Laugardagur, 8. ágúst 2009
Hitti bloggvinkonu í mátunarklefa ...
Ég stikaði með Huldu systur upp Laugaveginn til móts við Gay Pride gönguna, átti þar stefnumót við Evu og Henrik með börnin. Þar sem Vala var að vinna í Sævari Karli (reyndar ekki í honum heldur í búðinni sem heitir Hjá Sævari Karli) fór ég þar inn í þann undraheim. Ég hafði, þar til í dag, ekki eignast flík þaðan, enda verðin "aðeins" fyrir ofan minn fjárhag.
Jæja, nóg um það við Hulda fórum til Völu niður í dömudeild og ég komst að söluhæfileikum dótturinnar. (Ég held það hafi verið síðast í gær að ég var ákveðin í því að fara að vera duglegri að spara) Já, já, en hún fann til buxur - sem svoleiðis smellpössuðu á mömmu og fleira með 60 - 70% afslætti á útsölunni og ég endaði uppi með tvennar vinnubuxur og eina skyrtu!!.. Allt auðvitað svakalega vandað og fínt.
Þar sem ég gerði eitt af mínum flottu entrance út úr mátunarklefanum, kom á sama tíma út úr sínum mátunarklefa glæsikvendi nokkurt í svörtum kjól. "Hvar hafði ég séð þessa konu" ... hugsaði ég; en hugsaði ekki lengi: vá, bloggvinkonan Ía í Prag var þarna mætt í öllu sínu veldi. - Ég horfði á konuna og spurði svo varlega; "heitir þú ekki Ía"? .. og jú, sú var konan - og ég kynnti mig fyrir henni.
Þetta var gaman fyrir okkur báðar, við knúsuðumst á staðnum og hlógum að þessum aðstæðum.
Dagurinn í það heila var mjög góður, endaði ég með litlu fjölskyldunni á Café Paris og fengum við okkur Salat og erum nú komin heim í kaffi.
Góður dagur!
..
Athugasemdir
þetta er nú alveg sérstakt og hefur svo sannarlega átt að gerast, ég bara samgleðst ykkur að hafa hist.
Ía ætlaði að koma til mín á Húsavík og þá var ég akkúrat í Grímsnesinu í bústað, já svona er þetta bara.
Þú munt ekki sjá eftir að hafa keypt þér flottu fötin því þau endast lengur og sér aldrei á þeim, til hamingju með þau og hún er snjöll dóttirin.
Kærleik til þín Jóhanna mín
Milla
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 8.8.2009 kl. 19:09
hahaha en skemmtilegt ...tvær glæsipíur á sama stað
Ragnheiður , 8.8.2009 kl. 20:17
Já, skrítin þessi tilvera. Ég sá mikið af fólki í dag - marga sem ég hafði ekki séð lengi, lengi og sumar sem tja.. ég var að hitta í fyrsta skipti, já kannski örlagalínurnar okkar hafi krossast þarna í mátunarklefanum, eigum reyndar sameiginlega vini líka sko!! ..
Takk fyrir kærleikskveðju Milla - sendi þér til baka í sama .. hver veit nema við eigum eftir að rekast á hver aðra t.d. í Grímsnesinu hehe..
Takk Ragga!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 8.8.2009 kl. 20:30
Ég er næstum því viss um að ég mætti Íu okkar þegar ég gekk upp Laugaveginn með vinkonum mínum eftir Gleðigönguna í dag....áttaði mig of seint og fannst hún líka vera með dekkra hár en ég átti von á
Sigrún Jónsdóttir, 8.8.2009 kl. 21:17
Sniðugt, svo held ég að ég hafi séð Laufey Waage tilsýndar, hún þekkist langar leiðir á hárinu!! hehe..
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 9.8.2009 kl. 07:36
Heheheh ekkert nema gaman að þessu. Hrikalega var gaman að hitta þig Jóhanna mín.
Sigrún já ég var á vappi þarna upp Laugaveginn og hitti annan bloggvin Berg Thorberg og auðvitað smellti ég einum á hann líka. Þetta með hárið getur passað var með svona ,,húfu" þú skilur.
Ía Jóhannsdóttir, 9.8.2009 kl. 18:20
Gaman að þessu
Jónína Dúadóttir, 10.8.2009 kl. 05:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.