Neyðin kennir naktri konu ........

Öll mín hunds-og kattaár hef ég haft lifandi jólatré um jólin. Í einhverju kæruleysi (sem kom fram á fyrra bloggi) ákvað ég að fara að kaupa jólatré á Þorláksmessueftirmiðdag. Ég keyrði í Garðheima, en þar var ein kræklótt einmana fura hangandi eftir, og eina ástæðan fyrir að ég hefði kannski keypt hana væri afþví ég vorkenndi henni! ... Öll jólatré uppseld, sagði maðurinn. Það runnu á mig tvær grímur, eeeenn... ég brunaði í Blómaval og þar var ekki einu sinni eitt hangandi tré! Þar sagði sá sem sat fyrir svörum (en það voru sko fleiri en ég að leita að jólatré) að allt væri uppselt, en spurst hafi að jólatré fengjust ennþá á Blöndusósi!

Ég hringdi í dóttur mína og spurði hvort hún þyldi gervijólatré ? Hún maldaði e-hvað í móinn svo ég ákvað að bíða amk með að kaupa það. Ég keyrði fram hjá nokkrum stöðum sem ég hafði séð jólatréssölu í fyrra, en allt kom fyrir ekki.

Á Þorláksmessukvöld var allt klappað og klárt, jólatrésfóturinn stóð og gapti upp í loftið á rauðum filtdúk. Úfff.... hvað var til bragðs ? Átti ég að kaupa gervi, átti ég að skreyta stóru  plöntuna sem er í stofunni, eða átti ég að senda soninn í Heiðmörk ?... enginn kosturinn var fýsilegur og sá síðastnefndi kolólöglegur.  Á aðfangadagsmorgun tók ég ákvörðun að kaupa gervijólatré. Var mætt í Hagkaup kl. 9:00 en gervijólatrén uppseld, fór í Rúmfatalagerinn og þeir voru búnir að selja sýningareintakið! - hringdi í Byko og Húsasmiðjuna o.s.frv..... æææææ... ekki einu sinni gervijólatré :(

Þarna sat ég í bílnum og þykkt "tænkesky" kom upp af honum.. þá mundi ég eftir jólatré sem enginn var að nota!  Á vinnustaðnum mínum stóð fullskreytt gervijólatré 180 cm hátt og .... ég hringdi auðvitað í vinnuveitandann og honum fannst virkilega fyndið að ég myndi taka jólatréð! Þetta væri líka ágæt hugmynd að Sigga á skrifstofunni skreytti svona fyrir mig. Happy  Ég brunaði heim, fékk soninn til að koma með mér á Toyota Hilux jeppa (sem ég nefndi víst Landcruiser nýlega við forhneykslun barna minna) - og við læddumst eins og Jasper og Kasper og Jónatan inn í skólann, tókum ljósin úr sambandi og út með tréð í allri sinni dýrð - með perum, skrauti og alles.  Inn í skott á Hiluxnum og heim. Nágrannar í raðhúsalengjunni ráku upp stór augu þar sem við komum trillandi með fullskreytt jólatré fyrir framan eldhúsgluggann hjá þeim. Mér leið nú svolítið eins og að við hefðum nappað þessu einhvers staðar! .. EN jólatrélaus erum við ekki þessi jól - bætti öllu mínu dóti á tréð og nú stendur jólatré í stofunni - og reddingin virkaði vel!

Neyðin kennir naktri konu að spinna og mér að redda jólatré!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birna M

Einmitt það sem henti mömmu þegar hún fór með dóttur minni og ætlaði að gefa henni jólatré. Ekki stingandi furunál í búðinni. Svo þær lentu á gervitré. Við hinsvegar keyptum tréð fyrir tveimur til þrem vikum og það er á þriðja metra. Svo komu þær til mín og sóttu kúlur.

Birna M, 25.12.2006 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband