Mánudagur, 19. maí 2008
Góða nótt, sofðu rótt í alla nótt ..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 19. maí 2008
Anna Kristín Conway 1968 - 2008.
Anna Kristín kom í heimsókn ásamt móður sinni þegar Mánalingur ömmubarnið mitt var skírður og hér eru þau svo falleg saman. Mæður okkar eru systur. Hún er dóttir Guðríðar (Dúddu) og Williams (Bill ) Conway og bræður hennar eru John og David Conway.
Anna Kristín frænka mín lést í gærkvöldi á heimili móður sinnar í Vermilion Ohio og var umkringd nánustu fjölskyldu. Pabbi hennar lést fyrir nokkrum árum, en eitt af því síðasta sem hún sagði áður en hún dó var að hana hefði dreymt hann að hann væri kominn að sækja sig og hún kvaddi sátt, það er undurfallegt.
Eva dóttir mín var barnapía hjá John bróður Önnu þegar hún var unglingur og hún og Anna voru miklar vinkonur þrátt fyrir aldursmun. Henni veitir ekkert af smá knúsi og langar mig að biðja ykkur elskuleg að gefa henni eins og eitt hjarta. Slóðin er http://ev.blog.is/blog/ev/entry/543913/
Knús
Sunnudagur, 18. maí 2008
Dagur sem byrjaði rólega en svo færðist fjör í leikinn...
Ég er eins og litlu börnin, þ.e.a.s. þegar ég má sofa út vakna ég um 6:30 en langar að sofa lengur á morgnana á virkum dögum! Dagurinn hófst rólega, hitaði croissants fyrir okkur betri helminginn og rólegt var í húsinu. Síðan komu afi Agnar og Bjössi Tryggvabróðir í sunnudagsbrunch. Ég fór síðan að vinna fyrir skólann eftir hádegi, setja inn einkunnir og fleira. Bræðurnir og faðir þeirra fengu sér allir lúr í sófasettinu og rétt missti ég af að taka mynd af þeim öllum sofandi!
Þegar hádegisgestirnir voru nýfarnir og ég sat eins og versta sófakartafla hér með tölvuna í fanginu hringdi svo Hulda systir og voru þær á leið í kaffi hún og Lotta systir með litlu tvíburana. Það lifnaði því yfir húsinu. Þegar þær voru búnar að vera dágóða stund og leika, hringdi Eva mjög miður sín því hún hafði fengið þær fréttir í símtali að frænka okkar, sem er með krabbamein sé nú að koma á leiðarenda. Þetta er kona sem er tæplega fertug. Þessi frænka býr í Bandaríkjunum, en hluti fjölskyldu mömmu býr þar. Eva mín er mikið tengd fjölskyldunni því hún var m.a. að passa börn hjá þeim þegar hún var nýfermd.
Eva, Henrik og Máni drifu sig því bara hingað uppeftir til ömmu og Tryggva líka og við ákváðum að grilla og vera saman. Það er oft betra að vera saman þegar við fáum svona slæmar fréttir. Börnin léku stund saman, en svo fóru systur mínar ásamt litlu tvíburasystrunum. Bíbí kom líka heim til að læra og borðaði grill með okkur.
Ég tók nokkrar myndir af sætustu sætu stelpunum hennar Lottu systur og náði aðeins í skottið á Mánaling.
Það sést hverjar drekka Egils Kristal !
Engin er eins blíð og góð og Dimmalimmalimm .. nema Ísold og Rósa ..
Pappakassahúsið stendur enn... sést í Mána þarna í botninum!
Amma/frænka bregður á leik og ,,treður" sér inn í fína húsið og kíkir út! ..
Þetta var s.s. dagur bæði gleði og sorgar. Mikil orka fer í bæði og kominn tími á svefn hjá bréfritara ..ætla að hafa Önnu Kristínu frænku mína í bænum mínum og Evu mína tilfinningaheitu, blíðu og góðu stelpuna mína sem er með sorgina í hjarta.
Sunnudagur, 18. maí 2008
Barnaland - vefur fyrir íslenska foreldra ????...
Þegar farið er inn á síðuna www.mbl.is og bendillinn settur yfir Barnaland er undirrammi þar sem stendur ,,vefur fyrir íslenska foreldra" .. Æi, ég veit þetta er röfl, en afhverju þarf að standa þarna íslenska ? Ég hugsa að þessu verði nú breytt þegar á þetta er bent. Held að útlenskir foreldrar megi örugglega setja þarna inn myndir af sínum börnum, þetta er eflaust einhver klaufaskapur, eða finnst ykkur þetta alveg normal ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 18. maí 2008
17. maí - í gær ...
Afi minn, Björn Magnússon, hefði átt afmæli í gær, 17. maí og eins og amma sagði alltaf, þá var alltaf flaggað fyrir honum þann dag, a.m.k. í Noregi, en eins og menn og konur vita er það einnig þjóðhátíðardagur Norðmanna. Afi fæddist árið 1904 og lést 4. febrúar 1997 eða fyrir ellefu árum og þá saddur lífdaga, eins og þar stendur. Afi minn bar marga fína titla, en fyrir mér var hann alltaf bara "afi."
Ég skrifaði, á sínum tíma, minningargrein um afa minn og ég fann hana nú í minningagreinasafni Mbl.is og langar að láta hana fylgja hér fyrir, börnin mín, vini og ættingja sem vilja rifja það upp og aðra sem vilja kynnast bakgrunni mínum. Nú eru rúm ellefu ár síðan hann dó en nú er ég að líma saman grein um föðurbróður minn og kennara Björn Björnsson, sem er nýlega látinn og verður jarðsunginn í Dómkirkjunni á fimmtudaginn.
--------
Hér kemur greinin um afa:
Þegar nákominn ættingi eða vinur fer frá okkur á vit almættisins, koma upp í hugann myndir af öllum þeim góðu stundum sem við höfum fengið að verja með viðkomandi. Mig langar í þessari ræðu minni að bregða upp nokkrum af þeim myndum sem mér eru kærastar og eftirminnilegastar í minningunni um afa minn, Björn Magnússon, sem nú er kominn, eftir langt og strangt ævikvöld, yfir móðuna miklu til ömmu Charlottu, sem ég minnist um leið.
Fyrsta og jafnframt fallegasta myndin er auðvitað myndin af þeim sjálfum. Afi svo hár og virðulegur og amma svo falleg og brosmild. Þeirra samband einkenndist af gagnkvæmri virðingu, starfsorku og ánægju yfir lífinu og tilverunni. Það var því mikil eftirsjá að ömmu, þegar hún lést fyrir aldur fram vegna veikinda, fyrir afa og okkur öll þar sem þau voru svo einstaklega samrýnd hjón.
Síðan koma upp í hugann minningar frá jólunum á Bergstaðastræti eða Bestó eins og við krakkarnir kölluðum það. Þar komum við saman, stórfjölskyldan, á jóladag, fyrst á meðan amma lifði, og síðan eftir hennar dag, hittumst við þar með afa þar til nú síðustu árin að heilsa hans leyfði það ekki lengur. Þó fjölskyldan hafi haldið þeim sið að koma saman um jólahátíðina og ánægjulegt sé að hittast svona öll saman, þá var andrúmsloftið á Bergstaðastrætinu svo hátíðlegt að enginn salur né önnur húsakynni hafa gefið slíka hátíð í hjarta sem maður fann fyrir sem barn á jólunum hjá afa og ömmu á Bestó.
Myndin af "Sumó", Lindarbrekku við Hreðavatn, mun í mínum huga og fleiri alltaf verða paradís minninga og yndislegra tíma. Þeir sem hafa verið þátttakendur í stemmningunni í Sumó vita hvað það er yndislegt og þá stemmningu bjuggu afi og amma til.Það var hápunktur tilverunnar hjá lítilli stúlku að fá að taka Norðurleiðarrútuna með ömmu og afa upp að Hreðavatni og fá að vera með þeim á þessum fallega, örugga stað. Þarna var og er enginn sími, ekkert sjónvarp, og síðast en ekki síst er það einróma álit fjölskyldunnar að þar sé besta vatn og besti silungur í heimi.Afi var ekki að bera tilfinningar sínar á torg, en væntumþykjuna fann maður í gegnum verkin hans og samveruna við hann, sérstaklega í "Sumó", eins og þegar við fengum að fara með honum að vitja um netið, sækja mjólkurbrúsann út á veg eða rölta með honum út í "skóg" þar sem hann var að grisja og tína sprek. Þá sagði hann mér sögur frá því hann var ungur af honum og Jóhönnu systur sinni, sem hann vissi að mér þætti gaman að því ég var skírð eftir henni, en hún hafði látist ung að árum.
Afi var ákaflega verklaginn og naut ég þess oft að fylgjast með honum dytta að, smíða, mála eða bara kveikja upp í kamínunni. Amma var meira á ljúfu nótunum, alltaf reiðubúin með opinn faðminn, og tilbúin að hlusta á vandamálin sem upp komu. Einnig var gaman að hlusta á frásagnir frá barnæsku hennar í Stykkishólmi eða fylgjast með þegar hún var að bjóða fuglunum góðan daginn eða heilsa upp á álfana úti í hrauni, en tilvist þeirra þótti henni alveg jafn sjálfsögð og okkar og kenndi mér um leið að bara virðingu fyrir náttúrunni.Það sem mér er minnisstæðast frá dvölinni með afa og ömmu í "Sumó", er þegar þau í sameiningu saumuðu fyrir mig tuskustrákinn sem nefndur var "Labbi", úr íþróttagalla af föður mínum frá því hann var drengur. Ég var alveg afskaplega hrifin af þessari brúðu sem var ekki mikið minni en ég sjálf og ekki höfðu þau hjónin minni ánægju af að búa hana til og samglöddust mér yfir þessu öllu, sem var táknrænt fyrir þau og samskipti þeirra við barnabörnin.
Ég get ekki hrósað mér af miklum samskiptum við afa nú síðustu árin og reyndar held ég að hann hafi verið stunginn af til ömmu í huganum fyrir allnokkru.En elsku afi og langafi barnanna minna, þakka þér fyrir allt og allt og skilaðu kveðju okkar allra þegar þú kemur á eilífðarströndina til ömmu sem var þér svo kær og svo sárt að missa, til frænku okkar ungrar og barnabarns þíns sem þurfti að glíma við svo erfiðan sjúkdóm í þessu lífi og síðast en ekki síst elskulegs föður míns sem tekinn var frá fjölskyldunni allt of snemma.
Guð blessi þig.Jóhanna Magnúsdóttir.
----
verð að fá að pota þessu litla hjarta hér inn, fór sjálf að vola þegar ég las þetta yfir.Verð með einhverja ,,töffarafærslu" næst ...svo ég geri ekki útaf við fólk í væmni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Laugardagur, 17. maí 2008
EINLÆGNI ...
Í okkar grimmu veröld er stundum álitið barnalegt að vera einlægur. Ég hef ákveðið að taka þá áhættu, þó stundum hafi það komið í bakið á mér.
Þegar ég var í guðfræðináminu mínu vorum við í prédikunaráfanga. Við sömdum prédikanir og fluttum fyrir prófdómara og aðra nemendur. Svo var komið að mér, moi, me, og ÉG ætlaði sko að slá í gegn og gera góða hluti. Las gríska textann í NT, fór í gamlar prédikanir Jóns Vídalíns og samdi eitthvað prestlegt ljóð inn í prédikunina. Hún varð alveg svaka heavy og það sem ég áleit að fólk vildi heyra.
Ég flutti prédikunina í kapellu Háskóla Íslands, síðan fluttum við okkur inn í stofu V sem er svona uppáhaldsstofa guðfræðideildar og aðalvígi. Veit ekki hvort það er fallið í dag. Til að gera langa sögu stutta var prédikunin mín rökkuð niður og allt sagt henni til foráttu. Ég fór í MEGA fýlu heim og ætlaði svona á einhverjum sekúndum að hætta bara í þessu ruglnámi o.s.frv...
Úff.. hvað hafði ég gert svona rangt ? ..
Stuttu síðar auglýsti sr. Auður Eir prédikunarnámskeið og ákvað ég að skella mér á það. Hún kenndi okkur svo margt, þetta að tína saman hversdagslega hluti eins og að tína ber af berjalyngi. Ekki leita langt yfir skammt og tala inn í daginn. Auðvitað tíndum við bæði safaríkustu berin úr biblíunni sem úr hinu daglega lífi og tengdum það í safaríkri sultu. Eftir námskeiðið bauð hún mér að prédika í næstu messu Kvennakirkjunnar og hef ég nú prédikað nokkrum sinnum þar síðan.
Kirkjan var full og auðvitað allir mættir, fjölskyldan mín - börnin sem eru auðvitað hörðustu dómararnir o.fl. Ég var nokkuð kvíðin því að síðasta útreið hafði ekki verið góð. Í lok prédikunar var klappað, sem er nú ekki oft gert og ég fann að ég var komin á rétta sporið. Markmið prédikunar minnar hafði verið að gleðja, byggja upp og bæta líf þeirra sem komu til að hlusta. Kona sem kom að hlusta sagði mér síðar að það sem ég hefði sagt hefði hjálpað henni alla vikuna. Önnur kona benti mér á hvað það væri sem hefði heillað hana við prédikunina, það var EINLÆGNI. Það sem ég sagði var eitthvað sem ég var virkilega að meina. Ég hafði í raun ekki kveikt á því sjálf en ég var þakklát að hún sagði mér frá því. Ég hef upp frá þessu lagt mig í líma í mínum ræðum að vera ég sjálf, þegar ég prédika fagnaðarerindið. Fagnaðarerindið er auðvitað um að gleðja, byggja upp, gefa von og bæta líf! ...
Ég hvet alla til að lifa í einlægni og heiðarleika.. við sjálfa sig og aðra.. Þessi færsla var í boði Róslínar, ungrar bloggvinkonu minnar sem gaf mér þennan óvænta innblástur í morgun..við eldri getum oft lært af þeim yngri..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Föstudagur, 16. maí 2008
Smá öpdeit á hvaðeraðgerast...
Í fyrsta lagi var ég að horfa á ruglþáttinn ,,America´s got talent" ..með David Hasselhoff, úfff... how low can you go! .. að vísu veitir ekki af smá heiladauða eftir hrikalega krefjandi og úttaugandi vinnuviku.
I dag fór einkasonurinn til Flórída að heimsækja tvíburasystur sína. Ég keyrði hann útávöll, kjamsaði og knúsaði og síðan kvöddumst við. Yndislegur strákur og alltaf uppáhaldssonur hehe..
Man ekki hvort ég var búin að monta mig nógu mikið en síðan í febrúarlok hef ég brætt af mér 7 smjörlíkisstykki. Er s.s. mjög umhverfisvæn miðað við nýjustu fréttir. Erum líka búin að þurrka rykið af hjólunum á heimilinu, fengum ,,hjólavírusinn" í Danmark! .. Að vísu er meira púl að hjóla hér en þar. Tekur 10 mín að hjóla niður Elliðárdalinn en 30 mín upp, held það sé ca. rétt mæling hjá mér - svo ég hugsa að ég haldi mig bara við að hjóla niðureftir eða þannig.
Fór í Smáralindina í dag og keypti mér sumarboli í Zöru - en þeir eru ódýrir en samt bara alveg ágætir. Verslaði síðan Ecco sandala en þeir eru DÝRIR en mjög góðir. Nú er nebbnilega kominn árstíminn til að vera berrössuð á tánum og þá er nauðsynlegt að eiga góða sandala. ..
Ég er s.s. ready for summer! Here comes the sun, dirírirí ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 15. maí 2008
Að byggja á kristilegu siðgæði ...
Í mínum huga, með mína reynslu, aldur (og fyrri störf) auk fimm ára náms í guðfræði, er hugmynd mín um kristilegt siðgæði eftirfarandi:
1) Að geta sett sig í spor náungans
2) Að þykja vænt um náunga sinn sem sig sjálfa/n
3) Að deila eignum sínum með náunganum
4) Að sýna kærleika í verki og hlusta
Varðandi fyrsta atriðið, að setja sig í spor náungans, þá er það nú bara svo að fáir berjast fyrir aðra en sig og sína nánustu. Það er ekki fyrr en þú lendir í einhverju sjálfur að þú getur skilið stöðu náunga þíns. Því er það skásta sem þú gerir í stöðunni að hlusta á hann og rembast eins og rjúpan við staurinn að skilja stöðu hans. Skilja stöðu útlendingsins/Íslendingsins konunnar/karlsins, samkynhneigðra/gagkynhneigðra, fatlaðra/ófatlaðra, trúaðra/trúlausra.. o.s.frv.
Það er auðvitað ekki á nokkurn einstakling leggjandi að lenda í ÖLLU eða skilja ALLA svo að hann skilji stöðu náunga síns. Sumir lenda í meiru en aðrir. Áföllin okkar eru reynslubanki og við getum miðlað af því sem við höfum lent í og reynt að upplýsa en aðrir geta aldrei upplifað það sem við upplifum nema lenda í því sjálfir. Ég á minn reynslubanka og þaðan hef ég geta miðlað og á t.d. auðvelt með að skilja heim þeirra sem eru einmana. því í þeirri stöðu hef ég verið þó ég sé það ekki í dag. Þar sem mér finnst sjálfri auðvelt að setja mig í spor náungans er t.d. þegar ég er að skila íbúð sem ég hef selt, þá reyni ég að þrífa hana eins og ég vildi sjálf taka á móti henni!
Atriði tvö, að þykja jafn vænt um náunga sinn og sjálfan sig er stór bón. Ég elska börnin mín alveg örugglega jafn mikið ef ekki meira en sjálfa mig og svo þá sem eru mér næstir en spurning um restina af mannfólkinu ? Ég elska að vísu lítil börn mjög mikið (jafnvel ókunnug) því þau eru svo ósjálfbjarga og því kemur upp einhver óskiljanleg væntumþykja.
Þriðja atriðið að ef þú átt tvær flíkur ættir þú að gefa aðra, það eru líka fæstir sem hugsa þannig. Ég á meira en margir en líka minna en margir af veraldlegum gæðum. Hver er sjálfum sér næstur hvað það varðar. Ef ég væri multimilli þá myndi ég auðvitað gefa og gefa eins og þeir gera margir, ... á meðan það heggur ekki of nálægt þeim sjálfum... Fátæka konan sem gefur helming eigna sinna sem er fimmhundruðkrónavirði gefur og fórnar meira en sú sem gefur helming eigna sinna sem er fimmmilljarðavirði ...
Fjórða atriðið er svo mikilvægt í kristnu siðgæði, því hversu oft sem þú biður bænir, signir þig eða ferð í kirkju, ef þú gerir aldrei neitt gott eða lætur gott af þér leiða þá getur þú varla talist sannkristin manneskja .. Við þurfum að hlusta (tvö eyru/einn munnur = hlusta meira en tala) og við þurfum að gefa tíma.
Jæja, ég er augljóslega ekki með bloggstíflu.. en það er kominn tími á hvíld...
sendi þetta litla hjarta á þig sem hefur gefið þér tíma til að lesa .. byggjum betri heim hvort sem við viljum byggja hann á kristilegu siðgæði eða einhverju öðru góðu siðgæði
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Fimmtudagur, 15. maí 2008
Bloggvinkonudraumur! ....
Mig dreymir alveg svakalega mikið. Stundum eru mörkin draums og vöku óskýr hjá mér og stundum dreymir mig nákvæmlega það sem gerist daginn eftir, ekkert táknrænt eða slíkt, ef mig dreymir að nágranni minn sé að mála með hvítri málningu þá er það allt eins líklegt að næsta dag sjái ég hann í málningargallanum með fötu af hvítri málningu, þannig er það nú. Það er víst kallað að dreyma fyrir daglátum án þess að ég fari nánar útí það í þessari færslu.
Nýlega dreymdi mig tvær bloggvinkonur - dreymdi að ég var að bjóða þeim í mat á aðfangadagskvöld. Þetta eru konur sem ég hef aldrei hitt í eigin persónu en sem eru báðar mjög sterkir karakterar, en það er nú hægt að skynja í gegnum blogg! Ég skráði drauminn niður strax morguninn eftir að mig dreymdi hann og ætla að birta hann hér. Ef einhver er draumspakur eða spök þá má hann/hún alveg leggja fram ráðningu, annars er þetta kannski eins og hvert annað rugl! Í draumnum kalla ég þessar bloggvinkonur A og B.
Draumur minn aðfararnótt 13. maí 2008
Aðstæður:
Vetur (aðfangadagskvöld) bjó í stóru gráu steinhúsi með mörgum herbergjum og tveimur hálfgerðum sólstofum, einni að framan og einni bak við hús. Fannst umhverfið vera í Þingholtunum, nálægt Bergstaðastræti eða Laufásvegi og út um bakgluggann sá ég brekku og snjó. Önnur sólstofan var með opnum glugga með engu gleri og þar hugsaði ég að ég myndi kannski leyfa að reykja. (Er algjör fanatíkus á reykingar..)
Fannst mamma og bróðir minn hafa farið og keypt jólatré. Jólatréð var vægast sagt gisið með örfáum greinum og bara í aðra áttina. Samt mjög dökkgrænt og þær greinar sem voru til staðar þéttar. Mamma var þarna en var á miðjum aldri í draumnum. Systkini mín voru þarna og jafnvel samt mágkona (gift elsta bróður). Búið var að stilla upp tveimur eða þremur borðum til að sitja á og ég var ekkert sátt við skiptinguna, vildi hafa öll borðin saman svo hópurinn myndi ekki skiptast upp. Ég lét fjölskylduna vita (eða þau vissu það) að ég væri búin að bjóða tveimur konum sem bjuggu úti á landi (ásamt fjölskyldum) að borða með okkur á aðfangadagskvöld. Bloggvinkona A og B sem ég aðeins þekki í gegnum bloggvináttu! Fjölskyldan samþykkti hljóðlaust en ég fann að þau voru ekkert í skýjunum yfir þessu uppátæki, en vön ýmsu skrítnu frá mér og mjög kurteis fjölskylda.
Við höfðum raðað pökkum í kringum jólatréð og ég hafði útbúið pakka fyrir A og B. Sérstaklega man ég eftir pakka til B, en ég skreytti hann með einhverju hvítu netskrauti. Ferkantaður pakki, mynd eða bók, ekki viss.
A og B mættu með eitthvað af börnum og maður B kom með. Mér fannst A ekki koma samferða sínum manni en allt í einu var hann kominn. Ekki eins og maðurinn var á myndunum á blogginu, heldur rauðhærður, með örlítið liðað hár og ljós yfirlitum. Hann settist aldrei við matarborðið, heldur sat á bekk til hliðar. Var frekar óþægilegur.
B var eldri í draumnum en ég ímynda mér hana eða á myndum og var ég frekar hissa. Hún var með grátt hár klippt beint rétt fyrir neðan eyrun, hálfgerð Prins Valiant klipping. A var með yngra andlit en hún er í dag, næstum stelpulegt, mjög grönn að ofan en mjaðmamikil! J .. Var í brúnum bómullarkjól með mynstri, kannski svolítið hippó. Við borðuðum öll matinn og ég leitaði að plötum til að spila því það var vandræðaleg þögn. Það voru plötur en ekki dvd diskar og mér fannst líka vera þarna gamall grammófónn. Ég leitaði sérstaklega að plötu með bláu umslagi og fannst vera orgeltónlist þar í, en man ekki hvort ég fann hana. Ekki voru opnaðar gjafir í boðinu, en gestirnir höfðu ákveðið að opna sínar gjafir heima og tóku því engar með. Við ákváðum að opna okkar eftir að gestirnir færu.
Eitthvað var rætt að fara á skauta, því við horfðum á fullt af ungu fólki vera á skautum útum gluggann. Það óvenjulega var að það renndi sér niður brekku á skautunum, eiginlega eins og á skíðum.
B (og jafnvel einhverjir fleiri) fóru að reykja á meðan ég hafði skroppið frá og hafði einhver boðið henni að reykja út um glerlausa gluggann í sólstofunni. Ég var fegin því.
Draumurinn stöðvaðist við vekjaraklukkuna og furðaði ég mig á þessum draumi nú væri bloggheimur bara mættur inn í minn draumaheim! J
Tjah... svona getur nú margt verið að gerast á næturnar þegar maður/kona á að hvílast! ..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 13. maí 2008
Komin heim í ,,heiðardalinn"
Nú erum við komin heim frá Kaupmannahöfninni eftir allt of stutta en yndislega dvöl í Kaupmannahöfn. Veðrið brosti við okkur allan tímann og yndislegt að fá að njóta þess með fjölskyldunni. Fermingin og veislan á eftir tókst vel. Vissulega var athöfnin svolítið löng og þung en um leið virðuleg og fermingardrengurinn sáttur sem er aðalmálið! ..
Fermt var í Skt. Paulskirkju og gaman að sjá aðrar kirkjur en þessar gömlu góðu íslensku. Annars eru einmitt gamlar kirkjur í uppáhaldi hjá mér, frekar en þessir ,,sundlaugarbotnar" sem hafa verið hannaðir sumsstaðar.
Við vorum nítján manns, konur, karlar og börn sem tókum leigubíla frá Amager inn í einn elsta hluta Kaupmannahafnar að Skt. Paulskirkjunni sem ég nefndi áður. Tryggvi yngri var einn af þeim sem naut messunnar í botn, en hann sofnaði ca. 5 mínútum eftir að hún byrjaði og svaf allan tímann. Hann var að vísu ekki sá eini sem fékk sér dúr án þess að ég nefni nöfn. Set hér nokkrar myndir í gamni.
Dyrnar á Skt. Paulskirke
Gestirnir prúðbúnir í sólinni, Tryggvarnir og Jógan
Fjölskylda mín þarna á bekkjunum ..
Már og Ísold á kirkjustéttinni
Fermingardrengurinn Ingvi kominn heim í garðveisluna.
Binni bróðir, faðir fermingarbarnsins grillar gómsætar kjúklingabringur að hætti Sigga Hall, þær voru framreiddar m/grilluðu zukkini, salati, nachos, engifersósu, brauði o.fl. Áður hafði hann grillað hamborgara fyrir yngstu kynslóðina. Eftirréttir voru frönsk súkkulaðikaka, kransakaka og niðurskornir ávextir, ananas og jarðarber "slurp"..
Rósa að rabba við ömmu Völu og Ísold slakar á á meðan.
Setið að snæðingi útí garði ..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)