Færsluflokkur: Bloggar

Hélt þetta væri bónvélin!

Ég sit hér uppí skóla að reyna að vinna upp verkefni vikunnar, en ég varð eitthvað annars hugar í vikunni, veit ekki alveg hvers hugar Whistling ....  

Fann einmitt gólfið hristast áðan, en var svona 50/50 viss um þetta væri jarðskjálfti. Nú er s.s. komið í ljós að þetta var ekki bónvélin sem verið er að brúka hér frammi heldur jarðskjálfti.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og hvert annað hundsbit .. og umvafin englum.

Á mánudaginn fékk ég niðurstöður úr rannsókn á bletti sem var fjarlægður af öxlinni. Niðurstaðan hljómaði verr en hún í raun og veru er. Þ.e.a.s. bletturinn var sortuæxli (grrr). Mér brá auðvitað, en er búin að fara í test á lifur og svoleiðis og það er hreint, svo ég er búin að ákveða að þetta sé staðbundið og tek þessu því sem "hverju öðru hundsbiti"..

Er búin að vera kjaftstopp á blogginu út af þessu, en svo fattaði ég auðvitað að krabbamein sem önnur mein eru bara ekkert feimnismál. Það er allt of algengt til að þegja um það.

Ég hef líka komist að því (vissi svo sem af því fyrir) að ég á yndislega ættingja og vini, sem hafa sent mér ljós, fallegar hugsanir, hlýju, engla og kærleika og ég veit ekki hvað, og það er góð tilfinning að vera "umvafin englum" .. Heart

 


Eitt af uppáhalds....

 Góða helgi, knús og kjams Heart


Kósý heima með kakó og kertaljós

Stundum er nú bara notó að snjóa inni. Man eftir svona veðri í gamla daga þegar krakkarnir voru litlir. Þá brutumst við út í bakarí og keyptum bakkelsi og hituðum svo kakó þegar heim var komið, þar sem við sluppum síðan naumlega til baka inn í hús, rjóð og hress. Það var svo gaman að berjast við storminn! W00t .. Nostalgía hvað?

Væri alveg til í að sitja föst heima svona einn til tvo daga yfir veturinn, ó - já, já.


mbl.is Skólastarf fellur niður vegna veðurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hondan mín (eða vondan mín)

Ég ek um á svona "týpískum ömmubíl" eins og Vala dóttir mín orðaði það þegar ég fékk mér Hondu Jazz. Hann þykir s.s. ekki mjög töff. Keypti hann nýjan árið 2005 með myntkörfuláni og alles, en var svo heppin að ég borgaði það upp fyrir ca. ári síðan þegar ég seldi húsið mitt.

Þessi bíll hefur þjónað mér býsna vel, og ég honum reyndar. Núna er komið að skoðun, reyndar í júní 2008! Blush Er að fara á eftir, en fyrst þarf ég að fara á smurstöð, láta skipta um peru í framljósi og smyrja (held ég). Síðan var ég að frá bréf frá Bernhard um að komið hefði í ljós að handbremsan væri gölluð í þessari árgerð og bíllinn minn ætti að koma í "aðgerð" hehe.. fyndið orðað, þar sem skipt væri um handbremsu, tæki það aðeins 30 mínútur og hægt væri að bíða á meðan (og drekka vel soðið kaffi og skoða Séð og Heyrt frá 2004 eflaust)..

Vondan hennar ömmu (eins og Máni kallar bílinn minn) verður s.s. aðaldæmið í dag. Læt vita hvort ég fæ grænan eða .. 2009 skoðun! Smile

 


ESB for DUMMIES ?

Ef ég væri spurð hvort ég vildi að Ísland sækti um ESB aðild gæti ég ekki svarað já eða nei, því ég er ekki nógu fróð um í hverju það fælist. Ég get ekki ímyndað mér að 60% landsmanna viti það, þ.e.a.s. allir þeir sem kjósa þessa aðild. Auðvitað hafa einhver prósent kynnt sér málið.

Það sem þyrfti eflaust að gera væri að setja þverpólitíska nefnd til að skoða hvaða áhrif það hefði á Ísland að verða aðili að ESB. Síðan mætti gefa út ritið "ESB for Dummies" .. svona í " for DUMMIES" seríuna....  (eða gefa út upplýsingar á mannamáli kosti og galla).

Án þess að þekkja málið (eins og áður hefur komið fram) held ég að þarna þurfum við að ganga sérlega hægt um "gleðinnar" dyr.

       

    

 


mbl.is Minnkandi áhugi á ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu ári nær eilífðinni ..

Í dag færðist ég einu ári nær eilífðinni eins og lille bror i Danmark orðaði það svo skemmtilega í morgun.

Fékk morgunsöng frá Tryggvunum í morgun klukkan 7:30, að vísu var sá yngri hálfsofandi, og perlueyrnalokka í gjöf, fallega og klassíska. Einkasonurinn hringdi svo fljótlega upp úr því og svo hringdi litla fjölskyldan og söng afmælissönginn í símann; Eva, Henrik, Máni og litla krúsulína í bumbunni hefur eflaust tekið undir fyrir "amma sín".. Talaði við Völu mína í gær, en klukkan hjá henni er 3 að nóttu í Flórídunni. Hún er væntanleg 17.desember heim í heiðardalinn!

Í hádeginu ætlar Tryggvi eldri að bjóða mér á VOX, úúúú.. en hann er að fara að halda árshátíð með badmintonfélögunum í kvöld (strictly guys-en verður pikkaður upp áður en þeir fara á Vínbarinn, Thorvaldsens eða einhvern svoleiðis veiðistað LoL) .. en ég ætla ég að taka litlu fjölskylduna, Tobba og Tryggva yngri á barnvænan matsölustað, svo það verður tvisvar út að borða fyrir mína í dag, og það í miðri kreppu. Wizard ... borða bara grjónagraut um helgina í staðinn!

Eigum öll góðan föstudag. Heart

 


X D(avíð) ?

Ég er ein af þeim sem tilheyri ekki aðdáendaklúbb Davíðs Oddssonar og hef aldrei gert. Vil helst ekki heyra á hann minnst, en hef ákveðið að tileinka honum þessa færslu og svo verður það "clean cut"..

Ég heyri af Davíð allsstaðar, Davíð er til umræðu í matarboðum, saumaklúbbum, fjölskylduboðum, á kaffistofunni, við morgunverðarborðið, á BLOGGINU (auðvitað), en vonandi ekki í rúminu??  Fólk virðist skiptast í að annars vegar dýrka jörðina sem Davíð gengur á og hins vegar að óska þess að sú sama jörð myndi gleypa hann með húð og krullum.

Ég fór í matarboð um daginn með skemmtilegu fólki, en umræðan datt alveg út í að rökræða efnahagsmálin og þar af leiðandi Davíð Oddsson. Þetta er eins og pest sem smýgur inn um allt. Eftir matarboðið vissi ég meira um hvað Davíð væri að aðhafast heldur en fólkið sem ég kom til að hitta! .. Okkur konunum tókst að vísu að slíta okkur lausar frá borðhaldinu og fara að huga að áhugamálum húsfreyjunnar svona alveg í blárestina, en þá vorum við allar orðnar orkulausar og þreyttar af orkusuguefnahagsumræðu tengdri áðurnefndum Dabba.

Einhvers staðar verða að liggja mörk. Einhvers staðar verður fólk að fá hvíld og njóta þess að hittast og hafa huggulegar kvöldstundir án Davíðs og krepputals.

Látum ekki Davíð spilla vina- og fjölskyldusamkomum, nóg hefur hann gert samt!


Ég er sko alltaf með það..

Ég byrjaði einu sinni í sálfræðinámi, endaði það aldrei ...(en það er önnur saga) en Þegar við fórum að lesa almennu sálarfræðina varaði kennarinn okkur við því að þegar við færum að lesa um sjúkdómseinkennin, myndum við öll þekkja þau í sjálfum okkur. Hann hafði auðvitað rétt fyrir sér. Geðveiki, eða einkenni hennar, er í raun bara eins og við öll erum, hún er bara mjög ýkt! W00t ..  Við höfum flest  upplifað að fara upp og niður, það er bara eðlilegur "biorythmi" ... á meðan hann teygir sig ekki of langt upp eða niður.

Eins og hægt var að finna sálarleg einkenni í sálfræðibókinni, getum við fundið ýmis líkamlega einkenni með að gúgla! Ef ég finn hnúð undir hendinni, þjáist af hæsi í langan tíma eða maginn er skrítinn, finn ég alltaf einhvern hræðilegan sjúkdóm þegar ég slæ inn einkennin! Tounge ..

Í morgun var skorinn af mér ljótur blettur, já, alvöru blettur, suma bletti get ég ekki skorið burtu (verð að lifa með þeim)... og ég var auðvitað búin að gúgla svona bletti og fullvissa sjálfa mig um að ég væri með húðæxli af verstu gerð! .. Auðvitað trúi ég þessu öllu mátulega, en svona þegar það dettur í mann, málar maður skrattann á vegginn, eða gerir jafnvel úlfalda úr mýflugu, eða bara nefndu það!!.. LoL  .. held þetta kallist móðursýki. Að vísu ýki ég þetta svona oggu pinku pons, enda ekki skemmtilegt frásagnar annars!

Jæja. Ég fékk tvö (mjög góð) ráð hjá lækninum; Ekki byrja á jólahreingerningum næstu daga og ekki fara í "work out" eins og hann orðaði það. Saumurinn er á öxlinni og ekki má rífa upp sauma, hvorki með handlóðum né ryksugu! ...

 


Ég er Egill Helgason!

Samkvæmt könnun (hávísindalegri örugglega) á fésbókinni, sem heitir: Hvaða bloggari ert þú? ..er ég:  

Egill Helgason
Ég veit ekki hvaða aðrir bloggarar eru í boði, en þeir sem eru á fésbókinni geta væntanlega prófað þetta með því að smella
Ég er sko hrædd um að ég hafi ekki tærnar þar sem hr. Egill hefur hælana í blogginu, en kannski er bara enginn þarna í flórunni sem er nær mér LoL 
Ef einhver nennir að prófa þetta, er  algjör skylda að setja niðurstöðuna í athugasemdir hjá mér!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband