Allt er í heiminum hverfult...hugsað upphátt á bloggi, úr einu í annað.

Ég hef oft þakkað mínum sæla, hver sá sem sá sæli er, fyrir að fá að lifa í landi þar sem ríkir friður og velsæld. Ég hef aldei upplifað styrjöld og aldrei langvarandi hungur. Samt hef ég einhvern innbyggðan ótta fyrir hvoru tveggja.

Þegar efnahagur brestur, þá fer ég að óttast að annað bresti. Ofbeldi, í öllum myndum, er eitthvað sem ég forðast eins og heitan eldinn. Nú er ég hrædd um að einhverjir ,,vondir kallar" hafi beitt ofbeldi. Vandamálið er, eins og fram hefur komið, að fólk greinir á um hverjir eru ,,vondu kallarnir" eða ofbeldismennirnir.

Það liggur við að það þurfi að fá leynilöggu í það að setja upp spjald (eins og í Taggart) og setja upp meinta ofbeldismenn. Spaugstofan gaf ýmsar hugmyndir í gær hverjir þar gætu verið á blaði/spjaldi. Held að við höfum þó að miklu leyti tekið þátt, eða verið meðvirk í sukkinu.

Það er margt sem ég myndi vilja að við hefðum öðruvísi. Ég efast t.d. stundum um að velferðin sé velferð. Þá er ég að tala um hvert við erum komin til dæmis frá því ég var krakki að leika mér í saltað brauð, sippó eða teygjó tvist á Grettisgötunni. Þar sem ein fjölskylda átti einn bíl, eitt sjónvarp o.s.frv. Að vísu er aðeins eitt sjónvarp á mínu heimili, en ég kom í þrítugsafmæli í daginn hjá manni sem á konu og þrjú börn,  þar sem sjónvarp var í öllum herbergjum + baði + eldhúsi.

Ég er líka að tala um ofgnótt af fötum, skóm, leikföngum barnanna, afþreyingu o.s.frv., Það gjörsamlega flæðir hér út úr geymslum og bílskúr af dóti sem ekki þarf lengur. Ofgnótt.

Það hlýtur að flokkast undir stjórnleysi, alveg frá toppi þjóðarlíkamans til táar, þegar að á svona næstum hverju heimili er til allt of mikið af, kannski ekki öllu, en af mörgu. Þetta kemur unga fólkinu (því sem er hagsýnt) vissulega til góða. Dóttir mín og tengdasonur eru búin að mublera upp íbúðina hjá sér fyrir u.þ.b. 100 þúsund krónur með hinum fínustu húsgögnum sem seld voru á Barnalandi, eða svona næstum gefin, því að þetta var ,,umfram" hjá einhverjum öðrum. Öðrum sem þurftu ,,nauðsynlega" að fá allt nýtt.

Við kaupum hús á fullu verði, rífum úr því allt innvolsið (ég hef tekið þátt í þessu) og setjum nýtt. Hvað er þetta eiginlega? Auðvitað höfum við tekið þátt í vitleysunni. Svona flest að einhverju leyti.

Á jólunum þegar dóttir mín varð tveggja ára, og við byrjuðum að opna pakkana opnaði hún pakka með dúkku fyrst. Hún varð svakalega hrifin að dúkkunni en hennar biðu a.m.k. 10 pakkar í viðbót. Við vildum að hún opnaði fleiri pakka, en hún bandaði þeim frá sér og sagði: ,,Nei, ég er búin að fá" og brosti himinlifandi. Hún að vísu hefur þennan nægjusama karakter enn í dag, sem ég öfunda hana af.

Víst hefur þjóðin farið í kaupæði, þó það séu undantekningar. Einhver hefur keypt alla flatskjána, hjólhýsin, kápur í Elm Design upp á 115 þúsund og boli í GK á 50 þúsund. Nú þurfa menn allt í einu brauðvél til að baka brauðið ???? .. Skil ekki. Brauð er vel bakanlegt án brauðvélar. Æ, það er margt sem ég ekki skil.

Ætla nú að reyna að sofna aftur, ég veit ekki hvort það er normal að finna svona mikið til eftir hálskirtlatökuna, en sársaukinn fer að mörkum hins óbærilega, svo mjög að aldrei fyrr hef ég eins mikið hugsað til Krists á krossinum og þjáningar hans. En mörk hins óbærilega ýta mér jafnframt til að hugsa um hvað skiptir máli. Núna er forgangsröðunin: Heilsa, friður, matur til að lifa af, þak yfir höfuðið, atvinna. (Og óska ég minni fjölskyldu og vinum og í raun allri heimsfjölskyldunni að sjálfsögðu þess sama).

Stundum hefur komið yfir mig þessi mikla löngun til að búa í sveit, nær náttúrunni og einfaldleikanum. Það hefur ágerst undanfarið, kannski er það bara ein af flóttaleiðunum, veit það ekki.

Friður.


mbl.is Ekkert land hrunið hraðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Takk fyrir þettaÞér hlýtur að fara að líða betur mín kæra, en ef það gerist ekki mjög fljótlega, talaðu þá við lækni... ég hélt ekki að þetta ætti að vera svona slæmt svona lengi 

Jónína Dúadóttir, 9.11.2008 kl. 07:29

2 identicon

Sæl Jóhanna mín.

Þetta er frábær pistill og hreinskilnislega skrifaður. Jú,svo sannarlega erum við ÖLL þáttakendur í þessu GRÆÐGIS brjálæði sem hefur hrjáð okkur. En er nú sem betur fer BÚIÐ(hér er ég að meina allt brjálæðið í að eltast við hégómalega hluti sem við hefðum vel  getað verið án. En svona er þetta ,NÚNA !

Mér fannst frábær frásaga þín af litlu stúlkunni, fólk ætti aðeins að staldra við þá frásögn og líta í eigin barm.

En nú verðum við að snúast gegn allri spillingu hvar sem hún er hvaðan sem hún er komin og láta hana aldrei skjóta rótum í okkar þjóðfélagi framar

.Það verður erfitt en það er hægt !

Ég ætla að láta þetta nægja í bili og biðja þess að verkjunum þínum linni svo að þú farir að hvílast eðlilega.

Kærleikskveðjur.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 07:53

3 identicon

Frábær pistill og vissulega fær mann til að hugsa. Fyrir 4 árum flutti ég heim eftir 23 ára fjarveru, því ég taldi að hér væri best að verja seinni hluta ævinnar. Þegar ég var spurð um Ísland var ég alltaf svo hreykin og full af monti um hvað við værum búin að þróa land og viðskipti á rúmum 60 árum. Hvernig við fórum frá danastjórn til sjálfstæðis og byggðum eitt sterkasta land í heimi. Ég henti gaman af því að víkingarnir væru í útrás og bráðum myndum við taka yfir heiminn.  Þannig voru nú víkingar í denn tíð. Núna er erfitt að fara á fætur og enn erfitt að hugsa til þess að ég seldi allt og flutti heim. Ég hendi ekki gaman af þessu lengur. En mig langar að segja frá atviki sem átti sér stað í einni heimsókn minni hingað heim :

Ég var stödd heima hjá æskuvinkonu minni og dáðist af húsgögnum, gardínum og öðru velferðar dóti sem var út um allt. Hún benti mér á að hún væri ný búin að skipta út. Ha ? sagði ég. Já ég keypti nýjar gardínur og sá þá að sófinn sem ég átti passaði ekki. Svo þurfti náttúrulega að skipta um borðstofuborð og stóla. Ég var í mat hjá henni. Svo varð mér á að spyrja um verðið á borstb. og stólum : ja stólarnir kostuðu 100 þús hver.. sagði hún hreykin. Þegar hér var komið var mér farið að svima. Ég hugsaði til míns innbú: ER ég fátæk eða bara allveg út úr tískunni. Ég nefnilega var búin að eiga mín húsgögn og gardínur um tíma. Ég nefnilega keypti hluti sem mér fannst fallegir og myndu endast. Ég hef alldrei náð þessu að búa í ein nota þjóðfélagi. Það þarf reyndar ekki að segjast,  að mér leið illa að sitja í stólnum og borða. Sem betur fer var ekki mikið af lit í matnum, því stólarnir voru hvítir. Í dag er hún aftur búin að skipta.  

Mér er oft hugsað til þessara stundar og er að velta fyrir mér hvort þetta sé það sem er núna að koma í bakið á fólki. En.. ég er ein af þeim sem vilja frelsi. Ég vil frelsi í öllu sem ég geri. Það þarf bara að hafa visku til að greina á milli þörf og græðgi.

Ég ætla ekki að flýja land, heldur ætla ég að hjálpa til við að rétta land og þjóð við aftur. Vona að þér batni sem fyrst sem ég og vona fyrir þjóð okkar.

kveðja.

Fanney Gunnlaugsdóttir (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 10:14

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Á þetta að vera vont svona lengi?  Dauðfinn til með þér.

Þetta er frábær pistill og ég skrifa undir hann allan.

Jenný Anna Baldursdóttir, 9.11.2008 kl. 14:32

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Takk fyrir innlitið Jónína.

 Ég hringdi í HNE = háls- nef- og eyrnadeild og fékk að tala við hjúkku. Hún sagði að það væri eðlilegt að vera með verki, en ítrekaði að ég væri dugleg að taka verkjalyfin. Ég hef verið hrædd við parkódínið út af maganum, en tók vænan skammt áðan og líður betur. Held fingrum í kross!

Takk líka Þórarinn, ég held ég ætti að fara að útbúa svona gullkornasögusafn sem ég hef frá börnunum mínum og öðrum börnum. Börnin eru oft bestu kennararnir.

Fanney, þakka þér kærlega fyrir þitt innlegg og að deila þinni sögu.

Takk, Jenný - held við skiljum hvor aðra býsna vel!

 x 1000 á ykkur.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 9.11.2008 kl. 16:12

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flott færsla Jóhanna mín, og falleg sagan af dóttur þinni, svo sannarlega væri landið okkar fallega ekki í þessari krýsu ef það væri fleiri eins og hún.  Takk fyrir þessa hugvekju, því það er þessi færsla,

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.11.2008 kl. 17:32

7 Smámynd: Rannveig H

Frábær lesning,

Rannveig H, 9.11.2008 kl. 17:40

8 Smámynd: Huld S. Ringsted

Góður pistill hjá þér. Væri ekki bara best að búa í sveit þessa dagana og vera með sjálfþurftarbúskap................................nei gleymdi því að þá þarf kvóta fyrir öllu

Láttu þér batna

Huld S. Ringsted, 9.11.2008 kl. 17:46

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Þakka ykkur Ásthildur, Rannveig og Huld.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 9.11.2008 kl. 21:08

10 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Góð færsla Jóhanna.  Ég verð reyndar að segja að í kringum mig hefur neysluæðið gripið undantekningar tilfellin, enda starfa ég í kringum láglaunafólk, sem ekki gafst mikill kostur á að bruðla.  En svo vinnum við á sambýli, sem staðsett er í Laugarásnum og þar sem kynslóðaskipti hafa verið að eiga sér stað í húsunum þarna, þá get ég sagt þér að "bruðlið" og bjánaskapurinn fór ekki fram hjá okkur.

Um leið og nýir eigendur fengu húslykla, var hafist handa við að "moka" út, þannig að ekkert stóð eftir nema út- og burðarveggir......og síðan hófst  "endurbyggingin" og mublering....beint úr búðinni.

En ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að flest það fólk, sem þarna keypti hús, hafi starfað í fjármálageiranum...... og ég vona svo sannarlega, þeirra vegna og barnanna þeirra að þau hafi haldið vinnunni sinni.

Sigrún Jónsdóttir, 9.11.2008 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband