Laugardagur, 10. maí 2008
Smáfréttir frá Köben...
Ætla að blogga smá héðan frá Danaveldi. Erum búin að hafa það feikna gott hérna, allt gengið eins og í sögu - sólin skín hér á okkur eins og henni sé borgað fyrir það!
Við fórum á ströndina í gær og börnin njóta sín sem aldrei fyrr. Bréfritari hljóp í sjóinn, kom að vísu uppúr aftur, en hann var svo grunnur þar sem við vorum við ströndina að það var enginn möguleiki að synda.
Í dag var stóri Tívolídagurinn, en hersingin dreif sig í gamla góða Tívolí. Ég og Tryggvarnir tveir ferðuðumst á hjólum en héðan frá Volosvej (Amager) tekur aðeins um 30 mín að hjóla (rólega) inn til miðborgarinnar. Á morgun er svo Stóri Stóri fermingardagur Ingva bróðursonar. Allir voða spenntir.
Rósa og Ísold dansa á ströndinni, Ísold að máta svolítið of stóran skó!
Svona sæt börn hljóta að eiga fallega foreldra, hér er mynd af Dúa og Lottu systur útí garði!
Hér er bréfritari kominn á breiðgötur Kaupmannahafnar
Tryggvarnir tveir í öllu sínu veldi.
Blómin í Tívolí eru svo falleg að ég stóðst ekki freistinguna að taka nokkrar blómamyndir!
Slappað af útí garði, en þarna er komið kvöld. Á morgun verður svo mikil grill-fermingarveisla og hlökkum við öll mikið til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Miðvikudagur, 7. maí 2008
KEF - CPH
Heyrði í dætrum mínum í kvöld, Eva var heima á Eggertsgötunni en Vala var að versla í Wal-Mart. Svolítil tilviljun að upphafsstafirnir passa! Hvorug þeirra mundi eftir því (eflaust af því að ég hef ekki bloggað um það) að nú var komið að stóra Kaupmannahafnarfermingaræfintýri fjölskyldunnar á morgun. Þ.e.a.s. systkina minna, maka, nokkurra afleggjara og síðast en ekki síst mömmu sem ekki hefur ferðast í 1000 ár eða u.þ.b. Má kannski taka tvö núll af.
Litli bróðir minn er að fara að ferma litla bróður eldri sonar síns. Sérstök tilviljun líka að það eru þarna er um að ræða tvo litlu bræður. Ekki að þessir litlu bræður séu mjög litlir, minn er vel yfir 190 cm - held 194 eða 5 alveg og að vísu er stóri bróðir minn líka svona stór!
Við erum búin að leigja hús sem við munum gista í grilla og chilla og síðan straujum við strikið í sól og 21 stiga svækju og setjumst í sandinn á ströndinni eða svömlum í sjónum - (og hvað er mörg s í því ?).. Er bláedrú en í blússandi góðu skapi, hlakka svo mikið til að vera með þessum hópi, þó auðvitað sé fúlt að börnin mín komast ekki með né barnabarn.
Treysti því að bloggarar hagi sér vel á meðan ég er í burtu og ég mun skila góðri kveðju til Den Lille Havfrue frá ykkur öllum..
knúsímús..
Þriðjudagur, 6. maí 2008
Að elda grátt silfur ... ???
Dóttir mín benti mér kurteisislega á að bíllinn minn teldist silfraður en ekki grár, en ég set þetta svona í sama flokk, silfur, ljósgrátt og dökkgrátt
Út frá þessu fór ég að hugsa um orðatiltækið að elda grátt silfur. Er ekki allt silfur grátt ? .. NEI skv. skýringum hér að neðan er svarið að grátt silfur er óhreint silfur en hvítt silfur er hreint. Minn bíll er því grátt silfur því hann er óhreinn!
Leitaði að skýringum á orðatiltækinu á Vísindavefnum og þar vantar næstum aldrei svör:
Orðasambandið að elda grátt silfur þekkist þegar í fornu máli og er notað um að eiga í erjum við einhvern. Í Eyrbyggja sögu segir til dæmis í 57. kafla (stafsetningu breytt): "Þeir Óspakur og Þórir eldu oft grátt silfur og veitti ýmsum léttara."
Sögnin að elda merkir hér 'hita, bræða' og er leidd af nafnorðinu eldur. Hún beygðist í eintölu eldi (hann eldi) og í fleirtölu eldu (þeir eldu) og helst forna beygingin oft í orðtakinu í nútímamáli. Á 19. öld fór að bera á því að þátíðarmyndin væri eldaði, það er "þeir elduðu grátt silfur" og lifa báðar beygingarnar nú hlið við hlið. Lýsingarorðið grár er hér notað í merkingunni 'óhreinn'. Grátt silfur var því 'óhreint silfur'. Andstæðan var hvítt silfur.
Bent hefur verið á að hafi óvarlega verið farið með eld við silfurbræðslu hafi kolefni náð að blandast silfrinu þannig að það varð grátt að lit við hitunina. Líkingin er sennilega frá þessu dregin. Um þetta má lesa í bók Halldórs Halldórssonar Íslenzk orðtök (1954:318319)
Gamanaðessu, hehe..
Knús á ykkur (100% ókynferðislegt) ..
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Þriðjudagur, 6. maí 2008
Á náttbuxum á daginn?
Ég á einar yndislegar rauðköflóttar náttbuxur, sem eru að vísu komnar til ára sinna, en eru alltaf uppáhalds. Mér dytti þó aldrei í hug að fara á þeim út úr húsi, þá í mesta lagi út á pall eða svalir. Kannski út með ruslið ef ég hugsa betur.
Margir af ungu kynslóðinni (og nú tala ég eins og 100 ára) virðist líta á náttbuxur á annan hátt. Vissulega höfum við stundum náttfataþemadaga í skólanum og þá mæta margir í náttbuxum, EN það eru nokkrir nemendur sem líta á náttbuxur sem dagklæðnað, sérstaklega t.d. í prófum. Stundum sé ég líka fólk á náttbuxunum í bíó.
Auðvitað er fólki frjálst að vera klætt eins og það langar, en ég hef bara furðað mig á þessari venju hvort hún sé vegna smekks eða hmmm... hvort að fólk hreinlega klæði sig ekki? Ætli það séu sömu náttbuxurnar sem það sofi í? ..
Knús og góðan dag!
p.s. bílaskoðanakönnunin er enn virk hér til vinstri.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 07:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 5. maí 2008
BRJÓSTASTÆKKUNARKREM
Var að lesa mjög "merkilega" frétt í Fréttablaðinu áðan, en hún fjallaði um krem til að stækka brjóst - það kom á markað í Bretlandi í síðustu viku og seldist upp! Kremið ber það merkilega nafn ,,Boob Job" .. hmm... Ekki var tekið fram hversu stórt upplagið var, en að flaskan hefði kostað 125 pund.
Ókey, ætla nú ekki að setja neinar before and after myndir hér en úr því þú ert komin/n hér inn að kíkja viltu þá ekki segja mér hér í skoðanakönnunni til vinstri frá litnum á bílnum þínum ?
Mánudagur, 5. maí 2008
Mjög mikilvæg skoðanakönnun - eða þannig!
Ef þú kíkir hér í heimsókn, endilega segja mér hvernig bíllinn þinn er á litinn hér í skoðanakönnun til vinstri!
Takk, takk.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 5. maí 2008
Gráir bílar og rauðir - hvernig er bíllinn þinn á litinn?
Ég ýtti á snooze takkann í morgun og ætlaði að sofa leeeengur en þá kom nýtt hljóð í símann, hmmm.. hljóð eins og minnismiðar símans gefa frá sér. Ég þreifaði eftir símanum og bar hann upp að nefinu og stökk svo uppúr rúminu, en þá var klukkan 07:01. Á skjánum stóð jafnfrat eitt orð ,,BÍLL" en það þýddi að bíllinn, þríákeyrður átti að fara á réttingaverkstæði klukkan 8:00.
Þar sem ég er ómissandi í skólanum (að eigin áliti) fór ég að reikna hversu margar mínútur ég hefði í a) sturtu b) laga hafragraut c) lesa moggann o.s.frv.. og komst að því að þetta myndi reddast. Fór í svörtu buxurnar sem eru nr. 42 og eru farnar að hanga (liggaliggalái) vegna spinningtímanna hræðilegu og masókistamataræðis, svo eitthvað gott virðist koma útúressu. Sá fyrir mér hringsólandi hamborgara og ís með nóakroppi þegar ég sofnaði í gærkvöldi.
Jæja, ég náði á verkstæðið á mínum gráa bíl uppúr kl. 8:00 í morgun - allt skv. áætlun, og var ekið á bílaleigu þar sem ég fékk annan gráan bíl. OG þá er ég loksins komin að meginmáli þessa bloggs! .. Þegar ég var að aka í vinnuna fannst mér bara alltíeinu allir bílar vera gráir!!!.. ljósgráir og dökkgráir. Erum við orðin svona löt að þrífa bílana að engir eða fáir velja rauða, gula, bláa, græna bíla ?
Eini virkilega flotti bíllinn sem ég hef átt var gamli frúarbíllinn minn: Ford Fairlaine, 1966 árgerð. Að vísu svolítið glannalegur, því hann var án belta og bremsurnar virkuðu bara eftir behag. Það þekkja þeir sem fengu far með mér. Einu sinn fór minn fyrrverandi með hann á verkstæði til olíuskipta (ég kunni ekkert á slíkt, enda á ósjálfbjargakonutímabilinu) og þá spurðu verkstæðismennirnir hvað hefði komið fyrir, undir honum var allt krökkt af fíflum (blómum) og sóleyjum. Það var sko þegar ég hafði ,,flogið" upp á umferðareyju í eitt skiptið þegar bremsurnar klikkuðu.
p.s. það skal tekið fram að ég var í rétti í öll þrjú skiptin sem ekið var á gráa bílinn minn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 4. maí 2008
Kvöldbæn
Guð; hver, hvar og hvað sem þú ert,
leiddu mig í átt að sannleikanum.
Leyf mér að hvíla í öruggu skjóli þínu dag sem nótt.
Gerðu mig góða og gefandi manneskju.
Taktu burt áhyggjur mínar svo ég geti hugsað skýrar,
og þannig látið gott af mér leiða.
p.s. og svo væri fínt að fá gott veður á morgun!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sunnudagur, 4. maí 2008
Sálfræðipróf fyrir starfandi presta?
Það er náttúrulegra sorglegra en tárum taki að fólk sem sinnir sálusorgun, prestar eða aðrir í svipaðri stöðu skuli misnota aðstöðu sína.
Þegar ég var í guðfræðideildinni, en ég útskrifast í febrúar 2003, vorum við látin taka 500 spurninga sálfræðipróf, fórum í námskeið og áleitin viðtöl. Ég sagði í gríni eftir þessi próf að mikið væri gott að fá stimpil yfir að vera ekki axarmorðingi. Ég var í hópi þeirra fyrstu sem fór í gegnum þessa síu, en eftir prófin fórum við í tvö viðtöl hjá sálfræðingi þar sem okkur var leiðbeint miðað við niðurstöður. Mér var að vísu tilkynnt, að ég gæti miðað við allar aðstæður og niðurstöður orðið hinn ágætasti prestur! ... hmmm.. hugsa það síðar.. Það hefur auðvitað reynt á mig sem sálusorgara nú þegar, þó það sé á öðrum vettvangi en kirkjunnar.
Ég held að það væri óvitlaust að taka nú starfandi presta í slíka skoðun, eftir þessa uppákomu með sr. Gunnar. Ég ætla ekki að dæma hann, það verða aðrir að gera með faglegu móti.
Minni auðvitað á að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Í kringum alla sem fremja afbrot, eða eru sakaðir um slíkt, eru ættingjar í sárum og því þurfum við að gæta tungu okkar og hvað við skrifum. Þá er ég ekki að gera lítið úr sorg fórnarlamba eða ættingja þeirra, svo enginn misskilji það.
Prestur í leyfi frá störfum vegna kæru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Laugardagur, 3. maí 2008
Bíbí miðill og Páll Rósinkrans í Svalbarða ..
Vorum að skipta á milli stöðva, rugl á RUV og enn meira rugl á Stöð2, enduðum á Svalbarða sem mér, hingað til hefur sýnst svolítið rugl líka. Langar þó að sjá Bíbí miðil, þar sem ég er búin að lesa bókina hennar.
Var annars að borða eitthvað lífrænt ræktað fitulaust popp sem bragðast eins og pappír! .. Urtekram popp held ég! .. Mæli ekki með því, oblátur eru bragðmeiri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)