Duglegir starfsmenn ná sér í góð laun með því að vera umbunað af vinnuveitandanum fyrir verðmætt vinnuframlag. Eiga allir að vera með sömu laun? Eiga þessir duglegu að trappa sig niður í launum til að vera jafnir öllum hinum? Líklegast fer áhugi duglegu starfsmannanna dvínandi við launalækkun. Það skyptir ekki máli hvort laun verði lækkuð hjá þeim hálaunuðu eða hinir fái hækkað upp í hámark því það er aðeins ávísun á meðalmemennsku eins og boðað er í menntakerfinu. „Þarna er ég sammála þér Guðlaugur, en það er alveg óþarfi að skipta þessu í konur og karla. Auðvitað á að umbuna góðu starfsfólki, umbuna þeim bæði andlega og veraldlega, þ.e.a.s. með hrósi, reglulegri endurgjöf, og svo má lauma einhverju extra í launaumslagið ef viðkomandi er svona frábær starfsmaður, það er mín skoðun.
Ég lýsti því nýlega yfir í útvarpsviðtali (já, já, verð að gorta mig af þessu einhvers staðar) að ef að hægt er að setja mælikvarða á störf kennara (sem ég tel að sé) þá eigi þeir að fá umbun fyrir góð störf.
Guðlaugur: „Gleði og sviti göngumanna er umbun þeirra. Sumir nenna ekki að ganga en ganga samt til að halda hópinn og hugsanlega smá gleði af erfiðinu. Sumir fara í rútum upp til að öðlast smá gleði án svita. Það má segja að gleðin sé launin þar sem gleðin er mismikil þá eru launin mismikil eins og á vinnumarkaðnum“Hópurinn sem tók rútuna er tákn fyrir þá þjóðfélagsþegna sem geta ekki, vegna líkamlegra eða andlegra orsaka gengið óstuddir erfiðustu hjallana. Þetta er ganga að ákveðnu marki, gleðin fólst meðal annars í því að ganga, en einnig að uppskera í veislunni um kvöldið og finna þessa góðu þreytu eftir átökin. Ef við hugsum þetta sem framhaldsskólanema, þá fá allir stúdentsprófið að lokum, verðlaunin eru þau sömu. Þetta er ákveðið verkefni sem þarf að ljúka, öllum tókst að ljúka því – á mismunandi hraða, og átakið sem fólk þarf að lyfta fer eftir burðum þess, stundum þarf sá sem tilheyrir síðasta hópnum mun meira átak en sá sem er í þeim fremsta og því falla því fleiri tár og meiri sviti hjá þeim.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 14.9.2008 kl. 14:09
Æ - hvað þetta kom eitthvað leiðinlega groddalega út - þetta kópípeist, vonandi hægt að lesa samt!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 14.9.2008 kl. 14:11
Takk fyrir upplýsingarnar, það er gleðiefni að þetta skuli vera byrjað, ég trúi ekki öðru en að þetta lfi góðu.
Haraldur Davíðsson, 14.9.2008 kl. 14:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.