Færsluflokkur: Bloggar

Eins manns geymsludót er annars manns fjársjóður ... það þarf 80 milljónir

Ég hlustaði í viðtalið við Auði Guðjónsdóttur og dáðist að baráttu hennar fyrir bættu lífi mænuskaddaðra.

Þegar ég hlusta á fólk eins og hana og las þetta viðtal við Tryggva Ingólfsson, þá get ég ekki annað en þakkað fyrir þá heilsu sem ég sjálf hef og börnin mín.

Svo fór ég að hugsa meira, og fór að íhuga hvernig ég gæti gefið í þessa söfnun.. og fékk þá hugmynd sem mig langar að deila.

Ég er búin að dröslast með kassa af vínyl plötum milli búa. Hef ekki kunnað við að henda þeim, þó ég sé eflaust syndsamlega dugleg við að losa mig við hluti. Nú hef ég listað upp, þær 60 plötur sem í kassanum eru, í misjöfnu ásigkomulagi - en held allar vel spilanlegar, og sett þær á uppboð á www.selt.is  -  smellið síðan á safnarar og þar á eftir tónlist, kem ekki linknum inn. Nú er búið að bjóða í þetta 2650,- einhver sölulaun eru af þessu, held 8,5 % en mismuninn mun ég gefa í söfnunina á föstudagskvöldið, en ég lét uppboðið enda þá og vonast til að geta gefið mun meira. Kissing

Ef þið vitið um einhvern vínylplötusafnara - endilega bendið honum á plöturnar og góðan málstað í leiðinni!

Ég dáist að æðruleysi og dugnaði Tryggva Ingólfssonar.

 


mbl.is Vildi að ég fyndi til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

..... nýjasta fíknin....það er alveg öruggt....

...

 


mbl.is Tölvufíkn veldur brottfalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýst er eftir manni ...

Hann fór á miðstjórnarfund hjá "bíp" flokknum klukkan 1800 og hefur ekki komið heim síðan. Hann var klæddur í teinótt jakkaföt, skyrtu m/axlabönd og ljósan rykfrakka. Örlítið sérvitringslegur (ég féll fyrir sérvitringslúkkinu)  hávaxinn og myndarlegur...

Spurning hvort að hann hafi lent í "óæskilegri hópamyndun"  og hvort að senda þurfi einhverjar konur út af örkinni til að rölta um og fylgjast með hópnum. Ekki fer ég nú að rölta eftir mínum eigin manni eða hvað?  Verðum að sýna samfélagslega ábyrgð konur!

Best ég bjóði vinum hans næst heim, svo hann sé ekki á þessu flandri útí bæ svona seint um kvöld.

Til skýringar; það þarf eiginlega að lesa færsluna hér á undan til að skilja ofangreint.

Góða nótt. Kissing


Er "rölt" foreldra á eftir börnum annarra utan útivistartíma það eina sem við getum gert fyrir þessi börn ?

Tekið af síðu heimilis og skóla:

"Margir foreldrar hugsa sem svo: Barnið mitt er ekki úti á kvöldin. Ég sé um minn ungling og af hverju ætti ég að vera að eyða tíma mínum í að passa annarra manna börn?
Við þessu er einfalt svar:

Með því hefur þú áhrif á það félagslega umhverfi sem þú og barnið þitt býr við. Því færri sem nota vímuefni, eru lagðir í einelti eða beittir ofbeldi af öðru tagi, því betra og öruggara er það umhverfi sem unglingurinn þinn býr við. Við berum öll ábyrgð á okkar nánasta umhverfi, hættum þess og hvar unglingar geta haft athvarf til neyslu óæskilegra efna og hópamyndunar. "
  

Hvað er verið að meina? Ætti Gunna að fara út frá sínum börnum á unglingsaldri (og jafnvel yngri systkinum)  á kvöldin, og þar með skilja þau eftir ein heima, til að líta eftir börnum Önnu og Palla? - og hvar eru Anna og Palli ? Eru þau sjálf í óreglu, eða eru þau þessar týpur sem virða ekki útivistarreglurnar og láta engan segja sér hvað má og hvað ekki, móti boðum og bönnum? .. 

Auðvitað eru til börn og unglingar sem foreldrar ráða hreinlega ekkert við, þau eru í uppreisn - og fara bara út þegar þeim sýnist svo. Það er vissulega vandamál allra. En mér finnst ekki hægt að álása fólki fyrir að vilja vera heima hjá börnum sínum og væna það um að sinna ekki félagslegri ábyrgð. Einhverjir foreldrar geta valið það að fara í foreldraröltið, en ég vil benda á aðra leið.

Ég vann mikið í foreldrastarfi í minni barna-og unglingaforeldratíð. Mitt starf fólst mikið í því að fara t.d. í ferðir með börnunum og veit ég að þau eru þakklát fyrir það í dag. Fótboltamót, skíðamót- og æfingaferðir, kóramót og þar fram eftir götum. Þá leit ég vissulega eftir börnum annarra og hafði gaman af. "Fórnaði" mörgum helgum í þetta og hef aldrei séð eftir því, því auðvitað gaf þetta mér líka mikið að fá að fylgjast með leik og starfi barnanna minna og félaga þeirra, auk þess sem ég kynntist þeim sumum náið.

Það má segja að ég hafi farið aðra leið í að taka ábyrgð á annarra börnum, en foreldrarölt. Það var með því að vera örlát á mitt  heimili. Bæði þegar börnin voru yngri og seinna sem unglingar. Börnin voru býsna dugleg að koma með félagana heim, horfa saman á videó (sem þá var) eða bara vera saman.

Eftir samræmd próf kom heill hópur heim með yngri pakkanum mínum sem voru tvö, og skemmtu sér hið besta  þar sem borið var í þau brauð með pepperoni og pizzasósu og kók, og þótti þeim mikið til um að fá slíkar trakteringar.

Þetta kostar vissulega fórnir, því að unglingum fylgir oft hávaði, en ég tel þeirri fórn vel varið.  

Talað er um "óæskilega hópamyndun" í þessum texta frá Heimili og skóla, - unglingar eru hópsálir og langar auðvitað að hittast, ég held það sé ekkert óeðlilegt. En ef þau mega ekki hittast inni á heimili hjá neinum - þá fara þau að sjálfsögðu út.

Þetta er sem sagt mín skoðun á þessu og mín reynsla - sem ég vona að gagnist einhverjum sem er farinn að óttast unglingsár barnanna. Ég gerði það aldrei. Fólk sagði oft; "bíddu þar til barnið verður unglingur-þá byrja vandamálin" .. Ég bíð enn eftir unglingavandamálunum, "börnin" mín eru yngri eru að verða 22 ára og sú eldri 27 ára. Ég veit að ég var heppin að þessu leyti, og það eru stundum þær aðstæður í lífi unglinganna okkar, sem við höfum líka rætt (eins og eineltið hræðilega) sem ýtir þeim út í að deyfa sig með eiturlyfjum, eða jafnvel byrja á einhverju til að reyna að falla í kramið. 

SAMVERA okkar með unglingunum, og vissulega eftirlit, er lykilatriði. Einnig að bera virðingu fyrir þeim sem persónum.

Ég mæli með því að í staðinn fyrir að setja fókusinn á "foreldrarölt" úti á dimmum og köldum kvöldum þar sem við eltum unglingana, verði markmiðið að stefna unglingunum inn þar sem við getum nálgast þau og kynnst á miklu eðlilegri (að mínu mati) forsendum. 

Fæ alltaf þessa "Jón spæjó" tilfinningu þegar ég hugsa um foreldraröltið. Wink
 


Hversu oft hafa mæður sjúklinga eða feður ekki þurft að taka ráðin í sínar hendur?

Dóttir mín var einu sinni búin að vera með yfir 39 stiga hita í viku, og pabbi hennar fór með hana til heimilislæknis, því að okkur leist ekki á blikuna. Ég var í vinnunni og fyrrv. maðurinn minn hringdi eftir læknisheimsóknina og sagði, "hann hlustaði hana og fann ekkert, hann sagði þetta eflaust bara flensu." .. Ég veit ekkert af hverju ég vissi betur, en ég tók upp símann, hringdi í lækninn og bað um röntgenmyndatöku af lungum og sagði honum (lækninum) að það væri óeðlilegt að barn væri með yfir 39 stiga hita í rúma viku, og ég teldi hana með lungnabólgu.

Læknirinn pantaði lungnamyndatöku, "fyrir mig" sem hún fór síðan í og í ljós kom að barnið var með lungnabólgu og þurfti lyf. Hún var ekki mikill skrokkur fyrir, þessi elska, og lyfin fóru illa í hana og enduðum við báðar inni á spítala, þ.e.a.s. hún sjúklingur og ég aðstandandi í nokkra daga, þar sem hún þurfti að fá sýklalyf í æð.

Þetta er bara svona pínu brot af minni reynslu. Ég hef sent fleiri til lækna og hreinlega sagt þeim hvað er að þeim, ... hvernig skyldi standa á því að (þáverandi) skrifstofukona hafði meira "hyggjuvit" en læknirinn ? ..

Auðvitað er hægt að treysta læknum í flestum tilfellum og það er auðvitað fullt af sjúklingum sem eru rétt greindir og fá rétta meðhöndlun, en einn sem fær ranga er því miður einum of margir og getur kostað of mikið - þá er ég að tala um mannslíf en ekki peninga.

Mótrökin yrðu eflaust, "hvað ef ég hefði haft rangt fyrir mér." ....

Ragna Erlendsdóttir berst fyrir barninu sínu, - skil hana vel og dáist að henni.


mbl.is Fólk leiti annars álits
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntavegurinn genginn eins og Fimmvörðuháls

Þegar ég fór í göngu nýlega yfir Fimmvörðuháls, hafði allt göngufólki sama takmark:

Það að komast í Þórsmörk og halda veislu í framhaldinu. Ég hafði lesið á upplýsingavef að þessi ferð væri um 9-10 tímar, með stoppum.

Alveg frá upphafi hafði verið í boði að hópurinn myndi skiptast; þ.e.a.s. um tuttugu af sjötíu manns ætluðu að þiggja rútufar hluta leiðarinnar, sem var í raun mest upp í móti.

Þegar við hin, fimmtíu höfðum gengið í ca. 30 mínútur, sáum við að teygst hafði úr hópnum og ákveðið var að skipta honum í tvennt. Þá sem völdu að ganga hratt og þá sem völdu að ganga hægar.

Þorgerður Katrín, menntamálaráðherra talaði mikið um landakort og vegalýsingar á nýafstöðnu menntaþingi, en lítið eða ekkert var rætt um hraðann á þeim sem ætluðu að nota vegaslóðann.

Þeir sem notuðu rútuna, eru að sjálfsögðu eins og þeir nemendur sem þurfa aðstoð upp erfiðasta hjallann. 

Þeir sem vilja fara hratt, eru þeir sem finnst ekkert gaman að ganga, nema spretta vel úr spori og svitna ærlega.

Þriðji hópurinn er þá sá hópur sem vill fara nokkuð hratt og örugglega, en gefa sér þó tíma til að njóta útsýnis, taka sér góðar pásur, eins og nemendur sem vilja njóta meira félagslífs.

Það sem gerist þegar stór hópur gengur saman, er að einhverjir dragast aftur úr og aðrir vilja ganga hraðar. Ef þess er krafist að sá hópur sem vill ganga hraðar er alltaf að bíða eftir hinum, fer honum að leiðast, hann kólnar niður og gleðin yfir göngunni minnkar. 

Það sama er um miðhópinn, honum leiðist að bíða eftir þeim hægfarnasta, og bæði hægfarnasta og miðhópnum leiðist að láta bíða eftir sér og finnst þeir vera skyldugir að flýta sér því þeir, annað hvort, geta það ekki, eða njóta þá ekki göngunnar sem skyldi.

Að setja sama tíma á alla nemendur t.d.  í framhaldsskóla; 4 ár, er að mínu mati orðið úrelt fyrirbæri. Ég held að við getum minnkað skólaleiða að miklu marki og brottfall í framhaldi af því.

Allir eiga að geta keppt að sama lokamarkmiði, á sínum hraða innan ákveðins ramma, ef vel er að verki staðið.

Góðan dag annars, á þessum haustmorgni...


Kominn háttatími og ég tek hann Sigurð með mér í rúmið ...

Sigurð Pálsson, svo enginn ruglist nú á Sigurðum, eða nánar til tekið Sigurð Pálsson, Minnisbók. LoL Er á síðu 23, og kaflinn sem ég er að fara að lesa heitir "Útlendingur í lest" ..

Ef einhverjum leiðist gæti hann spunnið smá sögu um útlending í lest, gæti margt skemmtilegt gerst hjá útlendingum í lest. Sem betur fer eru engar lestar á Íslandi, því þá gætu einhverjir komið og gert húsleit í lestinni, eða þannig.

Góða nótt. Kissing


www.nymenntastefna.is

Nú er ég alveg að missa mig í blogginu...Cool

Ég sat hálft menntaþing á föstudaginn, en hrökklaðist heim þegar það var hálfnað vegna áðurnefnds lasleika, sem eigi verður minnst á hér.

Þetta hljómað spennandi að miklu leyti, og ætla ég ekki að endurtaka allt sem þar fór fram hér, en endilega kíkið á www.nymenntastefna.is og fylgist með þróun.

Langar samt að minnast á það sem ein fyrirlesan (fyrirlesari í kvk), innflutt frá Ameríku var að ræða, það var m.a. að góð kennsla væri mæld í glampanum í augum nemendanna. S.s. áhuganum. Fyrir mér er þetta svolítið "old news" þar sem ég á bakgrunn í sölumennsku.

Stærðfræðikennari er í raun eins og sölumaður sem þarf að "selja" nemandanum stærðfræði. Selja honum að það sé áhugavert að "kaupa" hana. Góður sölumaður getur selt þér allan andsk... EN það sem skiptir máli er að salan sé svokölluð "gæðasala" sem þýðir að bæði sölumaður/kennari og viðskiptavinur/nemandi séu ánægðir með söluna! ..

En við viljum ekki aðeins selja nemendum stærðfræði, ensku, íslensku o.s.frv.

Við viljum skila frá okkur ánægðum nemendum, sem hafa þroskað með sér samskiptahæfni, jákvæða sjálfsmynd, öryggi í framkomu o.s.frv. Það hlýtur að vera markmið hvers skóla.

Við þurfum að styðja við bak þeirra fötluðu til að ná árangri, styðja við bak meðalnemandans  OG til þeirra sem eru með mikla greind. Síðasti hópurinn er stundum afskiptur, en þar held ég að við séum að klúðra.

En hvað er skólakerfið að gera fyrir þessa  yndislegu "nörda."  Toga þá niður að meðalmennsku? ..

Hraðbraut er einkarekinn skóli, valkostur fyrir þessa krakka (nú er ég eins og auglýsing Tounge) en ef ekki væri um einkarekinn skóla að ræða væri enginn skóli með það kerfi sem við bjóðum upp á - nýtt fersk kerfi. Lotukerfi - þar sem þrjú fög eru tekin í einu og kláruð á sex vikum. Loturnar verða allt í allt 15 og þá er komið stúdentspróf. Menntakerfið í framhaldsskólum hefur verið staðnað í haust og vorannir, hefðbundna kennslu; kennari - nemandi, á meðan við höfum boðið hefðbundna kennslu þrjá daga og tvo daga sjálfsnám, þar sem nemendur geta leitað til kennara ef og þegar hentar þeim....

Já, já, en ítreka við foreldra og nemendur að kíkja á síðuna www.nymenntastefna.is

og svo held ég að það sé rétt að fá sér toddý með sjónvarpinu. LoL


Ertu bænheit/ur ?

Í kvikmyndinni Bruce Almighty er mikil fílósófía um bænina. Í þessari er sýnt fram á Kaosið sem myndast þegar allir biðja t.d. um vinning í Lottó. Það geta auðvitað aldrei allir sigrað í Lottóinu!

Það er oft talað um bænheitt fólk, sem þýðir þá að líklegra er að bæn þess nái fram að ganga heldur en annarra.

Hvað skyldi nú gerast ef að helmingur Ameríkana biður um að McCain sigri og hinn helmingurinn Obama, yrðu þá úrslit í samræmi við bænahita kjósendanna?

Ég er ekki að gera lítið úr bæninni, ... bara velta þessu upp hvernig hún er notuð. Ég á eina reynslu þar sem ég var í bænahópi og við báðum fyrir konu sem átti erfitt. Hún hafði ekki hugmynd um að við vorum að biðja fyrir henni, en sagði mér í óspurðum fréttum að hún hefði fundið fyrir einhverri skrítinni orku í kringum sig kvöldið áður.

Alveg frá því ég var smástelpa bað ég ákveðin bænavers sem pabbi kenndi mér og signdi mig, og kenndi síðan börnum mínum það. Kannski er það bara mitt val, en mér finnst ég vernduð þegar ég bið bænirnar mínar - og það dugar mér. Mér finnst líka gott að biðja fyrir börnunum mínum og það róar mig, þegar ég hef áhyggjur af þeim.

Bænahiti minn hefur aldrei verið mældur, en hef heyrt - eins og fram kemur í upphafi af svona bænheitu fólki. Gaman væri að heyra einhverja reynslu af bænahita eða öðru sem viðkemur bæninni.

Bænir eins og allt annað þarf að vera innan skynsemismarka, þýðir ekki að biðja Guð um að bjarga sér eftir að búið er að stökkva fram af 10 hæða byggingu! ...


Óbragð af þessu "trúarbragði"

Það eru til góð trúarbrögð og það eru til vond trúarbrögð. Svo eru til (trúar)bragðarefir og þessir menn voru svo sannarlega slíkir. Svo verður nú að segjast að þessi kona virkar býsna auðtrúa og "bíp" .. fellur undir trúarnöttaragreiningu eflaust, segi ekki meira um hana.

Ég get ekki fullyrt að öll brögð séu vond, því vissulega finnst mér sum brögð góð. Bragðið af súkkulaði er t.d.mjög gott, en mér finnst ekki gott bragð af hákarli. Sumir borða hákarl ÞÓ þeim finnist hann vondur, en það er önnur saga... 

Sumur matur er hreinlega eitraður og skynsamt fólk borðar ekki eitur. Sum trúarbrögð eru sem eitur (eins og dæmin hafa sannað) og ætti fólk að láta þau vera. Að vísu eru trúarbrögðin sem slík aldrei verri en sá sem framkvæmir þau, ekki frekar en að byssa er ekki slæm nema einhver sé skotinn með henni, eða hvað?

Kærleikur er sætur svo það ætti að vera í lagi að fylkja sér í kringum hann og trúa á hann.

Þar sem ég er lasin heima, og mér leiðist óbærilega að vera lasin, sérstaklega þar sem karlinn er farinn út á land í ammæli sem ÉG missi af,  þá megið þið alveg röfla smá yfir þessu EN ekki vorkenna mér þá fer ég að grenja. Crying Ber færslan kannski vott um að konan sé með hita? LoL

Lifið heil og ekki 1/2 ... né í 1/4 ..


mbl.is Kynmök til að aflétta bölvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband