Tilfinningajól 2006

Þessi jól eru, eins og mörg jól, þrungin miklum tilfinningum. Söknuði eftir því sem var en um leið tilhlökkun fyrir því sem koma skal. Hótel jörð er skreytt og einir koma og aðrir fara. Ég get misst mig í að hugsa um fortíðina og það sem var, ég get líka horft í kringum mig, - veit af Evu, elstu dótturinni í góðum höndum hjá tengdaforerldum í Danmörku, sonurinn og dóttir sofandi í hreinu líni og allt skúrað og skrúbbað og bráðum set ég hangikjötið upp til að fá jólalykt í húsið. Bara eftir að dúlla mér við að klára að pakka inn og skrifa e-hvað fallegt með því. Ég þarf einskis að sakna.

Börnin mín eru föst í því að jólin séu hálfónýt afþví að pabbi og mamma eru skilin. Þau sjá fortíðina í hillingum, með "soft-lens" þar sem pabbi (með syngjandi jólabindi) tekur upp hnífinn og sker í jólasteikin og mamma brosir og hlær dillandi hlátri að þessum skemmtilega pabba. Vissulega voru góðir tímar, - en .....ef við horfum á bíomyndina aftur eftir ákveðinn fjölda ára, þá er hún sjaldnast eins og við mundum eftir henni.

Dag í senn, eitt andartak í einu.....Ég er innilega þakklát fyrir það sem ég hef; heilsu, vellíðan, börnin mín, systkini og hálfelliæra krúttlega mömmu, skemmtilegt starf, notalegt lítið hús, lítinn bíl og svona mætti lengi telja.

Ég vona að pabbi (sem dó 1969) lesi bloggið mitt Wink því ég hugsa til hans á jólunum.... og auðvitað oftar. Ég vona líka að Torfi, vinur minn,  lesi bloggið mitt, en hann var að kveðja þennan heim fyrir aldur fram núna rétt fyrir jólin.

Ég vona að allir sem hafa misst og sakna, snúi sér að því að hugsa hvað þeir eigi nákvæmlega núna.  Ég óska þess að fólk sé glatt og snúi sér að hinum lifandi (sem gætu verið farnir á morgun)  en gleymi sér ekki í söknuði yfir því sem var.

Gleðileg jól kæru bloggarar, - bloggvinkonur, vinir nær og fjær, allir sem eru í veislu í himnasölum - við verðum að hætta að væla yfir ykkur! Þið eruð auðvitað með ykkar jólaveislu og ekki volandi yfir okkur hér í jarðvistarpuðinu! ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birna M

Svo sannarlega, Gleðileg Jólin

Birna M, 24.12.2006 kl. 15:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband