Færsluflokkur: Bloggar

Flutningar og undirbúningur fyrir níræðisafmæli tengdapabba ..

Góðan dag mínir yndislegu bloggvinir, fjölskylda og aðrir sem lesa á þessum dimma en fagra sunnudagsmorgni. Smile (Er þetta ekki örugglega svolítið væmið??)

Dagurinn í gær var algjör fjölskyldudagur.

  • Við fórum um 11 leytið að hjálpa Evu og Henrik að flytja frá Naustabryggju í Rauðagerði, úr 70 m2 í 140 m2! (Leiguverð svipað) Yndislegt fyrir þau, enda fjölskyldan að stækka í maí. Reyndar bar ég ekkert og býð ekki bakinu mínu upp á það, löngu búin að rústa því í mínu ati og breytingum á heimilum. Ég gat þó hjálpað við þrif og þar sem skúringamoppan hafði óvart verið flutt, lagðist mín á fjórar fætur og skúraði gólf. Ekki það sé sérlega bakvænt. LoL Af einhverjum orsökum nefndu bæði Eva og Tryggvi það að þau söknuðu þess að vera ekki með myndavél. Ég var víst ekki mjög virðuleg þarna - en náði auðvitað vel öllum blettum!
  • Eftir að við vorum búin að fara að skoða nýju íbúðina, sem er ofboðslega falleg fórum við í Laufás við Laufásveg en þar býr "afi Agnar" eða tengdafaðir minn sem verður hvorki meira né minna en 90 ára á þriðjudag. Við ætlum að halda veislu fyrir hann og með honum og því þurfti að "taka í gegn." Áttum skemmtilegan dag saman, systkini Tryggva, afi og ég við að skúra, skrúbba og bóna og gera í stand fyrir boðið. Enduðum með kaffi og jólaköku í stofunni (elska að sitja í gömlu fallegu stofunni).
  • Eftir Laufáshreingerningu héldum við á Landakot til að heimsækja mömmu, sem er nú svona semiánægð með að vera þarna með öllu þessu "bæklaða" fólki eins og hún kallar það, en mjög ánægð með starfsfólkið sem hún segir vera yndislegt. Hún er nú eiginlega bara orðin nokkuð hress og næstum alveg skýr svo þá skil ég að það er truflandi að vera með konu á herbergi sem er að fara fram og til baka í rúmið sitt á nokkra mínútna fresti. Frown 
  • Vorum s.s. eiginlega bara mjög þreytt þegar við komum heim og vorum ekki í eldunarstuði en Aggi skásonur reddaði því með að panta pizzu á liðið!

Jamm og jæja, svo var Spaugstofan bara ágæt....

Eigum góðan dag, elskum náungann og förum varlega í að dæma. Wink


Spakk og hagettí ..

Átti voða venjulegan dag í dag, var reyndar aðeins að rífa mig á blogginu hennar Möggu, en ég er meðherji hennar í baráttunni við að verja samkynhneigða frá trúarofstæki. En um leið að reyna að útskýra fyrir fólki að guðsmyndir eru jafn margar og við erum mörg. Guð er eiginlega handan skilgreiningar svo það er vonlaust að rífast um hann/hana/það.

Það var nóg að gera í vinnunni fyrri partinn, próf o.fl. Eftir vinnu komu Tryggvi x 2 að sækja mig og við fórum í Bónus (já ég versla enn þar) og ákváðum nýja sparnaðarráðið að versla fyrir vikuna en enduðum með því að versla fyrir tja.. örugglega hálfan mánuð. Annars er svo mikil traffík hjá okkur og margir svangir munnar að fæða að það borðast ansi hratt úr ísskápnum.

Tryggvi yngri var búinn að panta að hjálpa til við að elda hakk og spaghetti svo það úr varð samvinnuverkefni okkar og úr varð hin ágætasta máltíð, með dætrum mínum og Tryggva, tengdasyni og dóttursyni. Synirnir okkar fæddir 1986 voru báðir að vinna.

Fékk símtal eftir matinn þar sem verið var að bjóða mér að starfa í pólitík, ég var þakklát fyrir traustið "minn tími er ekki kominn" og veit ekki hvort hann kemur í pólitík, en hann mun koma í einhverju ..

Máni pantaði að gista hjá ömmu og Tryggva, en Vala, Eva og Henrik fóru að heimsækja ömmu Völu á spítalann sem er nú miklu skárri og reyndar orðin býsna lík sér.

Fór á smá flipp í kvöld á bloggi Horsíar, þar sem við vorum með létta gagnrýni á beina útsendingu frá þingsetningu.

Nú er mín orðin sybbin, ætla að biðja bænirnar mínar og fara svo að sofa. Sleeping


Jákvæðni-og heilsukúr ....

Í morgun vaknaði ég og ákvað að vera óhóflega bjartsýn. Veit ekki hvort það var þess vegna en mamma var orðin miklu hressari í dag og sjálfri sér lík. Sat hjá henni á spítalanumí kvöld og við horfðum saman á fréttir, spaugstofuna og söngkeppni; henni fannst Hera best! LoL .. (fyrir þá sem ekki vita þá var sýnt atriði Heru úr Eurovisionforkeppni danska sjónvarpsins). Mamma var ein á stofunni, svo við gátum stillt sjónvarpið hátt! Hjúkrunarfólk leit inn til okkar við og við en starfsfólkið á deild 14E á Landspítala er hvert öðru yndislegra og mamma þakklát fyrir öll elskulegheitin og við aðstandendur ekki síður. InLove

Nú ætla ég að prófa að halda áfram í "jákvæðnikúrnum" .. prófa að vísu einn dag í einu, en takmarkið er lágmark 21 dagur. Þann 21. febrúar ætlum við starfsfólkið í skólanum svo að halda okkar árshátíð, sem "by the way" mín er að skipuleggja. Svo, mánuði síðar, 21. mars ákváðum við Tryggvi að hafa svona gamaldags partý fyrir vini hans/mína/okkar. Sendum út boð með góðum fyrirvara svo fólk gæti byrjað að æfa sig fyrir húla-og limbókeppni. Slíkt er ómissandi í góðu partýi! .. Wizard..

Reyndar er víst best ég bæti smá heilsukúr við jákvæðnikúrinn, hef aðeins dottið úr gír með mataræðið, reyndar dottið ofan í nammipoka! Blush 

Þakka innilega fyrir góðar kveðjur í síðasta bloggi..


Dagbók 26.janúar 2009

Lífið er vissulega súrt og sætt þessa dagana. Hann Henrik minn elskulegi "svigeson" átti 35 ára afmæli í gær, 25. janúar,  og voru þau Eva (og Máni) með opið hús og buðu upp á myndarlegan bakstur og brauðtertur!

Til lykke Henrik!

Í gær þurftum við líka að fara með mömmu á spítala, en hún fékk væga kransæðastíflu og glímir við ýmislegt fleira sem skerðir lífsgæði hennar.

Vala er að koma heim á fimmtudagsmorgun, og hlökkum við til að taka á móti henni.

Fjölskyldumálin hafa leitt athyglina frá umróti í pólitík, ég fer að kíkja í kringum mig.

Knús


Fáni vor sem friðarmerki, fara skalt á undan nú ..

 

Ég styð fólk með hvítan fána. Hvítt er litur friðar og hreinleika og þá heilinda. Heilindi er það sem við þurfumá að halda,  númer eitt, tvö og þrjú, frá hverjum þeim sem taka að sér stjórnvölinn. Við viljum vita að bílstjórinn taki ekki rútuna út í glannaakstur eða ófærur. Hvítt er litur höfuðsins og andans.

 

Ég styð fólk með íslenska fánann. Fólk sem vill landi og þjóð gott og vill samheldna og samvinnufúsa þjóð. ,,Sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér." Íslenski fáninn er  fallegur, blái liturinn táknar málfrelsið okkar, fjöllin, hafið og himininn. Hvíti liturinn andann og heilindin og jöklana okkar. Rauði svo eldfjöllin og er hin mikla spriklandi lífsorka og eldmóður. Rauður er líka andans litur.

Sjá mynd í fullri stærð

 Ég styð fólk með appelsínugulan fána. Fólk sem vill mótmæla án ofbeldis. Appelsínugulur er líka orkumikill, litur sköpunargleði og íhugunar.

Allt það sem ég hef sagt hér að ofan um fánana er ekkert voðalega fræðilegt, bara mín tilfinning fyrir þessum fánum. Gaman væri að heyra hvað ykkur finnst (vitið)  um fánana.

Fánarnir eru tákn einhvers, en verum þess verð að bera þá og látum þá fara á undan með friði.

Ég styð ekki fólk með svona ræningjafána.  Fólk sem fer með ófriði, ofbeldi og hegðar sér eins og verstu ribbaldar. Ég hef efasemdir um réttmæti þess að stimpla þessar myndir á barnaföt sem hefur verið vinsælt lengi.

Lifum heil og störfum.


mbl.is Hvítir borðar í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öðruvísi "gleðipilla" ...

Hlustaði á Kompás í bílnum á leiðinni heim, eða hluta hans og var þar verið að ræða ofnotkun geðlyfja. Eða réttara sagt of mikla ávísun lyfjanna af lækna hendi, sem að hluta til er rakin m.a.til sterkrar markaðssetningar (gróðrahyggju - surprise!).

Man eftir Prozac auglýsingu í erlendu tímariti þar sem á annarri síðunni er grátt tré (og á að tákna okkar grámyglulega líf) og á hinni síðunni er litríkt tré (líf eftir Prozac).

Já, auðvitað erum við þung og líður illa vegna helv... kreppunnar, gunguháttar Geirs, hroka Davíðs, bruðls ónefndra með almannafé,  morðanna í Gaza, eða bara myrkursins hér á Norðurhjara veraldar og langar í kannski flest að vera stödd á Grískri sólareyju valhoppandi í kærleikskeðju með blóm í hári ..

Hvað eigum við nú að gera í staðinn fyrir að láta ofangreint sukk og/eða geðlyfin gleypa okkur?  Hmm.. komið nú með tillögur...

Mæli með þessari gleðipillu; SMILE Smile


mbl.is Kreppan gæti haft slæm áhrif á heilsuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mitt ágæta frændfólk styður hönd undir kinn... svona til gamans færsla!

Vilhjálmur ÞorsteinssonIngibjörg Elsa BjörnsdóttirEmil Hannes Valgeirsson

Vilhjálmur               Ingibjörg Elsa           Emil Hannes

Þetta fólk á ýmislegt sameiginlegt, t.d. að vera forsíðubloggarar Mbl.is og svo tók ég eftir því í morgun þegar Ingibjörgu Elsu og Emil (myndum af þeim) var stillt upp hlið við hlið í Mogganum að þau studdu bæði hönd undir kinn, og mundi eftir að Villi gerði það líka,  þá datt mér í hug að stilla þeim svona upp. Einnig eiga þau það sameiginlegt (heppin þau) að vera skyldfólk mitt!

 Foreldrar Ingibjargar og Vilhjálms eru systkini föður míns og afi Emils var bróðir ömmu okkar. Ætti ég að fara að skipta um mynd og reyna að finna eina svona með hönd undir kinn?

Afsakið annars að ég skuli trufla lesendur með svona svakalega "djúpum"  hugleiðingum.


"17. júní lagið flottast" ? ..

Hjá mér í koti eru tveir ungir piltar, vel undir tíu ára. Þeir höfðu sínar meiningar með Júróvisjón t.d. fannst þeim "17.júní lagið"  eins og þeir kölluðu það, flottast LoL .. þar sem Ingó söng og tvær ungar dömur í hljómsveitarbúningi spiluðu á hljóðfæri!

Þeim fannst að stelpan í rauða kjólnum "alltof litlum kjól" .. (hann var mjög fleginn) öðrum fannst hún að vísu svolítið sæt.

Börnin skafa sko aldrei utan af hlutunum og segja hvað þeim finnst! ..

Sjálf hef ég ekki mikla skoðun á þessu, en lagið sem unga daman í doppótta kjólnum (talandi um kjóla) söng, höfðaði helst til mín. En hún söng lag ömmu sinnar.


Ísland í dag, viðtal við eineltisþola - af hverju ekki skólayfirvöld?

Ég var að horfa á Ísland í dag, á viðtal við dugnaðarlega stelpu sem sýndi það hugrekki að koma fram og tjá sig um það einelti sem hún varð fyrir. Í viðtalinu fannst mér hún draga fram svarta mynd af gamla skólanum, þar sem hún gekk út, en mjög hvíta af nýja skólanum. Það er hennar upplifun og ber að virða hana. Auðvitað eru einhverjir góðir hlutir að gerast í báðum skólum.

Gott væri að vita hver væri munurinn á stefnu skólanna í eineltismálum, ef einhver er, og rétt hefði verið að ræða við þau skólayfirvöld sem urðu fyrir mestu gagnrýninni. Vissulega getur það verið flókið, þar sem erfitt er að ræða um mál einstaklinga opinberlega, en eitthvað hefði mér Stöð2 mátt ræða við stjórnendur skólanna.

Eineltismál eru hin verstu mál, þekki þetta af eigin reynslu, frá börnunum mínum og nánum skyldmennum. Mikilvægt er að umhverfið sé stöðugt á varðbergi og bregðist við, foreldrar og einmitt skólastjórnendur -  vera á varðbergi alveg eins og við krabbameini. Eftir því fyrr sem það greinist því meiri líkur er á að hægt sé að uppræta það. Fái það að grassera óáreitt, er mun erfiðara að eiga við það og getur það leitt til dauða, og svo sannarlega þekkjum við dæmi þess.

Ég óska ungu dömunni innilega til hamingju með að vera laus úr sínum aðstæðum og vera öðrum fórnarlömbum eineltis fyrirmynd í að rjúfa þögnina! Í rauninni gerði hún það eina sem hún gat, miðað við sínar aðstæður; hún gekk út úr aðstæðunum! Það þarf kjark til þess.


Börn sem hafa enga vörn .. á Gaza

Ég fór að sjá leikritið fólkið í blokkinni fyrir jól. Einstaklega mannlegt og fallegt stykki. Þegar Jóhann Sigurðarson söng ljóð Ólafs Hauks Símonarsonar, snerti það mig í hjartastað og kom fram á mér tárunum (mildly spoken).  Það er svo erfitt að hugsa til þeirra barna sem eins og í laginu segir; "hafa enga vörn". 

Erfitt líka að vera svona máttlaus hér og aðgerðalaus og vita af þessum morðum á börnum og fullorðnum á Gazasvæðinu. Helför í beinni og heimurinn er ráðalaus.  

Textinn með þessu lagi er hér fyrir neðan:

Já, þegar stjörnuaugun opnast hljóð

á Ísalandi sofa börnin góð,

og þótt hrollkaldur vindur hefji upp raust,

þau búa í húsi sem er bjart og traust.

Í öðrum löndum eru önnur börn

sem eiga ekkert rúm og eiga enga vörn.

Góða nótt, góða nótt, góða nótt, góða nótt.

Góða nótt, góða nótt, góða nótt, góða nótt.

Við elskum ykkur meir en orð fá lýst.

Já, einu gildir hvernig hjólið snýst,

því ef þið eruð heilbrigð, glöð og góð

getur enginn bætt neinu í okkar sjóð.

En af hverju eru þá öll þessi börn

sem eiga í heiminum enga vörn?

Góða nótt, góða nótt, góða nótt, góða nótt.

Góða nótt, góða nótt, góða nótt, góða nótt.

Það er svo gott að sofna svæfli á

og svífa inn í draumlöndin blá.

Ef þú vaknar illa þá er einhver hér,

einhver sem hefur vakað yfir þér.

En hver á öll heimsins einmana börn

sem eiga enga hlíf, sem eiga enga vörn?

Góða nótt, góða nótt, góða nótt, góða nótt.

Góða nótt, góða nótt, góða nótt, góða nótt.

Heart


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband