Laugardagur, 10. janúar 2009
Surprise! ... afmæli fyrir Önnu "frænku"
Anna Agnarsdóttir, mágkona mín varð 60 ára í gær, 9.janúar. Anna hafði ráðgert að fara út að borða með dætrum sínum, tengdasyni og barnabörnum á Bantai, en dæturnar höfðu samband við restina af nánustu fjölskyldu og buðu okkur að taka þátt í að koma Önnu á óvart. Við mættum því um tuttugu manns hálftíma fyrr og tókum á móti Önnu með afmælissöng henni að óvörum og, sem betur fer, til mikillar gleði! Hér á heimilinu er hún yfirleitt kölluð Anna frænka, enda mikil uppáhaldsfrænka Tryggvabarna.
Mér þótti upplagt að fikta aðeins í textanum við Önnu í Hlíð, þar sem hún Anna býr í Blönduhlið. Allt sem fram kemur í textanum á vel við hana, en Anna er einstaklega góð, falleg og elskuleg kona og við sungum hátt og snjallt við undirleik Páls mágs hennar eftirfarandi:
(lag Anna í Hlíð)
Við saman höfum safnast hér
að gleðjast Önnu með
skvísan orðin sextug, það varla nokkur sér,
Því ungleg er sem blómarós
með brosið bjart og hlýtt
og henni nú til heiðurs, við syngjum:
Anna er blíð"
Anna er blíð, Anna er blíð,
með augun brún, svo yndisfríð
svo elskuleg er alla tíð.
Anna er blíð, Anna er blíð,
nei, engin er eins fríð
og hún Anna í Blönduhlíð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Föstudagur, 9. janúar 2009
Ég er fullt tungl...
Um þessar mundir er síðuritari fullt tungl. Vonandi stækkar það a.m.k. ekki meira og verður ekki fullt mikið lengur. Þessi stækkun hefur átt sér stað frá því að síðaritari jafnaði sig eftir hálskirtlatöku og náði stækkunin miklum hraða yfir jólamánuðina og nú er komið stopp. Þá er s.s. komið að því að minnka aftur (mikið er ég týpísk ef ég byrja aftur í ræktinni í janúar en skárra en að byrja ekki).
"Tunglið" þarf s.s. að fara að minnka aftur, hætta að vera svona påtagende og blive aftagende!
.. verst hvað tunglinu finnst gott að borða!
Vinsamlegast hvetjið "tunglið" til að fara að hreyfa sig á ný!!! ... ..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 6. janúar 2009
Barn í Paradís - óður til afa og ömmu
Mikið er ég sæl að eiga fallegar æskuminningar. Einar fallegustu minningarnar eru úr Lindarbrekkunni, þá verandi bústaðnum þeirra afa og ömmu og nú verandi bústað stórfjölskyldunnar þar sem afi og amma eru fallin frá.
Amma mín stendur mér alltaf fyrir hugskotssjónum sem brosandi og falleg kona. Hún elskaði sólina og varð fallega brún á sumrin. Amma og afi tóku mig stundum með sér í Norðurleiðarrútunni sem setti okkur af við Hreðavatn. Þar gengum við inn Grábrókarhraunið eftir veginum. Fyrst gamla veginum sem lagður var mosa og svo "nýja" veginum sem ruddur var til að hægt væri að aka að ánni. Við gengum með pinkla og pjönkur og stundum pappakassa með snæri. Við vorum öll í betri fötunum; ferðafötunum, en þegar komið var í bústaðinn fór ég í hversdagsföt og amma í rósóttan slopp, sem eflaust má kalla Hagkaupsslopp, hvíta sandala með fylltum hæl. Einhvern veginn finnst mér samt alltaf að amma hafi ekki tekið af sér perlurnar né fallega gullúrið. Hún var alltaf svo falleg og glæsileg sama hverju hún klæddist.
Amma og afi undu sér þarna yfir sumartímann. Afi var þúsund þjala smiður, dyttaði að bústaðnum, hjó við í eldinn, vitjaði um silunginn, hamraði á ritvélina sína. Hann var alltaf að, nema þegar hann lagði sig eftir matinn!
Ég fékk að fara með honum að vitja um, og við giskuðum á fyrirfram hvað kæmu margir fiskar í netið. Yfirleitt voru þeir nú bara tveir til fimm eða eitthvað svoleiðis en það var meira en nóg fyrir okkur. Silungur var borðaður á hverjum degi, a.m.k. í minningunni, og mér þótti hann alltaf góður. Afi beinhreinsaði alltaf fyrir mig, en það var ákveðin stund í að verða fullorðin að þurfa að fara beinhreinsa sjálf! Sporðurinn var í uppáhaldi.
Stundum kom amma með útá bát, þá kallaðist hún á við himbrimann, sem kallaði á móti. Ég hlustaði dolfallin á, sitjandi í mínu björgunarvesti úr frauðplasti í gulum og grænum lit. Þessi vesti eru nú orðin börn síns tíma, þó ennþá séu þau til og orðin músétin á köflum.
Á sólríkum dögum, en það var mjög oft gott veður í gamla daga. Settumst við amma og stundum afi, niðrí "laut" með teppi og stundum tókum við útvarpið með okkur og hlustuðum á útvarpssöguna. Man sérstaklega eftir Kapítólu. Stundum sat ég bara og hlustaði á afa og ömmu mala, eða þegar við amma vorum tvær sagði hún mér sögur úr Hólminum. En amma ólst þar upp. Ég elskaði þessar stundir og ég var barn í Paradís.
Tilveran var ekki flókin í Sumó. Ég lék mér í búinu og eldaði dýrindis drullukökur og skreytti með sóleyjum og fíflum og bauð ömmu í kaffi. Stundum voru systkini mín eða frændsystkini líka á staðnum og þá var fjör.
Í sumó var handsnúinn grammófónn, og skemmtilegar plötur. Á 17. júní og á fögrum sumarkvöldum var farið með fóninn út á pall og við dönsuðum af lífs og sálar kröftum. Kannski er ég svona hrifin af gömlum lögum þess vegna.
Mér þótti gaman að leika mér við önnur börn, fara í ævintýraferðir alla leið á fimmta fjall, renna niður skriður og uppgötva ætíð nýja og nýja staði í birkiskóginum. Bjarga sílum úr ánni sem var að þorna upp og færa þau yfir í vatnið. Stundum dóu einhver og við jörðuðum sílin með athöfn.
Þegar ég var ein, þá fór ég í ímyndunarleiki, þóttist vera skógarbarn og gekk berfætt heilu dagana. Óvinirnir voru beljurnar, sem ég var dauðhrædd við,
Lindarbrekka heitir eftir fallegri lind sem rennur í brekkunni og við sóttum þarna vatnið í fötum lengi, lengi, þar til lindin var loksins "virkjuð" og rennandi vatn fékkst í bústaðinn. Við þessa lind gerði afi líka að silungnum og við krakkarnir, stóreygð, fylgdumst með öruggu handbragði hans. Það var sérstakur fiskihnífur og sérstakur hvítur pottur sem fiskurinn var settur í þegar búið var að gera að. Amma sá síðan um matreiðsluna.
Ég elti afa minn í fleiri verkefni, út á veg að skila tóma mjólkurbrúsanum og sækja þann fulla og kannski smá Borgarnesskyr (sem var besta skyr í heimi - með krækiberjum) og útí skóg að sækja við í eldinn. Einu sinni þegar við vorum að ganga upp brekkuna sagði afi mér að hann hefði kallað systur sína, sem ég er skírð í höfuðið á og er alnafna, Jógu þegar hann vildi stríða henni. En þá hafði ég verið að segja honum að sumir kölluðu mig Jógu. Mér þótti það samt aldrei ástæða til að líka ekki við Jógugælunfnið og hef haldið því.
Einu sinni höfðu afi og amma áhyggjur af því að ég hefði ekkert dót til að leika mér að. Þau tóku sig saman og saumuðu handa mér dúkku í minni stærð, ég hef eflaust verið 5-6 ára gömul. Dúkkan var samsett úr gömlum íþróttagalla af föður mínum frá því hann var strákur, andlitið, hendur og fætur úr ljósu lérefti. Síðan var bróderaður munnur, nef og augu með aftursting. Þessi brúða fékk nafnið Labbi og var félagi minn í mörg ár. Hann fór einhvern tímann í "andlitslyftingu" þegar mamma þurfti að sauma á hanna nýtt höfuð, þegar hið upprunalega var farið að slitna.
Ilmurinn í birkiskóginum í Lindarbrekku, sem blandaðist við reykinn úr skorsteininum er sætasti og besti ilmur sem ég get hugsað mér. Vatnið er besta vatnið, silungurinn besti silungurinn, brauðið sem amma bakaði í kolaofninum var besta brauðið. Soðna vatnið með mjólk og sykri besti kvölddrykkurinn. Amma mín og afi voru yndisleg amma og afi og bý ég að því alla ævi að hafa fengið að dvelja stund og stund undir þeirra verndarvæng, svo skrítin og svolítið einræn sem ég var sem barn.
Það er gott að skrifa svona minningar, sérstaklega fyrir mig sjálfa, en líka börnin mín, ættmenni og aðra sem þekkja til, eða þekkja ekki til njóta vonandi líka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Mánudagur, 5. janúar 2009
La Vita e Bella - Lífið er fallegt .. (Áhyggjur barna af fjármálum)
Þeir sem hafa séð kvikmyndina "La Vita e Bella" muna eflaust eftir pabbanum sem gerði fangavistina að leik svo sonur hans vissi aldrei að hann væri í fangelsi. Auðvitað var þetta mjög ýkt og myndi eflaust aldrei ganga upp, en boðskapur myndarinnar var fallegur. Pabbinn lagði sig allan í það að gera bernsku sonarins eins bærilega og hægt var miðað við aðstæður.
(Ef þið hafið ekki séð myndina mæli ég með henni, að vísu er þetta 5 vasaklúta mynd af 5 mögulegum)!
Ástandið í dag kallar okkur til að við verndum börn okkar fyrir áhyggjum okkar, sem eru fullorðinsáhyggjur. Við komumst aldrei hjá því að ræða við þau um ástandið, en þá um leið að láta þau vita að þau þurfi engar áhyggjur að hafa, þær tökum við að okkur fyrir þeirra hönd. Sumar áhyggjur eru bara merktar með rauðu (eins og á sjónvarpsskjánum) og eru bara alls ekki við barna hæfi. Við eigum að veita börnum eins áhyggjulausa æsku eins og er í okkar vald sett.
Tekið af www.persona.is
Börn hafa áhyggjur af fjármálum
Í Bandaríkjunum hafa sérfræðingar tekið eftir því að eftir því sem efnahagur versnar og fjármál heimilanna verða erfiðari eru það ekki bara þeir fullorðnu sem hafa áhyggjur heldur hafa áhyggjur barna af sömu hlutum aukist.
"Börnin hafa áhyggjur af því hvort foreldrar þeirra geti keypt í matinn eða þau hafa áhyggjur af því að þurfa að flytja inn til annarra fjölskyldumeðlima vegna þess að foreldrar þeirra geti ekki greitt af húsnæðislánum.
Afleiðingarnar eru þær að börnin fá kvíðaeinkenni eins og magaverk og svefntruflanir. Kennarar segja að það sé erfitt fyrir börnin að einbeita sér í skólanum þegar hugur þeirra sé annarsstaðar og þau hafi áhyggjur af því hvort þau þurfi að flytja, hvort rafmagnið verði tekið af eða hvort einhver geti sótt þau í skólann ef það er ekki til peningur fyrir bensíni. Oft eru þetta börn sem þangað til fyrir skömmu hafa haft allt til alls.
George Schulz, sálfræðingur sem hefur verið við störf í 25 ár, segir að þeir efnahagsörðugleikar sem fólk glímir við í dag séu að vissu leyti ólíkir þeim sem áður hafi gengið yfir. Nú sé fólk oft í verulegri hættu á að missa heimili sín og það auki óöryggið mjög mikið. Hann segir einnig að foreldrar ræði fjármál sín of mikið við börn í dag. Ekki sé hægt að ætlast til þess að börnunum að þau verði þátttakendur í skipulagningu fjármála heimilisins. Það valdi þeim einungis ónauðsynlegum kvíða að vita of mikið."
Orlandosentinel.com
ESB
Börn eru blessun og okkar að hjálpa þeim að halda sakleysi sínu eins lengi og unnt er, nógu fljótt fá þau víst að kenna á henni veröld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Sunnudagur, 4. janúar 2009
Don Hrannar með fingur á púlsinum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Sunnudagur, 4. janúar 2009
Glæsikonur með handklæðahettur ..
Hulda stóra systir og Addý mágkona áttu afmæli í gær, 3. janúar. Ég hefði getað verið með glæsilega mynd af þeim hér á blogginu, en gleymdi myndavélinni þar sem ég mætti í afmæliskaffi sem Addý mágkona hélt fyrr í kvöld, en þær halda afmæli til skiptis annað hvert ár.
Þær fengu nefnilega voða fínar handklæðahettur sem þær mátuðu fyrir veislugesti við mikla kátínu.
Þær eru auðvitað hin mestu glæsikvendi báðar. Við lásum upp úr stjörnuspá Moggans fyrir árið og Hulda systir á möguleika á að hitta hinn fullkomna mann (fyrir sig) og þær báðar að gera einhvern fullkominn success í bisness í september að mig minnir. Að vísu gildir þessi spá fyrir allar steingeitur (a.m.k. á Íslandi).
Síðuritari (sporðdreki) á að passa sig extra vel í umferðinni, svolítið "mean" að koma með svona komment í stjörnuspá.
Ég spái sjálfri mér (og öllum sem vilja þiggja mína spá) algjöru trompári andlega og líkamlega!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 31. desember 2008
Síðasti dagur ársins - nú er hátíð!
Nú er kominn 31. desember 2008. Við sitjum hér tvö, ég og yngsti fjölskyldumeðlimurinn, hann horfir á barnaefni í sjónvarpinu og ég pikka inn síðasta blogg mitt á árinu, en horfi með öðru auganu á talandi fugla í sjónvarpinu.
Talandi um fugla; Breytti matseðli kvöldsins á síðustu stundu úr kalkún í innbakaðar nautalundir og kjúklingabringur. Það kom nú ekki af góðu, en ég gleymdi að kaupa kalkúninn! .. mundi það í gær og vissi að ef ég ætlaði að ná að afþýða hann myndum við Tryggvi þurfa að sofa með hann á milli, en það fær sko enginn frosinn kalkúnn að koma upp á milli okkar. Svo er náttúrulega bara algjört nammi að snæða innbakað kjöt m/steiktum sveppum, lauk og papriku smurðu ofan á! slurp.. Þarf að hafa bæði rautt og hvítt kjöt vegna sérvisku fjölskyldunnar í mataræði.
Við verðum alls 13 í mat, fáum að hafa alla afkomendur okkar og maka þeirra hjá okkur í kvöld! Gleði, gleði, gleði... og ég er sko búin að leggja á borðið og allt!! setti bara tvö borð saman, og skreyta með höttum,lúðrum, grímum og confetti - ...
Smá boðskapur í lokin: Við sem erum með börn í kringum okkur; förum varlega í vínið - ekkert er leiðinlegra og meira niðurdrepandi en ölvaðir foreldrar (eða ömmur og afar)..
Knús og krams inn í kvöldið, þakka bloggvináttu á árinu og óska ykkur öllum GLEÐILEGS ÁRS 2009!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
Þriðjudagur, 30. desember 2008
MANNLÍF .. Hvers vegna að velja skúrk ársins?
Mannlíf fer yfir árið sem nú er liðið að lokum og velur það fólk sem stendur upp úr á árinu.
- Maður ársins
- Stjórnmálamaður ársins
- Listamaður ársins
- Íþróttamaður ársins
- Atvik ársins
- Viðskiptamaður ársins
- Fjölmiðlamaður ársins
- Skúrkur ársins
- Afleikur ársins
- Vonbrigði ársins
- Hetja ársins
Það að klína svona titlum á fólk ,,Skúrkur ársins" finnst mér óþroskað og taktlaust og jafnvel líka titill eins og afleikur ársins, sem er þó með húmorískum undirtóni, svo það er mun vægara.
Það er víst búið að dæma meinta skúrka nógu mikið og úthrópa þá nógu mikið. Kringum þá eru fjölskyldur sem eru búnar að þola mörg leiðindin. Fyrir mér er þetta bara eins og opinbert einelti.
Þetta er nú bara mín einlæga skoðun, enda birti ég mínar skoðanir á mínu bloggi og við erum ekki öll sammála.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Mánudagur, 29. desember 2008
29. desember 2008
Eva Lind mín fór í tuttuguvikna sónarinn í dag og litla barnið dafnar eðlilega, allt í fínasta lagi og fékk ég að sjá mynd og sýndist mér svipurinn nú bara líkur stóra bróður.
Reyndar átti stóri bróðir (4 ára) setningu dagsins þegar hann kvartaði við ömmu sína í morgun;
,,Mamma min er alltaf ekki að leyfa mér að fara í tölvuna, þá verð ég að kaupa mér tölvu einn!" ...
Ég er reyndar búin að bíða öll jólin eftir þessum degi; já, í morgun voru teknir saumarnir úr skurðinum á öxlinni sem er um 6 cm langur og verður víst fallegt ör eftir. En það gerir bara ekkert til því að ég fékk svo fína niðurstöðu, þ.e.a.s. að í þessu stóra sýni fannst ekki tangur né tetur af meini! ..
Læknirinn sagði þó að þetta væri grafalvarlegt, þó ég gæti ekki hætt að brosa inní mér, og ég þyrfti að vera í eftirliti í fimm ár. Upprunalega meinið hafði farið ansi djúpt, en ég slapp fyrir horn vegna þess að ég leitaði, þrátt fyrir allt nógu snemma til læknis. (Svo hafa fallegar hugsanir og bænir vina og ættingja örugglega ekki skemmt fyrir).
Látið endilega kíkja á ykkur ef þið eruð með skrítna, óreglulega fæðingarbletti! .. Hægt að lesa um þetta t.d. hér.
Eigum góða daga..
Bloggar | Breytt 30.12.2008 kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Sunnudagur, 28. desember 2008
Gagnkynhneigðarremba ?
Ég er að byrja að lesa bók Dr. Sólveigar Önnu Bóasdóttur (lektor í guðfræðilegri siðfræði) sem gefin var út 2008, Ást, kynlíf og hjónaband.
Í upphafi bókar skrifar Sólveig Anna:
,,Eitt hið mikilvægasta í öllum siðferðilega góðum samböndum er að gagnkvæmni ríki, í merkingunni að sá sem auðsýnir réttlæti og ástundar kærleika og virðingu þiggi hið sama frá hinum aðilanum. Gagnkvæmni er hugsjón og viðmið sem gildir um öll góð sambönd, hvort sem í hlut eiga samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir. (bls. 14).
Sólveig Anna staðfestir jafnframt tilfinninnigu mína að það séu eðlileg mannréttindi samkynhneigðra að fá að ganga í hjónaband undir jafngildri vígslu og vígsla gagnkynhneigðra.
Nýlega lenti ég i enn einni rimmunni við einn harðasta andstæðing þess að samkynhneigðir stundi kynlíf, þarf varla að taka það fram að þar er ég að tala um kaþólikkann Jón Val, sem á sér einhverja fylgismenn meðal meðlima í hvítasunnusöfnuðum, meðal aðventista og innan þjóðkirkjunnar og fl. safnaða, varðandi þetta mál. Jón Valur segir m.a.: "samkvæmt kristinni, biblíulegri og guðfræðilegri siðakenningu eru virkar samfarir fólks af sama kyni synd." (leturbreyting á ,,kenningu" er mín því mér finnst þetta segja svo mikið um þennan þankagang og einfaldleika þegar fólk situr fast í kenningum).
Af einhverjum ástæðum fæ ég nefnilega alltaf sting í hjartað þegar ég sé svona skrifað og ég tel að Kristur fái það líka. Hvert er æðsta boðorð Krists og æðra öllum? ,,Elskaðu náungann eins og sjálfan þig" .. hvar kemur elskan fram í kenningunum hans Jóns, sem dæma náungan, sem er vissulega kynvera, til lífs án kynlífs en vera kannski sjálfur í allri sinni gagnkynhneigðardýrð að njóta reglulegs kynlífs með sínum maka án hins minnsta samviskubits?
Á málþingi 2004 lagði Sólveig Anna fram þá tilgátu ,,að áhersla á Biblíuna sem mikilvægustu og stundum hina einu gildu heimild siðfræðilegrar íhugunar haldi málefninu samkynhneigð í gíslingu í kirkjulegu samhengi."
Að vissu leyti er það rétt, og ef við færum algjörlega eftir bókstaf Biblíunnar þá myndum við gera svo margt öðruvísi. Í Gamla testamentinu eru nefnilega ýmis heilagleikalög sem við höfum aldrei farið eftir og einfaldlega eru skrifuð inn í annað samfélag en er í dag.
Kristinn einstaklingur er ekki tóm tunna með bókstaf í hjartastað. Kristinn einstaklingur er tilfinninga- og skynsemdarvera, sem getur tekið við orðum Guðs og túlkar með með kærleika í hjartastað.
Sá eða sú sem tileinkar sér Krist sem fyrirmynd dæmir ekki fólk út frá kyni, litarhætti eða kynhneigð. Kristinn einstaklingur setur manngildi og mannréttindi í forgang. Lög Guðs eru mannréttindalög og við verðum að hætta að brjóta þau.
Legg jafnframt til þessa grein hjónanna og séranna Bjarna og Jónu Hrannar, þar sem þau skrifa um bók Sólveigar.
Love all serve all
p.s.
Bókin hennar Sólveigar Önnu gaf mér innblástur til að skrifa þetta, einnig bréf frá nafnlausum bloggvini sem sendi mér þakkir í tölvupósti nýlega fyrir mína sýn á trúmál, því að öfgahyggjan í trúmálum sumra hér á blogginu fældi hann frá trúnni. Síðast en ekki síst trúi ég að Jesús Kristur veiti mér innblástur en ég er staðföst í trúnni á hann.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)