Sunnudagur, 18. maí 2008
17. maí - í gær ...
Afi minn, Björn Magnússon, hefði átt afmæli í gær, 17. maí og eins og amma sagði alltaf, þá var alltaf flaggað fyrir honum þann dag, a.m.k. í Noregi, en eins og menn og konur vita er það einnig þjóðhátíðardagur Norðmanna. Afi fæddist árið 1904 og lést 4. febrúar 1997 eða fyrir ellefu árum og þá saddur lífdaga, eins og þar stendur. Afi minn bar marga fína titla, en fyrir mér var hann alltaf bara "afi."
Ég skrifaði, á sínum tíma, minningargrein um afa minn og ég fann hana nú í minningagreinasafni Mbl.is og langar að láta hana fylgja hér fyrir, börnin mín, vini og ættingja sem vilja rifja það upp og aðra sem vilja kynnast bakgrunni mínum. Nú eru rúm ellefu ár síðan hann dó en nú er ég að líma saman grein um föðurbróður minn og kennara Björn Björnsson, sem er nýlega látinn og verður jarðsunginn í Dómkirkjunni á fimmtudaginn.
--------
Hér kemur greinin um afa:
Þegar nákominn ættingi eða vinur fer frá okkur á vit almættisins, koma upp í hugann myndir af öllum þeim góðu stundum sem við höfum fengið að verja með viðkomandi. Mig langar í þessari ræðu minni að bregða upp nokkrum af þeim myndum sem mér eru kærastar og eftirminnilegastar í minningunni um afa minn, Björn Magnússon, sem nú er kominn, eftir langt og strangt ævikvöld, yfir móðuna miklu til ömmu Charlottu, sem ég minnist um leið.
Fyrsta og jafnframt fallegasta myndin er auðvitað myndin af þeim sjálfum. Afi svo hár og virðulegur og amma svo falleg og brosmild. Þeirra samband einkenndist af gagnkvæmri virðingu, starfsorku og ánægju yfir lífinu og tilverunni. Það var því mikil eftirsjá að ömmu, þegar hún lést fyrir aldur fram vegna veikinda, fyrir afa og okkur öll þar sem þau voru svo einstaklega samrýnd hjón.
Síðan koma upp í hugann minningar frá jólunum á Bergstaðastræti eða Bestó eins og við krakkarnir kölluðum það. Þar komum við saman, stórfjölskyldan, á jóladag, fyrst á meðan amma lifði, og síðan eftir hennar dag, hittumst við þar með afa þar til nú síðustu árin að heilsa hans leyfði það ekki lengur. Þó fjölskyldan hafi haldið þeim sið að koma saman um jólahátíðina og ánægjulegt sé að hittast svona öll saman, þá var andrúmsloftið á Bergstaðastrætinu svo hátíðlegt að enginn salur né önnur húsakynni hafa gefið slíka hátíð í hjarta sem maður fann fyrir sem barn á jólunum hjá afa og ömmu á Bestó.
Myndin af "Sumó", Lindarbrekku við Hreðavatn, mun í mínum huga og fleiri alltaf verða paradís minninga og yndislegra tíma. Þeir sem hafa verið þátttakendur í stemmningunni í Sumó vita hvað það er yndislegt og þá stemmningu bjuggu afi og amma til.Það var hápunktur tilverunnar hjá lítilli stúlku að fá að taka Norðurleiðarrútuna með ömmu og afa upp að Hreðavatni og fá að vera með þeim á þessum fallega, örugga stað. Þarna var og er enginn sími, ekkert sjónvarp, og síðast en ekki síst er það einróma álit fjölskyldunnar að þar sé besta vatn og besti silungur í heimi.Afi var ekki að bera tilfinningar sínar á torg, en væntumþykjuna fann maður í gegnum verkin hans og samveruna við hann, sérstaklega í "Sumó", eins og þegar við fengum að fara með honum að vitja um netið, sækja mjólkurbrúsann út á veg eða rölta með honum út í "skóg" þar sem hann var að grisja og tína sprek. Þá sagði hann mér sögur frá því hann var ungur af honum og Jóhönnu systur sinni, sem hann vissi að mér þætti gaman að því ég var skírð eftir henni, en hún hafði látist ung að árum.
Afi var ákaflega verklaginn og naut ég þess oft að fylgjast með honum dytta að, smíða, mála eða bara kveikja upp í kamínunni. Amma var meira á ljúfu nótunum, alltaf reiðubúin með opinn faðminn, og tilbúin að hlusta á vandamálin sem upp komu. Einnig var gaman að hlusta á frásagnir frá barnæsku hennar í Stykkishólmi eða fylgjast með þegar hún var að bjóða fuglunum góðan daginn eða heilsa upp á álfana úti í hrauni, en tilvist þeirra þótti henni alveg jafn sjálfsögð og okkar og kenndi mér um leið að bara virðingu fyrir náttúrunni.Það sem mér er minnisstæðast frá dvölinni með afa og ömmu í "Sumó", er þegar þau í sameiningu saumuðu fyrir mig tuskustrákinn sem nefndur var "Labbi", úr íþróttagalla af föður mínum frá því hann var drengur. Ég var alveg afskaplega hrifin af þessari brúðu sem var ekki mikið minni en ég sjálf og ekki höfðu þau hjónin minni ánægju af að búa hana til og samglöddust mér yfir þessu öllu, sem var táknrænt fyrir þau og samskipti þeirra við barnabörnin.
Ég get ekki hrósað mér af miklum samskiptum við afa nú síðustu árin og reyndar held ég að hann hafi verið stunginn af til ömmu í huganum fyrir allnokkru.En elsku afi og langafi barnanna minna, þakka þér fyrir allt og allt og skilaðu kveðju okkar allra þegar þú kemur á eilífðarströndina til ömmu sem var þér svo kær og svo sárt að missa, til frænku okkar ungrar og barnabarns þíns sem þurfti að glíma við svo erfiðan sjúkdóm í þessu lífi og síðast en ekki síst elskulegs föður míns sem tekinn var frá fjölskyldunni allt of snemma.
Guð blessi þig.Jóhanna Magnúsdóttir.
----
verð að fá að pota þessu litla hjarta hér inn, fór sjálf að vola þegar ég las þetta yfir.Verð með einhverja ,,töffarafærslu" næst ...svo ég geri ekki útaf við fólk í væmni.
Athugasemdir
Innlitskvitt
Birna M, 18.5.2008 kl. 09:48
Þetta er ekki væmni
Jónína Dúadóttir, 18.5.2008 kl. 10:01
Falleg minningargrein. Hvað var pabbi þinn gamall þegar hann dó?
Laufey B Waage, 18.5.2008 kl. 13:04
Þakka ykkur fyrir.
Laufey - pabbi var aðeins fjörutíuogeinsárs þegar hann dó.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 18.5.2008 kl. 13:22
Takk. Ég spurði af því mér finnst alltaf að vera að koma í ljós fleira og fleira sem við eigum sameiginlegt. Pabbi minn var 44ra þegar hann dó skyndilega (ég var þá 23ja). Afi minn (pabbi hans) dó löngu seinna.
Laufey B Waage, 18.5.2008 kl. 16:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.