Myndablogg..

Aðfangadagskvöld var notalegt og gott, tvíburarnir mínir; Vala og Tobbi borðuðu hjá okkur, matseðill var rækjukokteill í forrétt, og svo þríréttaður aðalréttur; hnetusteik, hamborgarhryggur og humar! Nammi, namm....

 

Svo byrjuðum við að opna pakka, Tobbi var með hundinn Teklu í pössun og hún var algjört yndi. Við Tryggvi fengum fyndna gjöf frá krökkunum og Vala var búin að dúlla sér við að pakka í marga pakka; pakki 1) lítil kók (við Tryggvi fengum sitthvora) pakki 2) lakkrísrör (líka sitthvort) pakki 3) popp .. hmmm.. þetta leiddi að einhverju; pakki 4) dvd mynd  5) inniskór handa gamla liðinu og svo loks pakki 6) ábreiða fyrir tvo. Þetta var sko uppskrift að kósý kvöldi!

 

 

Eftir matinn rúlluðum við til Lottu systur, Vala og Tobbi komu við á spítalanum hjá afa sínum og kysstu hann gleðileg jól. Allir voru saddir og sáttir á Vesturgötunni, tvíburarnir Rósa og ísold slógu í gegn í krúttlegum Kínakjólum.

 

Börnin hans Tryggva komu heim um ellefuleytið, Bíbí dansdrottning, Gunna Lilja, Aggi m/jólasveinahúfu og svo íþróttaálfurinn sjálfur (í boði pabbans og Jógu)! Frá krökkunum fékk ég m.a. Tarotspil .. úúú... svo ég þarf víst að gerast spákona aftur, en hef ekki komið nálægt slíku í mörg ár!

Og svo rann upp jóladagur, í hádeginu fórum við með afganga til afa Agnars í Laufás (gleymdum myndavél) en það var hátíðlegt og allir fínpússaðir. Um kvöldið komu svo systkini mín, makar og afkomendur með mat á borðið. Við fórum í alræmdan "klósettpappírsleik" ..en það er bannað að upplýsa um hvað hann fjallar, en það er partur af leiknum!

 

Að sjálfsögðu mættu Rósa og Ísold og duttu í hatta og búninga yngsta fjölskyldumeðlimsins. Ísold hræddi okkur ógurlega með spider-man grímunni. Rósa kaus að vera með slökkviliðshatt og snúa honum öfugt. Bubba hatturinn var einnig mátaður.

 

 

Jólatréð er fínt og flott, og þarna er Már sem er duglegur að gæta litlu systra sinna.

Svona er þetta nú. Í gærkvöldi vorum við svo með boð fyrir Bedstemor og farfar eins og Máni kallar þau, og auðvitað voru þau í fylgd með Evu, Henrik og Mána. Vi spillede kort og havde det sjovt! .. og svo sækir Vala Jake sinn í fyrramálið en hann á að lenda eftir ca. 2 tíma í Keflavík. Það verða fagnaðar-ástarfundir! .. Í hádeginu í dag er svo fjölskylduboðsfundur, því stórfjölskyldan heldur sitt árlega jólaball þann 28. desember og mín fjölskylda skipuleggur þetta árið!

 

 


Gleðileg jól!

Sé ekki fram á að hafa tíma til að blogga neitt af viti (né óviti) fyrir jólin svo jólakveðjan kemur í dag:

Ágætu vinir, fjölskylda, bloggvinir og aðrir sem lesa, óska ykkur gleðilegrar JÓLAHÁTÍÐAR!


Falleg afmælisgjöf ...

Vala mín kom heim frá Ameríku á miðvikudagsmorgun 17. desember. Aðfararnótt laugardagsins 20. des., klukkan 4:30, keyrði ég hana niðrá Umferðarmiðstöð til að taka rútu til Keflavíkur, því hún var á leið til Stokkhólms!

Já, hún hafði ákveðið að koma ömmu sinni á óvart á afmælisdaginn hennar, 20.desember, en amma Tobbý er stödd í Stokkhólmi til að vera við hlið afa Kela, sem var í hjartaaðgerð.  Hann er búinn að vera að fara inn og út af gjörgæslu svo líðan hans hefur verið krítísk og erfitt fyrir ömmu að vera ein með áhyggjurnar af honum. (Þetta eru fyrrverandi tengdaforeldrar mínir sem ég er að ræða um sem ömmu og afa, en hætti að sjálfsögðu ekki að kalla þau það, þar sem þau eru afi og amma barnanna minna og ágætir vinir mínir).

Vala flaug út án þess að amma og afi hefðu hugmynd um það, og kom sér upp á spítala. Hún fór beint til afa síns og varð hann svakalega ánægður en hissa að sjá hana. Tíu mínútum síðar birtist amma sem átti ekki orð yfir því að fá hana til sín! ..Sagði mér í símann að hún hefði séð ljóshærða stelpu inni á stofu og smám saman fattað hver væri komin. Hún sagði þetta besta "afmælispakka" sem hún gæti hugsað sér. Vala kemur heim seinni partinn á morgun, en eflaust þurfa afi og amma að vera úti fram yfir jól.

Öllum sem þykir vænt um gömlu hjónin (æ þau eru nú ekkert svo gömul, tek bara svona til orða) langaði auðvitað að vera við hlið þeirra, svo Vala fór í raun sem fulltrúi okkar hér heima.

Ég missti pabba minn þegar ég var sjö ára, eins og sumir vita, og Keli varð svona næsti bær við þegar ég kynntist syni hans. Það var gagnkvæm væntumþykja milli okkar og fann ég hvað honum þótti sárt þegar við sonur hans skildum. Þegar ég nýlega greindist með smá krabbamein, en var í stóru sjokki,  hugsaði ég til hans og hvað mig langaði að fá eitt gott afafaðmlag, en ég þorði ekki að heimsækja hann, af því ég var of feimin. Svona er maður klikk!

Ég er búin að vera í sambandi við þau, bæði í sms og í gegnum Völu undanfarna daga. Bið fyrir góðum bata hans eftir aðgerðina og að þau komi heil heim. Heart

Hlakka auðvitað til að fá Völuna heim.

Á meðan á öllu þessu hefur gengið, er Mánalingur ömmustrákurinn minn búinn að vera með ælupestina alla helgina, en er sem betur fer á batavegi.  

Ég er hjá þér, ó, Guð
sem barn hjá blíðri móður
og eins og fugl á mjúkri mosasæng.
Ég er hjá þér, ó, Guð,
já, þú ert hér, ó, Guð,
og nóttin nálgast óðum.
Ef þú ert hér, þá sef ég sætt og rótt.

(Kristján V. Ingólfsson)

Guð geymi okkur öll, - Góða nótt

 


18. desember .. og næstu dagar

Hildur Jakobína, dóttir Tryggva míns (venjulega kölluð Bíbí)  er tvítug í dag. Wizard .. Við ætlum að hafa fyrir hana kaffiboð á laugardag. Bíbí er alltaf hress og kát og tekur hlutina ekki of alvarlega, sem er góður eiginleiki (sérstaklega á þessum síðustu tímum).

Anna Kristín frænka mín hefði orðið 40 ára í dag hefði hún lifað en hún lést sl. vor þessi elska. Blessuð sé minning hennar.

Í dag eigum við Tryggvi líka tveggja ára "hittingarafmæli" .. en ég keypti handa honum bókina Ofsi eftir Einar Kárason, svona í tilefni dagsins, en hann veit það ekki ennþá sko, afhending er á næstu mínútum... (ekki segja neinum). Wink

Á morgun á svo Helle barnapían mín frá Danmörku (sko í den) afmæli, en hún kom einmitt til okkar í desember1987 held ég frekar en 1988 og við héldum fyrir hana tvítugsafmælið hennar! ..

Hinn daginn á svo hún tengdamamma mín fyrrverandi (amma Tobbý) afmæli, en hún er stödd þessa stundina í Svíþjóð og heldur í hönd afa Kela, sem var að koma úr hjartalokuaðgerð sem gekk, eftir nýjustu fréttum bara vel! 

Já, svo á ég 28 ára stúdentsafmæli 20. des. = ég er ekkert unglamb lengur!

.. Já og svo eru jólin bara á næsta leyti .. en kem nánar að þeim síðar!


Gleði, gleði, gleði ..

Hún Vala mín bað um gleðiblogg, ég hef svo sannarlega margt til að gleðjast yfir þessa dagana:

Sko Vala er að koma heim í fyrramálið og ætlar að vera hjá mömmu sinni yfir jólin. Við Eva förum eflaust eldsnemma í fyrramálið að sækja hana útá völl.. Smile

Eva er hress í meðgöngunni sinni, er farin að finna litlar táslur hreyfast, svaka gaman og svo fer hún í sónar 29. des, en það er einmitt sami dagur og ég fer að láta fjarlægja nýjasta saumaskapinn á öxlinni, en í hana var skorið þetta líka fallega lauf í gær (eins og ég sé laufabrauð)..LoL

Einkasonurinn kom með kærustuna í heimsókn í fyrsta skipti á sunnudag. Var þessi heimsókn svolítið stór biti fyrir hana, þar sem mamma og Máni (ásamt fleirum) voru líka í mat, en þessi tvö gerðust ræðnust. Þetta gekk annars voða vel, ljúf og falleg stelpa.

Mamma mín, sem annars hrósar helst ekki fólki, nema sínum eigin afkomendum og jú Páli Óskari, sagði þegar ég ók henni heim á sunnudag að hann Tryggvi minn væri "yndislegur." Ég gæti ekki orðað það betur.Heart

Er annars glöð, hress og kát, aðeins aum í öxlinni en ég hef þá löglega afsökun fyrir að þurfa ekki að hoppa á trampólíni né í teygjustökk! LoL

Jæja, gleði, gleði, gleði..

Hef ekki haft tíma til að kíkja í heimsókn hjá bloggvinum, en koma tímar og koma ráð, knús á þau sem lesa.


Ströndin mín .. ljóðblogg

Fyrir framan gamalt hús, við lúið veðurbarið tréborð, sit ég með stráhatt og í bleikum bómullarkjól. Ég er með penslana mína og kartonið á borðinu. Sýsla við að blanda liti hafsins, hafsins sem gælir við gullinn sandinn og kyssir sólina góða nótt. Ómar gamla grammófónsins  læðast innan úr húsinu í takt við öldurnar. „Sh boom, sh boom, trallallalalalalala, Life could be a dream .. Þetta er ströndin mín.

Sjá myndina í fullri stærð.

Think BIG and kick Ass in Business and Life

Talað var um að Gordon Brown hefði orðið á freudískt slip, þegar hann talaði um að bjarga heiminum í stað bönkunum. Ég væri sko alveg til í að aðstoða hann við að bjarga heiminum, og ein manneskja hefur trú á því að ég geti það (Róslín hin ungaSmile).

Var að lesa það sem haft er eftir Donald Trump: "If you need to think, think BIG" .. að vísu segir hann víst líka "...Think BIG and kick Ass" .. ég er nú ekki eins hrifin af því. Auðvitað má kannski sparka einhverjum úr sæti sem er of þaulsetinn, t.d. í Seðlabankanum? .. Nefnum engin nöfn í því sambandi.

Svo maður fari inn á persónulegu víddina, þá er það ekki fyrr en næsta mánudag að það á að krukka í mig, en einhver hélt það væri sl. mánudag. Leiðréttist hér með.

Er í grúví gír og vonandi eruð þið það líka! Cool


mbl.is Gordon Brown bjargar heiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dubonnet í Skyttunum vekur upp minningar ..

 ..

Það var svo margt skemmtilega nostalgískt í íslensku myndinni; Skyttunum,  sem endursýnd var í RÚV í gærkvöldi. Einna mest hló ég þegar daman á barnum bað um þrefaldan Dubonnett! LoL .. Það er einn af þeim drykkjum sem ég smakkaði ,,í den" .. og svo Pernod og svo að mig minnir að það hafi heitið;  Lemon Twenty One, .. man það ekki alveg. Svo var það jú Kláravínið svo minnst sé á eitthvað íslenskt. Fannst það að vísu vont, eins og allt svona sterkt.

Vonandi hljómar þessi færsla ekki eins og áfengisauglýsing. Vil benda þeim sem kjósa alkóhóllausa færslu á Spur og Sinalco!  Það er að vísu frá áðurenégbyrjaðiaðsmakkaþaðárum mínum. Fengum Sinalco á jólum og öðrum hátíðisdögum. Kóka kóla í glerflöskum á afmælum! ...


Það eru víst að koma jól!

Fyrst verð ég auðvitað að þakka fyrir allar fallegu kveðjurnar og hvatninguna sem ég hef fengið frá bloggvinum, vinum, ættingjum og öðrum  (sem lesa þetta blogg leynt eða ljóst). Það hentar mér ágætlega að lifa svona á úthverfunni og vona að það hitti engan í kringum mig illa. 

Ég hef verið sein að komast í jólafílinginn þessa aðventuna. Var loksins að draga fram aðventukransinn áðan og nokkra sæta tréjólasveina sem ég stilli upp á rammana á málverkunum og myndunum. Fann dúka, jólapóstinn, en jólakortunum fækkar að vísu ári frá ári með auknum rafrænum kveðjum.

Í hádeginu koma afi Agnar og Bjössi bróðir Tryggva í sunnudagshádegismat, fyrir þeim er þetta Seláshverfi uppí sveit, en afi Agnar býr í Laufási við Laufásveg, svakalega fallegu og rómantísku húsi, sem vissulega einu sinni var sveit!

Í dag ætlum við stóra systir svo að ryðjast inn til mútter og gera smá jóló hjá henni og þrífa kannski pinku í leiðinni. Ekki að hún njóti þess að fá okkur með allan okkar yfirgang! LoL ..

Síðasta vika var stormasöm fyrir mig andlega, á mánudag fannst mér ég hafa fengið dauðadóm, en þegar leið á vikuna þá fór nú að birta, það byrjaði strax á þriðjudegi, með því að ég fékk að fara með Evu minni í mæðraskoðun og heyra krúttlegan hjartslátt í litla/litlu (við höldum að þetta verði stelpa)  og í dag er ég ekki bara full af lífi, heldur til í að bjarga heiminum líka! Smile .. (ein voða klikk?) .. Ég er nú líka búin að fá að heyra frásagnir af fólki, sem ég jafnvel kannast við, sem hefur fengið húðkrabbamein og önnur krabbamein, það skorið í burtu og lifir happily ever after.

Á mánudaginn eftir viku á ég að fara í þessa ,,skorið burtu" aðgerð, eða það á að skera meira í burtu í kringum þar sem bletturinn ógurlegi var. Lýtalæknir mun skera það, svo ég mun geta "flassað" á hlýrabol. Ekki það skipti öllu máli - en úr því það er hægt þá er það fínt!

Það er svo margt að gerast, við vinkonurnar í saumó erum að fara að hittast á þriðjudagskvöld á kaffihúsi, fimmtudag er það "Fólkið í blokkinni" í Borgarleikhúsinu, og á föstudag halda Tryggvi og félagar árlegt jólateiti í Garðastræti. Í næstu viku kemur svo Vala mín loksins heim í heiðarbólið til mömmu sinnar, en ég er búin að sakna hennar undanfarið óvenju mikið. Eva mín hefur verið eins og klettur og gott að hafa hana til að knúsast í (og Mána hehe) .. Tryggvi dekrar við mig að venju.

Auðvitað er ég búin að kaupa MammaMia myndina og ég ásamt ungum herrum sungum og  dönsuðum okkur svona næstum því sveitt við Sing-Along útgáfuna hér á fösudagskvöldið. Tryggvi fylgdist með og hló að því þegar ég hló eða grét. LoL ..

Mánalingur gisti í framhaldi af því en vaknaði um sexleytið og þá var amman svo heppin að hann vildi að hún tæki hann í fangið og syngi fyrir hann, svo hún söng (eða raulaði); Sofðu unga ástin mín, fram í heiðanna ró, afi minn og amma mín, þig vil ég fá, þýtur í laufi.... öll lögin sem hún var vön að raula og hún fagnaði því að hafa litla krílið í fanginu og hugsaði um hversu þakklát hún væri fyrir hann InLove .. og söngurinn varð svolítið melankólískur og saltur fyrir bragðið.

Ég ætlaði ekkert að skrifa svona mikið, er enn á sloppnum og þarf að fara að koma liðinu á fætur áður en gestirnir koma! 

Vonandi eigum við öll alveg ágætan sunnudag!

 


Hókus Pókus Fílirókus ..

Trúarbrögð eða trúartrix eins og þau eru ,,matreidd" í dag eru að mínu mati á útleið. Já, svoleiðis er það nú. Ég væri að vísu alveg til í að ganga í pilsaráðið, það hljómar ótrúlega skemmtilegt ráð.LoL  Örugglega skárra en Vatíkanið eða eitthvað annað -k(l)an.

Það sem ég held að flestir borgarar þessa lands vilji er vissulega að geta komið saman til að gleðjast, syrgja, bindast ..biðja líka. Samveran getur verið svo dásamleg. Það þarf að vera stemmning og einhver þarf að leiða og undirbúa. Alveg eins og að halda matarboð eða veislu. Stundum viljum við borða saman og stundum í einrúmi, en það er aldrei eins.

Einhver þarf að skipuleggja þar og bjóða heim, en gestgjafinn/húsmóðirin þarf svo sannarlega ekki að vera í einhverju skrautdressi og með Lúðvíks 14. kraga til að aðgreina sig frá gestunum. Góður gestgjafi minglar og vill að gestum sínum líði vel og fari glaðir heim. Já, já, þannig er kirkjan mín. Það má líka taka lagið og þá getur einhver spilað á gítar,jafnvel hægt að  undir á bongótrommur, en milljónaorgel? .. er það nauðsynlegt fyrir söfnuð til að vera samvista við Guð sinn?  ..

Já og svo þarf ekkert að standa upp undir miðju borðhaldi og setjast niður og svo standa upp aftur og setjast og láta fólki líða ignorant og klaufskt (eins og mér í pallatíma í Hreyfingu) af því það veit ekki hvenær er rétt eða rangt að sitja eða standa. Ég hugsa líka að ef ég vilji koma einhverju á framfæri við gesti mína, flytja þeim hugvekju að þeir skilji hana jafnvel betur ef ég fer ekki að snúa mér réttsælis fyrst og svo rangsælis fyrir framan skenkinn. (Þetta var sko eitthvað sem ég ætlaði aldrei að ná í guðfræðideildinni, þ.e.a.s. hvernig ég ætti að snúa fyrir framan altarið! hehe).

Sá gestur sem væri alltaf efstur á gestalistanum mínum væri Jesú (ekki Ésú eða Sússi eins og trúlausu gúbbarnir eru að reyna að uppnefna hann). Því þó ég horfi á Zeitgeist, þó ég heyri frásagnir sem eigi að afsanna tilvist Jesú, þá hverfur Jesús bara ekkert úr mínu lífi. Svoleiðis er það bara, ójá. Það er tilfinning og engin leið að rökræða tilfinningar.

Kannski ég skipuleggi bara ,,matarboð" bráðlega með andlegri fæðu, og þau sem hafa hug á að tala saman um gleði, sorg, ljós og skugga, geta mætt, talað saman, sungið saman og beðið saman og rabbað við Jesú .. milliliðalaust.

Ef þessir prelátar í André Vingt-Trois, halda að þeir séu nær Jesú Kristi vegna þess að þeir eru karlmenn í búningum með hatta, þá leyfum þeim að halda það Wizard .. er það ekki svolítið kjút bara?

.. Já, já,  svona hugsar hún Jóga í dag ..  (segist með röddu Jóns Ársæls) ..

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband