Hugrenningatengsl við gömul skrif..

Þegar ég sá þessa frétt datt mér í hug grein sem ég skrifaði og birtist í Morgunblaðinu 6. júní 2002 - en þar ber ég saman hollustu líkamlegrar og andlegrar fæðu. Það var í raun ekki ástæðan fyrir skrifum mínum, að tala um mat, heldur var greinin hvatning til að leita sér andlegrar fæðu. Ég var sjálf í guðfræðinámi á þessum tíma og var að hvetja fólk til að kynna sér námið.

Hér kemur greinin óbreytt:


Verðum við einhvern tíma stór?

HINN 17. mars sl. var ég að fræða börnin í Víðistaðakirkju um veganesti út í lífið. Ég notaði samlíkingu við það sem þau þekkja og þau skildu vel muninn á sælgæti og gosi annars vegar og brauði með osti og mjólkurglasi hins vegar. Á sama hátt útskýrði ég fyrir þeim hvernig þau þyrftu að velja "andlega fæðu" forðast t.d. ofbeldismyndir í sjónvarpi og vídeói þar sem slíkt getur haft skaðleg áhrif á börn (og fullorðna líka, ef því er að skipta) en velja heldur það sem gerir þeim gott og byggir þau upp. Í þessu tilfelli var ég að sýna þeim fram á "næringargildi" bænarinnar, söngsins og samverunnar í kirkjunni. Herdís Egilsdóttir, kennari með meiru, hafði notað þessa samlíkingu varðandi námið hjá nemendum sínum og greip ég hugmyndina fegins hendi.

Ég var sjálfboðaliði á námskynningu um andlega fæðu í guðfræðideild Háskóla Íslands, en þar er ég nemandi. Það vildi svo skemmtilega til að þessi kynning var sama dag og ég var að fræða börnin í kirkjunni um hollt veganesti. Á námskynninguna kom fólk sem er að klára stúdentspróf og einnig þau sem langar að bæta við sig, sum eftir langa fjarveru frá akademísku námi. Ég segi akademísku, því alltaf erum við stödd í þessum margumrædda skóla lífsins.

Það er mat flestra næringarfræðinga að hollast sé að fá fæðu úr sem flestum fæðuflokkum. Það er reynsla mín að nám í guðfræðideild bjóði upp fjölbreyttan fróðleik úr ólíkum áttum, m.a. : siðfræði, heimspeki, trúfræði, trúarbragðafræði, uppeldisfræði, sögu, félagsfræði, söng, sálfræði, tungumál, bókmenntir, mannfræði, kvennafræði o.fl. o.fl.

Í raun eigum við öll erindi í guðfræði! Samsetning nemendahópsins er nám út af fyrir sig. En allt erum við leitandi fólk, fólk sem hungrar í fróðleik. Sum okkar hafa lesið Biblíuna, önnur aldrei opnað hana. Það er afskaplega gefandi að vera í námi hvert með öðru, karlar og konur, ungir og aldnir, trúuð og vantrúuð og allt þar á milli. Því við miðlum hvert öðru, m.a. eftir reynslu okkar, aldri og kyni.

Það er gott að vera í guðfræðideild. Þar er tekið vel á móti þér þegar þú hefur nám í deildinni - með kaffi, brauði og kökum. Þar mæta kennarar, skrifstofustjóri og nemendur saman. Deildin hefur einnig kaffistofu þar sem við skiptumst á skoðunum og Félag guðfræðinema býður upp á blómlegt félagslíf. Þá er bara þitt að taka þátt.

Starf að loknu námi

Þú getur viljað starfa innan kirkjunnar, við fjölmiðla, kennslu, fræðimennsku, bókmenntarýni, ráðgjöf, liðveislu, starfsmannahald og í raun er menntun í guðfræðideild góð undirstöðumenntun eða hlekkur í menntun fyrir svo margt.

"Hvað á ég að verða þegar ég er orðin/n stór" er stór spurning, og undirliggjandi er alltaf önnur spurning: "Hver er ég núna?" Erum við ekki alltaf að leita að sjálfsmyndinni? Verðum við einhvern tíma stór? Í Biblíunni stendur að við séum sköpuð í Guðs mynd, hver er Guð? Enn er stórt spurt, en hver veit nema þú getir nálgast svarið í námi við guðfræðideild Háskóla Íslands?

.. Jamm og já og þarna lauk greininni. Ég kláraði s.s. embættispróf í guðfræði, með starfsþjálfun og alles ,,á gamals aldri" eignaðist yndislegar vinkonur og vini. Fór í frábæra kúrsa þar sem ég fór svolítið að fatta sjálfa mig og tilveruna. Ekki hef ég tekið vígslu sem prestur, þó ég hafi tilskylda menntun,  en kannski verð ég það þegar ég er orðin stór!

Veit ekki hvort einhver nenni að lesa þennan helling :) ..  eigið góðan dag!


mbl.is Skyndibiti með barnaefninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vælt með Valdísi og Jónu Ágústu.

Sat í sakleysi mínu við morgunverðarborðið í morgun að borða sparimorgunverð sem inniheldur tvær ristaðar brauðsneiðar með 11% osti og sultu án viðbætts sykur. Auk þess nýpressaðan djús úr nýja djúsaranum sem er nýjasta tækið í tækjasafni mínu. (Betri helmingurinn álítur mig með tækjadellu).  Hafragrautur eftir uppskrift Ágústu Johnson aðra morgna.

Ég hafði kveikt á útvarpinu, því ég vissi að Valdís ætlaði að vera með Jónu Ágústu í viðtali. Valdís fór fljótlega að slá á viðkvæma strengi og í gegnum blaðrið í Tryggvunum tveimur og hávaðann í expressóvélinni heyrði ég um æsku Jónu Ágústu, þegar hún missti foreldra sína og bræður ung að aldri. Valdís las síðan upp sterka bloggfærslu Jónu sem tengdist þessum atburðum.

Ég sat eins og negld og tárin fóru að flæða, en svo heyrði ég á Valdísi að þær voru sjálfar farnar að ,,væla" eins og hún orðaði það. Ég býst við að flestum hafi a.m.k. vöknað um augu sem á hlýddu.

Á þessum árum þekktust ekki orð eins og áfallahjálp eða eftirfylgd og ósjálfrátt rifnaði upp plásturinn af mínu sári þegar pabbi dó og þögnin eftir dauða hans. Hér er minnst á það.

Viðtalið var gott og einlægt. Jóna er manneskja með einstaklega jákvætt viðhorf til lífsins, augljóslega ekki bitur og föst í reiði og tilbúin til að skoða allar hliðar mála.´

Ég hlakka til að lesa bókina hennar, sem hún gefur út fyrir jól - og held ég þurfi ekki að hafa spákonuhæfileika til að spá henni metsölu.


Þrjú sæt að fara að keppa í Söngkeppni framhaldsskólanna ..

Þrír nemendur Hraðbrautar eru að fara að keppa í söngkeppninni sem stendur nú yfir í beinni ... Ég, ,,ungamamman", er svolítið stressuð .. því ég veit að þau eru svaka stressuð! úff... Æ - vona að þeim gangi vel.

Rabbi, Haffi og Heiða ..
21.48 .. þau búin að koma fram, komust vel frá sínu ...hjúkkit!

Græðgin og sóðaskapur getur orðið manni að falli!

 Vona að þessir sælgætisþjófar hafi verið sektaðir fyrir ,,littering" þ.e.a.s. að henda rusli á almannafæri! Svakalega get ég orðið pirruð á fólki sem hendir rusli, flöskum, sígarettustubbum og tyggjói útum allt.

Ég bloggaði nú einu sinni um þegar við dóttir mín lentum í brjálaða gaurnum sem hún benti vinsamlegast á að hann hefði ,,misst" flösku sem hann henti út um bílgluggann. Hún átti fótum sínum fjör að launa - svo reiður varð gaurinn!  Hann hafði augljóslega hent vitinu út um bílgluggann með flöskunni.

Í síðustu viku rölti ég út í hádeginu eins og yfirleitt í vinnunni, ég þurfti að ganga á milli bíla á bílastæðinu fyrir framan verslun og ,,vúsh" hálfreykt sígaretta kom fljúgandi að mér. Kona á besta aldri sat inní bílnum og varð eins og humar í framan og sagði "afsakið", en ég og minn stóri munnur gat ekki alveg þagað og spurði, að vísu mjög kurteislega, hvort henni þætti þetta smart, að henda svona út um gluggann. Svarið var: ,,ég þurfti að losna við sígarettuna" .. hmm...eru bílar þá ekki framleiddir með öskubökkum lengur ? .. Gott hún þurfti ekki að losna við fleira! Tounge ..

Hvað um það, það þyrfti nú að fara að sekta fyrir þennan sóðaskap, það virðist vera það eina sem fólk skilur - og bannað að fara í söfnun ef Hannes kastar einhverju á götuna og fær  sekt! .. Hananú and lovejú!


mbl.is Lögreglan rakti slóð sælgætisþjófanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þú ert ................................

...gjöf Grin - já, já, þú! .. Farðu vel með þig í dag vegna þess að þú ert gjöf, gjöf Guðs til þín - og það er þitt, nr. 1,2 og 3 að fara vel með þessa gjöf ... ekki síst til að geta gefið áfram af þér. (Súrefnisgríman fyrst á þig svo á barnið).

Heart Megi þessi dagur verða þér góður dagur og lærdómsríkur Heart

 

...(p.s. þetta var örpredikun)

 


Lyf eru góð til síns brúks ... EN...

Þegar ég var að vinna við ummönnun á Eir tók ég eftir því lyfjamagni sem dælt var í gamla fólkið. Mjög mikið af þeim lyfjum voru einhvers konar ,,gleðipillur" ..

Ég hugsaði mikið um þessa ,,lausn" og veit að sumir virkilega þurfa á þessu að halda. Ég held samt að við gætum sparað í lyfjakostnaði með að hækka laun starfsfólksins og fá meira af ,,peppandi" fagfólki til að starfa á elliheimilum.

Því miður kann ég ekki á gítar (þó ég hafi reynt að læra).. en fann söngtexta ofan í skúffu. Safnaði fólkinu saman og við tókum okkur söngstundir. Allir á deildinni að undanskildum einum tóku þátt í þessum söng, hver með sínu nefi. Í framhaldinu var talað um forna frægð í kórum o.s.frv.. Þessar söngstundir voru auðvitað ekkert á dagskrá þessarar deildar skv. yfirskipulagi, en bara vegna sjálfstæðs vilja undirritaðrar voru þær settar á! ..

Það var gaman að vinna þarna, fátt er eins gefandi eins og að þiggja þakklæti gamals manns eða konu og dásamlegt ef hægt væri að lifa á þakklætinu einu samn en ég varð að hætta vegna þess að ég gat ekki lifað af 111 þúsundum á mánuði (háskólamenntuð kona)  þá einstæð með tvo unglinga að sjá fyrir.

Auðvitað er margt gert í þessum dúr inni á öldrunarheimilum en ekki næstum, næstum nóg. Viðtöl, upplestur á sögum, gönguferðir o.fl. væri eitthvað sem mætti gera enn meira af. Sérstaklega fyrir þau sem eru fótafær og svona ,,semihress".. 

Meira fjör og minni pillur er minn boðskapur! .. Líka fyrir okkur yngri..


mbl.is Lyfjakostnaður jókst um 5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1000 krónu afsláttur af Brasilíuvaxi á núinu! .. Jibbí eða þannig /&%$$(()))(&$%#"

Ég fæ alltaf póst frá Núinu og í morgun fékk ég ,,glaðning" .. 1000 krónur afslátt af Brasilíuvaxi. Vandamálið er að það þyrfti að borga mér mun meira en 1000 krónur til að fara í Brasilíuvax! Crying 

Er komin í pyntingabúðir, nú þegar, í Hreyfingu og það er nú ekki á það bætandi! Ef einhver þarna úti vill fá þetta "gjafabréf" upp á afslátt þá sendið mér netfangið ykkar og ég áframsendi það á viðkomandi.


Biggest Looser hvað ?

Ók í blíðskaparveðri niður í Álfheima, í gærkvöldi, þurfti aðeins að hringsóla þar sem engin voru bílastæðin og ekki leggur konan á gangstétt eftir að hafa úthrópað aðra fyrir að gera það. Fékk þó stæði eftir að ég fór að hugsa jákvætt um að eitthvað myndi losna. Gekk með íþróttatöskuna og hnút í maganum inn í hina nýju Hreyfingu. Þar var mér vísað áfram niður í völundarhús búningsklefanna. Þegar kom að því að loka skápnum, sem er gert með tölvubúnaði, byrjaði heilinn að brenna kaloríum, vissi ekki að ég væri að fara í heilaleikfimi líka. Shocking Það róaði mig að þarna voru fleiri konur sem voru að reyna láta líta út að þær kynnu á þetta lásasystem. Að lokum fékk ég góða hjálp og klikk - fötin læst inni í skáp 119. Man þetta númer ennþá því ég var svo hrædd við að gleyma númerinu! Líka endirinn á kennitölu sonarins.

Þessar konur sem ég hitti þarna voru að fara á sama átakanámskeiðið og ég, allt konur sem vildu missa 3-5 kíló og ekki gramm meir!

Settumst allar, fjörutíu talsins, inn í ískaldan sal þar sem beitt var frystimeðferð eða þannig. Við sátum og fengum fyrirlestur um að henda t.d. öllu óhollu úr ísskápnum. Ég hugsaði til Tryggva míns sem lifir á lúxusostum og parmaskinku, auk bjórsins og hristi höfuðið í huganum, en jánkaði svona líkamlega og brosti. (Úfff ..fyrsti óheiðarleikinn).

Eftir ískaldan fyrirlestur, var okkur smalað upp í hjólaherbergi og þar hófst pyntingin fyrir alvöru. Spinning - ó mæ god hvað afturendinn á mér var aumur eftir þessa svakalegu hjólatúra. Gelhnakkur er kominn efst á minn innkaupalista, ofar  möndlunum og hörfræunum sem við eigum að borða! Skylda að brenna í 300 mínútur á viku og borða ekki meira en 1600 kalóríur á dag.. 

Fengum tösku, brúsa, nuddtíma o.fl. í sárabætur fyrir misþyrminguna á hjólunum. Sumum fannst ekkert vont að sitja á hjólahnakki, ég virðist vera svona soldill aumingi.. eða kannski ,,The Biggest Looser" .. það kemur í ljós 5. maí þegar námskeiði lýkur... Fer aftur í kvöld ..

Gamanaðessu! Grin


Augljóslega ekki alltaf auðveldara að vera með typpi, þó hægt sé að pissa standandi!

Ég tók einu sinni niður þessa punkta úr kennslubók í félagsfræði 103 sem kennd er í mörgum framhaldsskólum: ,,Einstaklingur og samfélag" .. um gjald karlmennskunnar. Það sem er skáletrað hef ég bætt við.

Nokkrar fullyrðingar úr félagsfræðibókinni:  

Algengara er að karlmenn misnoti áfengi og aðra vímugjafa.

Uppeldisstofnanir eru sniðnar að þörfum kvenna.

Skilnaðir raska meira umhverfi karla en kvenna. (Algengara að karlinn flytji út).

Tíðari gestir í fangelsum og stofnunum (95% af þeim sem eru í fangelsi á Íslandi eru karlmenn).

Sjálfsvíg og ótímabær dauðdagi eru algengari hjá körlum.

Karlar látast frekar af slysförum.

Karlar búa við meiri einangrun.

Þeir virðast síður eiga trúnaðarvin en konur.

Karlar eru verr búnir tilfinningalega undir skilnað en konur.

Konur fá oftar forsjá yfir börnum - og jafnvel núna þegar sameiginleg forsjá er algengust, eru börnin með lögheimili hjá móður og því fær hún allar skattaívilnanir, meðlag o.fl. Jafnvel þó að börnin séu jafn mikið hjá báðum foreldrum.

Karlar leita sjaldan aðstoðar.

Of miklar hetjufyrirmyndir eru til fyrir karla - sem þeir geta ekki náð að líkjast.

 Allt of algengt er að ungir menn um tvítugt (yngri og eldri) séu óhamingjusamir, þunglyndir - sjá ekki alveg tilgang í neinu.... af hverju er það ? ..

Veruleikaflótti er mjög algengur hjá strákum - en hann felst í því að þeir ,,hverfa" inn í heim tölvuleikja, þar sem þeir leika stærra og merkilegra hlutverk en þeir gera í raunveruleikanum.

Hvers vegna er raunveruleikinn þeim svona erfiður ? .. Hvað erum við að gera rangt ?

 


Ég er Painter Smurf... Ég er original..

Ég tók strumpaprófið sem nú geysar hér á blogginu .. og kom út PAINTER SMURF .. sem passar að vísu ágætlega sko!

 Painter_Smurf

 

Hvaða strumpur ert þú ?  Taktu prófið !


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband