Evran í samlokunni, bloggsápa 3. hluti

Evran í samlokunni,  Bloggsápa 3. hluti, 1. kafli.  

Haraldur tróð vísifingri inn í samlokuna og dró út majonessmurða mynt. Þar var komin evra. Hann hugsaði sig aðeins um, en ákvað að láta ekki afvegaleiðast. Hann skyldi aldrei taka evruna fram yfir hinn ástkæra ylhýra gjaldmiðil, gömlu góðu krónuna. Krónan – ekki þessi úr áli sem flaut, heldur íslensk króna með þorski og öllu var það sem hann studdi. Hann tók blauttissjúið úr hanskahólfinu og þurrkaði majonesið af evrunni betur. Hann var alfarið á móti peningaþvætti en í þetta sinn braut nauðsyn lög. Þegar hann var að ná síðustu örðunni af myntinni sá hann að þetta var engin venjuleg evra. Búið var að grafa letur – örsmátt í peninginn. Þar sem Haraldur Beck var ein af þessum týpum sem var ávallt viðbúinn, enda gamall – nei ekki skáti – heldur yrðlingur (fékk aldrei vígslu) , gat hann teygt sig eftir stækkunargleri í vasanum aftan á framsætinu. Hann bar glerið yfir evruna og sá þá að þar voru komin mikilvæg skilaboð frá Lovísu, sem hann áttaði sig nú á að var lævís. ”Hittu mig við heimaklett hjartaknúsari” var grafið í peninginn. Hjartað sem áður var sem brauð tók mikinn kipp og hann gat næstum heyrt það  berjast um. En hvað var hann að hugsa ? Ætlaði hann að missa af fluginu til Vestmannaeyja ?  Þar lágu nú öll hans draumalönd og nú bauðst beggja skauta byr. Hann henti restinni af rækjusamlokunni, evrunni og öllu því sem hann vildi taka með sér í Bruno Magli skjalatöskuna. Stökk fimlega út úr bílnum og gekk reistur inn í flugafgreiðsluna, en þegar þangað var komið brá honum heldur betur í brún, augu hans stóðu á stilkum, fyrir framan hann stóð........frh. síðar....  

Hvað sá Haraldur í flugstöðinni ? Kemst Haraldur með fluginu ? Hvernig fór Lovísa að því að lauma peningnum í rækjusamlokuna ? Hvað kostaði að grafa í peninginn ? Svör við þessum spurningum og fleiri koma í næsta bloggi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband