Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 17. nóvember 2008
Óvissan var til Akureyrar
Jæja, nú ætla ég að fórna dýrmætu hádegishléi í vinnunni til að segja frá óvissuferðalaginu sem lagt var upp í á föstudag og komið heim úr í gær, sunnudag.
Óvissan var s.s. í mínu boði, fyrir manninn minn til Akureyrar, hvorki meira né minna. Hótel Akureyri var gististaðurinn, matarboð hjá vinum fyrsta kvöldið, bíltúr í böðin í Mývatnssveit, heitt kakó og ostabrauð í Dimmuborgum og Bláa kannan kaffihús, grúskað í Eymundsson, Músagildran í leikhúsinu og svo (mjúkt) pasta á veitingastaðnum Strikinu. Skoðunarferð um innbæinn þar sem öll fallegu gömlu húsin eru.
Það óvæntasta við ferðina var að ég var búin að hafa samband við Hjörleif, vin Tryggva frá æskuárunum, og setja hann inn í óvissufléttuna og tóku hann og konana hans, Sigurbjörg þátt í því að koma honum á óvænt. Málið er að ég þekkti þau lítið sem ekkert, hafði bara séð þau í stóru boði einu sinni, svo þetta kom honum svakalega skemmtilega á óvart! Mikið "plot"..
Well, þetta tókst afar vel, fengum gífurlega fallegt veður á laugardag í Mývatnssveitinni og komum glöð og kát heim aftur! ... Held ég hafi ekki rekist á neina bloggvini, ... en aldrei að vita, oft erfitt að átta sig á mynum af fólkinu!
Heimilið kvatt.. Hjölli og Tryggvi á flugvellinum á Akureyri
Hjölli og Tryggvi á flugvellinum Á kaffihúsinu Te og baka
Fallegt í Mývatnssveit Í lóninu Frost og funi ..
Kakóveisla í Dimmuborgum
Hótel Akureyri
Drykkur í hléi á Músagildrunni Leikfélagið Mín á leið í leikhús
Kirkjan hans Nonna Kaþólska kirkjan Útsýnið úr hótelinu
(Þegar ég setti myndir og texta inn, var þetta voða fínt 4 myndir í röð í hverri línu og texti fyrir neðan, en þetta riðlaðist ... laga kannski siðar þegar ég hef tíma!)Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Föstudagur, 14. nóvember 2008
Óvissa fyrir einn
Þann 1. september sl. byrjaði ég að plana óvissuferð fyrir manninn minn, en við höfum komið hvort öðru á óvart svona af og til sl. tæp tvö árin (en það er nú allur tíminn sem við höfum verið par). Í fyrstu óvissuferð bauð ég honum á hótel Heklu, í mat, gistingu og göngutúr, síðan hann mér á Búðir í svipaðan pakka. Nú er s.s. komið að mér aftur, og hefst ferðin í dag kl. 16:00. Þetta er brilljant hugmynd fyrir hjón/sambúðarfólk/vini o.s.frv. Veit ekki hvort er skemmtilegra að vera sá aðili sem býður upp á óvissuna eða leggur út í óvissuna. Bara gaman að koma á óvart og vera komið á óvart. ... Ég kjaftaði að vísu svolítið af mér (me and my big mouth) í gær, að vísu undir parkódínáhrifum. Hélt að ferðin myndi fara í vaskinn þar sem ég gat ekki séð að þetta gengi upp fyrir viku síðan, miðað við að ég var við "dauðans dyr" af kvölum. Svona getur allt breyst og er ég bara aum núna, og byrjuð að vinna og alles. Er auðvitað slöpp en að komast í gír.
En s.s. er á leið útúr bænum (býð sko ekkert til útlanda eins og árferðið er - það var að vísu betra 1.sept þegar ég hóf að plana, en það er í dag...þarf ekki nánari útskýringar við).
Úr fyrri óvissuferðinni, guðað á kirkjuglugga (mín með óbilandi áhuga á gömlum kirkjum og kirkjugörðum - ekki alveg í lagi) ...
FRÁ BÚÐAFERÐ .... og meiri kirkjur ..
Nú er spurning hvort kíkt verður á fleiri kirkjuglugga? ... Kemur í ljós á á sunnudag/mánudag!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Þriðjudagur, 11. nóvember 2008
Tvær vísnagátur ..
Framarlega á fuglum sér,
fá sér smá í svanginn.
Fiskikarlakrókur er,
kjaft að rífa ei banginn.
-----
Þetta í bókum öllum er,
ólánsskipið hallar.
Gata í Vesturbænum er,
byggja tölvukarlar.
.. Jæja, út úr sitthvorri vísunni á að koma lausnarorð, lausnarorðið er hægt að finna í hverri línu fyrir sig. Well, bannað að svindla!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Þriðjudagur, 11. nóvember 2008
Sé nú ljósið við enda gangnanna, þar hefst óvissuferð!
Þó ég hafi aðeins náð að sofa í 2-3 tíma í nótt og svo aftur í 2 tíma í morgun, þá finn ég að hálsinn er loksins að gróa. Enn er aumt að tala og enn er ég á jógúrt/sheik/súpukúrnum, þar sem ég fæ eymsli af föstu fæði. Reyndi í bjartsýni að borða extrasúpervelstappaðan plokkfisk í gær, en fannst bara allt sitja fast!
Ég er búin að vinna svolítið fyrir skólann, skrá inn einkunnir, svara skilaboðum og leysa úr einhverjum vandamálum, en á að vísu meiri skráningar eftir, - gott að geta starfað svona rafrænt!
Ég er náttúrulega búin að "sörfa" þvílíkt á netinu - og það hefur stytt mér stundirnar, taka í fóstur tvö börn; þau Tracy (5 ára) og Isaac (15 ára) á vegum ABC, en þau eru bæði frá Úganda og lifa við skort. Tracy á að vísu fjölskyldu en Isaac býr á heimili á vegum ABC.
Svo er ég búin að svara mörgum, þó ekki öllum áskorunum og kveðjum á Feisbúkk sem ég hef verið að fá. Auglýsti kampavínsglösin mín með 2000 merkinu til sölu (þar sem ég hef ekki notað þau síðan 2000) og einhver sem lenti í jarðskjálfta þar sem eitt af hans hafði brotnað hafði samband og vildi fá glas. Ég bauð honum þau öll ex á þúsundkall, gaman ef einhver getur notið!
En hvað um það, á morgun eða hinn ætla ég að fara í vinnuna OG á föstudag 14. nóvermber, var ég búin að plana óvissuferð fyrir bóndann, planaði hana í september og er búin að vera logandi hrædd um að hafa ekki heilsu í hana, en mér sýnist ég vera að hjara við!
Hann kíkir á bloggið mitt svo ég get ekki upplýst hvað ég er búin að skipuleggja, en það er sko margt skemmtilegt og óvænt sem ég segi frá á mánudaginn næsta.
Kreppi bara hnefann framan í kreppuna, jamm og jái.
Takk fyrir samhygð ykkar, er viss um að knúsin og hjörtun hjálpi við batann.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Mánudagur, 10. nóvember 2008
ABC ....
Tracy Nakiyingi
Þegar ég heyrði af vopnaða ráninu hjá ABC og heyrði neyðarkall þeirra ákvað ég að ég yrði að gefa eitthvað smá. Ég er a.m.k. ennþá aflögufær. Ég hef verið styrktaraðili að líkamsræktarstöð og get því alveg eins, og miklu frekar, verið styrktaraðili barns. Ég féll alveg fyrir einlægum augnsvip þessarar 5 ára stelpu frá Úganda, sem er fædd 3.október 2003. Það var að vísu erfitt að velja og hefði ég viljað styrkja öll börnin.
Með því að styðja eitt barn, hjálpum við því með skólagöngu, læknishjálp og það fær eina máltíð á dag. Ef þú vilt styðja barn eða styðja ABC á annan hátt smellir þú hér og fyllir inn þínar upplýsingar.
Ég set þetta hér á bloggið, ekki til að auglýsa að ég er að styrkja þetta mánaðarlega, heldur til að hvetja fleiri sem eru aflögufær, að gefa lágmark 2500 á mánuði til styrktar þessum börnum. Það væri gaman að sjá fleiri svona færslur eða í þessum dúr.
Ég veit að sumir myndu telja að við eigum að líta okkur nær, ég mun svo sannarlega gera það líka, t.d. með því að selja/gefa eitthvað af "umframeignum" sem ég á hér í bílskur og fleira. Auglýsi það síðar, þegar heilsan leyfir (segir hún með titrandi röddu eins og hún sé orðin 107 ára).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Mánudagur, 10. nóvember 2008
Stolt af mínum stelpum, og strákum líka - að sjálfsögðu!
Meðan ég sit heima í veikindum og kvarta, eru nemendur mínir að gera stóra hluti! Vá hvað ég er sátt við þessar stelpur. Þori ég, get ég, vil ég .. og allt það! Ég má til með að hrósa líka þjálfurunum þeirra, þeim Hauki og Birki, en þeir tóku sjálfir þátt í Morfís fyrir skólans hönd í hittifyrra og stóðu sig stórkostlega. Haukur og Birkir reka einnig síðuna www.niskupukinn.is
Það er frábært þegar ungt fólk sýnir frumkvæði og dugnað.
Smá propaganda fyrir skólann: Í Hraðbraut er lögð mikil áhersla á kennslu í framkomu og tjáningu, en nemendur taka þar 6 einingar í tjáningu, eða tvö námskeið. Það þýðir lítið að læra og læra ef ekki er hægt að miðla því aftur á þokkalegan hátt!
Konur skipuðu sigurliðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 10. nóvember 2008
Feðradagurinn fór fram hjá mér!
Sá á blogginu hennar Daggar Pálsdóttur að feðradagurinn var í gær. Það er víst í þriðja skiptið. Ég minnist þess ekki að hafa séð það á forsíðu Moggans eða Fréttablaðsins eða neinar auglýsingar frá blómasölum. Að vísu fer margt fram hjá mér þessa dagana.
Mér finnst alveg sjálfsagt að hér sé haldinn feðradagur jafnt og mæðradagur. Ég hefði nú hjálpað litla guttanum á heimilinu til að gleðja föður sinn, hefði ég bara fattað þetta! Annars eru þeir alltaf að gleðja hvorn annan.
Þeir eru svolítið fyndnir feðgar, heita báðir Tryggvi og eiga báðir afmæli 28. nóvember. Sá stutti er farinn að verða pinku óþolinmóður að bíða eftir afmælinu og búinn að gefa fyrirmæli að við eigum að syngja fyrir hann um morguninn og koma með pakka! Um kvöldið verður hann hjá mömmu sinni, svo hátíðinni verður framhaldið hjá henni, eflaust eftir hans fyrirmælum.
Ekki gat ég glatt föður minn, eða hvað veit ég? Kannski er ég að gleðja hann með því sem ég er að gera. Maður veit auðvitað ekkert hvort að hann sé að kíkja við hjá okkur hér í kreppunni og öllu því! Það er alltaf ljúfsárt að hugsa til pabba. Tek undir orð Vigdísar Finnbogadóttur í Sjálfstæðu fólki í gær þar sem hún sagði að tíminn læknaði engin sár eftir missi, hann hjálpar manni aðeins að umbera þau, ... man ekki nákvæmlega orðalagið, en innihaldið var á þennan veg.
Alltaf vakna ég, ætla þó ekki að kvarta núna en bíta á jaxlinn og reyna að sofna aftur.
Eigum góðan mánudag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Sunnudagur, 9. nóvember 2008
Allt er í heiminum hverfult...hugsað upphátt á bloggi, úr einu í annað.
Ég hef oft þakkað mínum sæla, hver sá sem sá sæli er, fyrir að fá að lifa í landi þar sem ríkir friður og velsæld. Ég hef aldei upplifað styrjöld og aldrei langvarandi hungur. Samt hef ég einhvern innbyggðan ótta fyrir hvoru tveggja.
Þegar efnahagur brestur, þá fer ég að óttast að annað bresti. Ofbeldi, í öllum myndum, er eitthvað sem ég forðast eins og heitan eldinn. Nú er ég hrædd um að einhverjir ,,vondir kallar" hafi beitt ofbeldi. Vandamálið er, eins og fram hefur komið, að fólk greinir á um hverjir eru ,,vondu kallarnir" eða ofbeldismennirnir.
Það liggur við að það þurfi að fá leynilöggu í það að setja upp spjald (eins og í Taggart) og setja upp meinta ofbeldismenn. Spaugstofan gaf ýmsar hugmyndir í gær hverjir þar gætu verið á blaði/spjaldi. Held að við höfum þó að miklu leyti tekið þátt, eða verið meðvirk í sukkinu.
Það er margt sem ég myndi vilja að við hefðum öðruvísi. Ég efast t.d. stundum um að velferðin sé velferð. Þá er ég að tala um hvert við erum komin til dæmis frá því ég var krakki að leika mér í saltað brauð, sippó eða teygjó tvist á Grettisgötunni. Þar sem ein fjölskylda átti einn bíl, eitt sjónvarp o.s.frv. Að vísu er aðeins eitt sjónvarp á mínu heimili, en ég kom í þrítugsafmæli í daginn hjá manni sem á konu og þrjú börn, þar sem sjónvarp var í öllum herbergjum + baði + eldhúsi.
Ég er líka að tala um ofgnótt af fötum, skóm, leikföngum barnanna, afþreyingu o.s.frv., Það gjörsamlega flæðir hér út úr geymslum og bílskúr af dóti sem ekki þarf lengur. Ofgnótt.
Það hlýtur að flokkast undir stjórnleysi, alveg frá toppi þjóðarlíkamans til táar, þegar að á svona næstum hverju heimili er til allt of mikið af, kannski ekki öllu, en af mörgu. Þetta kemur unga fólkinu (því sem er hagsýnt) vissulega til góða. Dóttir mín og tengdasonur eru búin að mublera upp íbúðina hjá sér fyrir u.þ.b. 100 þúsund krónur með hinum fínustu húsgögnum sem seld voru á Barnalandi, eða svona næstum gefin, því að þetta var ,,umfram" hjá einhverjum öðrum. Öðrum sem þurftu ,,nauðsynlega" að fá allt nýtt.
Við kaupum hús á fullu verði, rífum úr því allt innvolsið (ég hef tekið þátt í þessu) og setjum nýtt. Hvað er þetta eiginlega? Auðvitað höfum við tekið þátt í vitleysunni. Svona flest að einhverju leyti.
Á jólunum þegar dóttir mín varð tveggja ára, og við byrjuðum að opna pakkana opnaði hún pakka með dúkku fyrst. Hún varð svakalega hrifin að dúkkunni en hennar biðu a.m.k. 10 pakkar í viðbót. Við vildum að hún opnaði fleiri pakka, en hún bandaði þeim frá sér og sagði: ,,Nei, ég er búin að fá" og brosti himinlifandi. Hún að vísu hefur þennan nægjusama karakter enn í dag, sem ég öfunda hana af.
Víst hefur þjóðin farið í kaupæði, þó það séu undantekningar. Einhver hefur keypt alla flatskjána, hjólhýsin, kápur í Elm Design upp á 115 þúsund og boli í GK á 50 þúsund. Nú þurfa menn allt í einu brauðvél til að baka brauðið ???? .. Skil ekki. Brauð er vel bakanlegt án brauðvélar. Æ, það er margt sem ég ekki skil.
Ætla nú að reyna að sofna aftur, ég veit ekki hvort það er normal að finna svona mikið til eftir hálskirtlatökuna, en sársaukinn fer að mörkum hins óbærilega, svo mjög að aldrei fyrr hef ég eins mikið hugsað til Krists á krossinum og þjáningar hans. En mörk hins óbærilega ýta mér jafnframt til að hugsa um hvað skiptir máli. Núna er forgangsröðunin: Heilsa, friður, matur til að lifa af, þak yfir höfuðið, atvinna. (Og óska ég minni fjölskyldu og vinum og í raun allri heimsfjölskyldunni að sjálfsögðu þess sama).
Stundum hefur komið yfir mig þessi mikla löngun til að búa í sveit, nær náttúrunni og einfaldleikanum. Það hefur ágerst undanfarið, kannski er það bara ein af flóttaleiðunum, veit það ekki.
Friður.
Ekkert land hrunið hraðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Föstudagur, 7. nóvember 2008
Megrunarkúrinn sem virkar! ... að vísu "svolítið" kvalafullur, dagur 5
Jæja, nú bíð ég bara eftir að Vikan hafi samband við mig, um þennan frábæra megrunarkúr sem ég "ákvað" að fara á. Það þarf hreint ENGAN viljastyrk til að sleppa að borða. Það er einfaldlega SÁRT að borða, reyndar kvalarfullt líka þó maður borði ekki, svo valið er milli sársauka og matar! Brilljant! Kúrinn heitir hálskirtlakúrinn - og ég "þjáist í hljóði" ..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 5. nóvember 2008
Viðmót afgreiðslufólks getur m.a. haft áhrif á það í hvernig skapi ég kem heim úr vinnunni. Stundum fær maður glaðlegt og hlýlegt viðmót á kassa og það smitar, en stundum fær maður einhvern fýlupúka. Fólkið er eins misjafnt og það er margt.
Ég hef starfað m.a.
- Við garðyrkjustörf
- Í sjoppu að selja pylsur (oh, ég er svo hungruð)
- við vélritun og bókhald
- í kór (já fékk borgað fyrir að syngja - believe it or not)
- sem ritari
- í sölumennsku, föt, símar, legsteinar, matvara o.fl.
- við skúringar
- við almenn afgreiðslustörf
- sem kennari
- sem leiðbeinandi í kirkju
- við aðhlynningu aldraðra
- sem aðstoðarskólastjóri
- ....
Alltaf er ég sama manneskjan. Ég er ég, hvort sem ég er skúringarkona, afgreiðslumanneskja á kassa eða aðtoðarskólastjóri. Fólk má ekki missa sig í titlum og telja sig merkilegri eða ómerkilegri en náungann eftir í hvaða starfi eða ekki starfi það er. Vissulega þarf meiri menntun í sum störf, en hver er að segja að allar manneskjur hafi haft tækifæri á þeirri menntun?
Öll störf þarf að vinna. Við erum bara hlekkir í keðju, ef ekki er skúrað á alþingi þá geta ráðherrar ekki starfað þar. Þess vegna er skúringafólkið jafn mikilvægt og ráherrar.
Í Krónunni eru settir upp sjálfsagreiðslukassar, aldrei hef ég lagt í að fara á svoleiðis kassa. Ég hef þörf fyrir afgreiðslufólk á kassa! Spurning hvort það er þörf fyrir svona marga alþingismenn?
Afgreiðslufólk á kassa er mikilvægt.. Það getur t.d. haft áhrif á það í hvernig skapi ég kem heim úr vinnunni. Stundum fær maður glaðlegt og hlýlegt viðmót á kassa og það smitar, en stundum fær maður einhvern fýlupúka. Fólkið er eins misjafnt og það er margt.
Fólk er það sem það er, sama hvaða starf það vinnur eða ekki. Hvernig það sinnir sínu starfi og kemur fram er það sem skiptir máli, sama hvað starfið er.
Mín hefur talað.
Þingmenn eins og afgreiðslufólk á kassa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)